Holdafar íslenskra mjólkurkúa
Geta mjólkurkúa til að safna holdaforða og nýta hann er mikilvægur eiginleiki og þá sérstaklega til að standa undir mjólkurframleiðslu á fyrstu vikum mjaltaskeiðsins.

Of mikill eða of lítill holdaforði getur hins vegar valdið vandamálum tengdum mjólkurlagni, frjósemi og heilsu. Holdafar mjólkurkúa er almennt metið með sjónrænni stigun, holdastigun, sem gefur kúm einkunn eftir holdafari frá 1–5. Kýr sem fá einkunnina 1 hafa engan fituforða, kýr sem fá einkunnina 3 eru meðalfeitar og kýr sem fá einkunnina 5 eru akfeitar.
Holdafar íslenskra mjólkurkúa hafði ekki verið sérstaklega rannsakað og flestar innlendar ráðleggingar í þeim efnum eru byggðar á erlendum rannsóknum. Þetta varð kveikjan að því að ráðist var í rannsókn með það að markmiði að meta holdafar íslenskra mjólkurkúa og áhrif þess á afurðir, frjósemi og heilsufar. Verkefnið var meistaraverkefni Jóhannesar Kristjánssonar við LbhÍ, leiðbeinendur voru Jóhannes Sveinbjörnsson og Berglind Ósk Óðinsdóttir. Á árunum 2021–2022 var framkvæmd gagnasöfnun á 7 kúabúum í þessum tilgangi. Tvö þeirra voru á Suðurlandi, tvö á Vesturlandi og þrjú á Norðvesturlandi.
Öll búin voru lausagöngufjós með mjaltaþjóni og svipuðu gjafafyrirkomulagi. Gagnasöfnun fór þannig fram að kýr og kvígur komnar að burði voru holdastigaðar með um mánaðar millibili yfir um 12 mánaða tímabil. Samhliða var gögnum um afurðir, heilsufar og frjósemi safnað ásamt lífþunga á fjórum búum. Yfir tímabilið söfnuðust 7.762 holdastigsmælingar á 906 gripum. Við uppgjör gagnanna var kúnum skipt í þrjá hópa eftir því á hvaða mjaltaskeiði þær voru: (fyrsta), 2. (öðru) og 3.+ (þriðja eða hærra).
Þróun holdastigs
Meðalholdastig íslenskra mjólkurkúa í þessari rannsókn reyndist 3,37. Kýr á 2. mjaltaskeiði reyndust holdrýrari að meðaltali (3,33) en kýr á 1. mjaltaskeiði (3,38) og kýr á 3.+ mjaltaskeiði (3,39). Holdmestar eru kýrnar á geldstöðu, um 3,5 og holdafar hélst almennt nokkuð stöðugt á þeim tíma. Eins og sjá má á Mynd 1 þá nýta kýr hold hratt á fyrstu dögum eftir burð. Kýr á 1. mjaltaskeiði misstu 0,38 holdastig að meðaltali og náðu lágmarki á 3. viku eftir burð en eldri kýrnar misstu mun meira, 0,61 mjaltaskeið og stóð holdatapið fram að 6. viku eftir burð að meðaltali.

Í rannsókninni var nokkur munur á þróun holdastigs milli mjaltaskeiða. Kýr á 1. og 3.+ mjaltaskeiði bættu á sig svipuðum holdum á 300 daga mjaltaskeiði og þær misstu í byrjun
þess. Það er þó tilhneiging hjá kúm á 3.+ mjaltaskeiði að bæta meira á sig en þær misstu, sérstaklega ef mjaltaskeiðið var lengra en 300 dagar. Kýr á 2. mjaltaskeiði náðu að meðaltali ekki að bæta upp það holdatap sem varð í byrjun mjaltaskeiðs á 300 dögum en möguleg skýring á því eru auknar fóðurþarfir vegna vaxtar sem mögulega er ekki tekið tillit til í kjarnfóðurgjöf. Kýr á 2. mjaltaskeiði reyndust í rannsókninni umtalsvert léttari (491 kg) en eldri kýr (528 kg) og því má áætla að átgeta þeirra sé minni og að þær nýti hluta fóðurorkunnar í vöxt. Þetta gefur til kynna að kjarnfóðurþörf kúa á 2. mjaltaskeiði sé önnur en eldri gripa og ágóði gæti fengist af því að hafa sérstaka fóðurtöflu fyrir þær í mjaltaþjónafjósum. Af sömu ástæðu má ætla að kjarnfóðurþörf eldri kúa sé þá ögn ofmetin sem veldur hættu á að gripir fitni um of á mjaltaskeiðinu. Í rannsókninni kom síðan skýrt fram að hold fyrir burð hefur mikil áhrif á holdatap eftir burð. Holdmiklar kýr fyrir burð misstu marktækt meiri hold en holdminni kýr. Holdminnstu kýrnar fyrir burð (≤2,5 ) bættu lítillega á sig holdum, um 0,05 HS, en til samanburðar tapaði holdmesti hópurinn fyrir burð (≥4,0 HS) að meðaltali 0,76 holdastigum eftir burð.
Lítill munur reyndist á meðalholdastigi (3,41–3,55) milli flestra búanna en tvö þeirra voru þó með marktækt lægri meðalholdastig hjarðar, eða 3,18 og 3,00. Á öllum búunum var mikill einstaklingsbreytileiki innan hjarða og mátti finna bæði feitar kýr og grannar kýr.
Holdafar hafði áhrif á sjúkdóma og frjósemi
Holdafar á mjaltaskeiði var borið saman við sjúkdómaskráningu búanna samkvæmt skýrsluhaldskerfinu Huppu. Helsta niðurstaða þess var að kýr sem holdastiguðust 3,75 eða meira 0–30 dögum fyrir burð voru mun líklegri til að greinast með sjúkdóma eftir burð í samanburði við kýr sem holdastiguðust 3,25–3,5 fyrir burð (sjá Mynd 2.). Þessi áhrif reyndust línuleg og því meiri líkur á sjúkdómum eftir því sem kýrnar voru feitari fyrir burð. Benda má á að júgurbólga var 56% af skráðum sjúkdómatilfellum í rannsókninni. Mikilvægt virðist því vera upp á heilbrigði mjólkurkúa að koma í veg fyrir að kýr fitni um of á mjaltaskeiðinu. Æskilegt er að fylgjast vel með holdum kúa og draga úr kjarnfóðurgjöf til holdmeiri kúa.

Tengsl fundust á milli frjósemi og holdafars íslenskra mjólkurkúa í rannsókninni. Dagar frá burði að fyrstu sæðingu reyndust vera fleiri hjá þeim kúm sem upplifðu meira holdatap í upphafi mjaltaskeiðsins, eða um 8,6 dagar á hvert HS sem tapaðist eftir burð. Kýr sem missa mikil hold eftir burð eru því líklegri til að upplifa skerta frjósemi. Líkleg orsakatengsl eru að orkuskortur og neikvætt orkujafnvægi seinki fyrsta egglosi eftir burð. Holdastig fyrir burð hafði ekki marktæk áhrif á daga frá burði að fyrstu sæðingu. Engin marktæk tengsl fundust á milli fjölda sæðinga og holdafars í rannsókninni.
Sterk tengsl við mjólkurlagni
Sterk tengsl reyndust vera á milli holdataps og mjólkurframleiðslu hjá íslenskum kúm. Holdatap eftir burð hafði jákvæð tengsl við mjólkurframleiðslu á öllum tímabilum mjaltaskeiðsins, þ.e. frá degi 10–300 frá burði. Ólíkt því sem vænta mátti voru áhrifin ekki mest á því tímabili þegar mesta holdatapið á sér stað heldur seinna á mjaltaskeiðinu. Það er því ljóst að grannar kýr hafa takmarkaðan holdaforða til að ganga á sem er líklegt til að takmarka mjólkurframleiðslu. Á Mynd 3 má sjá að kýr sem missa ≤0,25 holdastig eftir burð mjólka marktækt minna en kýr sem missa ≥1 holdastig eftir burð á öllum tímabilum mjaltaskeiðsins. Línuleg tengsl voru á milli holdaforða fyrir burð og holdataps eftir burð og því ljóst að mikill holdaforði fyrir burð virðist forsenda mikils holdataps eftir burð.

Lokaorð
Samkvæmt niðurstöðum þessarar rannsóknar skiptir holdafar töluverðu máli fyrir afurðir og heilsufar íslenskra mjólkurkúa. Æskilegt holdastig íslenskra mjólkurkúa fyrir burð liggur á bilinu 3,25–3,5. Þetta er það holdastig sem stefna ætti á að kýr séu í við byrjun geldstöðu og haldist stöðugar fram að burði. Eftir burð er eðlilegt að kýr falli í holdastigi niður í 2,5–3,0 á fyrstu 60 vikunum eftir burð en ættu svo rólega að safna holdum á mjaltaskeiðinu til að ná holdastiginu 3,25–3,5 við byrjun geldstöðu. Einungis 47% kúa í rannsókninni voru innan þessara marka á geldstöðunni sem getur varla talist gott. Mun algengara var að kýr væru of feitar en um 17% kúa holdastiguðust 4,0 eða meira við burð, sem eykur þá verulega líkur á sjúkdómum. Betri árangur væri æskilegur í þessum efnum. Íslenskar kýr eru býsna breytilegar t.d. hvað varðar stærð, átgetu og afurðir. Því virðist vera nauðsynlegt að stýra fóðrun betur á einstaklingsgrunni til að árangur verði sem bestur og koma í veg fyrir að kýr fitni um of fyrir burð. Regluleg holdastigun væri þar lykilþáttur í að stýra kjarnfóðurgjöf á þann hátt að holdasöfnun verði passleg. Erlendis þekkist að sérhæfðir ráðgjafar bjóði upp á slíka þjónustu fyrir bændur og mögulega væru viðskiptatækifæri í því hérlendis. Einnig geta bændur vel framkvæmt holdastigun á eigin búum með smá æfingu og góðum leiðbeiningum. Samhliða rannsókninni voru útbúnar leiðbeiningar á íslensku fyrir holdastigun ætlaðar fyrir íslenskar kýr. Þær má finna ásamt nánari upplýsingar um rannsóknina í meistararitgerð Jóhannesar Kristjánssonar, Holdafar íslenskra mjólkurkúa. Áhrif á afurðir, heilsufar og frjósemi, sem finna má inn á skemman.is.