Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Fleiri íbúar heimsins búa innan hringsins en utan hans!
Fleiri íbúar heimsins búa innan hringsins en utan hans!
Mynd / Cartarium/iStock/Thinkstock
Á faglegum nótum 29. apríl 2025

Fagþing dönsku nautgriparæktarinnar 2025 – Annar hluti

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Kvægkongres 2025, árlegt og einkar áhugavert fagþing hinnar dönsku nautgriparæktar, var haldið í lok febrúar sl. og líkt og undanfarin ár voru þar flutt ótal erindi sem eiga mörg hver erindi við íslenska bændur og annað fagfólk í nautgriparækt.

Fagþingið, sem er í senn bæði ársfundur félagasamtaka danskra nautgripabænda og fagfundur helsta vísindafólks í greininni, stóð í tvo daga og var skipt upp í 12 málstofur með tugum erinda. Í síðasta Bændablaði var fyrsti hluti umfjöllunar um fagþingið og þá fyrst og fremst fjallað um ársfundinn sjálfan. Nú verður hér haldið áfram með umfjöllunina og gripið niður í nokkur áhugaverð erindi sem voru flutt í málstofunum um betri afkomu, kálfa og dönsku kúakynin.

1. Betri afkoma

Í þessari málstofu voru flutt alls 10 erindi og verður hér fjallað um fjögur þeirra, en öll erindin 10 sneru að því hvernig efla má enn frekar afkomu danskra kúabúa. Erindin voru eiginlega hvert öðru betra enda efni þeirra að benda á þá möguleika sem eru til staðar til að bæta reksturinn. Í síðasta Bændablaði kom fram að dönsk mjólkurframleiðsla hefur líklega aldrei gengið jafn vel og einmitt nú um stundir en hvernig lítur framtíðin út? Inn á það kom Thomas Carstensen frá danska afurðafélaginu Arla, en hann fjallaði í erindi sínu um horfurnar á mjólkurmarkaðinum í heiminum. Í stuttu máli sagt eru þær afar áhugaverðar og góðar, enda fjölgar íbúum heimsins um 1,5 milljónir manna á viku hverri og alls um 78 milljónir á ári. Þessi viðbót í fólksfjölda heimsins kallar á aukna framleiðslu á mjólk og mjólkurvörum enda neyta í dag um og yfir 80% íbúa heimsins mjólkur og mjólkurvara. Þá fer neyslan vaxandi og enda þótt Evrópumarkaðurinn standi e.t.v. svolítið í stað nú um stundir þá er gríðarlegur vöxtur í bæði Afríku og þó sérstaklega í Asíu. Þar byggir auk þess þorri íbúa heimsins og sýndi hann skemmtilega mynd því til stuðnings, þar sem hringur afmarkar svæði þar sem fleiri íbúar heimsins búa innan hans en utan!

Vaxandi eftirspurn eftir kjöti

Annað áþekkt erindi sneri svo að kjötmarkaðinum en það var flutt af Finn Klostermann frá danska sláturfélaginu Danish Crown. Í máli hans kom fram, líkt og í máli Thomas, að það væri mikil aukning í eftirspurninni og að á árabilinu 2022–2032 væri talið að heimsmarkaðurinn kallaði á 36 milljón tonna aukningu af próteini. Með öðrum orðum þyrftu bændur að framleiða mun meira en hingað til, til þess að geta mettað heimsbyggðina. Hluti af þessari aukningu kemur klárlega frá nautakjötsframleiðslunni en talið er að á árabilinu 2023–2033 muni heimsframleiðslan á nautgripakjöti aukast um 8 milljónir tonna. Þessa miklu aukningu muni þó bændur í Suður-Ameríku og Afríku fyrst og fremst bera en ekki er gert ráð fyrir að bændur í t.d. Evrópu muni að jafnaði bæta miklu við heimsframleiðsluna frá því sem nú er orðið. Raunar er því spáð að framleiðslusamdráttur verði í flestum löndum Evrópusambandsins og að jafnaði um 7,6% á árabilinu 2020–2027. Einstaka lönd munu þó bæta við framleiðsluna eins og t.d. Írland, svo dæmi sé tekið.

Tölvuvarnir mikilvægar

Enn eitt áhugavert erindið sneri að tölvuvörnum bænda og fyrirtækja sem þjónusta bændur en það var hann Michael Brødsted frá þekkingarfélaginu SEGES sem flutti erindið. Hann kom inn á að tölvuþrjótar væru nú í auknum mæli farnir að horfa til landbúnaðar og að taka gögn í gíslingu. Michael nefndi það að allt of margir bændur væru í raun með of lélegar varnir gegn árásum og gætu misst viðkvæm gögn fyrir vikið. Þá væru bændur sem væru með beintengdan búnað sérstaklega áhugaverðir fyrir svona tölvuþrjóta, enda hægt að brjótast inn í kerfi þeirra „utan frá“, þ.e. án þess að viðkomandi bóndi hlaði fyrir mistök niður vírus í tölvuna sína.

Bændur og þjónustufyrirtæki í landbúnaði eru stærri og stærri „markhópur“ fyrir tölvuþrjóta nú orðið.

Hvernig á að verjast?

Til þess að verjast mögulegum árásum frá tölvuþrjótum sagði Michael að margt væri í raun til ráða. Fyrst og fremst þyrfti að:

1. Taka afrit – Eiga afrit af öllum gögnum, gjarnan vistað á tveimur ólíkum stöðum og a.m.k. á einum stað sem ekki er aðgengilegur á netinu.

2. Nota örugg lykilorð – Bæði vera með flókin lykilorð og aldrei nokkurn tíma að nota sama lykilorðið á fleiri en einum stað.

3. Styðjast við tveggja þrepa innskráningu, t.d. með því að notast við snjallsímaforrit sem hjálpa við slíkt.

4. Uppfæra hugbúnaðinn reglulega – Tryggja þannig að nýjustu útgáfur á hverjum tíma séu í notkun og treysta þannig að hluta á framleiðandann á hugbúnaðinum að gera hann tryggan.

5. Vera með vírusvarnir – Passa upp á að nota góða vírusvörn á hverjum tíma.

6. Tryggja netið með svokölluðum eldvegg eða netvörn.

7. Gera kröfu til þjónustuaðila – Tala við þjónustuaðila þess hugbúnaðar sem er í notkun á búinu og gera kröfu um að varnirnar séu góðar.

8. Vera með áætlun ef allt fer á versta veg – Hvernig á að bregðast við ef gögn eru tekin í gíslingu?

Sótspor fjósbyggingarinnar

Í Danmörku, árið 2034, munu nýjar víðtækar reglur um aðbúnað nautgripa taka gildi og þá munu í kringum 70% allra fjósa byggð fyrir árið 2010 missa starfsleyfi sitt að óbreyttu. Skýringin á þessu felst í breyttum rýmiskröfum sem hin eldri fjós geta einfaldlega ekki mætt. Fyrir vikið hafa byggingarráðunautar nóg að gera við að teikna endurbætur og breytingar þessi árin. Um frekar sérhæfðar danskar aðstæður er að ræða og því verður ekki kafað nánar í erindið sem fjallaði um þetta en eitt atriði vakti þó athygli greinarhöfundar en það er að danskir bændur velta fyrir sér sótspori þess að byggja nýtt miðað við breytingar eða endurbætur. Þetta er eitthvað sem er nýtt í landbúnaði en í dæmi sem var tekið kom í ljós að við það að breyta fjósi sem í dag er með 83 legubása og gera það að 124 básum með hefðbundnum mjaltabás þá reiknast sótspor framkvæmdanna 2,05 kg CO2 á ári á m2 en ef byggt væri nýtt myndi sótsporið verða 4,33 kg CO2 á ári á m2. Munurinn felst auðvitað í því að eldri byggingar og eldri framkvæmdir yrðu í þessu dæmi nýttar vel. Þá má geta þess að útreikningur á kostnaði við svona breytingar á eldra fjósi í stærra nemur um 50 milljónir íslenskra króna (um 2,6 milljónir danskra króna) en ef byggt væri nýtt frá grunni er áætlaður kostnaður við slíka framkvæmd um 114 milljónir íslenskra króna (um 5,9 milljónir danskra króna) og ef mjaltabás væri sleppt og byggt fyrir tvo mjaltaþjóna myndi heildarkostnaðurinn enda í um 131 milljón íslenskra króna (um 6,8 milljónir danskra króna).

2. Kálfar

Málstofan sem fjallaði um kálfa innihélt nokkuð hefðbundið efni frá SEGES, en svo virðist sem árlega sé ástæða til þess að minna danska bændur á mikilvægi þess að mæla broddmjólkurgæðin og gefa einungis góðan brodd innan tveggja tíma eftir fæðingu, svo tryggt sé að kálfar fái sem best og mest mótefni strax við fæðingu. Um þetta verður ekki fjallað frekar hér enda einnig búið að margskrifa um það í Bændablaðið áður.

Annað efni var öllu fróðlegra en það tók á þeirri staðreynd að allt of margar kvígur ná því aldrei að verða kýr. Það var hún Ruth Davis Kring, frá fyrirtækinu SimHerd, sem fjallaði um það efni. Í máli hennar kom m.a. fram að 20 –25% af heildarkostnaði kúabúa falli til vegna uppeldiskostnaðar á kvígum og að samkvæmt dönskum gögnum þá skili sér ekki nema 82% fæddra kvígna sér inn í framleiðsluna sem kýr. Af þessum 18%, sem ekki ná því að enda sem kýr, fara 8 –9% út úr framleiðsluskrám fyrstu 180 dagana, þ.e. fyrstu sex mánuðina, og hin 9 –10% hverfa úr framleiðsluskrám þá næstu 18 mánuði þar á eftir.

Sinna betur yngstu gripunum

Framangreind tölfræði sýnir að ætli bændur að bæta árangur búa sinna, en geta ekki á sama tíma tekið á öllum þáttum, þá er heillavænlegast að horfa til yngstu gripanna þar sem hlutfallslega mest afföll verða á stystum tíma. Hér skiptir auðvitað meginmáli að huga vel að hreinlæti og að bregðast hratt við sjáist minnstu merki um veikindi. Í Danmörku er algengasta orsök smákálfadauða ekki dauðfæddir kálfar heldur kálfar sem drepast fyrstu dagana eftir fæðingu úr annaðhvort skitu eða lungnabólgu. Danir mæla með því að bændur setji sér skýr markmið og fylgist með vexti kálfanna, ekki einungis á mjólkurfóðrunartímanum heldur allt fyrsta árið í lífi kálfanna. Sé það gert, uppgötvast fljótt ef kálfur er að dragast aftur úr hinum og gæti það þá verið merki um að gera þurfi ráðstafanir t.d. vegna einhverra veikinda.

Samkvæmt danskri tölfræði verða mest afföll af kvígum á aldursbilinu 0–180 daga. Mynd / Ruth Davis Kring

3-5. Dönsku kúakynin

Þrjár málstofur fjölluðu um hin þrjú megin dönsku kúakyn: Holstein, Jersey og RDM. Alls voru flutt sex erindi í þessum málstofum og oftast eru þau mjög sérhæfð sem gefur að skilja. Að þessu sinni var þó eitt erindið almenns eðlis og sérlega áhugavert, en það sneri að smástraumsmælingum í fjósum og hvernig hægt er að snarbæta vellíðan kúa með litlum tilkostnaði.

Sambland straummælinga og atferlismats

Erindið var flutt af rafvirkjanum Lars Wagner og Anne-Mette Søndergaard, sem er landsþekktur nautgriparáðunautur í Danmörku. Þau tóku sig til og settu upp myndavélakerfi í fjósi þar sem grunur var um að smástraumur væri að trufla kýrnar og svo var hreinlega fylgst með atferli þeirra með skoðun á upptökum úr kerfinu. Því næst voru gerðar mælingar á smástraum víða í fjósinu og niðurstöðurnar bornar saman við niðurstöðurnar úr upptökukerfi myndavélanna. Ekki þarf að koma á óvart að mikið samræmi fannst, þ.e. þar sem kýrnar voru síður að nýta legubása, og/eða sleikja vatn úr drykkjartrogum, þar mældist smástraumur. Þetta vandamál var svo leyst með betri og réttum jarðtengingum og gögnin úr fjósinu sýna svart á hvítu hve miklu máli þetta skiptir. Nytin jókst nánast frá einum degi til annars, um leið og búið var að leysa vandamálið.

Algengustu vandamálin

Samkvæmt reynslu þeirra Anne-Mette og Lars er algengasta ástæða þess að vandamál með smástraum í ólagi finnast í fjósum tengt uppsetningu á sjálfvirkum kúaburstum. Þeir virðast oft ekki rétt jarðtengdir. Þar á eftir koma rafmagns mykjudælur, straumbreytar, ljóstvistaljós (LED ljós), sköfu- og skolkerfi og vatnsdælur. Þau hvöttu bændur einfaldlega til þess að horfa á kýrnar og hvernig þær haga sér. Ef þær velji síður ákveðna legubása, sleiki vatn úr vatnstrogum eða séu latar við að koma í mjaltir þá gæti skýringin falist í smástraum sem í raun er afar auðvelt að bæði mæla og laga.

Mælingar á smástraum í fjósum eru ekki sérlega flóknar en geta haft mikil áhrif finnist smástraumur sem truflar kýrnar. Mynd/Anne Mette Søndergaard.

Í næsta Bændablaði verður haldið áfram með umfjöllun um danska fagþingið. Fyrir áhugasama má benda á að flest erindi ráðstefnunnar eru aðgengileg á vefslóðinni: www.kvaegkongres.dk/praesentationer/

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...