Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Þátttakendur á vinnustofunni um nautgripakynbætur fyrir utan Snorrastofu í Reykholti í Borgarfirði.
Þátttakendur á vinnustofunni um nautgripakynbætur fyrir utan Snorrastofu í Reykholti í Borgarfirði.
Á faglegum nótum 13. maí 2025

Kynbótaskipulag fyrir mjólkurkúastofna og fleira í deiglunni

Höfundur: Jón Hjalti Eiríksson lektor, LbhÍ, Egill Gautason lektor, LbhÍ og Guðmundur Jóhannesson nautgriparæktarráðunautur, RML.

Síðustu misseri hafa verið tími mikilla breytinga í kynbótastarfi íslenskra nautgripa. Þessum breytingum er ekki lokið og líklegt er að næstu ár verði áframhaldandi breytinga- og framfaraskeið í kynbótastarfinu. Síðan farið var að reikna erfðamat (kynbótamat byggt á arfgerðargreiningum) í lok árs 2022 hefur val nauta til notkunar færst frá því að byggja á ætternisupplýsingum og síðan afkvæmaprófun yfir í kerfi sem byggir á erfðamengjaúrvali með verulega styttu kynslóðabili. Möguleikar á notkun kyngreinds sæðis, vali á grunni kjörerfðaframlaga, og markvissri nýtingu fjöldaegglosa og fósturvísaflutninga eru til skoðunar í framhaldinu.

Til að hjálpa við mótun áframhaldandi kynbótastarfs var boðað til vinnustofu í Reykholti og Hvanneyri í Borgarfirði 27. og 28. mars síðastliðinn þar sem saman komu kynbótafræðingar sem starfa á Íslandi, í Noregi, Danmörku og Hollandi. Þó margt sé ólíkt á milli þessara landa er líka margt sameiginlegt og heilmikið sem við getum tileinkað okkur af þekkingu og reynslu erlendis frá. Þá höfum við Íslendingar líka ýmislegt fram að færa sem nautgriparæktendur í nágrannalöndunum geta litið til.

Ræktunaráherslur og stjórnun skyldleikaræktar

Í Noregi er meirihluti kúnna mjólkaður með mjaltaþjónum líkt og hér og það kemur fram í miklum áhuga á að bæta júgur- og spenagerð í stofninum til að auðvelda þessari tækni vinnuna. Þar er líka lögð heilmikil áhersla á að rækta kýr sem framleiða vel af innlendu fóðri, einkum grasi. Í óöruggum heimi kann það að vera fordæmi sem Íslendingar ættu að horfa til svo ekki þurfi að treysta um of á innflutt korn og próteingjafa. Þótt einangrun íslenska kynsins um aldir eigi sér fáar hliðstæður horfa ræktunarfélögin í hinum Norðurlöndunum líka mikið til þess hvernig sé hægt að halda lágri skyldleikarækt í sínum stofnum og viðhalda breytileika. Jersey-stofninn í Danmörku er ræktaður með lítilli blöndun við aðra stofna og er ekki ýkja stór í alþjóðlegum samanburði. Lágmörkun skyldleikaræktar er áskorun þar líkt og hjá okkur. Rauðu stofnarnir, bæði í Noregi og á hinum Norðurlöndunum, eiga sér allt öðruvísi sögu og rannsóknir á þeim sýna mikla erfðafjölbreytni. Þar er samt líka horft til að halda þeirri góðu stöðu með því að vanda sig í ræktunarstarfinu. Hér á landi er í gangi verkefni, sem Landbúnaðarháskólinn leiðir, um það hvernig aðferð sem hefur verið kölluð kjörframlagaúrval er best beitt í kynbótastarfinu í nautgriparækt. Aðferðin snýst um að velja gripi til undaneldis samhliða byggt á heildareinkunn kynbótamats og lágmörkun skyldleikaræktar til framtíðar. Samkvæmt fræðunum er það besta leiðin til að ná sem mestri erfðaframför en samhliða viðhalda erfðafjölbreytni. Aftur á móti hefur innleiðingin í kynbótakerfi mjólkurkúa nokkuð vafist fyrir fólki vegna þess að valið fer fram á mörgum stigum og nokkur hluti ræktunarstarfsins fer fram heima á framleiðslubúum og því er ekki á valdi kynbótafyrirtækja að ákveða hvernig staðið er að pörun og ásetningi gripa. VikingGenetics, kynbótafyrirtækið sem starfar í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi, er trúlega komið einna lengst í innleiðingu þessarar valaðferðar í nautgriparækt í heiminum og vinnur nú að uppsetningu tölvukerfa til að geta keyrt útreikningana sem þarf reglulega og með skipulögðum hætti. Á vinnustofunni kom fram samstaða um að deila niðurstöðum um innleiðingu milli VikingGenetics og Landbúnaðarháskólans.

Kynbótaskipulag með nýtingu tæknilausna

Síðustu mánuði hafa hermilíkön fyrir kynbótaskipulag íslenska kúastofnsins verið unnin í samstarfi RML, LbhÍ og vísindamanna við Árósaháskóla og VikingGenetics í Danmörku. Líkönin sýna meðal annars að ótakmörkuð notkun á kyngreindu sæði, sem hefur verið flokkað til að gefa kvígukálfa, getur leitt til verulegra vandræða fyrir kynbótastarfið. Vandræðin felast í því að skortur verður á nautkálfum með hátt kynbótagildi fyrir sæðingastarfsemina. Lausnir á þessum vandræðum eru annaðhvort að sæði sem gefur nautkálfa sé skipulega notað á albestu kýrnar eða að bestu kvígurnar séu látnar hafa fjöldaegglos og fósturvísar fluttir í staðgöngumæður. Kálfarnir sem úr því koma eru þá af bestu mögulegu ættum og úr þeim hópi yrðu flest kynbótanaut valin með erfðamengjaúrvali. Í Jersey stofninum í Danmörku er notkun kyngreinds sæðis orðin mjög mikil og þar hefur ræktunarfélagið verið að auka hlut fjöldaegglosa og fósturvísaflutninga til að eiga nægan hóp nautkálfa til að velja úr kynbótanaut. Hagnýting fjöldaegglosa og fósturvísaflutninga er þó ekki bundin við stofna þar sem kyngreint sæði er mikið notað. Til dæmis byggir kynbótakerfi Geno í Noregi á þeim aðferðum þó notkun kyngreinds sæðis sé ekki orðin mjög útbreidd. Niðurstöður hermilíkana benda ákveðið til þess að fjöldaegglos og fósturvísaflutningar myndu auka erfðaframfarir fyrir íslenska stofninn nú þegar hægt er að velja kvígurnar með erfðamati. Við framkvæmd þess er gott að eiga góð sambönd við nágrannalöndin þar sem reynsla af aðferðunum hefur byggst upp.

Fóðurnýting og loftslagsáhrif

Víða hefur á síðustu árum verið rannsakað hvaða möguleikar eru til að nýta kynbætur í þeirri viðleitni að draga úr metanlosun mjólkurkúa og bæta fóðurnýtingu þeirra, og þannig hjálpa til við að draga úr hlýnun jarðar. Bjørg Hergingstad frá Geno og Norska lífvísindaháskólanum sagði frá metnaðarfullum rannsóknum á þessu efni í Noregi. Þar hefur GreenFeed búnaði til mælinga á metanlosun einstakra kúa og fóðurboxum til mælinga á áti einstakra kúa verið komið upp á 15 búum. Niðurstöður þeirra mælinga sýna að þessir eiginleikar eru arfgengir í norskum kúm í samræmi við rannsóknir í öðrum stofnum. Líklegt er að sama niðurstaða fengist fyrir íslenskar kýr. Önnur niðurstaða norskra rannsókna er að mælingar á metanlosun nauta í vexti sem mögulega verða sæðinganaut hefur ágæta erfðafylgni við losun mjólkandi kúa. Það gefur möguleika á að nýta mælingar beint á þeim gripum sem eru mikilvægastir í kynbótastarfinu.

Hollendingar eru að mörgu leyti í fremstu röð í mjólkurframleiðslu í heiminum. Þó önnur umhverfisáhrif en loftslagsmálin séu jafnvel ofar á dagskrá þar (einkum of mikið magn plöntunæringarefna í umhverfinu), þá er vinna við mælingar á metanlosun einstakra kúa komin það langt að erfðamat fyrir eiginleikann er að fara í almenna birtingu. Samkvæmt Yvette de Haas frá háskólanum í Wageningen í Hollandi eru yfir tíu þúsund gripir í viðmiðunarhópi fyrir erfðamat, þ.e. kýr sem eru með mælingu á metanlosun og arfgerðargreiningu. Þar sem farið er í svo umfangsmiklar mælingar þykir GreenFeed búnaðurinn of dýr og þess í stað eru notaðir svokallaðir þefarar (e. sniffers) sem mæla styrk metans í t.d. mjaltaþjónum. Nákvæmnin er ekki jafnmikil og með GreenFeed kerfinu, en býður upp á að mæla fleiri kýr fyrir minni kostnað. Allnokkrar gerðir slíkra þefara eru framleiddar nú orðið og stórt fjölþjóðlegt verkefni vinnur að því að bera þá saman og setja fram staðla um hvernig sé best að nýta gögn sem safnast með slíkum þefurum.

Varðveisla og sérkenni kúakynja

Umræða um innflutning á erfðaefni úr erlendum mjólkurkúakynjum hefur vitanlega ekki farið fram hjá fólki sem hugsar um nautgripakynbætur á Íslandi. Hvað kemur út úr því hefur áhrif á það hvernig innlendu kynbótastarfi verður háttað í framtíðinni. Bernt Guldbrandtsen frá Danmörku kom með hressilegt innlegg inn í þessa umræðu þar sem hann dró fram mögulegar leiðir fyrir mjólkurframleiðslu á Íslandi, allt frá því að flytja inn allar mjólkurvörur til þess að halda íslenska kúakyninu sem eina kyninu hér heima með markvissu kynbótastarfi og jafnvel erlendri markaðssetningu sem byggir á sérstöðu þess. Kostir og gallar eru við hverja leið og valið byggir á því hvað íslenskir bændur og neytendur vilja, er það ódýr mjólk, fleiri störf, minni mengun, sjálfsnægt o.s.frv.

Morten Kargo, sem leiðir ræktunarstarf rauðu kynjanna í Danmörku, Svíþjóð og Noregi hjá VikingGenetics hélt erindi sem fjallaði um lærdóma sem íslenskt kynbótastarf megi draga af kynbótastarfi rauðu kynjanna og öfugt. Morten vill leggja áherslu á að bæta það sem er þegar gott hjá kyninu, svo sem á gróffóðurnýtingu, heilsu og frjósemi, þar sem kynið eigi aldrei möguleika á að ná Holstein í afurðum. Með þessum áherslum nái rauðu kynin að marka sér markaðslega sérstöðu. Núna er ræktunin á rauðu kynjunum á Norðurlöndunum í tveimur stofnum, NRF í Noregi og svo blanda rauðu kynjanna í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi. Þetta eru þó skyld kyn og Morten vill að þau vinni betur saman sem ein heild í samkeppninni við enn stærri kyn, einkum Holstein. Hvernig kýr af mismunandi kynjum þrífast á mismunandi fóðri er eitt af hugðarefnum Mortens. Tilraunir hafa sýnt að kvígur af rauðu kynjunum þrífast betur við hærra gróffóðurhlutfall en Holstein kvígur og fóðrun sem passar hverju kyni skilar sér í betri kúm. Það væri áhugavert að sjá íslenskar kýr í slíkum samanburði, hvernig fóðrun og kynjaáhrif spila saman fyrir norrænar rauðar, Holstein og íslenskar kýr við stýrðar aðstæður. Til þess að meta slíkt samspil erfða og umhverfis þyrfti að flytja út fósturvísa úr íslenskum kúm en það gæfi líka færi á að meta erfðalegan mun á íslenska kyninu og erlendum.

Lokaorð

Það er von okkar sem stóðum að þessari heimsókn að hún hjálpi til að efla kynbótastarfið í framtíðinni. Möguleikar til samstarfs eru líka verulegir, til dæmis er innleiðing kjörframlagaúrvals á dagskrá hjá Norðmönnum, Dönum og Íslendingum, metanlosun og fóðurnýting hjá fáliðuðum kúakynjum eru rannsóknasvið sem þarfnast athygli, og hvernig best er staðið að kynbótastarfi í stofnum þar sem kyngreint sæði verður almenna reglan er sameiginlegt úrlausnarefni. Þó íslenski kúastofninn sé um margt einstakur eru áskoranirnar í ræktun þessara litlu stofna mjög svipaðar. Ekki aðeins getum við lært af nágrönnum okkar, heldur geta þeir lært sitthvað af okkur. 

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...