Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Verkefnið er með Facebook-síðu, „Áhrif mismunandi kornskammta á vaxtarhraða holdablendinga.“
Verkefnið er með Facebook-síðu, „Áhrif mismunandi kornskammta á vaxtarhraða holdablendinga.“
Á faglegum nótum 5. mars 2024

Fóðurathugun í Hofsstaðaseli

Höfundur: Ditte Clausen, ráðunautur

Haustið 2022 hófst athugun á fóðrun holdablendinga í Hofsstaðaseli í Skagafirði. Verkefnið er unnið af RML í samvinnu við Bessa Vésteinsson í Hofsstaðaseli og Þórodd Sveinsson hjá LbhÍ og er styrkt af þróunarfé nautgriparæktar.

Ditte Clausen.

Verkefnið er með Facebooksíðu, „Áhrif mismunandi kornskammta á vaxtarhraða holdablendinga“, þar sem allir áhugasamir geta fylgst með. Einnig hefur verið sýnt frá mánaðarlegum vigtunum á snappinu „rml- radunautar“.

Undirbúningurinn byrjaði í ágúst 2022 með heysýnatöku til að áætla fóðurgjöf fyrir kálfana sem komu inn sama haustið. Í desember voru allir kálfar komnir inn og höfðu þeir allir verið vigtaðir við fráfærur. Kálfarnir fengu þrenns konar eldi, innihélt fóðrið ýmist 0%, 20% eða 40% korn af heildarþurrefnisáti. Upphaflega var holdanautunum 108 sem voru með í athuguninni skipt í sex hópa, þannig að tveir hópar fengu sömu fóðrunarmeðferð. Kálfunum var raðað í hópa eftir þunga og aldri þannig að meðalþungi og meðalaldur voru sambærilegir milli fóðrunarmeðferða. Ákveðið var í upphafi að slátra nautunum á sama tíma úr hverri stíu, þegar meðalþungi á fæti í stíunni hefði náð um 620–630 kg að meðaltali. Þannig myndum við sjá áhrif fóðrunar á vaxtarhraða og sláturaldur ásamt kjötmatsflokkun.

Sláturupplýsingar þeirra nauta sem búið er að slátra. Þegar öll gögnin liggja fyrir má greina þau betur og leita að marktækum mun milli fóðrunarmeðferða.

Gangur verkefnisins

Um miðjan desember var allt klárt og byrjað var að gefa fóður samkvæmt áætlun. Í Hofsstaðaseli er fóðurblandari, fóðurtölva og færiband, þannig að hægt er að stjórna gjöfinni eftir áti og allar upplýsingar aðgengilegar fyrir uppgjör verkefnisins.

Til að auðvelda gjafir ákvað Bessi að gefa stórum hluta gripanna í fjósinu 20% korn en þá þurfti einungis að bæta aukakorni við hópana tvo sem fengu 40% af fóðrinu sem korn. Hóparnir í fóðurathuguninni hafa alla daga fengið sömu grunnblöndu af gróffóðri og vítamín og steinefni.

Hóparnir sem hafa aðeins fengið gróffóður hafa þá fengið sína gjöf áður en korninu er bætt í blandarann. Reglulega hefur verið tekið heysýni úr blandaranum til efnagreiningar til að tryggja að fóðurþarfir nautanna séu uppfylltar og fyrir uppgjör verkefnisins.

Í Hofsstaðaseli er mjög góð vigtunaraðstaða og mánaðarleg vigtun á nautunum í athuguninni hefur verið fastur liður síðan í desember 2022 og nautin því orðin mjög reynd í að renna í gegnum vigtina.

Þóroddur Sveinsson hafði varað okkur við af reynslu sinni að nautin myndu vaxa í stökkum en það hefur samt ekki gert það auðveldara að sjá lélegar tölur á vigtinni. Helst vildi maður alltaf sjá góðar tölur. Hins vegar fá lélegar tölur mann til að hugsa og margt er búið að veltast um í kollinum.

Fyrsta nautahópnum í athuguninni var slátrað þann 23. september 2023 en það voru 12 naut sem höfðu fengið 40% korn og síðasti 40% hópurinn fór í sláturhúsið í byrjun janúar 2024.

Þá eru aðeins 32 naut eftir, í þrem hópum, tveim heyhópum og einum 20% hóp. Þegar síðustu nautin fara í sláturhús í lok mars eða byrjun apríl hefur verkefnið staðið yfir í 11⁄2 ár og eiga bændurnir í Hofsstaðaseli mikið hrós skilið og miklar þakkir fyrir að taka þátt í þessu og standa vaktina alla daga.

Fráfærualdur og þar með burðardagsetning virðist hafa áhrif á vöxt gripa og lífþunga þeirra út alla athugunina. Hér er samanburður gripa sem fengu allir 40% korn, gripir sem voru eldri (186 daga, græn lína) við fráfærur voru um 50 kg þyngri við 500 daga aldur, en gripir sem voru yngri (141 daga, blá lína).

Uppgjör og framhaldsverkefni

Þegar verkefninu í Hofsstaðaseli lýkur verður til talsvert af gögnum sem er hægt að vinna úr. RML mun sjá um þá vinnu með aðstoð Þórodds Sveinssonar. Gerð verður grein fyrir áhrifum fóðrunar á vaxtarhraða og meðalaldur við slátrun, gæðaflokkun úr sláturhúsinu og reiknaður verður kostnaður við uppeldi eftir fóðrunaraðferð, með tilliti til fóðurkostnaðar og kostnaðar vegna stíupláss fram að slátrun.

Draumurinn er að búa til reiknilíkan sem má nota til að áætla korn- eða kjarnfóðurgjöf út frá ákveðnum forsendum um vaxtarhraða, sláturaldur og heygæði. Það er því af nógu að taka þegar síðasta nautið labbar úr fjósinu í Hofsstaðaseli. Þá er einnig tilvalið fyrir BS-nemanda í búvísindum að vinna með gögnin ef áhugi er fyrir hendi.

Fyrir ári síðan var ákveðið að fara í áframhaldandi verkefni í samvinnu við Matís með nautin úr fóðurathuguninni til að kanna áhrif fóðrunar á kjötgæði. Verður fjallað meira um það í næsta Bændablaði.

Hljóðið í Bessa eftir tæplega eitt og hálft ár

Hugmyndin um verkefnið vakti strax áhuga, það er þörf á aukinni áherslu á fóðrun nautgripa í nautakjötsframleiðslu. Heilt yfir hefur gengið vel í fjósinu þó svo að athugunin hafi krafist aðeins meiri vinnu við blöndun á fóðri og utanumhald skráninga. Það er þó ekkert miðað við allar þær upplýsingar sem við fáum úr þessari athugun.

Þetta er búið að vera mjög lærdómsríkt ferli og hefur haldið manni á tánum og hvatt mann áfram í að opna hugann og sjá tækifærin í nautaeldi í framtíðinni. Verkefnið er búið að sýna okkur það að gott gróffóður er lykilatriði en það getur væntanlega sparað bændum peninga þegar kemur að aukakorni eða -kjarnfóðri. Ég reikna þó því með að þurfa að gefa kjarnfóður sem einhvern hluta fóðursins.

Þá hefur verið sérstaklega áhugavert að sjá hvað er mikill breytileiki í vexti milli einstaklinga og er ég sannfærður um að það sé mikill ávinningur í nýja Aberdeen Angus-erfðaefninu frá Noregi, en gripir með það erfðaefni skila meiri vexti en aðrir. Annað sem virðist mikilvægt er tímasetning á burði en kálfar sem fæðast snemma á vorin virðast ná forskoti miðað við kálfa sem fæðast seint á sumrin. Það verður gaman að sjá frekari greiningu á þessu en það verður eflaust eitthvað sem maður reynir að hafa í huga í framtíðinni.

Ég er mjög spenntur að sjá niðurstöður verkefnisins og ætla ég ekki að álykta neitt fyrr en þær liggja fyrir, en ég hef aldrei sent gripi í slátrun svona snemma með þessum fallþunga.

Ég held að raunhæft verði að slátra flestöllum gripum, líka kvígum, innan við 20 mánaða aldur með nýtt Angus-erfðaefni og góðan aðbúnað. Hér er vigtin lykilþáttur, því aðeins þannig vitum við hvort gripirnir séu enn í góðum vexti eða hvort það sé farið að hægja á honum. Vigtin staðfestir strax hvort eitthvað hefur komið upp á milli vigtana og þá er hægt að grípa inn í. Þá er vigtin frábært verkfæri til að fylgjast með hvenær gripir hafa náð sláturþyngd og þannig er hægt að losa um pláss í fjósinu.

Það er að sjálfsögðu alltaf ákveðin pæling hvenær er best að senda grip í sláturhús. Ef hann er kominn upp í 650 kg á fæti og enn að vaxa um 1 kg/ dag og sé maður ekki að glíma við plássleysi í fjósinu þá kannski borgar það sig að ala hann lengur. Verkefnið á vonandi eftir að leiða það betur í ljós þegar uppgjörið liggur fyrir.

Markmiðið er að fullnýta vaxtagetu gripanna og niðurstöður athugunarinnar munu væntanlega svara því hvaða hlutfall kjarnfóðurs er æskilegt til að hámarka vaxtagetu miðað við kostnað.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...