Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Smali frá Tjörn á Skaga.
Smali frá Tjörn á Skaga.
Á faglegum nótum 6. júní 2025

Naut til notkunar í júníbyrjun

Höfundur: Guðmundur Jóhannesson, ábyrgðarmaður í nautgriparækt hjá RML.

Nú er nokkuð um liðið frá því seinast komu ný naut til notkunar og án efa margir orðnir langeygir eftir nýju blóði. Ástæðan er auðvitað sú að undanfarnar vikur hefur verið í gangi tilraun með samanburð á hefðbundnu og kyngreindu sæði. Sú tilraun ætti að segja okkur hvort fanghlutfall með íslensku kyngreindu nautasæði er ásættanlegt eður ei.

Nóg um það að sinni, snúum okkur að þeim nautum sem koma ný til dreifingar í júníbyrjun. Sæðið úr þessum nautum fór frá Nautastöðinni á Hesti í fyrradag og ætti því að vera að berast í kúta margra frjótækna um þetta leyti. Ekki er gott að tímasetja það nákvæmlega en það fer eftir ferðum og hvenær fyllt er á kúta einstakra frjótækna. Á einhverjum svæðum kunna að líða um tvær vikur þar til sæðið berst.

Þau níu naut sem nú koma í notkun eru öll fædd síðari hluta ársins 2023, allt miklir efnisgripir sem voru á sínum tíma valdir á grunni góðs erfðamats. Úr þremur þessara nauta hefur reyndar verið fáanlegt Spermvital-sæði um nokkurra vikna skeið. Þetta eru synir Kvóta 19042 sem var frá Ytri-Tjörnum í Eyjafirði, Bússa 19066 frá Búvöllum í Aðaldal, Banana 20017 frá Vatnsenda í Eyjafirði, Keilis 20031 frá Brúnastöðum í Flóa, Óðins 21002 frá Birtingaholti 4 í Hrunamannahreppi, Hákonar 21007 frá Skeiðháholti 1 á Skeiðum og Kalda 21020 frá Hraunhálsi í Helgafellssveit. Hér verður gerð nánari grein fyrir hverju og einu nauti en jafnframt er bent á nautaskra.is þar sem allar upplýsingar eru uppfærðar svo fljótt sem verða má. Hér er birt kynbótamat eftir keyrslu um miðjan maí en það getur tekið breytingum við næstu keyrslu. Að jafnaði er kynbótamat keyrt 2-3svar sinnum í mánuði.

Elstur þessara kappa er Smali 23024 frá Tjörn á Skaga, kolskjöldóttur með lauf í enni og kollóttur, ræktaður af Baldvini og Bjarneyju á Tjörn. Smali er undan Banana 20017 og Múffu 483 Lúðursdóttur 10067. Við Smala eru þær vonir bundnar að dætur hans verði mjólkurlagnar kýr með há hlutföll verðefna í mjólk. Þetta ættu að verða frekar fínbyggðar kýr og í meðallagi háfættar. Júgurgerðin mjög góð, vel borin júgur með mikla festu en júgurband í meðallagi. Spenar eilítið stuttir og þykkir og vel settir. Mjaltir úrvalsgóðar og skapið mjög gott. Heildareinkunn 115.

Brími frá Skeiðháholti 1 á Skeiðum.

Næstur í röð er Brími 23025 frá Skeiðháholti 1 á Skeiðum, ræktendur eru Jón og Helga. Hér er á ferðinni dökkrauðhúfóttur (baugóttur), leistóttur og kollóttur Bananasonur 20017. Móðirin er Viktoría 1391, Truttadóttir 17051. Hér á ferðinni gripur sem á að gefa mjög mjólkurlagnar kýr með há hlutföll verðefna í mjólk. Þetta ættu að verða nokkuð bolmiklar kýr og háfættar. Júgurgerðin ákaflega góð, vel borin júgur með góða festu og greinilegt júgurband. Spenar hæfilegir að lengd, þykkir og eilítið gleitt settir. Mjaltir mjög góðar sem og skapið. Heildareinkunn 114.

Brúsi frá Reykjum á Skeiðum.

Þriðja nautið er Brúsi 23026 frá Reykjum á Skeiðum, ræktandi er Reykir ehf., kolskjöldóttur með lauf í enni, kollóttur. Faðirinn er Banani 20017 og móðirin Ösp 105 Piparsdóttir 12007. Úr Brúsa hefur Spermvital-sæði staðið til boða í nokkrar vikur. Að öllum líkindum verða dætur Brúsa mjólkurlagnar kýr með efnahlutföll í mjólk í tæpu meðallagi. Júgurgerðin afbragðsgóð, vel borin júgur með mikilli festu og áberandi júgurbandi. Spenar hæfilegir að þykkt, fremur stuttir og mjög vel settir. Mjaltir frábærar og skapið gott. Heildareinkunn 114.

Kuldi frá Berustððum

Næstu tvö naut eru frá Berustöðum í Ásahreppi, ræktandi er Berustaðir ehf. Sá fyrri hefur verið í notkun sem Spermvital-naut undanfarnar vikur en kemur nú til fullra nota og er þar um að ræða Kulda 23027, brandskjöldóttan með lauf í enni, kollóttan, son Hákonar 21007 og Frostrósar 902 Bambadóttur 08049. Erfðamat Kulda bendir til að dætur hans verði mjólkurlagnar með efnahlutföll í mjólk í tæpu meðallagi. Júgurgerðin mjög góð, vel borin júgur með mikilli festu og fremur áberandi júgurbandi. Spenar hæfilegir að þykkt, eilítið stuttir og vel settir. Mjaltir og skap úrvalsgott. Heildareinkunn 113.

Snær 23028 frá Berustöðum

Sá seinni frá Berustöðum er Snær 23028, rauðbrandhuppóttur, sokkóttur með lauf í enni, kollóttur, sonur Óðins 21002 og Snærósar 1347 sem aftur er dóttir Jörfa 13011 og Frostrósar 902, móður Kulda 23027. Við Snæ eru þær vonir bundnar að dætur hans verði mjög mjólkurlagnar kýr með hlutföll verðefna í mjólk um meðallag. Þetta ættu að verða fremur fínbyggðar kýr og í meðallagi háfættar. Júgurgerðin í góðu meðallagi, allvel borin júgur með allgóða festu og nokkuð greinilegt júgurband. Spenar hæfilegir að lengd og þykkt og vel settir. Mjaltir um meðallag og skapið frábært. Heildareinkunn 115.

Sjötta nautið sem kynnt er til leiks er Flóki 23031 frá Dæli í Skíðadal, kolhuppóttur með lauf í enni, kollóttur, ræktaður af þeim Hjálmari og Brynhildi. Flóki er sonur Keilis 20031 og Flóar 931 Dúettsdóttur 12097. Allar vísbendingar gefa til kynna að dætur hans verði í meðallagi mjólkurlagnar kýr með há hlutföll verðefna í mjólk. Þetta ættu að verða bolgrunnar, útlögumiklar og háfættar kýr. Júgurgerðin mjög góð, vel borin júgur með mikla festu en júgurband lítt áberandi. Spenar hæfilega að lengd og þykkt og mjög vel settir. Mjaltir og skap gott hvoru tveggja. Heildareinkunn 110.

Sjöundi í röðinni er Markaður 23034 frá Búðarhóli í Landeyjum, ræktendur eru Sigurður og Marlene. Markaður er rauður og kollóttur, sonur Kvóta 19042 og Huldu 1186 sem er dóttir Óberons 17046. Þetta er naut sem á að gefa mjög mjólkurlagnar kýr með hlutfall fitu í mjólk nærri meðallagi en hlutfall próteins hátt. Þetta ættu að verða fremur bolmiklar og háfættar kýr. Júgurgerðin meðalgóð, meðalvel borin með festu og júgurband í meðallagi Spenar aðeins stuttir, hæfilega þykkir og vel settir. Mjaltir í góðu meðallagi og skapið frábært. Heildareinkunn 114.

Farsæll 23035 frá Fellshlíð í Eyjafirði

Áttundi og næst síðastur er Farsæll 23035 frá Fellshlíð í Eyjafirði, ræktaður af Elínu og Ævari. Farsæll er rauðbrandleistóttur m/hvítt í enni, kollóttur og undan Bússa 19066 og Bröndu 1023 Jörfadóttur 13011. Erfðamat Farsæls gefur til kynna að dætur hans verði mjög mjólkurlagnar kýr með há hlutföll verðefna í mjólk. Þetta ættu að verða meðalkýr á skrokkinn og ekki háfættar. Júgurgerðin allgóð, meðalvel borin júgur með meðalfestu og mjög greinilegt og gott júgurband. Spenar aðeins langir og þykkir og settir. Mjaltir góðar og skapið í góðu meðallagi. Heildareinkunn 116.

Hrollur 24005 frá Neðri-Þverá í Fljótshlíð

Síðastur í röðinni að þessu sinni og yngstur þessara nauta er Hrollur 24005 frá Neðri-Þverá í Fljótshlíð, ræktandi er Árni Sigurpálsson. Dreifing Spermvital-sæðis hófst úr Hrolli um miðjan mars eða þegar hann var tæplega 13 mánaða gamall enda hefur hann ávallt sýnt mikinn og góðan þroska. Hrollur er bröndóttur og kollóttur, sonur Kalda 21020 og Gleði 1203 Hælsdóttur 14008. Erfðamat Hrolls segir að dætur hans verði mjólkurlagnar með efnahlutföll í mjólk um meðallag. Júgurgerðin góð, vel borin júgur með meðalfestu og fremur áberandi júgurbandi. Spenar eilítið langir og grannir og meðalvel settir. Mjaltir og skap gott. Heildareinkunn 112.

Á sama tíma og þessi naut koma í dreifingu lýkur tilrauninni með kyngreinda sæðið og verða menn upplýstir innan tíðar um hvor tegundin er hvað. Við tekur uppgjör en til þess að ljúka því þurfa að líða 56 dagar frá síðustu sæðingu svo hægt sé að reikna 56 daga ekki uppbeiðsli og bera saman kyngreinda og hefðbundna sæðið. Endanlegt fanghlutfall verður svo ekki ljóst fyrr en fullri meðgöngu verður náð.

Þau naut sem eru í tilrauninni verða áfram í dreifingu og þá með þeim formerkjum að til dreifingar úr þeim verður bæði hefðbundið sæði og það kyngreinda sæði sem eftir er af tilraunasæðinu. Breytingin verður sú að nú mun það verða upplýst hvort er hvað. Þetta eru þeir Snáði 23017, Stimpill 23020, Maddi 23022, Sokkur 23023 og Abraham 23030. Þá verður Seimur 23021 einnig áfram í notkun.

Úr notkun hverfa Reykhóll 23002, Ísjaki 23004, Miði 23006, Dúskur 23008, Siffi 23009, Gráni 23010, Hvinur 23015 og Nenni 23016 en segja má að þeir hafi gegnt sínu hlutverki.

Af þeim nautum sem verða í notkun er til Spermvital-sæði úr Smala 23024, Bríma 23025, Snæ 23028 og Farsæli 23035. Þá er einnig eitthvað til af slíku sæði úr Snáða 23017, Seim 23021, Brúsa 23026, Kulda 23027 og Hrolli 24005 í kútum frjótækna þó birgðir af því á Nautastöðinni séu nánast uppurnar.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...