Merkingar sauðfjár
Að gefnu tilefni vill Matvælastofnun vekja athygli á nokkrum atriðum varðandi merkingar sauðfjár.
Sauðfé skal vera merkt með forprentuðu einstaklingsmerki/fullorðinsmerki og litur þess skal vera í samræmi við það litakerfi sem ákveðið hefur verið fyrir hvert varnarhólf sbr. eftirfarandi kort yfir varnarhólf og litamerkingar sauðfjár.
Bæði lambamerki og fullorðinsmerki eiga að vera í lit viðkomandi varnarhólfs. Óheimilt er að bæta merki við í öðrum lit, hvort heldur sem er til hagræðis við sundurdrátt í réttum eða til þess að greina á milli riðuarfgerða.
Í samræmi við ofangreint er skylt að merkja allt sauðfé með forprentuðu einstaklingsmerki, „fullorðins-merki“ í annað eyrað frá 6 mánaða aldri og skulu litir forprentaðra plötumerkja í sauðfé og geitfé vera í samræmi við skráningu Matvælastofnunar í miðlægan gagnagrunn. Ekki er heimilt að vera með merki í báðum eyrum fjárins sem ekki eru með sama lit.
Sé fyrir hendi sérstök ósk um að geta merkt féð í samræmi við arfgerð riðugensins er leyfilegt að hafa móthak merkisins (festinguna) með þeim lit sem passar við flöggin í Fjárvís, en ekki er leyfilegt að hafa merkin sjálf í þeim lit sem passar við viðkomandi flagg.
Matvælastofnun vill einnig upplýsa um að starfandi er núna starfshópur á vegum matvæla- ráðuneytis, Matvælastofnunar og Bændasamtaka Íslands, sem er að vinna að endurskoðun á reglugerð um merkingar búfjár. Vilji menn koma sérstökum óskum eða athugasemdum til starfshópsins er best að beina þeim til búgreinadeildar sauðfjár.