Dæmi frá sænska fyrirtækinu DeLaval þar sem lotumjaltakerfi hefur verið sett upp með 8 mjaltastöðvum.
Dæmi frá sænska fyrirtækinu DeLaval þar sem lotumjaltakerfi hefur verið sett upp með 8 mjaltastöðvum.
Á faglegum nótum 19. júní 2025

Lotumjaltakerfi ný lausn fyrir mjaltaþjónabú

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Þegar mjaltaþjónar komu fyrst fram á markaðinn, fyrir þremur áratugum, byggðu kerfin þegar frá upphafi á því að hver kýr var mjólkuð þegar hennar tími var til að láta mjólka sig.

Kerfin sáu þannig um kýrnar og mjólkuðu þær sem einstaklinga og því heyrðu mjaltatímar sögunni til í raun enda kýrnar mjólkaðar allan sólarhringinn, allt eftir því hvenær þær þurftu að láta mjólka sig. Þessi kerfi, sem henta fyrir hópa af kúm upp á þetta 60–75 kýr, gjörbreyttu aðstæðum bæði bænda og kúa og þrátt fyrir háan kostnað við kerfin hafa þau náð töluverðri fótfestu víða um heim, sérstaklega í löndum þar sem launakostnaður er hár.

Gallinn við mjaltaþjónana er í raun sá að hver þeirra er gríðarlega dýr og séu bændur með t.d. 100 kýr þá þarf að fjárfesta í tveimur mjaltaþjónum, þrátt fyrir að þá nýtist síðari mjaltaþjónninn ekki nema að hluta með tilheyrandi auknum framleiðslukostnaði mjólkur. Stærðarhagkvæmni náðist því ekki beint fram á stærri kúabúunum, þ.e. búum með hundruð eða þúsundir kúa, þar sem kostnaðurinn við hvern mjaltaþjón var mikill og á sama tíma fékkst nær engin stærðarhagkvæmni þar sem hver mjaltaþjónn, fyrir áðurnefndar 60–75 kýr, var í raun sjálfstæð eining.

Það má í raun líkja þessu við það að fimm manna fjölskylda kaupi sér eðlilega fimm manna bíl, en ef fjölskyldan t.d. stækkar í sjö manna fjölskyldu þurfi að kaupa annan fimm manna bíl í stað þess að geta fjárfest í einum sjö manna bíl. Vegna þessa hafa mjaltaþjónar ekki þótt sérlega hagstæðir fyrir stærri kúabúin í heiminum og ekki síður þar sem á þeim vegur launakostnaðurinn hlutfallslega lægra en á minni búunum. Nú hafa framleiðendur mjaltaþjónanna mögulega fundið lausn á þessu með nýrri nálgun við mjaltir með mjaltaþjónum og virðist þessi nýja aðferð vera að ná einhverri fótfestu meðal stærri búanna í heiminum.

Hver viðbótarkýr hagkvæmari

Það kemur líklega fæstum lesendum á óvart að hagkvæmni fylgi stærð og sýnir reynslan að þegar kemur að rekstri kúabúa þá eykst hagkvæmni framleiðslu mjólkur allt upp í um 3.000–3.500 kýr á hverju búi, en séu kýrnar fleiri en það á hverju búi sýna hagtölur búanna að framleiðslukostnaður á hvern lítra hættir að lækka. Skýringin, að mati greinarhöfundar, felst fyrst og fremst í því að þessi fjöldi kúa passar fyrir stóra mjaltahringekju þ.e. eitt mjaltakerfi af stærstu gerð sem þekkist í heiminum í dag. Ef fjöldi kúnna er meiri þá þarf að fjárfesta í öðru mjaltakerfi og þá gerist í raun það sama og með kúabúin sem fara upp fyrir hámarksfjölda hvers mjaltaþjóns, þ.e. hagkvæmnin minnkar á hverja kú þar sem í raun má tala um að offjárfesta þurfi fyrir kýrnar sem eru umfram hámarks afköst eins kerfis. Það ætti því að vera markmið hvers bónda að hámarka nýtingu sinnar fjárfestingar og miða við forsendur hvers bús.

Lausnin loksins fundin?

Með framangreind atriði í huga hafa framleiðendur mjaltaþjóna eðlilega reynt að finna heppilega lausn og fyrir mörgum árum kom þýski mjaltaþjónaframleiðandinn GEA fram með hringekjumjaltaþjón. Sú lausn náði ekki beint að slá í gegn og sænska fyrirtækið DeLaval reyndi einnig að koma með hringekjukerfi án þess að ná verulegum árangri. Þróunin hélt áfram og hurfu fyrirtækin aftur til baka að einsklefa kerfinu, þ.e. byggja lausnir fyrir stóru búin á því að nota einsklefa kerfi sem grunn að lausn en þó í breyttri mynd. Þessi nýja nálgun byggir á því að mjólka kýrnar í sameiginlegri mjaltaaðstöðu sem minnir meira á hefðbundin fjós með hefðbundna mjaltaaðstöðu en fjós sem eru sérhönnuð með mjaltaþjónamjaltir í huga.

Lotumjaltir

Þó svo að mismunandi framleiðendur séu með aðeins mismunandi útfærslur þá ganga þær í stórum dráttum út á það að útbúa sérstaka mjaltaaðstöðu með biðsvæði, rétt eins og um hefðbundið fjós með hefðbundnum mjaltatækjum væri að ræða. Kýrnar eru svo reknar á þetta biðsvæði tvisvar eða þrisvar á dag, rétt eins og um venjulegar mjaltir væri að ræða. Þar taka svo mjaltaþjónarnir við og mjólka kýrnar og hleypa þeim svo út á ný og inn í fjós. Með þessu kerfi hefur í raun mjaltabás og starfsfólki verið skipt út fyrir mjaltaþjóna og svo eru kýrnar mjólkaðar í lotum í stað þess að vera mjólkaðar meira út frá einstaklingsþörf hverrar kýr eins og venjulega er gert í mjaltaþjónafjósum. Að sama skapi fá kýr ekkert kjarnfóður í mjaltaþjóninum og því geta búin fóðrað með heilfóðri sem er ódýrari fóðrunaraðferð en þegar hluti af fóðri er gefið á fóðurgangi og kjarnfóðurhluti í mjaltaþjóni eins og alþekkt er hér á landi.

Hvar er sparnaðurinn?

Eftir lestur á framangreindu er líklega ekki auðséð hverju þetta kerfi breyti í raun og hvernig megi spara kostnað í raun í samanburði við að kaupa hefðbundna mjaltaþjóna, fyrir utan augljósan sparnað við að skipta yfir í heilfóður. Skýringin á sparnaðinum felst auk þess í því að þegar bændur skipta út hefðbundnum mjaltakerfum og fara í mjaltaþjónastýrðar lotumjaltir þarf ekki að breyta miklu í fjósunum. Upphafleg hönnun þeirra heldur einfaldlega og í stað mjaltabásaaðstöðu koma mjaltaþjónar. Þarna liggur þó ekki mesti sparnaðurinn heldur felst hann í því að búnaður hvers mjaltaþjóns er mun einfaldari og ódýrari í þessari uppsetningu, en þegar mjaltaþjónn er keyptur sem sjálfstæð eining. Hver mjaltaþjónn í lotumjaltakerfinu er í raun einungis „ásetningartæki“ og þarf hvorki fóðrunarbúnað, sjálfstætt gagnasöfnunarkerfi eða annað slíkt sem hleypir upp kostnaði hvers tækis en talið er að sparnaðurinn nemi um 25% miðað við hefðbundna fjárfestingu í mjaltaþjónum. Enn fremur sparast kostnaður við fóðrun vegna þess að með þessu kerfi er hægt að fóðra allar kýr með heilfóðri eingöngu og þá sparast mikil viðveruskylda í fjósinu, enda eru þessi fjós með hefðbundinn mjaltatíma og þess á milli ekki verið að mjólka eins og í þeim fjósum þar sem hefðbundnir mjaltaþjónar eru.

Ólíklega á Íslandi í bráð

Þó svo að lotumjaltakerfi séu nú farin að sjást víða um heim, reyndar enn sem komið er í takmörkuðu magni, þá er harla ólíklegt að svona kerfi sjáist á Íslandi á næstunni. Til þess eru fjósin einfaldlega of lítil hér á landi. Í dag eru stærstu kúabúin hér á landi með rétt um 250 kýr og þrátt fyrir að einhverjir sem lesa þetta kunni að líta svo á að það séu harla stór kúabú, þá er staðreyndin sú að stærstu búin hér á landi ná ekki einu sinni upp í meðalbústærðina í Danmörku svo dæmi sé tekið. En þróunin mun vafalítið halda áfram á Íslandi eins og í öðrum löndum og því munu búin halda áfram að vaxa og dafna. Það ætti því vart að koma á óvart að einhver kúabú á Íslandi muni koma sér upp lotumjaltakerfi þegar fram líða stundir.

Skylt efni: Lotumjaltakerfi

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...