Dalvar frá Efsta-Seli stóð efstur í fimm vetra flokki stóðhesta og hlaut hæstu aðaleinkunn ársins.
Dalvar frá Efsta-Seli stóð efstur í fimm vetra flokki stóðhesta og hlaut hæstu aðaleinkunn ársins.
Á faglegum nótum 6. janúar 2026

Hæstu kynbótahross ársins 2025

Höfundur: Þorvaldur Kristjánsson, ráðunautur í hrossarækt hjá RML.

Það má segja að íslensk hrossarækt sé ein sú metnaðarfyllsta í heimi. Við erum að sameina í einum og sama hestinum frammistöðu sem ræktendur annarra kynja láta mörgum mismunandi hestakynjum eftir að framkvæma. Við erum til að dæmis að sameina burðargetu þar sem hrossin hvíla í skrefinu á hægri ferð með getunni til að teygja úr sér á yfirferðargangi með mikilli snerpu og flýti. Við höfum verið að fá fram í gegnum tíðina hross sem búa yfir burði og eðlisfótlyftu á hægu tölti og einnig úrvals skeiðgetu og þetta hafa oftast verið afar farsæl hross í ræktun. En þá eru nú einnig að koma fram hross í mun ríkari mæli en áður sem sameina skeiðgetu og gott hægt stökk. Einnig eru við að sameina margar víddir í geðslaginu; getuna til að taka á en jafnframt hæfnina til að slaka á, og mismunandi hestgerðir hvað varðar vilja og næmni. Þá erum við að ná fram mun heilsteyptara byggingarlagi í hrossin á undanförnum árum þar sem framhæð hrossa hefur til dæmis stórbatnað sem skapar meiri burðargetu og einfaldara þjálfunarferli. Og það merkilega er; við erum að góðri leið með þetta allt saman. Við erum með hestakyn í höndunum sem býr yfir ótrúlegum möguleikum og margir gera sér kannski ekki fyllilega grein fyrir hversu metnaðarfullt markmiðið er með ræktun hans og hversu mikið hefur áunnist á stuttum tíma.

Fjögurra vetra flokkur hrossa

Afar breiður hópur frábærra hrossa kom til dóms í ár. Eins og kom fram í fyrri grein í haust var mæting til dóms sérlega góð í ár og þegar efstu hrossin eru skoðuð er afar athyglisvert hversu fjölhæf þau eru. Í fjögurra vetra flokki voru sýndir 87 stóðhestar og 75 hryssur í ár. Efsti fjögurra vetra folinn er Hengill frá Hestkletti, undan Þráni frá Flagbjarnarholti og Þökk frá Prestsbæ en sú er undan Gjafari frá Hvoli og Þoku frá Hólum. Hengill er jarpskjóttur og stólpamyndarlegur hestur; hálslangur, reistur og lofthár með afar virkjamikið skref; flugefnilegur hestur með 8,5 fyrir tölt og 9,0 fyrir brokk. Hann hlaut 8,40 í aðaleinkunn. Með aðra hæstu einkunn ársins eða 8,37 er Knörr frá Ketilsstöðum, undan Styrk frá Leysingjastöðum II og Snekkju frá Ketilsstöðum, en hún er undan Alvari frá Syðri-Gegnishólum og Ljónslöpp frá Ketilsstöðum. Knörr er vel gerður foli, brúnn að lit, skrefmikill og efnilegur alhliða hestur. Með þriðju hæstu einkunn ársins, 8,32 er Kjarval frá Sámsstöðum, móálóttur að lit, undan Skýr frá Skálakoti og Spunadótturinni List frá Sámsstöðum. List er farin að skila góðum hrossum en undan henni og Adrían frá Garðshorni á Þelamörk var í fyrra sýnd hryssan Orka frá Sámsstöðum með 9,5 fyrir skeið fjögurra vetra gömul. Kjarval er efni í frábæran alhliða hest með mjúkar hreyfingar og mikið framgrip.

Salóme frá Hellubæ stóð efst í fjögurra vetra flokki hryssna.

Efsta hryssan í fjögurra vetra flokki er Salóme frá Hellubæ, undan Álfakletti frá Syðri-Gegnishólum og Hamingju frá Hellubæ, en hún er undan Aðli frá Nýjabæ og Þulu frá Hellubæ. Hamingja stóð efst í fjögurra vetra flokki hryssna á Landsmóti 2014. Athyglisvert er að Aðalsdætur eru víða að skila afbragðshrossum þessi misserin. Salóme er brún að lit, fínleg og falleg hryssa og hestagull í allri framgöngu. Óvenjulega burðarmikil af svo ungu hrossi, hágeng og fasmikil en hún hlaut 8,44 í aðaleinkunn. Með aðra hæstu einkunn er Glíma frá Grund II, undan Glúmi frá Dallandi og Grund frá Grund II sem er undan Andvara frá Ey I og Glímu frá Vindheimum en sú var undan Mekki frá Varmalæk. Grund hefur verið að skila góðum hrossum til dóms að undanförnu og afar fallegum og er Glíma fjórða afkvæmið til að koma til dóms. Glíma er rauð að lit, með sterka yfirlínu og öfluga fótagerð, skreflöng og mikið hágeng. Hún hlaut 8,39 í aðaleinkunn. Með þriðju hæstu einkunn ársins er undradýrið Krafla frá Hveragerði, brún, undan Kveik frá Stangarlæk 1 og Daggarbrá frá Hveragerði en sú er undan Stála frá Kjarri og Glitbrá frá Hveragerði. Krafla er stórglæsileg í byggingu; fótahá og jafnvægisgóð. Þá er hún sérstakt útgeislunarhross en hún hlaut 9,5 fyrir fegurð í reið og er einungis önnur hryssan í sögunni til að hljóta þá einkunn aðeins fjögurra vetra gömul en Álfhildur frá Syðri-Gegnishólum náði því á Landsmóti 2012. Krafla hlaut 9,0 í einkunn fyrir bæði hægt tölt og hægt stökk og 8,38 í aðaleinkunn.

Fimm vetra flokkur hrossa

Í fimm vetra flokki voru sýndir 117 stóðhestar og 192 hryssur. Efsti stóðhesturinn í fimm vetra flokki er Dalvar frá Efsta-Seli, undan Adrían frá Garðshorni á Þelamörk og Arionsdótturinni Lóu frá Efsta-Seli. Dalvar er brúnn að lit og stórglæsilegur, ákaflega jafnvígur mýktargæðingur og hlaut hæstu aðaleinkunn sem fimm vetra hross hefur hlotið eða 8,99. Með aðra hæstu einkunn ársins er Börkur frá Kráku, móálóttur, undan Viðari frá Skör og Brák frá Baldurshaga, en sú er undan Roða frá Múla og Kengálu frá Búlandi og er því systir Arthúrs og Ellerts frá Baldurshaga að móðurinni. Fyrstu afkvæmi Viðars komu í dóm í fyrra og í ár og fer hann vel af stað með níu sýnd afkvæmi. Börkur hlaut hvorki meira né minna en 8,95 fyrir hæfileika; einkar jafnvígur með 9,0 í einkunn fyrir flestar gangtegundir og 8,81 í aðaleinkunn. Með þriðju hæstu einkunn ársins er Miðill frá Hrafnagili, undan Auði frá Lundum II og Gígju frá Búlandi en Gígja er undan Hrym frá Hofi og Óðsdótturinni Heklu frá Efri-Rauðalæk sem er mikil gæðingamóðir. Miðill er svartur að lit og öflugur hestur að allri gerð; með afar hvelfdan háls og skásetta bóga, þá er hann ótrúlega taktviss og öruggur í allri framgöngu af svona ungum hesti að vera. Skrefmikill og hágengur og sérstaklega magnaður á brokki sem hann hlaut 10 fyrir. Miðill hlaut 8,68 í aðaleinkunn.

Efsta hryssan í fimm vetra flokki er Alda frá Sumarliðabæ 2, undan Álfarni frá Syðri-Gegnishólum og Bylgju frá Einhamri, Stáladóttur, sem hefur verið að skila úrvalshrossum undanfarið. Alda er móálótt og hefur hátt settan og fínlegan háls og er fótahá. Þá er hún sérstaklega öflug á gangi svona ung að árum og fjölhæf en hún hlaut 9,00 í aðaleinkunn hæfileika. Alda hlaut 9,0 fyrir tölt, brokk, skeið og fet og 9,5 fyrir samstarfsvilja; einkar skrefmikil, hágeng og einörð í framgöngu með 8,71 í aðaleinkunn. Með aðra hæstu einkunn ársins er Óskastund frá Steinnesi, jörp, dóttir Adríans frá Garðshorni á Þelamörk og Óskadísar frá Steinnesi, Óskasteinsdóttur. Óskastund var fulltrúi Íslands á Heimsmeistaramótinu í Sviss í sumar þar sem hún stóð efst í sínum flokki. Óskastund er gerðarleg og sterkbyggð með afar öfluga lend. Þá er hún óvanalegt ganghross og sameinar mikla mýkt á tölti með flugaverkurð en hún hlaut 9,0 fyrir tölt og 9,5 fyrir skeið. Aðaleinkunn hennar var 8,65. Með þriðju hæstu einkunn ársins er svo Brynja frá Nýjabæ, brún að lit, undan Gljátoppi frá Miðhrauni og Gunnrúnu frá Nýjabæ. Sú er undan tveimur heiðursverðlaunahrossum frá Nýjabæ, þeim Aðli og Bliku, Keilisdóttur. Brynja er alhliða gæðingur; reist og skörungsleg með fallegar hreyfingar og mikla getu á öllum gangi. Hún hlaut 8,65 í aðaleinkunn.

Hetja frá Ragnheiðarstöðum stóð efst í flokki sex vetra hryssna.

Sex vetra flokkur hrossa

Í sex vetra flokki voru sýndir 83 stóðhestar og 232 hryssur. Með hæstu einkunn stóðhesta er Fenrir frá Finnastöðum, undan Þráni frá Flagbjarnarholti og Aþenu frá Akureyri, Þóroddsdóttur sem hefur verið að skila afar góðum hrossum til dóms og hlaut heiðursverðlaun fyrir afkvæmi í haust. Fenrir er jarpur að lit, reistur og prúður alhliða gæðingur; taktöruggur, gegnummjúkur og flugrúmur á tölti, viljugur og aðgengilegur. Hann hlaut 9,04 fyrir hæfileika sem er hæsta hæfileikaeinkunn ársins og 8,86 í aðaleinkunn. Með aðra hæstu einkunn ársins er Neisti frá Ytri-Skógum, rauðstjörnóttur, undan Konsert frá Hofi og Gefjuni frá YtriSkógum. Gefjun er undan Orra frá Þúfu og Hrefnu frá Ytri-Skógum. Hrefna er á bak við margan gæðinginn frá Ytri-Skógum og var undan Hrafni frá Holtsmúla og Snót frá Ytri-Skógum en sú var af Eyfellskum ættum og var skyldleikaræktuð útaf Blesa frá Núpakoti. Neisti er myndarhestur með sterka yfirlínu og er fjölhæfur gæðingur með 8,82 fyrir hæfileika og 8,72 í aðaleinkunn. Með þriðju hæstu einkunn ársins er Karl frá Kráku, brúnn, undan Viðari frá Skör og Sunnu frá Dverghamri, dóttur Trús frá Auðsholtshjáleigu og Tíbrár frá Selfossi. Karl kom fram í fyrra fimm vetra gamall og var sýndur á Landsmóti. Hann hefur nú bætt töluvert við sig og er jafnvígur alhliða hestur; myndarlegur með hvelfda yfirlínu og hlaut meðal annars 9,0 fyrir brokk og hægt tölt. Hann hlaut 8,66 í aðaleinkunn.

Með hæstu einkunn hryssna í sex vetra flokki er Hetja frá Ragnheiðarstöðum, brún, undan Þráni frá Flagbjarnarholti og Hendingu frá Úlfsstöðum, dóttur Jarls frá Búðardal og Hörku Sörladóttur frá Úlfsstöðum. Hetja er óvanalegt hross að byggingarlagi; afar fríð, fínleg, há að framan og lofthá. Hún er garpur á gangi; afar skrefmikil og rúm og flugviljug. Hún hlaut 8,83 í aðaleinkunn. Með aðra hæstu einkunn ársins er Ramóna frá Heljardal, undan Draupni frá Stuðlum og Auði frá Hofi, heiðursverðlaunahryssu undan Hróðri frá Refsstöðum. Ramóna er glóbrún stjörnótt, reistur stólpagripur, með 9,0 fyrir háls, herðar og bóga og 9,5 fyrir samræmi. Þá er hún afrekshross á gangi með 10 fyrir skeið, 9,5 fyrir stökk, 9,0 fyrir brokk og 8,82 í aðaleinkunn. Með þriðju hæstu einkunn ársins er Vala frá Vindási, rauðglófext, undan Adrían frá Garðshorni á Þelamörk og Gjöf frá Vindási. Sú er undan Þóroddi frá Þóroddsstöðum og Völku frá Vindási, Galsadóttur og hefur verið að skila úrvalshrossum til dóms. Vala er hestagull; fótahá og myndarleg, hreingeng og skrefmikil með 8,85 fyrir hæfileika og 8,76 í aðaleinkunn.

Hljómur frá Auðsholtshjáleigu stóð efstur í elsta flokki stóðhesta og
var einnig efstur í Heimsmeistaramótinu í Sviss.

Elsti flokkur hrossa

Í flokki sjö vetra og eldri hrossa voru sýndir 43 hestar og 263 hryssur. Með hæstu einkunn ársins á meðal stóðhestanna er Hljómur frá Auðsholtshjáleigu, undan Organista frá Horni og Tíbrá frá Auðsholtshjáleigu en það er heiðursverðlaunahryssa undan Gára frá Auðsholtshjáleigu. Hljómur varð efstur í sínum flokki á Heimsmeistaramótinu í Sviss í sumar og stóð sig þar með mikilli prýði. Hljómur er aðsópsmikill alhliða gæðingur sem hlaut meðal annars 9,0 fyrir samræmi og 9,5 fyrir bak og lend en lendin er uppteiknuð; jöfn, löng og vöðvafyllt. Þá er hann skrefmikill og viljugur með 8,78 fyrir hæfileika og 8,77 í aðaleinkunn. Með aðra hæstu einkunn ársins er Gauti frá Vöðlum, móálóttur, undan Glað frá Prestsbakka og Nótt frá Oddsstöðum. Nótt er heiðursverðlauna hryssa, undan Skorra frá Blönduósi og Njólu frá Oddstöðum I og er útaf hrossum frá Oddsstöðum í sex ættliði sem er magnað. Hún hefur skilað gæðingum í gegnum tíðina enda var hún afrekshryssa á gangi sjálf. Gauti er prýðilega gerður hestur, sérstaklega er samræmið gott; léttbyggður og fótahár. Þá er hann léttstígur og magnaður á gangi með 8,88 fyrir hæfileika, jafnvígur á tölt, brokk og skeið enda með 9,0 í einkunn fyrir þá eiginleika. Hann hlaut 8,72 í aðaleinkunn. Með þriðju hæstu einkunn ársins er Kjarni frá Korpu, rauður, undan Arion frá Eystra-Fróðholti og Eldingu frá Haukholtum, Hrynjandadóttur. Hann er því albróðir Apollos frá Haukholtum sem fórst illu heilli fyrir aldur fram en sannaði sig sem góður kynbótahestur og hefur skilað 34 hrossum til dóms. Kjarni er vel gerður hestur með sterka yfirlínu og magnaða hófa sem hann hlaut 10 í einkunn fyrir. Þá er hann mjúkur og fjölhæfur alhliða hestur með 8,78 fyrir hæfileika og 8,70 í aðaleinkunn.

Með hæstu einkunn í sjö vetra og eldri flokki hryssna er María frá Vatni, sem er rauðstjörnótt, undan Kiljan frá Steinnesi og Hrefnu frá Vatni, Álfsdóttur. Hrefna þessi hefur hlotið heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og á fimm dæmd afkvæmi, en María er hæst dæmda afkvæmi hennar. María er létt á bolinn, jafnvægisgóð með hátt settan, grannan háls. Hún er hreinn gæðingur á gangi með 9,0 fyrir tölt, brokk, skeið og greitt stökk og 8,98 fyrir hæfileika. Aðaleinkunn hennar er 8,75. Með aðra hæstu einkunn ársins eða 8,69 er Eind frá Grafarkoti, sem einnig er rauðstjörnótt og undan Kiljan frá Steinnesi, og Köru frá Grafarkoti, Gammsdóttur. Kiljan frá Steinnesi á því tvær hæstu dæmdu hryssurnar í elsta flokki en hann hefur skilað gæðingum til dóms í gegnum tíðina og 14 afkvæmi hans eru með 8,60 eða hærra fyrir hæfileika. Eind er gerðarleg hryssa og einkar framfalleg. Þá er hún þjál og hreingengur gæðingur og hlaut hæst á árinu 8,85 fyrir hæfileika. Hún var fulltrúi Íslands á Heimsmeistaramótinu í sumar og endaði þriðja í sínum flokki þar. Með þriðju hæstu einkunn ársins er Ísbjörg frá Blesastöðum 1A. Hún er dóttir Spuna frá Vesturkoti og Blábjargar frá Torfastöðum sem var undan Andvara frá Ey og Dögg frá Hömrum í Grímsnesi. Ísbjörg er jarpvindótt, fínleg og vel gerð hryssa, með hátt settan, langan háls og klipna kverk; einkar jafnvægisgóð í byggingunni. Þá er hún burðargóð og mjúk á tölti, skrefmikil og hreingeng á brokki og sniðfalleg á skeiði. Hún hlaut 8,69 í aðaleinkunn.

Hrossarækt er lífslist

Hrossarækt er skemmtilegt viðfangsefni og endalaus uppspretta ævintýra. Hún er afar gefandi fyrir þá sem hún grípur og er ekki síst mikil útrás fyrir sköpunarþörf mannsins. Þörfin fyrir að skapa er samofin okkur og fegurð eða list í margs konar formi hefur göfgandi áhrif á þá sem hún nær til. Sumir rækta einmitt hross eins og hagort fólk yrkir ljóð eða þeir sem eru drátthagir byggja upp mynd; sjá fyrir sér pörun eins og skuggamyndir á vegg og fá tilfinningu fyrir því hvernig stóðhesturinn og hryssan geti bætt hvort annað upp eða magnað upp fyrirliggjandi gæði. Hrossarækt er sannkölluð lífslist og hún er í ætt við þær greinar listarinnar sem mannfólkið hefur þróað með sér frá örófi; nytjalist má segja, þar sem hráefni náttúrunnar er nýtt til fegurðarsköpunar og bættra nytja. Það er margt listafólkið í röðum hrossaræktenda á Íslandi. Á meðan svo er og fólk heldur áfram að þróa með sér sína upprunalegu og frumlegu sýn á hvernig bæta megi hestinn munum við áfram upplifa framfarir í hrossaræktinni til framtíðar.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...