Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Hefðbundin heimajarðgerð og aðrar óhefðbundari
Á faglegum nótum 14. maí 2021

Hefðbundin heimajarðgerð og aðrar óhefðbundari

Höfundur: Brynja Þórarinsdóttir, Sigrún Eir Þorgrímsdóttir, Skírnir Þór Sigfússon, Þóranna Dögg Björnsdóttir og Guðrún Kristín Svavarsdóttir,

Í fjölbýlu borgarsamfélagi samtímans hafa margir lítil sem engin tengsl við náttúruna. Af þeim sökum minnkar einnig tengingin við jarðveginn, það efni sem er hvað mikilvægast fyrir lífsviðurværi okkar. Jarðvegurinn er hluti kerfisins sem nærir lífið; náttúruleg kolefnisgeymsla sem líkt og loft og vatn gerir lífið á jörðinni mögulegt.

Umhverfisvernd er stærsta sameiginlega ábyrgðarhlutverk okkar mannanna í dag og stór þáttur í að stuðla að umhverfisvernd er að skila frá sér minni úrgangi. Endurvinnsla á hug okkar allan þessa dagana en hér ætlum við að fjalla um jarðgerð/moltugerð.

Jarðgerð er stýrt ferli

Niðurbrot lífrænna efna gerist frekar hægt í náttúrunni. Með jarðgerð er leitast við að flýta ferlinu með því að skapa kjöraðstæður fyrir örverur og smádýr. Molta er mismikið niðurbrotið efni, stútfullt af næringarefnum. Jákvæð áhrif moltu eru einnig fólgin í aukinni heldni jarðvegs á næringarefni, loftun hans og vatnsbúskap. Athygli og áhugi almennings og sveitarfélaga hefur verið vakinn á mikilvægi þess að koma sem mestu af lífrænum úrgangi aftur í umferð. Ýmsar leiðir eru færar að því markmiði, skoðum þær aðeins betur.

Jarðgerð er stýrt ferli og afurð hennar fer algjörlega eftir því sem sett er í kassann og eru margar breytur sem má hafa stjórn á. Þá er hægt að haga því þannig að jarðgerðin klárist á nokkrum vikum upp í nokkra mánuði. Hefðbundið jarðgerðarferli sem flestir þekkja er að nota tunnur eða önnur ílát þar sem garðaúrgangi og matarleifum er safnað saman til að hraða niðurbroti. Hægt er að fara nokkrar leiðir við jarðgerðina. Heit jarðgerð fer fram í lokuðu einangruðu íláti, oftast úti í garði. Í ílátið má setja garðaúrgang og lífrænar leifar frá heimilinu. Önnur sambærileg aðferð kallast volg jarðgerð og fer fram í opnu íláti, trékassa eða tunnu, líka úti í garði. Að lokum má nefna kalda jarðgerð sem fer fram í lokuðu íláti þar sem ánamaðkar sjá alfarið um niðurbrotið. Það getur farið fram innan dyra eða utan.

Ánajarðgerð í eldhúsinu

Ein leið til að breyta eldhúsúrgangi í áburð er með ána-/ormajarðgerð. Hér á landi hefur fólk verið með box eða fötu inni hjá sér í þvottahúsi, bílskúr eða jafnvel í eldhúsinu. Ormarnir sem notaðir eru í ferlið eru sérstakir rauðir haugánar. Til að byrja með ormabú þarf eftirfarandi: Uþb. 40 lítra dökkt plastbox (því ormarnir vilja vera í myrkri), jarðveg í botninn, niðurrifinn dagblaðapappír og rauða haugána. Á boxið þarf að setja súrefnisgöt og passa að þau séu ekki svo stór að ormarnir komist út um þau. Þeir geta annað um það bil þyngd sinni hvern dag. Raki þarf að vera hæfilegur í kassanum, ef hann er of lítill má úða aðeins með vatni en ef hann er of mikill þarf að bæta við dagblaðapappírsræmum. Þessi jarðgerð byggist á loftháðu ferli, þ.e. ormarnir þurfa súrefni til að vinna og þrífast. Það má ekki hitna of mikið í hrúgunni og þeir þurfa að ná að anna niðurbrotinu svo ekki komi lykt af öllu saman. Ferlið er einfalt og lyktarlaust ef fylgt er leiðbeiningum.

Bokashi-ferlið

Önnur áhugaverð innanhúss jarðgerð er svokölluð Bokashi- aðferð. Bokashi þarf ekki mikið pláss frekar en ormajarðgerðin. Henni má koma fyrir í bílskúrnum, þvottahúsinu eða undir eldhúsvaskinum. Smátt skornum matarafgöngum og lífrænu efni er safnað í fötuna, sérstökum hvata stráð yfir, þjappað lítillega og lokað og hefst þá ferlið. Smám saman fyllist fatan og þá er hún látin standa í mánuð á meðan fata númer tvö er fyllt. Við þetta fellur til vökvi, mismikill eftir hráefninu sem í fötuna fer. Vökvanum má tappa af og nýta sem blómaáburð ef hann er þynntur með vatni eða niðurfallshreinsi ef notaður einn og sér. Gott er að grafa holu til að tæma úr fötunni í eða beint ofan á beð en vegna þess hve afurðin er súr er ekki æskilegt að setja hana strax við rætur plantna. Bokashi brýtur lífræna efnið ekki niður heldur sýrir það svo það brotnar auðveldlega niður þegar það kemur út í náttúruna. Þetta er loftfirrt ferli og leysir úrgangurinn hvorki kolefni né nitur út í andrúmsloftið líkt og gerist í hefðbundinni moltugerð og skilar að lokum kolefnunum aftur í jarðveginn.

Lokaorð

Jarðgerð er fyrir alla, konur og kalla. Hægt að stunda hana hvar sem er, í íbúð eða húsi, uppi í sveit eða í bæ og borg. Jarðgerð/safnhaugagerð er ferli þar sem maðurinn notast við náttúrulega ferla, breytir lífrænu hráefni í moldarkennt efni eða afurð sem kallast molta. Lífrænn úrgangur eru verðmæti sem á að nýta en ekki losa sig við. Úrgangur er auðlind.

Skylt efni: Jarðgerð

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...