Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Einföld plöntupressa.
Einföld plöntupressa.
Mynd / VH
Á faglegum nótum 20. janúar 2022

Herbarium Islandicum

Höfundur: Vilmundur Hansen

Þegar talað er um þurrkuð plöntusöfn getur verið um að ræða plöntu­hluta eða heilar plöntur sem hefur verið safnað, þær þurrkaðar og oftast settar upp á pappír til varðveislu og rannsókna. Í öðrum tilfellum eru varðveitt eintök geymd í umslögum eða kössum og á það oft við um söfn af mosum og sveppum.

Við fyrstu sýn kunna þurrkaðar plöntur sem festar eru á blað ekki virst mikið fyrir augað, hvað þá að þær kunni að geyma mikilvægar vísindalegar upplýsingar. Raunin er reyndar sú að í fallega uppsettu plöntusafni sameinast listir og vísindi og það er eitthvað rómantískt við það.

Ilmbjörk.

Sjálfur man ég, sem nemi við grasagarðinn í Kew, að mér var rétt sýni, sem við nánari skoðun kom í ljós að var hluti að safni Charles Darwin, sem hann þurrkaði og setti upp í ferð sinni með Beagle til Galapagoseyja árið 1835. Fyrir mér var þetta eins og að vera með málverk eftir Van Gogh milli handanna.

Upphaflega var heitið herbarium notað yfir bækur um lækningamátt plantna en í kringum aldamótin 1700 notaði franski grasafræðingurinn Joseph Pittin de Tournefort það til að lýsa þurrkuðum plöntusöfnum og er heitið notað á mörgum tungumálum. Heitið xylarium er notað yfir söfn viðartegunda, fungarium yfir sveppasöfn og hortorium yfir plöntusöfn sem tengjast garðyrkju og ræktun.

Horti sicci

Þurrkuð plöntusöfn eiga sér langa sögu en upphaf þeirra er rakið til Ítalíu og þess sem var kallað Horti sicci sem þýðir þurr garður. Safn ítalska læknisins og grasafræðingsins Luca Ghin (1490 til 1556) frá 1544 er elsta plöntusafn sem til eru um heimildir en því miður er safnið glatað. Aftur á móti er safn Gheranrdo Cibo (1512 til 1600), nemanda Ghin, enn til og varðveitt í Róm.

Flórumiðar úr safni Ágústs H. Bjarnasonar grasafræðings.

Framan af voru uppsettar plöntur á pappír bundnar saman í bækur en Svíinn Carl von Linné (1707 til 1778) mun hafa verið með þeim fyrstu til að geyma blöðin í lausu í rekkum eða skúffum til að hægara væri að skoða hverja plöntu.

Gildi plöntusafna

Vinsældir grasafræði hafa farið dalandi undanfarna áratugi og víða í háskólum um heim hefur deildum sem sinna fræðigreininni verið lokað og fjárskortur leitt til þess að merkileg plöntusöfn liggja undir skemmdum eða hefur verið fargað. Á sama tíma hefur verðmæti góðra plöntusafna aukist.

Gríðarleg vinna liggur að baki góðu vísindalegu plöntusafni, söfnun, greining, þurrkun og uppsetning, auk þess sem geymsla á stórum söfnum er plássfrek og þarfnast sérstaks húsnæðis ef vel
á að vera.

Eftirspurn eftir þurrkuðum plöntum og þá sérstaklega eldri söfnum er að aukast víða um heim. Þar sem fáir eru að safna plöntum vantar víða tegundir inn í stór söfn og verð á þeim hefur verið að hækka og dæmi um að plöntusafn hafi selst fyrir gott íbúðarverð hér á landi.

Hluti af grasasafni Kew grasagarðsins.

Gildi þurrkaðra plöntusafna er gríðarlegt og ekki síst nú á tímum þegar líffræðileg fjölbreytni flórunnar er á undanhaldi, en dæmi eru um að sýnishorn af plöntum sem hafa dáið út séu varðveitt í plöntusöfnum. Þurrkaðar plöntur hafa því ótvírætt vísindalegt gildi þar sem þær varðveita útlit og lögun plantnanna og ekki síst erfðaefni þeirra. Auk þess sem herbarium-söfn eru notuð til að greina tegundir, rannsóknir á erfðaefni, kanna útbreiðslu plantna og þegar ákvarðanir um verndun svæða eru teknar og við kennslu.

Þurrkuð plöntusöfn og upp­lýsingar­nar sem þeim fylgja, að lágmarki fundarstaður og dagsetning fundar, geta veitt mikilvægar upplýsingar um breytingar á gróðurfari og flóru vegna loftslagsbreytinga og annarra breytinga á vistkerfinu.

Gildi safnanna er ekki síst mikið ef það inniheldur það sem er kallað „type species“, eða nafneintak, sem notað hefur verið til að greina tegundina. Vegna þessa eru mörg gömul grasasöfn mikilvæg ef upp kemur ágreiningur um greiningu tegunda.

Plöntusöfn víða um heim

Sem betur fer eru enn til myndarleg grasasöfn. Stærst slíkra er safnið í náttúrugripasafninu í París og telur það um 9,5 milljón eintök, í safni Kew grasagarðsins í London eru um sjö milljón eintök.

Xylarium viðarsafn.

Stærstu söfnin í Bandaríkjum Norður-Ameríku er að finna í grasagarðinum í Bronx í New York, um 7,2 milljón eintök, og í grasasafni Missuouri háskóla, 6,2 milljónir, og síðan safn Harvard háskóla, sem telur ríflega fimm milljón sýnishorn af þurrkuðum plöntum.

Auk þess eru til stór söfn í Afríku, Suður-Ameríku, Asíu og ýmsum löndum sem sérhæfa sig í söfnun plantna frá ákveðunum svæðum. Í flestum plöntusöfnum er tegundum raðað saman og síðan eftir ættkvíslum til að auðvelda aðgang að þeim.

Mörg þessara safna ásamt upplýsingum um hverja plöntu fyrir sig eru aðgengileg til skoðunar á netinu.

Söfn Náttúrufræðistofnunar Íslands

Samkvæmt upplýsingum á heima- síðu Náttúrufræðistofnunar Íslands eru varðveitt um 200 þúsund eintök af há- og lágplöntum, mosum, fléttum, þörungum og sveppum, í plöntusöfnum stofnunarinnar og þar af eru rúmlega 150 þúsund skráð í gagnagrunna.

Söfnunum er skipt eftir lífveru­hópum í safn æðplantna, mosa, fléttna, sveppa og þörunga. Safneintök eru varðveitt þurrkuð og innihalda söfnin stóran hluta íslenskra tegunda. Tilgangur safnanna er að varðveita eintök allra íslenskra plöntu- og sveppategunda til að sýna breytileika þeirra og útbreiðslu. Söfnin eru einkum nýtt við rannsóknir í flokkunarfræði, líflandafræði og þróunarsögu.

Nafneintak úr plöntusafni Kew grasagarðsins. Charles Darwin þurrkaði og setti plöntuna upp í ferð sinni til Galapagoseyja árið 1835.

Plöntu- og sveppasöfn Náttúru- fræðistofnunar eru skráð í gagnagrunn samkvæmt alþjóðlegum Darwin Core-staðli sem er notaður til að deila upplýsingum tengdum líffræðilegum fjölbreytileika. Hægt er að nálgast hluta af gögnunum, þar á meðal lýsingu á tegundum og útbreiðslu þeirra, á staðreyndasíðum í flokkunarkerfi lífríkis og á vefnum Flóra Íslands. Þeim er einnig miðlað á erlendum vefjum eins og Global Biodiversity Information Facility og Encyclopedia of Life.

Hvað á að geyma og hvernig?

Til þess að plöntur í plöntusafni nýtist sem best er mikilvægt að allir hlutar hennar, rót, stöngull, blöð, blóm, aldin og fræ, fylgi með. Þetta er vel mögulegt þegar um minni plöntur er að ræða en hvað varðar stórar plöntur og tré verður stundum að láta sér nægja hluta þeirra og þá helst sýnishorn af sem flestum hlutum.

Þegar plöntur eru teknar til varðveislu í þurrkuð plöntusöfn er gott, ef hægt er, að greina viðkomandi plöntu fyrst. Best er safna í þurru veðri á þeim tíma sem plantan er með fulla safaspennu svo hún haldi lögun sinni sem best. Eftir að planta er tekin upp er hún lögð á pappír, helst þerripappír, þannig að lögun hennar sjáist vel.

Herbarium Islandicum Stefáns Stefánssonar.

Því næst er annar pappír settur ofan á og samlokan sett í plöntupressu eða undir farg, milli tréplatna, og nauðsynlegt er að skipta um pappír að minnsta kosti einu sinni á sólarhring fyrst um sinn.

Að lokum, eftir að planta er orðin þurr, er hún fest á þokkalega stífan pappír af stærðinni A3 eða A4 með pappírsræmu með lími á endunum sem lögð er þéttingsfast yfir ólíka plöntuhluta. Einnig er hægt að sauma þykka plöntuhluta við pappírinn með góðum þræði.

Upplýsingar með heiti plöntunnar, fundarstað, dagsetningu fundarins, nafni finnanda og annað sem safnandinn vill að komi fram, er síðan skráð á merki- eða flórumiða sem límdir eru á örkina með plöntunni. Arkirnar eru best geymdar í öskjum og ekki of margar ofan á hver annarri. Í eina tíð áttu margir plöntusafnarar sína persónulegu og sérprentuðu flórumiða sem merktir voru með nafni.

Plöntusafn garðyrkjunema

Nemendum Garðyrkjuskólans á Reykjum er gert að skila litlu plöntusafni með 40 tegundum af villtum íslenskum plöntum, 20 tegundum af trjám og runnum og 20 tegundum af garðblómum, 10 af sumarblómum og 10 af fjölærum jurtum, sem hluta af áfanga sem kallast Flóra Íslands.

Hrafnafífa.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...