Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Ólíkar fisktegundri í fiskborði í íslenskri verslun.
Ólíkar fisktegundri í fiskborði í íslenskri verslun.
Mynd / GE
Á faglegum nótum 25. nóvember 2022

Goðsögnin um fiskát Íslendinga

Höfundur: Guðjón Einarsson

Í alþjóðlegum samanburði, sem Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) birtir á hverju ári og dreift er um víða veröld, eru Íslendingar sagðir langmestu fiskætur í heiminum. Neyslan á hvern íbúa sé rúm 90 kíló ári. Lauslega áætlað samsvarar það einni fiskmáltíð á dag árið um kring, hvorki meira né minna.

Við Íslendingar erum alltaf dálítið upp með okkur þegar við skörum fram úr á alþjóðavettvangi í krafti höfðatölureglunnar,en hér er greinilega skotið hátt yfir markið. Samkvæmt nýlegri neyslukönnun á mataræði Íslendinga borðar hver þeirra rúmlega 16 kíló af fiski á ári en ekki rúm 90 kíló eins og FAO tölurnar gefa til kynna (nánar um neyslukönnunina síðar í greininni).

Marklausar tölur

Á meðfylgjandi korti má sjá neyslu sjávarafurða á hvern íbúa í Evrópu byggða á tölum FAO frá árinu 2018. Ísland langefst (92 kg), síðan Portúgal (57 kg), Noregur (51 kg) og Spánn (42 kg). Ef farið er út fyrir Evrópu eru íbúar Maldív-eyjar sagðir koma fast á hæla Íslendinga í fiskáti, en af stærri þjóðum eru íbúar Suður- Kóreu og Malasíu miklar fiskætur (57 kg), Japanir og Taílendingar (46 kg) og Indónesar (44 kg).

Hvort eitthvað frekar er að marka tölur frá öðrum löndum en Íslandi er ekki gott að segja, en samkvæmt opinberum tölum í Noregi var neysla fisks og fiskafurða árið 2020 þar í landi 19,5 kg á hvert mannsbarn en ekki 51 kíló eins og FAO tölurnar segja.

Tölur FAO um fiskát þjóða í Evrópu. Mynd / FAO

Hver er skýringin?

Sú spurning vaknar hvers vegna FAO tölurnar eru svona langt frá raunveruleikanum, að minnsta kosti hvað viðkemur Noregi og Íslandi. Nærtækasta skýringin er sú að erfitt er að fá marktækar upplýsingar um hversu mikið af fiski, sem aflað er í hverju landi, fer til neyslu innanlands. Sumar þjóðir borða mest af sínum fiski sjálfar meðan aðrar, eins og Íslendingar, flytja mest af fiskinum út. Þá getur það flækt dæmið að margar þjóðir flytja fisk bæði inn og út. Einfaldasta leiðin er sjálfsagt að deila íbúafjöldanum upp í landaðan afla en það er augljóslega í flestum tilfellum uppskrift að kolrangri niðurstöðu. Hvers vegna FAO dælir út röngum upplýsingum ár eftir ár er svo hulin ráðgáta.

Tölur Hagstofu Íslands

Á vef Hagstofunnar má sjá hvernig afla er ráðstafað eftir tegund vinnslu. Þar kemur fram að rúm 6.000 tonn hafi farið til innanlandsneyslu, þar af þorskur rúm 1.800 tonn og ýsa rúm 1.900 tonn. Athyglisvert er að magn þorsks hafði aukist um 900 tonn frá því fyrir tíu árum en magn ýsu hafði minnkað um 1.000 tonn á sama tíma. Þá hafði magn ufsa og löngu aukist úr nánast engu í 600 tonn í hvorri tegund á tímabilinu. Þessar tölur sýna að líkindum breytt neyslumynstur og þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart. En hversu marktækar eru þessar upplýsingar í heild?

Afli upp úr sjó

Tölur Hagstofunnar miðast við afla upp úr sjó sem þýðir að þegar búið er að flaka fiskinn og matreiða hann á diskinn er þyngd fiskholdsins aðeins um helmingur af upprunalegri þyngd fisksins alls gróflega reiknað – sem sagt árleg innanlandsneysla er þá um 3.000 tonn af fiskholdi, ef Hagstofutölurnar eru umreiknaðar.

Til samanburðar sýnir neyslukönnunin áðurnefnda hins vegar að Íslendingar borði 6.000 tonn á ári af fiskmeti komið á diskinn en þá er reyndar meðtalið lax og bleikja sem ekki eru inni í tölum Hagstofunnar.

Fiskur í soðið

Áður fyrr tíðkaðist það í ríkum mæli í sjávarplássum að fólk sækti sér fisk í soðið niður á höfn þegar bátarnir komu að landi. Enn er það svo að sjómenn taka með sér fisk í land fyrir fjölskyldu sína og vandamenn. Það er ekki að ástæðulausu að fiskbúðir þrífast illa í sjávarplássum stórum sem smáum. Hversu mikil áhrif þetta hefur á opinberar tölur er svo önnur saga.

Snúið að mæla innanlandsneyslu

Á Hagstofunni fengust þær upplýsingar að mjög snúið væri að mæla innanlandsneyslu á fiski. Tölur Hagstofunnar eru byggðar á skýrslum Fiskistofu um fyrstu ráðstöfun á aflanum. Til dæmis getur fiskur farið í söltun eða sjófrystingu og er þá ekki skráður í flokkinn innanlandsneysla en getur síðar verið seldur á innlendum markaði. Viðmælandi okkar á Hagstofunni sagði að þar á bæ hefði verið velt vöngum yfir því hvernig hægt væri að mæla innanlandsneyslu á fiski með öruggum hætti en ekki fundist nein góða leið. Neyslukannanir væru sennilega skásta aðferðin.

Neyslukönnun 2019–2021

Embætti landlæknis og Rannsóknastofa í næringarfræði við Háskóla Íslands birtu fyrr á þessu ári niðurstöður könnunar á mataræði Íslendinga á aldrinum 18-80 ára sem framkvæmd var 2019-2021 undir heitinu „Hvað borða Íslendingar?“ Sambærileg rannsókn fór síðast fram árin 2010-2011 og árið 2002.

Fram kom að fiskneysla stóð í stað milli kannana og er að meðaltali 315 grömm á viku sem þýðir um 16 kíló á ári eins og fram kom fyrr í þessari samantekt. Eins og í fyrri könnunum er neyslan minnst í yngsta aldurhópnum (18-39 ára) sem borðar helmingi minna af fiski en þeir eldri (60-80 ára). Samkvæmt ráðleggingum um mataræði er mælt með að borða 2-3 fiskmáltíðir á viku (375 grömm), en rúmlega þriðjungur þátttakenda náði því markmiði. Helmingur þátttakenda neytti meira en tæplega 300 gramma af fiski á viku.

5% borða aldrei fisk

Ráðlagt er að ein af fiskmáltíðunum sé feitur fiskur, eins og t.d. lax og bleikja, en um 12% þátttakenda náðu því markmiði. Um 5% þátttakenda segjast aldrei borða fisk eða skelfisk. Þau 5% sem neyttu minnst af fiski borðuðu tæplega 80 grömm á viku en þau 5% sem neyttu mest af fiski borðuðu meira en 620 grömm á viku.

Karlar eru líklegri til að fylgja ráðleggingum heilbrigðisyfirvalda, ekki aðeins vegna stærri skammta heldur einnig vegna tíðari fiskneyslu. Yngsti aldurshópur kvenna er sér á báti, en einungis 1% þátttakenda nær að fylgja ráðleggingunum. Þá kemur fram í könnuninni að mest sé borðað af ýsu og þorski, eða 52%, laxi og bleikju 20%, öðrum fiski 24% og þurrkuðum og hertum fiski 4%.

Ferðamenn undanskildir

Af framansögðu má draga þá ályktun að skásta leiðin til þess að mæla innanlandsneyslu á fiski sé að horfa til neyslukannana. En þá vantar enn mikilvægan þátt inn í dæmið sem er fjöldi ferðamanna á Íslandi sem hleypur á milljónum á ári þegar mest er. Hvergi er skráð hversu mikið þeir borða af fiski. Fiskneysla ferðamannanna brúar þó seint bilið milli þeirra talna sem neyslukannanir sýna og þeirra talna sem FAO gefur út.

Skylt efni: fiskineysla

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Lómur
9. október 2024

Lómur

Uppskerubrestur á kartöflum
10. október 2024

Uppskerubrestur á kartöflum

Lömbin léttari en í fyrra
10. október 2024

Lömbin léttari en í fyrra

Kæra hótanir
8. október 2024

Kæra hótanir