Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Yfirlitsmynd úr fjárhúsum. Við enda gangsins er Keenan-heilfóðurvagn sem er notaður við gjafir.
Yfirlitsmynd úr fjárhúsum. Við enda gangsins er Keenan-heilfóðurvagn sem er notaður við gjafir.
Mynd / Jóhannes Sveinbjörnsson
Á faglegum nótum 19. febrúar 2025

Heimsókn á Norrby-sauðfjárbúið í Svíþjóð

Höfundur: Eyjólfur Ingvi Bjarnason og Jóhannes Sveinbjörnsson, sauðfjárbændur og starfsmenn RML og LbhÍ.

Á ferð okkar á Internorden-ráðstefnuna í Finnlandi í ágúst sl. heimsóttum við stærsta sauðfjárbú Svíþjóðar. Við erum að tala um Norrby Gård í Kungsör sunnan við Mälaren-vatnið í Svíþjóð. Tomas Olsson hóf þar búskap ásamt Önnu, konu sinni, rétt fyrir aldamótin og byrjaði þá með 25 kindur en sauðfjárbúið hefur vaxið frá þeim tíma og í dag eru um 1.000 ær á fóðrum. Á búinu eru einnig örfáir holdagripir af Hereford- og Angus-kyni.

Jóhannes bragðar á ferskum maís. Mynd/Eyjólfur

Í Svíþjóð eru rúmlega 500 þúsund kindur en meðalbústærðin er rúmlega 30 kindur þannig að Norrby-búið er afar stórt sauðfjárbú á sænskan mælikvarða. Á Norrby er stunduð kornrækt og verktaka fyrir aðra bændur í nágrenninu, einkum við rúllubindingu og dreifingu á kalki, búfjáráburði og tilbúnum áburði. Tveir synir þeirra hjóna vinna við reksturinn, ekki síst við vélavinnuna. Til viðbótar er svo einn fjárhirðir sem sinnir gegningum, færir fé á milli hólfa og annað er til fellur við umhirðu fjárins hverju sinni. Afbragðs fjárhundar af Border Collie-kyni eru á búinu og mikið notaðir.

Helstu markmið Norrby-búsins eru að framleiða lambakjöt í sem bestum gæðum fyrir viðskiptavini á réttum tíma ásamt því að stunda góða búskaparhætti og viðhalda menningarlandslagi með sjálfbærri landnýtingu.

Norrby-búið er frumkvöðull í Svíþjóð með það að hafa tvö framleiðslutímabil, til að geta boðið upp á ferskt lambakjöt yfir lengra tímabil. Allt kjöt búsins fer til Kötthallen Sorunda sem er úrvinnsluaðili sem þjónustar veitingahúsamarkaðinn í Stokkhólmi. Fyrra framleiðslutímabilið eru vorlömb en þá eru um 400 ær látnar bera um áramótin og lömbin alin innandyra í sláturstærð og slátrað frá byrjun mars til byrjun maí uns ákjósanlegri sláturstærð er náð. Þessi lömb eru að meðaltali með 15–16 kg fallþunga með holdfyllingu U eða betri og í fituflokk 3. Við þessa framleiðslu eru nýttar Finndorset-kindur á móti hreinræktuðum hrútum af Texel- kyni. Við spurðum hvort ekki væru vandamál tengd þessari innistöðu lambfjárins, sjáandi fyrir okkur það ástand sem skapast gjarnan á íslenskum sauðfjárbúum þegar halda þarf lambfé inni lengur en 1–2 vikur eftir burðinn. Tomas sagði hægt að koma í veg fyrir flest vandamál í þessu efni með því að hafa nægilega rúmt á fénu, loftræsta húsin vel og síðast en ekki síst, að hafa góðan undirburð. Á Norrby er lögð áhersla á að hafa nægan og góðan hálm fyrir það hlutverk.

Við vorum á ferðinni á sólríkum degi og kindurnar leituðu flestar á skuggsælan stað í skjóli trjágróðurs. Mynd / Jóhannes Sveinbjörnsson

Seinna framleiðslutímabilið er meira hefðbundið, sauðburður er í apríl og lömbin fara í slátrun frá miðjum ágúst fram í desember. Þessi lömb eru alin utandyra á beit og ákjósanleg sláturstærð er við 20–22 kg fallþunga, holdfyllingu R+ eða betri og fituflokk 3. Í þessari framleiðslu er hinn hlutinn af ánum á búinu notaður en ásamt Finndorset- blendingum eru til hreinræktaðar ær af Dorset, Finnsheep, Texel og Suffolk kynjum. Í kynbótastarfi búsins eru sæðingar nýttar reglulega til að sækja nýtt erfðaefni og er þá flutt inn sæði frá Englandi þar sem skipulagt kynbótastarf í Svíþjóð er ekki sambærilegt og hér á Íslandi.

Á innistöðutíma eru gripirnir fóðraðir á heilfóðri og lömbin sem eru alin innandyra fá kjarnfóður samhliða mjólk frá mæðrum sínum. Að mati Tomasar er lykillinn að góðum árangri góðar ær með frábæra móðurhæfileika. Þess vegna er meirihlutinn af ánum Finndorset-blendingar þar sem góðir móðureiginleikar koma frá Finnsheep og sveigjanleiki í framleiðslutímabili frá Dorset, þ.e. ekki þarf hormón til að koma beiðslum af stað síðsumars.

Jóhannes og Tomas ræða málin í aðstöðunni þar sem allt fjárrag á sér stað, holdastigun, vigtun, ormalyfsgjöf o.s.frv.
Mynd / Eyjólfur Ingvi Bjarnason

Í skýrsluhaldi sínu vinnur Tomas með eftirfarandi eiginleika: Holdastigun fjórum sinnum á ári, þyngd ánna, fjöldi fæddra lamba, fjöldi lamba til nytja, burðarhjálp/ aðstoð við burð, klaufaklipping og umhirða fóta, 100 daga þungi lamba í samanburði við þyngd móður, heilsufar og almennt heilbrigði ánna. Ef þessir hlutir eru allir í lagi þá verða afurðir búsins í samræmi við tilkostnað og vinnu á búinu.

Beitarstjórnun og beitarskipulag er mjög mikilvægur þáttur í bústjórninni á Norrby-búinu en gripum er víxlað reglulega á milli beitarhólfa til að beitin nái að endurnýja sig og eru holdagripirnir nýttir sem hluti af skiptibeitar fyrirkomulagi. Samhliða þessu eru saursýni reglulega greind og notkun ormalyfja stillt af út frá niðurstöðum þeirra. Jörðin er um 250 ha að stærð í heild sinni, þar af 60 ha skóglendi sem er nýtt til beitar en annað land er ræktanlegt og um 140 ha eru graslendi á hverjum tíma fyrir sig. Annað land er nýtt til annarrar ræktunar svo sem korns sem er bæði nýtt fyrir búið en einnig selt á markað. Fóðurþörf búsins er 600 tonn þurrefnis af gróffóðri (ca 2.500 rúllur), 70 tonn af korni, 20 tonn af auka próteingjafa í heilfóður. Svo þarf 100 kg af hálmi á hverja kind í undirburð en þegar við komum þarna í ágúst var verið að moka út úr fjárhúsunum. Nýjasta viðleitnin í fóðurframleiðslunni er ræktun á maís til að gera maísvothey. Árangur af þeirri ræktun og verkun er framar vonum.

Við alla upplýsingaöflun eru örmerki í hverjum grip nýtt til að safna saman upplýsingum og notar Tomas hugbúnað frá FarmIt í Bretlandi til að greina öll gögnin. Úr þeim hugbúnaði er síðan einfalt að útbúa skrár til að safna saman upplýsingum og senda í sameiginlegan skýrsluhaldsgrunn í Svíþjóð.

Það var ákaflega gaman að koma í heimsókn til Tomasar á Norrby- búið en skilaboð hans til þeirra sem vilja ná árangri í sauðfjárrækt er að menn taki stjórn á gæðum beitar og grass, gæðum jarðvegs, hafi stjórn á sníkjudýrum ásamt því að hafa stjórn á kynbótum. Lykilatriði þarna er að safna gögnum og skrásetja því ef það er ekki gert þá er ekki hægt að hafa stjórn á neinum af framangreindum þáttum.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...