Íslenskar kýr og verndun þeirra
Í kjölfar skýrslu frá Landbúnaðarháskóla Íslands, riti LbhÍ nr. 174, er umræða um innflutning á erlendu kúakyni aftur komin á fullt.

Jón Viðar Jónmundsson og Baldur Helgi Benjamínsson skrifuðu meðal annars ágæta grein í síðasta tölublaði Bændablaðsins um innflutning kúa. Mig langar í þessum pistli að varpa ofurlitlu ljósi á nokkur atriði sem varða verndun íslenska kúastofnsins.
Niðurstöður skýrslunnar benda ótvírætt til verulegs ávinnings af innflutningi nýs kúakyns. Skýrslan kemur út á sama tíma og margir kúabændur búa við erfiða afkomu og eðlilegt að margir bændur telji að nýtt kúakyn myndi hjálpa til við að bæta reksturinn. Ég ætla ekki að bera brigður á niðurstöður skýrslunnar og í fyrrnefndri grein Jóns Viðars og Baldurs er réttilega bent á mikilvægi þess að bæta kjör bænda. Mér finnst þó frekar snubbótt umfjöllun um vernd íslensku kýrinnar. Jón Viðar og Baldur segja: „Á okkur eru skyldur um slíka vernd en ekki með að gera eina kúakyn landsins að forngripasafni.“ Því miður útskýra þeir ekki við hvað er átt. Mér dettur í hug að þeir eigi við að skynsamlegt sé að bæta íslenska kúakynið með innflutningi erlends erfðaefnis og framrækta blendingsstofn. Ég veit að margir bændur telja þetta vænlega leið. Ég tel þetta ekki sennilegt til árangurs heldur ætti frekar að horfa til þess, ef ákveðið verður að flytja inn erlent kúakyn, að stefna að því að rækta íslenskar kýr áfram sem hreinan stofn til hliðar við innflutt kyn. Blendingsstofn, t.d. af íslenskum kúm og norskum rauðum (NRF), yrði líklega síðri til framleiðslu heldur en hreinn stofn af NRF og blendingsstofninn hefði einnig minna varðveislugildi en hreinn íslenskur stofn. Hér vil ég benda á að einsleitni íslenska kúakynsins er styrkur þegar kemur að erfðamengjakynbótamati. Mikið blandaðir stofnar hafa átt í dálitlum vandræðum með stöðugleika kynbótaspáa. Skipulögð blendingsrækt er síðan allt annað mál sem gæti verið skynsamlegt, eins og nefnt er í grein þeirra félaga.
Verndargildi íslensku kýrinnar
Mikilvægt er að halda því til haga að varðveislugildi íslenska kúastofnsins er ótvírætt. Íslenskar kýr hafa verið að mestu einangraðar frá landnámi og eru skyldastar gömlum norrænum kúakynjum. Engin merki eru um að skyldleikarækt sé eða hafi verið óhófleg í íslenska kúastofninum. Lítil eða nær engin ummerki eru um blöndun við erlend kyn þrátt fyrir nokkurn innflutning erlendra kúakynja á 18. og 19. öld. Skyldir stofnar eru flestir í viðkvæmri stöðu eða í útrýmingarhættu. Ísland er í þeirri einstöku stöðu að öll kúamjólk á landinu er framleidd með landkyni sem kom með landnámsmönnum og hefur verið ræktað hér frá örófi alda.
Áhrif innflutnings
Með innflutningi nýs kúakyns væru Íslendingar að taka þátt í þróun sem átti sér stað í nágrannalöndum okkar fyrir nokkrum áratugum síðan. Útkoman hefur oftast verið sú að minni kynin hafa horfið algjörlega eða tóra í mjög viðkvæmri stöðu. Ef af innflutningi verður mun einhver hluti kúabænda sæða sínar kýr með sæði úr innfluttu gripunum. Í fyrstu kynslóð yrðu til 50% blendingar sem yrðu sæddir með erlenda kyninu. Eftir áratug eða svo af sæðingum með erlendu erfðaefni verður lítið eftir af íslensku blóði í þessum hjörðum. Ef rekstrarhagkvæmni með innfluttu kyni er mun meiri munu fleiri íslenskir bændur skipta íslenskum kúm út fyrir erlendar. Hætt er við því að stofninn yrði svo lítill að hann yrði á endanum í útrýmingarhættu, ef ekki er gripið til neinna aðgerða til að vernda íslenskar kýr. En það fer meðal annars eftir því hvernig íslenskum kúm farnast í samkeppni við erlendu gripina. Hugsanlega myndu einhverjir bændur halda hreinar íslenskar kýr samhliða þeim erlendu. Hér er rétt að benda á að mikil blöndun í íslenska stofninn getur haft mjög mikil áhrif á ræktunarstarfið. Þegar stór hluti kúastofnsins væri orðinn blandaður myndi það verulega draga úr stærð ræktunarstofnsins. Afleiðingin gæti orðið að taka þyrfti naut á stöð með verulegri blöndun við erlent kyn og þá gæti erfðahlutdeild erlenda kynsins orðið varanleg.
Hvað er til ráða?
Hugsanlegur innflutningur gæti þannig ógnað tilvist íslenska kúastofnsins. Við því þyrfti að bregðast og þar eru nokkrar leiðir færar. Til að stofninn teljist ekki í neinni hættu þyrfti að hafa um 6.000 kýr og ákveðinn lágmarksfjölda nauta samkvæmt viðmiðum frá FAO. Til að teljast í útrýmingarhættu er miðað við 3.000 kýr. Erfðaframfarir í slíkum stofni yrðu mun minni en í dag. Það er hins vegar fjarri því einfalt í framkvæmd að binda svo um hnútana að hópur bænda vilji halda stofnstærðinni uppi ef kýrnar eru mikið óhagkvæmari en þær erlendu. Til að tryggja viðunandi stofnstærð held ég að sé óhjákvæmilegt að greiða þurfi þeim sérstaklega sem halda íslenskar kýr, líklega er einfaldast að það sé gert með sérstökum gripagreiðslum fyrir íslenskar kýr. Slíkar greiðslur væru þá hugsaðar sem verndaraðgerð fyrir íslenska stofninn. Samhliða þyrfti að vakta stofnstærð íslenska kúastofnsins og grípa til aðgerða ef fjöldi hreinna íslenskra gripa minnkaði verulega, og þá sennilega hækka gripagreiðslurnar. Sjálfur tel ég enga ástæðu til að flana að neinu varðandi kynbótastarfið ef kemur til innflutnings erlends kúakyns. Raunar er afar mikilvægt að viðhalda öllum innviðum kynbótastarfsins því þeir nýtast ekki einungis fyrir erfðaframfarir í íslenska kúastofninum heldur líka fyrir vernd stofnsins. En það er viðbúið að erfðaframfarir minnki ef íslenski stofninn minnkar verulega.
Önnur leið er að freista þess að markaðssetja mjólk úr íslenskum kúm sérstaklega. Í rannsókn á greiðsluvilja fyrir nokkrum árum kom fram að Íslendingar eru tilbúnir til að greiða hærra verð fyrir mjólk framleidda af íslenskum kúm heldur en erlendum. Til að bjóða neytendum þann kost þyrfti mjólkuriðnaðurinn hins vegar að halda mjólk úr íslenskum og erlendum kúm aðskildum að einhverju eða öllu leyti. Ekki veit ég hversu kostnaðarsamt það væri eða hvort það sé yfirhöfuð raunhæft. Í þessu samhengi má líka velta því upp hvort ferðamenn væru tilbúnir til að greiða hærra verð fyrir mjólkurafurðir framleiddar með íslenskum kúm, og hversu stór slíkur markaður sé. Fróðlegt væri að heyra sjónarmið mjólkuriðnaðarins í þessu samhengi. Víst er að sérstaða er verðmæt og fordæmi eru fyrir því utan úr heimi að afurðir úr ákveðnum kynjum séu seldar á hærra verði.
Hugsanlegar aðgerðir
Ef til innflutnings kemur eru nokkrar aðgerðir til að tryggja stöðu íslenska stofnsins. Ég tel að helstu aðgerðir séu þessar: (1) vöktun á fjölda arfhreinna íslenskra gripa og skyldleika þeirra, (2) áframhaldandi arfgerðar-greiningar og stuðningur við kynbótastarf íslenskra kúa, þar á meðal skýrsluhald, kynbótamat og rekstur nautastöðvarinnar, (3) sérstakar gripagreiðslur fyrir kýr af hreinum eða nær hreinum íslenskum stofni, og (4) aðskilin söfnun og vinnsla og sérstök markaðssetning á mjólk úr íslenskum kúm.
Að lokum
Ég vil taka skýrt fram að núverandi fyrirkomulag ræktunarstarfsins er líklega hið besta mögulega fyrir vernd íslenska kúastofnsins. Stofninn er stór og óblandaður, með víðtæku skýrsluhaldi og nýjum og nýlegum aðferðum beitt við ræktunina. Þá hefur aukning skyldleikaræktar verið innan þeirra marka sem er talin ásættanleg fyrir búfjárstofna. En það þýðir að sjálfsögðu ekki að það sé besta fyrirkomulagið fyrir alla kúabændur, neytendur og mjólkuriðnaðinn. Nú er það einkum bænda, en líka stjórnvalda, mjólkuriðnaðarins og neytenda, að ákveða hvað skuli taka til bragðs. Mikilvægt er að finna lausn sem tryggir góða afkomu kúabænda, öfluga innlenda mjólkurframleiðslu, og ásættanlega verndun íslenska kúastofnsins.