Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Jákvæð þróun á tíðni þrýstingsáverka í munni keppnishesta á LM2024
Á faglegum nótum 20. maí 2025

Jákvæð þróun á tíðni þrýstingsáverka í munni keppnishesta á LM2024

Höfundur: Sigríður Björnsdóttir, sérgreinadýralæknir hrossa hjá Matvælastofnun.

Skoðunin „Klár í keppni“ er velferðarskoðun á keppnishestum sem miðar að því að greina álagseinkenni í munni og stoðkerfi auk almennra heilbrigðisþátta. Markmiðið er að tryggja sem kostur er heilsu og velferð hrossa í sýningum og keppni. Tilgangurinn er enn fremur að afla gagna sem geta nýst til að gera sýningar og keppni á íslenska hestinum hestvænni.

Sigríður Björnsdóttir.

Skylt ert að skoða hross sem koma fram í sýningu og keppni á stórmótum (LM og ÍM) með þessum hætti og hefur skoðunin verið sambærileg frá árinu 2012 að öðru leyti en því að ítarlegri skoðun á álagseinkennum á fótum var innleidd á LM2022.

Þrýstingsáverkar í munni hafa reynst mikilvægur velferðarvísir fyrir keppnishesta og raunar öll hross sem notuð eru til reiðar, þar sem þeir endurspegla þrýsting frá mélum og múlum á slímhúð í munni hestanna.

Skoðun sem framkvæmd er fyrir milliriðla í gæðingakeppni á landsmótum gefur mynd af álaginu sem var í forkeppninni og hafa niðurstöður þeirrar skoðunar verið notaðar til að fylgjast með þróuninni milli landsmóta. Sem betur fer er þróunin jákvæð þar sem heildartíðni þrýstingsáverka í munni hefur lækkað úr 67% á LM2012 í 21% á LM0224 (Mynd 1 og Tafla 1). Enn meira hefur dregið úr þrýsingsáverkum á kjálkabeini og þeir sem eftir standa eru mun vægari en raunin var árið 2012. Jákvæð áhrif á velferð hestanna eru því ótvíræð.

Mynd 1

Seinni skoðun var framkvæmd fyrir úrslit gæðingakeppninnar (eftir milliriðlana) og sýna niðurstöður hennar í raun litla breytingu frá hinni fyrri, ólíkt því sem kom fram á LM2012 þegar tíðnin hækkaði jafnt og þétt eftir því sem leið á mótið. Á LM2024 kom þvert á móti fram lægri tíðni hjá þeim hrossum sem komust í úrslit, sem bendir þá til þess að hestar með þrýstingsáverka í munni hafi síður komist áfram í keppninni. Fáein ný tilvik bættust þó við.

Á LM2024 voru öll kynbótahross skoðuð með sama hætti fyrir yfirlitssýningu með það í huga að bera þær niðurstöður saman við gæðingakeppnina. Ekki kom fram marktækur munur á tíðni þrýstingsáverka á milli keppnis- og kynbótahrossa sem endurspeglar mögulega að álagið á hestana sé svipað í keppni og kynbótasýningu.

Þá voru keppnishestar í 150 og 250 m skeiði skoðaðir milli spretta á LM2024. Tíðni þrýstingsáverka í munni var allhá, eða 25% hjá þeim hópi.

Að lokum eru í töflunni hér að neðan birtar niðurstöður fyrir skoðanir á keppnishrossum í tölti (T1) en hafa ber í huga að sú skoðun er ekki fyllilega sambærileg þar sem hrossin voru skoðuð fyrir forkeppni (engir milliriðlar í töltkeppninni). Skoðun fyrir úrslit sýndi hækkaða tíðni en úrtakið var þá mjög lítið, aðeins 10 hross, og því ber að taka þeim niðurstöðum með fyrirvara.

Tafla 1. Niðurstöður „Klár í keppni“ á LM 2024 *Skoðun fyrir forkeppni

Þrýstingsáverkar í munni er gagnlegur velferðarvísir og mælistika fyrir þrýsting á munn hestsins – en segir að sjálfsögðu ekki alla söguna

Fjölmargir þættir hafa áhrif á þrýsting á munn hesta og þar með hættuna á þrýstingsáverkum. Líkamsbeiting og form hestanna eru þar á meðal. Þvingaður höfuðburður, einkum ef nefið er fyrir aftan lóðlínu, getur hindrað súrefnisflæði til lungna. Barkakýlið er flöskuhálsinn á þeirri leið og þrengist t.d. við mikla hnakkabeygju og stífan háls. Það segir sig sjálft að hross sem lenda í andþröng reyna að komast út úr þeirri stöðu, sem eykur á taumþrýstinginn.

Beislisbúnaðurinn hefur einnig mikil áhrif, bæði beint og óbeint. Tíðni þrýstingsáverka nær helmingaðist strax á LM2014, í kjölfar banns við notkun á stangamélum með tunguboga það sama ár. Alvarlegir þrýstingsáverkar á kjálkabeini heyra nánast sögunni til. Þá tók við tímabil þar sem meira var riðið við hringamél. Í kjölfarið fór tíðni þrýstingsáverka í mjúkkvef (kinnum og munnvikum) aftur hækkandi og náði í raun hámarki á LM2018. Sú lækkun sem aftur varð á milli LM2018 og LM2022 hefur að miklu leyti verið rakin til aukinnar notkunar á stangamélum á milli þessara tveggja móta.

Í gögnunum frá LM2024 kom ekki fram munur á tíðni áverka eftir mélanotkun og af þeim hrossum sem komust í milliriðla í A- og B-flokkum gæðinga var álíka mörgum hrossum riðið við hvora mélategund fyrir sig.

Jákvæð áhrif „venjulegra“ stangaméla á tíðni þrýsingssára í munni hesta skýrist væntanlega af því að þrýstingurinn dreifist með jafnari hætti, bæði inni í munni hestsins og utan hans, samanborið við hringamél. Stangamél eru þó engin lausn á of miklum þrýstingi eða óheppilegri líkamsbeitingu, mögulega bara leið fram hjá þrýstingssárum í munni. Mikil þörf er á frekari rannsóknum á þessu sviði.

Enginn vafi leikur á að hin sérstaka forkeppni sem riðin er á landsmótum er mjög krefjandi fyrir hesta og full ástæða til að skoða það fyrirkomulag gagnrýnum augum. Keppnisreglur og dómgæsla varða leiðina fyrir velferð keppnishesta og þurfa að vera í stöðugri endurskoðun. Þau teikn sem hér koma fram um jákvæða þróun, samhliða framförum í reiðmennsku, eru hvatning til að gera enn betur. Verkefnið er endalaust og nægt svigrúm til framfara.

Fleiri velferðarvísar í þróun

Heilbrigðir fætur eru lykilþáttur fyrir velferð keppnishesta og möguleika þeirra á að ná árangri. Við ofþjálfun eða of mikið álag í keppni koma áhrifin fram í stoðkerfinu og mikilvægt er að greina merki þess á frumstigum til að fyrirbyggja varanlegt tjón.

Með auknum rannsóknum og nýrri tækni skapast stöðugt fleiri möguleikar á að meta velferð keppnishesta með hlutlægum hætti og skapa þannig grundvöll fyrir áframhaldandi framfarir í þágu velferðar íslenska hestsins.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...