Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Hænum er eðlislægt að þrífa fjaðrirnar í þurrum jarðvegi.
Hænum er eðlislægt að þrífa fjaðrirnar í þurrum jarðvegi.
Á faglegum nótum 17. maí 2023

Hænsnahald í smáum stíl

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Margir hafa gaman af því að vera með nokkrar hænur, bæði sér til ánægju og yndisauka en einnig mögulega til eggjaframleiðslu og virðist sem þessi iðja sé heldur að færast í aukana á Íslandi.

Þegar kemur að hænsnahaldi í smáum stíl þarf sérstaklega að huga að aðbúnaði hænanna og hér er hænsnakofinn og útistían lykillinn að góðri velferð þeirra og eykur líkurnar á því að hænurnar verði framleiðslugóðar.

Hópdýr

Þegar nærumhverfi búfjár er hannað er alltaf litið til náttúrulegs eðlis skepnanna en sé það gert fást gríðarlega mikilvægar upplýsingar sem nýtast vel við hönnun aðbúnaðarins.

Í tilfelli hæna þá eru þær, í náttúrunni, saman í litlum hópum sem einn hani heldur utan um. Þessir hópar eru með allt að 10 einstaklingum og það er upplögð hámarksstærð fyrir hænsnahald í smáum stíl. Hænurnar ná þá vel að þekkja hver aðra og eru síður að slást og jagast hver í annarri.

Orðið goggunarröð kemur væntanlega beint frá hænsnahaldi og það á sér náttúrulega skýringu, þ.e. hænurnar koma sér upp eins konar virðingarröð og vita hvar þær standa innan hópsins. Ef hópurinn verður hins vegar mun stærri vandast málið, enda ekki auðvelt fyrir heilabú hænanna að halda utan um slíkar upplýsingar. Þetta getur því leitt til aukinna áfloga.

Þess má geta að hænur þurfa ekki á hana að halda til þess að verpa og því óþarfi að vera með karldýr í flokknum ef einungis er ætlunin að framleiða egg til heimilis.

Hænsnakofinn

Þegar kemur að kofanum sjálfum er margt í boði varðandi hönnun hans, enþaðerum að gera að hafa hann a.m.k. manngengan upp á þrif, viðhald, fóðrun og eggjatínslu.

Varðandi stærð kofans þarf að fara eftir reglugerð um aðbúnað hænsna en oft er miðað við að hámarki 5-6 meðalstórar hænur á hvern fermetra að jafnaði.

Þá ætti að miða við að a.m.k. þriðjungur gólfplássins sé þannig frágenginn að hænurnar geti valsað þar um og rótað í, sem er þeim eðlislægt. Með öðrum orðum þá þarf sem sagt í raun ekki sérlega stóran kofa fyrir 10 hænur!

Einangraður og frostfrír

Hænur þola ágætlega kulda en trekkur er ekki æskilegur þó svo að þær átti sig nú ekki endilega á því sjálfar! Í náttúrunni eru þær auðvitað úti allt árið en þeim er eðlislægt að kroppa í fóður í skógi og rjóðrum og þar fá þær náttúrulegt skjól frá vindinum.

Frost gerir þeim í raun ekki mikið, enda vel dúðaðar, en það er s.s. vindurinn eða trekkur sem getur sótt að þeim og því þarf aðstaðan að vera þannig gerð að ekki næði um hænurnar.

Þá er afar hagstætt að vera með frostlaust umhverfi, fyrst og fremst svo drykkjarvatnið frjósi ekki, en hænur ættu að hafa aðgengi að vatni allan sólarhringinn eigi velferð þeirra að vera í hávegum höfð. Þetta má t.d. leysa með því að vera með einfaldan rafmagnsofn, sem kveikir sjálfur á sér þegar og ef verður of kalt.

Stíurnar

Aðstaðan sem hænurnar hafa aðgengi að þarf að bjóða upp á að þær geti flögrað aðeins um, enda er það þeim eðlislægt og því ættu hænur að hafa aðgengi að rúmgóðri stíu allan ársins hring. Erlendis er víða hægt að kaupa tilbúna en mjög litla hænsnakofa með áfastri útistíu.

Þessir smákofar eru í raun fyrst og fremst hugsaðir sem fóðrunar- og varpstaður fyrir hænurnar, en ekki íverustaður til lengri tíma og henta því fyrst og fremst í löndum þar sem veðurfar er stöðugt og gott því þá geta hænurnar valið sjálfar hvort þær vilji vera í útistíunni allan sólarhringinn eða nota litla kofann.

Þar sem ekki viðrar nú alltaf til langrar útiveru á Íslandi, a.m.k. yfir vetrartímann, ætti því að vera með rúmgóða innistíu fyrir hænurnar, sem og útistíu. Stíustærðin ætti auðvitað að vera sem mest en þumalfingurregla er að vera með þrefalt stíupláss miðað við húspláss.

Með afar einföldum búnaði má stjórna lýsingu hjá hænum.

Lýsing

Í hverjum kofa þyrfti að vera góð lýsing. Bæði svo hægt sé að sjá vel til þegar kofinn er þrifinn hátt og lágt reglulega, enda þarf að halda nærumhverfi hænanna hreinu svo smitálag á þær sé í lágmarki, en einnig vegna hænanna sjálfra. Hænurnar þrífast reyndar ágætlega í rökkri og þurfa ekki ljós þess vegna, en ef ætlunin er að halda uppi eggjaframleiðslunni er mikilvægt að vera með góða lýsingu yfir veturinn. Þeim er nefnilega eðlislægt að verpa færri eggjum á veturna og sumar tegundir af hænum stoppa alveg varp yfir vetrartímann. Með því að stjórna lýsingunni í hænsnakofanum má þó lengja varptímann og viðhalda eggjaframleiðslunni lengur.

Miða skal við að halda hefðbundinni daglengd hjá hænum upp á a.m.k. 10 klukkustundir og einfaldast er að stýra því þannig að ljós kvikni einfaldlega sjálfkrafa, þegar þess er þörf, á morgnana og seinnipartinn þegar dimmt er úti. Þetta má gera með ofureinföldum tímastilltum klukkum eða búnaði sem nemur birtu.

Þess má geta að góð lýsing hjálpar einnig hænum að komast í gang með varpið ef þær hafa fellt fjaðrirnar síðsumars eða að hausti en sá tími er þeim eðlislægur til þess að fella fjaðrir enda er þá gnótt fæðu í umhverfinu í náttúrunni og því upplagt að skipta um fjaðrir á þeim tíma.

Setprik

Hænurnar eiga að geta setið samtímis á setpriki og ætti að miða við 20-25 cm plássi fyrir hverja hænu á slíku priki. Heppilegt er að prikið sé þannig að þær nái góðu gripi og reynist vel að nota ferkantaðar spýtur, sem eru 38 mm á breidd, með afhefluðum köntum. Setprikin má setja víða í kofanum og í stíunum en þau ætti að setja í ólíkum hæðum svo hver hæna geti fundið sér heppilegan náttstað.

Miða ætti við að staðsetja þau um 20-25 cm frá vegg, svo hænurnar hafi nægt rými og svo ætti að vera prik 10 cm framan við varpkassana, til að auðvelda hænunum inn- og útgang. Undir setprikum getur verið afar gagnlegt að staðsetja plötu sem safnar á sig skítnum sem hænurnar skila af sér þegar þær sitja á prikunum. Þetta sparar bæði undirburð og gerir alla vinnu við þrif einfaldari.

Hænsnastigi

Hænsnastigi er sjálfsagður hlutur í hænsnakofa og auðveldar hænunum að ferðast um kofann án þess að flögra. Svona stiga, sem getur t.d. verið 20-25 cm breið plata með áfestum þverfestum spýtum, með 12,5 cm bili á milli hverrar, ætti að setja t.d. upp að varpkössum og hallinn ætti að vera um 45 gráður.

Jarðvegsbað

Hænum er eðlislægt að þrífa fjaðrirnar og þetta gera þær í náttúrunni með því að nudda sér upp úr jarðvegi með því að fara í eins konar moldarbað. Þegar hænur eru einungis með aðgengi að kofa og stíu er ekki víst að þær geti fullnægt þessari þörf sinni þar en til þess að koma til móts við þær má t.d. staðsetja bala með þurrum jarðvegi í, oft er notaður sandur eða mold, á gólfinu, sem þær geta þá notað til þess að þrífa sig.

Fóður og vatn

Hænur ættu alltaf að hafa aðgengi að vatni og fóðri allan sólarhringinn og einfaldast er að nota þar til gerð trog sem deila út fóðri og vatnsdalla með drykkjarstútum enda haldast þeir hreinni. Mælt er með a.m.k. tveimur drykkjarstútum fyrir 10 hænur og a.m.k. 10 sentímetra plássi fyrir hverja hænu við fóðurtrogið.

Drykkjarstútar eru einfaldir í uppsetningu og veita hænunum hreint og gott vatn.

Varpaðstaðan

Varpkassar eru hænum mikilvægir og fer fjöldi þeirra eftir fjölda hænanna, en ráðlagt er að miða við eitt varpsvæði fyrir hverjar 4-5 hænur og að lágmarki a.m.k. 2 varpkassa. Þessir varpkassar ættu að vera a.m.k. 30x30x30 sentímetrar og ætti að staðsetja nokkuð frá gólfi, ekki nær gólfi en 60 sentímetra. Varðandi hönnun varpkassa má benda á grein um hönnun þeirra í 11. tölublaði Bændablaðsins árið 2021.

Skylt efni: hænsnahald

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...