Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Fullþroskaðar goða- eða makademíahnetur á goðahnetutré.
Fullþroskaðar goða- eða makademíahnetur á goðahnetutré.
Á faglegum nótum 11. maí 2020

Goðahnetur eru dýrustu hnetur í heimi

Höfundur: Vilmundur Hansen

Goðahnetur teljast seint til helstu nytjajurta heims en vinsældir þeirra hafa vaxið mikið síðustu ár og verð á þeim er hátt. Hneturnar eru upprunnar í Ástralíu og þar sem framboð á þeim er mun minni en eftirspurn og ræktun að aukast. Talið er að Kína verði stærsti ræktandi goðahneta í heimi árið 2030.

Árið 2018 er áætlað að heimsframleiðsla goðahneta hafi verið 211 þúsund tonn en var 160 tonn árið 2015. Framleiðslan í Suður-Afríku, sem er sú mesta í heimi, var 48 þúsund tonn 2015 en hafði aukist í 54 þúsund tonn 2018. Ástralía er í öðru sæti þegar kemur að ræktun og framleiðslu á goðahnetum með um 40 þúsund tonn árið 2015. Havaí-eyjar eru í þriðja sæti og áætluð framleiðsla þar árið 2017 um 22 þúsund tonn.

Unghneta, fullþroskuð hneta, hneta með fræhýði og hneta tilbúin til neyslu.

Af öðrum löndum þar sem goðahnetur eru ræktaðar til framleiðslu má nefna Brasilíu, suðurríki Bandaríkjanna, Norður-Ameríku, Kosta Ríka, Kenía, Kína, Bólevíu, Nýja-Sjáland, Gvatemala, Simbabve, Ísrael og Malaví.

Kínverjar hafa sett mikinn kraft í ræktun goðahnetutrjáa síðastliðin ár og líklegt er talið að Kína verði stærsti framleiðandi goðahneta árið 2030.

Ekki fundust upplýsingar um innflutning á goðahnetum til landsins á vef Hagstofu Íslands þar sem þær eru flokkaðar með öðrum hnetum í innflutningstölu. Auk þess sem eitthvað er flutt inn af goðahnetuolíu sem húð- og snyrtivörur.

Samkvæmt upplýsingum frá H-berg ehf. eru þeir eina fyrirtækið hér á landi sem flytur inn goða- eða makadamíahnetur. Halldór Berg Jónsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að á síðasta ári hafi verði flutt inn um fjögur tonn af makadamíahnetum. „Við söltum þær hér og setjum í neytendapakkningar og vinsældir þeirra hafa aukist ört samhliða aukinni neyslu á ketófæði.“

Ættkvíslin Macadamia og tegundin integrifolia

Fjöldi tegunda innan ættkvíslarinnar Macadamia er nokkuð á reiki og þeim hefur fækkað með tímanum. Í dag teljast tegundirnar vera níu, sjö þeirra eru upprunnar í austurhluta Ástralíu, ein á Nýju-Kadelóníu-eyjum í Kyrrahafi og ein í Indónesíu. Allar tegundirnar eru í útrýmingarhættu í náttúrunni vegna ágangs manna í kjörlendi þeirra.

Tegundirnar eru sígræn og blómstr­andi lauftré. Blöðin leðurkennd og nokkur saman á stuttum stöngli, heilrennd eða tennt, glansandi, misstór og löguð eftir tegundum. Mynda harðar hnetur með ætu og bragð­góðu aldin­kjöti.

Þverskurður af ungri hnetu. 

Tvær teg­undir, Maca­damia integrifolia og M. tetraphylla, en einkum M. integri­folia, sem báðar eru upprunnar í Ástralíu, eru ræktaðar til hnetuframleiðslu.

M. intergrifolia er sígrænt lítið eða meðalstórt tré, 2 til 12 metrar að hæð. Rótin grunn stólparót og út frá henni grunnar og víðfeðmar trefjarætur. Stofninn beinvaxinn, ljósbrúnn og flekkóttur og fremur grannur. Blöðin, leðurkennd, nokkur saman á stuttum stöngli, heilrennd, bylgjótt og glansandi en breytileg að lögun og stærð. Allt frá því að vera egg- eða lensulaga, 6 til 30 sentímetra löng og 2 til 13 að breidd. Blómin hvít eða bleik á 5 til 13 sentímetra löngu axi með 300 til 600 blómum, hvert einstakt blóm 10 til 15 millimetrar að lengd og með fjórum krónublöðum. Bæði sjálffrjóvgandi og frjóvgað með býflugum. Í fyrstu eru aldinin græn og mjúk en verða mjög hörð með auknum þroska, slétt og trékennd og með einu eða tveimur fræjum og 2,5 sentímetrar í þvermál.

Yrki í ræktun

Fjöldi yrkja er í ræktun og eru sum þeirra blendingar M. integrifolia og M. tetraphylla. Dæmi um slíkan blending er yrkið 'Beaumont' sem er ræktað víða í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi og er með rauðleit blöð. Yrkið er olíurík og sætuminna en mörg önnur yrki. fljótsprottið og uppskerumikið. 'Nelmac' er blendingur sem aðallega er ræktaður í Suður-Afríku. Hnetan er sæt og þykir góð óristuð. Á það til að skemmast fyrir uppskeru þar sem ólíkt öðrum goðahnetum er gat á hnetum afbrigðisins sem skordýr eiga til að skríða inn um og verpa í fræin. Ræktun yrkisins 'Renown', sem einnig er blendingur, eykst frá ári til árs vegna mikillar uppskeru og bragð þeirra þykir ekki eins gott og margra annarra yrkja.

Yrkið 'Maroochy' er ástralskt og af tegundinni M. tetraphylla og þykir bragðgott. Oft notað sem frjósort með 'Beaumont'.

Fullvaxin geta trén náð 12 metra hæð. 

Upprunnin í Ástralíu

Elstu minjar um forvera goðahnetutrjáa eru frjó sem talin eru vera um 50 milljón ára gömul og fundust í Queensland í Ástralíu. Vegna takmarkaðrar útbreiðslu trjánna er talið að þau hafi oftar en einu sinni verið á mörkum þess að deyja út en hjarað á litlum svæðum. Talið er að frumtegundin í Ástralíu hafi skipst í þær tegundir sem þekkjast í dag fyrir um 10.000 árum eða við lok síðustu ísaldar. Takmörkuð útbreiðsla orsakast meðal annars af stærð og þyngd fræjanna.

Nytjar frumbyggja í Ástralíu á trénu eru þekktar frá ómuna tíð. Frumbyggjunum þóttu goðahnetur verðmætar og voru þær meðal annars notaðar sem gjafir og til að greiða skuldir.

Sagan segir að breski landkönnuðurinn og grasafræðingurinn Allan Cunningham hafi verið fyrstur Evrópumanna til að þurrka plöntuhluta af goðahnetutré og senda sýnishorn til Kew grasagarðsins í London árið 1828. Ástralinn Baron Ferdinand von Mueller, sem sagður er vera frumkvöðull grasafræðinnar í Ástralíu, mun hafa verið fyrsti maðurinn til að lýsa trénu í riti árið 1857. Mueller nefndi það á latínu í höfuðið á vini sínum, Skotanum og lækninum John MacAdam, og í dag kallast ættkvíslin Macadamia honum til heiðurs. Óvíst er talið að MacAdam hafi smakkað hneturnar sem eftir honum eru nefndar áður en hann lést. Landneminn og grasafræðingurinn Walter Hill er sagður hafa séð innfæddan dreng brjóta og borða kjarna hnetunnar í Queensland í Ástralíu árið 1858 og farið að fyrirmynd hans. Sagt er að auk þess að smakka á fræinu hafi Hill gróðursett annað fræ og tréð sem upp af því óx er sagt enn vera lifandi.

Eftir landnám Evrópumanna á Ástralíu hófst verslun, í smáum stíl, milli landnemanna og innfæddra sem söfnuðu hnetunum í náttúrunni. Stórtækastur innfæddra mun hafa verið foringi sem kallaðist King Jacky og tilheyrði ættflokki sem bjó við ána Logan í suðurhluta Brisbane í Queensland.

Fyrstu goðahnetutrjálundirnir voru gróðursettir 1866 og árið 1882 var farið að rækta trén á Havaí-eyjum sem skjólbelti fyrir sykurreyr. Fyrsti goðahnetulundurinn til hnetuframleiðslu, með 250 trjám, var aftur á móti planta í Nýju Suður-Wales 1888 og ári seinna er haft eftir grasafræðingnum Josep Mainden, sem þekktastur er fyrir rannsóknir sínar á tröllatrjám eða Eucalyptus, að hneturnar seljist vel og vel þess virði að rækta trén í stórum stíl.

Blómin hvít eða bleik á 5 til 13 sentímetra löngu axi með 300 til 600 blómum.

Á fyrsta áratug síðustu aldar hefst umfangsmikil ræktun og framleiðsla á goðahnetum á Havaí-eyjum, meðal annars til að vega á móti samdrætti í eftirspurn á kaffibaunum frá Havaí.

Allt til ársins 1937 voru goðahnetutré ræktuð af fræjum en það ár tókst fyrst að fjölga þeim með ágræðslu og möguleikar á fjöldaframleiðslu trjánna eftir yrkjum í höfn. Í framhaldi af því hófst ræktun á trjánum í stórum stíl á Havaí og í framhaldinu í Ástralíu og suðurríkjum Norður-Ameríku.

Vinsælasta yrkið í ræktun um miðja síðustu öld kallaðist 'Royal Havaiian' og naut það mikill vinsælda í Norður-Ameríku.

Havaí-eyjar og Ástralíu voru stærstu framleiðendur goðahneta í heiminum allt fram á þessa öld en þá tók framleiðslan í Suður-Afríku kipp og er í dag sú mesta í heimi.

Nafnaspeki

Latneska ættkvíslarheitið, Maca-damia  er til heiðurs skoska lækninum John MacAdam. Tegundaheitið integrifolia vísar til þess að blöðin séu heilrennd en tetraphylla að blöðin vaxi fjögur saman í hnapp, tetra þýðir fjórir á grísku en phylla laufblað.

Enska heitið macadamia er komið úr latínu en á ensku þekkist einnig heitið Queensland nut, Frakkar segja noix macadamia, amande du noyer de Queensland eða noix de bancoul og Ítalir og Spánverjar makadamia. Þjóðverjar kalla hnetuna makadamianuß og makadam-Nuß. Finnar, Svíar og Norðmenn segja makadamia en Danir macadamianød.

Frumbyggjar í Ástralíu kalla goðahnetutrén kindal kindal en hneturnar gyndl, jindilli og boombera.

Á íslensku kallast hnetan goðahneta og er þar vísað til Lokaskeggsættarinnar sem kallast Proteaceae latínu. Latínuheitið er komi frá Svíanum Carl Linnaeus og dregið af nafni gríska vatna- og sjávarguðsins Prómeteus sem líkt og Loki gat breytt sér í ýmissa kvikinda líki.

Goðahnetur í ræktun. 

Ræktun

Eftir að menn komust upp á lag með ágræðslu í ræktun goðahnetutrjáa óx ræktunin hratt þrátt fyrir að eftirspurn í dag sé meiri en framleiðslan. Sáðplöntur eru allt að tíu ár að ná aldinþroska og gæði þeirra misjöfn. Að öllu jöfnu gefa trén af sér í 70 til 100 ár.

Trén dafna best í vel framræstum og næringarríkum jarðvegi þar sem úrkoma er eitt til tvö þúsund millimetrar á ári. Plantan kýs jafnt hitastig og má það ekki fara niður fyrir 10° á Celsíus á meðan plönturnar eru ungar. Fullvaxin tré þola hitastig niður að frostmarki.

Eftir frjóvgun sem í ræktun er mest með býflugum myndast um 20 aldin eða hnetur á hverju axi. Blómgun trjáa á sér stað á fjögurra til sex mánaða tímabili og á aldinþroski trjáa sér því stað á löngu tímabili. Trén eiga það til að sleppa úr einu og einu blómgunarári eða draga verulega úr blómgun til að hvíla sig.

Mikil vinna er því við að vakta þroska og tína hneturnar af trjánum og er uppskeran mikið unnin með höndum. Á stærstu ræktunarsvæðunum eru hneturnar hristar af trjánum með vélum fimm til sex sinnum á ári og þeim blásið saman áður en þeim er safnað.

Muldar hnetuskeljar og hænsna­skítur er mikið notað sem lífrænn áburður fyrir trén. Auk þess sem notaður er tilbúinn áburður og talsvert mikið af varnarefnum við ræktunina nema að hún sé lífræn.

Makadamía- eða goðahnetur eru mjög harðar og sagt að þær séu svipað harðar og ál af sama sverleika og eftir uppskeru eru þær valsaðar í eins konar hnetubrjót til að ná fræjunum úr skeljunum. Til að halda fræinu fersku er það geymt við 1,5% rakastig og síðan er það þurrkað í ofni við ríflega 100° á Celsíus.

Uppskera er breytileg eftir yrkjum og ræktunarstöðum og þykir gott að trén gefi af sér 13 til 23 kíló af hnetum á ári.

Goðahnetutínsluvél.

Þjóðtrú frumbyggja

Samkvæmt trú frumbyggja í Ástralíu er uppruni goðahneta í draumatímanum.

Eitt sinn þegar Yindingie, guð sendiboðanna, var að yfirgefa Fjallið þar sem hann bjó þurfti Budjilla fólkið að ákveða hver ætti að gæta ólíkra hluta landsins á meðan guðinn væri í burtu. Auðveldlega gekk að fá fólk til að gæta flestra landshlutanna en erfiðlegar gekk að fá einhvern til að gæta Fjallsins. Að lokum gaf sig fram maður að nafni Baphal.

Baphal bjó sig til ferðarinnar til Fjallsins sem var bæði löng og erfið. Án vitundar Baphal faldi vinur hans, gimsteinaeðlan, sig í bakpokanum hans og fór með í ferðalagið. Eftir langa göngu sá Baphal að hann nálgaðist Fjallið og að lokum kom hann að rótum þess. Þegar Baphal opnaði bakpokann stökk gimsteinaeðlan upp úr honum. Baphal brá í fyrstu en var svo ánægður að sjá vin sinn og spurði hvers vegna hann væri þarna. Gimsteinaeðlan svaraði að hún hefði ekki vilja láta vin sinn fara einan í þessa löngu ferð. „Ég faldi mig því í bakpokanum til að geta fylgt þér.“

Einu sinni þegar Baphal var einn á ferð féll hann og slasaðist á fæti og gat ekki gengið og varð matar- og vatnslaus. Gimsteinaeðlan sem sá að vinur hann var slasaður fór til steinpokadýrsins og spurði ráða. Steinpokadýrið sagði gimsteinaeðlunni að þeir yrðu að sækja vatn. Því næst sóttu þeir vatnsskjóðu Baphal og fóru að uppsprettu en þegar þangað kom náði steinpokadýrið ekki niður að vatninu. Eðlan og pokadýrið báðu kengúru að teygja sig í vatnið sem hún gerði og rétti steinpokadýrinu skjóðuna sem aftur rétti gimsteinaeðlunni hana og hún fór með vatnið til Baphal.

Næsta skref var að útvega mat. Að þessu sinni stakk steinpokadýrið upp á að leita ásjár hjá kakadúanum sem tók vel í beiðnina. Kakadúinn flaug af stað og safnaði goðahnetum og dreifði þeim um Fjallið svo að Baphal gæti fundið sér mat að borða.

Steinpokadýrið og gimsteinaeðlan sáu að Baphal var of veikburða til að bera sig eftir björginni og þurfti á hjálp fólksins í ættbálki sínum að halda. Með hjálp kakadúans kveiktu þau eld með grænu laufi og goðahnetum. Þegar ættmenn Baphal sáu reykinn vissi það að Baphal var í vanda og sendi flokk manna til að bjarga honum. Enn þann dag í dag kallast Fjallið Baphalsfjall, gimsteinaeðlan Baphalseðla og goðahneturnar Baphalshnetur.

Blöðin, leðurkennd, nokkur saman á stuttum stöngli, heilrennd, bylgjótt og glansandi.

Nytjar

Í hundrað grömmum af goðahnetum er að finna 740 kaloríur. Þær eru allt að 80% fita, 14% kolvetni, 9% trefjar og 8% prótein. Auk þess sem þær innihalda mikið af B vítamíni, og steinefnum eins og mangan, járni, magnesíum, járni og fosfór.

Vegna mikils fituinnihalds eru goðahnetur vinsælar sem ketófæða. Hneturnar eru einnig vinsælar, hvort sem er hráar eða ristaðar í salat, eftirrétti og bakstur en úrgangshnetur fara í dýrafóður. Úr hnetunum er unnin olía sem notuð er í húðvörur og trjánum er plantað út sem stássplöntum í skrúðgörðum.

Skel goðahnetunnar er um 70% af þyngd hennar og þær malaðar og notaðar sem lífrænn áburður á hnetutrén í ræktun.

Goðahnetur á Íslandi

Lítið hefur farið fyrir goða- eða makadamíahnetum hér á landi til þessa. Í auglýsingu í Morgunblaðinu í mars 1986 má sjá auglýsingu frá Hnetubarnum á Laugavegi 33 þar sem verslunin býður til sölu ýmiss konar hnetur. Má þar nefna jógúrthúðaðar hnetur, cashew, „macadamia“ og hunangshnetur.

Hneturnar eru því talsverð nýlunda hér og ekki fyrr en á síðasta ári sem farið var flytja þær inn og selja í einhverju magni hér á landi. 

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...