Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Möndlugrasker eru fjölbreytt og til í mörgum stærðum og gerðum.
Möndlugrasker eru fjölbreytt og til í mörgum stærðum og gerðum.
Á faglegum nótum 25. október 2019

Möndlugrasker eru stærstu ber í heimi

Höfundur: Vilmundur Hansen

Í daglegu máli kallast aldin nokkurra tegunda plantna gras­ker. Aldinin eru af plöntum af graskersætt og ættkvíslunum Cucurbita og Lagenaria og þá helst tegundirnar Cucurbits pepo og Lagenaria siceraria, eða möndlu- og flöskugrasker.

Að þessu sinni verður fjallað um möndlugrasker, C. pepo, sem eru vinsælt skraut á hrekkjavökunni, eða hallóvín eins og margir kjósa að kalla þessa fornheiðnu hátíð.

Aldinið er yfirleitt slétt viðkomu en stundum með litlum vörtum og oft 50 kíló að þyngd.

Áætluð heimsframleiðsla á gras­kerum, öllum tegundum, árið 2017 er tæp 27,5 milljón tonn og hefur framleiðslan meira en tvöfaldast frá síðustu aldamótum. Kína er stærsti framleiðandinn með rúm 8 milljón tonn, Indland er í öðru sæti með rún 5,1 milljón tonn. Í þriðja sæti var Rússland með framleiðslu á rúmum 1,1 milljónum tonna og Úkraína er í því fjórða með eilítið minni ræktum en Rússland. Í Bandaríkjum Norður-Ameríku voru ræktuð rúm milljón tonn og á eftir komu Mexíkó, Spánn, Ítalía,Tyrkland og Indónesía með framleiðslu frá 710 og niður í 567 þúsund kíló árið 2017.

Samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofu Íslands voru flutt inn 130 tonn og 397 kíló af nýjum graskerum og flöskukerum árið 2018.

Mestur var innflutningurinn frá Spáni, rúm 56 tonn, Bandaríkjum Norður-Ameríku rúm 19 tonn, Dan­mörku tæp 17 tonn og Brasilíu tæp 15 tonn.

Ættkvíslin Cucubita og tegundin popo

Langt er frá að allir sem slíkt láta sig varða séu sammála um hversu margar tegundir plantna tilheyri ættkvíslinni Cucubita en þær eru sagðar vera á bilinu 13 til 30. Óvissan með tegundafjöldann stafar af því að tegundir innan ættkvíslarinnar frjóvgast auðveldlega sín á milli og grasafræðingar ekki alltaf sammála um hvað teljist sértegund. Auk þess sem afbrigði, yrki og landsortir skipta þúsundum.

Allar tegundirnar eru upprunnar í Mið- og Suður-Ameríku og flestar eru jurtkenndar klifurplöntur sem geta náð nokkurra metra hæð, 5 til 15, með hjálp fálmara sem þær nota til að halda sér uppi. Plönturnar eru einærar og einstaka sinnum fjölærar en verða ekki langlífar.

Blómin eru einkynja, sjálffrjóvgandi, stór og allt að 10 sentímetrar í þvermál, gul, lúðurlaga og uppstæð.

Ólíkar tegundir og einstaklingar innan sömu tegundar eru mismunandi að stærð, blaðlögun og lit.

Blöðin stakstæð og blómin ein­kynja gul eða appelsínugul og sjá býflugur um frjóvgun þeirra. Samkvæmt skilgreiningu grasa­fræðinnar eru aldinin, graskerin, ber. Aldinin sem eru þau stærstu í heimi eru fjölbreytt að lit, lögun og stærð. Á villtum tegundum geta þau verið um 4 sentímetrar að þvermáli en í ræktun eru til yrki sem gefa af sér aldin sem eru um 300 kíló að þyngd. Heimsmetið í þyngd graskera er 1190,5 kíló. Var aldinið ræktað í Belgíu árið 2016.

Heimsmetið í þyngd möndlugraskera er 1190,5 kíló. Var aldinið ræktað í Belgíu árið 2016. 

Fimm tegundir graskera eru ræktaðar til manneldis C. argyrosperma, C. ficifolia, C. maxima, C. moschata en sú algengasta er C. pepo.

Tegundin C. pepo og afbrigði hennar eru ræktunarafbrigði af tegundunum C. texana eða C. fraterna. Fyrri tegundin er upprunnin í Texasríki í Bandaríkjunum og finnst þar villt en sú seinni er upprunnin í Mexíkó. Deilur um uppruna tegundarinnar hafa staðið frá 1857 og hafa menn enn ekki getað komið sér saman um forvera hennar, þrátt fyrir að flestir hallist að því í dag að það sé C. fraterna. Enn aðrir segja að C. texana sé afkomandi C. pepo sem hafi sloppið úr ræktun fyrir þúsundum ára og þróast í sértegund.

Til að auka enn á flækjustigið hefur verið lagt til að greina tegundina í þrjár undirtegundir, C. pepo subsp. fraterna, C. pepo subsp. pepo og C. pepo subsp. texana. Engin þessara undirtegunda er formlega viðurkennd.

Plantan vex í heimkynnum sínum frá sjávarmáli og upp í 2.000 metra hæð og er fljótvaxta en útlit mismunandi afbrigða, yrkja og sorta C. pepo er breytilegt. Yfirleitt eru plöntur í ræktun eins og flækt þúst, 30 til 60 sentímetrar að hæð og 60 til 90 sentímetrar að breidd. Upp af trefjarót vaxa grófhærðir stönglar sem verða holir að innan með auknum þroska og geta orðið margra metra langir. Blöðin stakstæð, 10 til 35 sentímetrar að lengd og breidd og með þremur til sjö stórum sepum. Tennt og grófhærð. Blómin eru einkynja, sjálf­frjóvgandi, stór og allt að 10 sentímetrar í þvermál, gul, lúðurlaga og uppstæð. Aldinin stór, hnattlaga, slétt eða bylgjótt og með þykka og sterka húð en mjúkt og trefjarík að innan. Aldinið er yfirleitt slétt viðkomu en stundum með litlum vörtum og oft 50 kíló að þyngd. Einnig til minni og ílöng aldin. Yfirleitt gul eða appelsínugul við fullan þroska. Fræin ljós eða græn, ílöng og flött, einn til 1,5 sentímetrar að lengd og olíurík. Plantan er einær.

Dæmi um yrki í ræktun víðs vegar um heim eru Acorn, Delicata, Dodi, Gem, Heart of gold, Kamo kamo, Pattypan, Spaghetti, Yellow crookneck.

Samkvæmt skilgreiningu grasa­fræðinnar eru aldinin, graskerin, ber.

Útbreiðsla og ræktun

Elstu minjar um ræktun möndlu­graskera eru átta til tíu þúsund ára gamlar frá Oaxaca og sjö þúsund ára frá Tamaulipas sem eru í suður- og norðausturhluta Mexíkó. Talið er líklegt að plantan hafi borist frá Mexíkó til Texasríkis og þaðan upp eftir Missisippi-ánni og -dalnum norður eftir Bandaríkjunum. Frum­byggjar Ameríku ræktuðu grasker löngu fyrir komu Evrópumanna vestur yfir Atlantsála og til eru minjar um ræktun hennar 2000 árum fyrir upphaf okkar tímatals í Norður-Ameríku. Líklegt er talið að möndlugrasker hafi verið tekin tvisvar til ræktunar og á tveimur mismunandi stöðum með nokkur þúsund ára millibili, fyrst í Mexíkó en seinna norðar í Ameríku.

Plantan barst til Evrópu í kjölfar landafundanna í vestri í lok 15. og byrjun 16. aldar og vakti strax mikla athygli þrátt fyrir að ræktun hennar næði aldrei miklum hæðum.

Fljótlega eftir að planta barst til Evrópu var farið að líta á hana sem tákn um frjósemi og ríkidæmi og gæti það tengst því hversu hratt hún vex.

Í dag eru grasker ræktuð í öllum heimsálfum að Suðurheims­skauts­landinu undanskildu.

Nafnaspeki

Latneska ættkvíslarheitið Cucurbits vísar til hnöttóttrar lögunar aldinsins og kemur heitið úr frönsku, cucubit sem er bolli eða skál. Tegundarheitið pepo er aftur á móti gamalt grískt heiti, π?πων - pépon, á stórri og þroskaðri melónu.

Uppruni enska heitisins pumpkin mun komið frá franska landkönnuðinum Jacques Cartier sem árið 1584 fann villta plöntu með stóru aldini á vatnasvæðunum miklu í Norður-Ameríku sem hann nefndi gros melons. Heitið var þýtt sem pompions á ensku sem smám saman varð að pumpkin. Á ensku þekkjast einnig heitin gourd, calabash og sqash. Frakkar kalla aldinið courge eða potiron, Spánverjar calabaza og Ítalir zucchina, Þjóðverjar segja gartenkürbis, kürbis og zucchini. Á sænsku kallast aldinið matpumpa en á dönsku mandelgræskar og græskar.

Auk heitanna grasker og möndlugrasker, sem greinilega eru komin hingað úr dönsku, þekkjast heitin mergja og möndlukúrbítur á íslensku.

Uppskeran á graskerum er að mestu framkvæmd með höndum og af farandverkamönnum.

Matur og skraut

Næringarefnainnihald graskera er misjafnt milli yrkja og afbrigða. Aldinið er allt að 95% vatn en í 100 grömum af því eru í kringum 14 kíló kaloríur, 1,2 grömm fita, 0,14 grömm af fitu og 2,9 grömm af kolvetnum. Talsvert er af A-vítamíni og steinefnum í aldininu.

Aldinin geymast vel og hafa langan hillutíma í verslunum. Eftir að búið er að tæma þau má þurrka belginn og nota undir vatn og til að geyma í mat. Þurrkuð aldin eru líka notuð í hljóðfæri.

Grasker eru ein af fjórum plönt­um sem frumbyggjar Norður-Ameríku litu á sem helgar plöntur og ræktuðu til matar. Hinar voru og eru enn maís, baunir og tóbak. Auk þess sem indíánar borðuðu innvols og fræin hrá, soðin og ristuð rifu þeir aldinhúðina í strimla og ófu úr þeim mottur. Þykkt hýðið var einnig þurrka fyrir veturinn og tuggið þurrt.

Ung og hörð aldin voru notuð til að mýkja húðir og losa þær við hár með því að nudda þeim við þær.

Landnemar frá Evrópu lærðu að nytja plöntuna af indíánum og hún varð fljótlega hluti af daglegri fæðu þeirra í súpum og kássum. Einnig var algengt að skera toppinn af aldininu og fjarlægja fræin, síðan var mjólk, kryddi og hunangi hrært saman við aldinkjötið, toppurinn settur á aftur og aldinið bakað í ösku.
Blómin eru sögð góð séu þau steikt í olíu á pönnu og sem meðlæti með öðrum mat og blöðin eru notuð sem skepnufóður.

Plantan er sögð góð við liðagigt og bólgum í liðum og þótt furðulegt megi virðast taldist hún til ástarörva fyrst eftir að hún barst til Evrópu og úr henni unnir ástahvetjandi drykkir og bjór.

Sérafbrigði af graskerum eru eingöngu ræktuð til að gefa af sér litrík og skrautleg aldin sem ekki eru æt. Skrautgrasker hafa stundum verið fáanleg í verslunum hér og eru fallegt stofustáss.

Á hverju ári eru víða um heim haldnar keppnir sem miða að því að rækta stærsta graskerið og til að ná sem mestri aldinþyngd er áburðargjöfinni vandlega stýrt og plönturnar ræktaðar í loft­einangruðu rými og þær úðaðar með koltvísýringi. 

Ræktun

Fræ graskera ála á 5 til 7 dögum eftir sáningu. Við góðar aðstæður blómstrar plantan eftir um fjórar vikur og getur gefið af sér þroskuð aldin eftir þrjá til þrjá og hálfan mánuð. Kjörhiti plöntunnar er 18 til 28° á Celsíus á daginn en eilítið kaldari á nóttunni, 16 til 24° á Celsíus, og er hún víða ræktuð til vetraruppskeru.

Grasker eru þokkalega þurrk­þolin og kjósa vel framræstan og frjósaman jarðveg með pH 5,6 til 8,0. Þau gefa mesta uppskeru sé vökvun þeirra jöfn yfir vaxtartímann en við mikla vökvun eiga stönglarnir það til að rifna og brotna síðan undan þunga aldinsins.

Í stórræktun eru allt upp í fjörutíu þúsund plöntur á hektara þegar mest er. Plöntur í ræktun taka vel við lífrænum áburði en forðast ber að gefa mikið af köfnunarefni/nitri vegna þess að það eykur blaðvöxtinn á kostnað aldinanna. Líkt og í annarri stórræktun er talsvert um sjúkdóma og aðra kvilla sem leggjast á plönturnar og er þeim oftast mætt með öflugum efnahernaði þótt á markaði séu einnig grasker sem eru lífrænt ræktuð og án eiturefna.

Algengt er að hver planta gefi af sér fimm til átta aldin.

Allraheilagra messa og hrekkjavaka

Sú hefð að hola grasker að innan og setja í þau ljós á sér langa hefð og voru þau  upphaflega notuð sem luktir á mannamótum. Útskorin grasker með andlitum tengjast einnig allraheilagra messu sem er daginn eftir hrekkjavöku. Uppruni hrekkjavökunnar er í fornheiðinni keltneskri hátíð, samhain, þar sem fólk kom saman í búningum og kveikti elda til að bægja frá draugum. Allraheilagra messa var síðar útspil páfastóls til að kristna fornheiðna draugahátíð sem ekki hefur tekist þar sem hallóvínhátíðin hefur breiðst út eins og eldur í sinu um heiminn og verður sífellt vinsælli.

Útskorin grasker með andlitum tengjast hrekkjavöku.

Í að minnsta kosti einni útgáfunni af ævintýrinu af Öskubusku beitir álfkona göldrum og breytir graskeri í vagn sem ekur á dansleikinn þar sem hún hitti prinsinn.

Grasker á Íslandi

Í Skýrslu um Ísland, um nokkrar tilraunir til jurtaræktunar á Íslandi, sem birtist í Tímariti Hins íslenzka bókmentafélags árið 1885, kemur fram að Schierbeck, landlæknir og stofnandi Garðyrkjufélags Íslands, gerði tilraun til að rækta C.pepo. „Jeg hef gjört tilraunir til þess að rækta ýmsar tegundir graskera frá Schúbeler prófessor, og voru það bæði merg-grasker (Vegetable marrow) og ýms skrautgrasker. Hinar ungu jurtir komu vel upp í vermireitnum, en það fór með þær alveg eins og með agúrkurnar, það varð að eins eitt einasta hálfvaxið grasker á stærð við hnefa. Tilraun þessi var gjörð sumarið 1884.“

Í Búnaðarritinu 1909 er getið um tilraun til að rækta grasker en lítið gert úr árangrinum en sagt að hampur hafi sprottið vel og að hann sé efnilegur til áfram­ræktunar.

Áhugavert er að í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1915 er getið um púnsbolla frá Bessastöðum sem eina af við­bótum safnsins. Þar segir. „Púnsbolli úr leir, gleraður utan og með grænleitum og gulleitum lit. Lok er á og halda upp úr, en bollinn er að lögun oglit gerður í líkingu við stórt grasker og er haldan stilkurinn. Afast fat hefir verið undir, en það er nú alt af nema miðhlutinn. Hæð undir lok 21 5, en alls 33 sm.; þverm. mest um 26 sm. Mun vera danskur og frá síðari hluta 18. aldar. Hefir tilheyrt Ólafi stiftamtmanni Stefánssyni og síðast Grími Thomsen á Bessastöðum.“

Í dag þekkir hvert mannsbarn á Íslandi grasker þrátt fyrir að enginn leggi það sér reglulega til munns.

Gleðilega hrekkjavöku

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...