Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Metanþefarinn.
Metanþefarinn.
Á faglegum nótum 29. mars 2023

Fagþing dönsku nautgriparæktarinnar 2023 - Fyrsti hluti

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Hið árlega og einkar áhugaverða danska fagþing nautgriparæktarinnar, Kvægkongres, var haldið í lok febrúar sl. og líkt og undanfarinn áratug voru þar flutt ótal erindi sem eiga mörg hver erindi við íslenska bændur.

Fagþingið, sem er í senn bæði ársfundur félagasamtaka danskra nautgripabænda og fagfundur helsta vísindafólks í greininni, stóð í tvo daga og var skipt upp í 12 málstofur með 67 erindum. Í þessari grein verður gripið niður í nokkur erindi sem voru flutt í málstofunum um hagfræði, samfélagsleg áhrif og bústjórn.

1. Hagfræði

Í þessari málstofu voru flutt fimm erindi og var afar áhugavert erindið sem Per Brems Jensen flutti en hann starfar við hrávörukaup og -sölu. Hann fjallaði um útlitið á hrávörumarkaðinum og hvernig hann telur að markaðurinn muni þróast á komandi árum. Í stuttu máli sagt telur hann útlitið ekki sérlega gott hvað þetta varðar og telur að þó svo að hrávöruverð sé e.t.v. heldur að dala nú um stundir þá sé heimurinn á uppsveiflu hvað þetta varðar. Eins og sjá má af meðfylgjandi mynd, sem hann sýndi og sýnir verðþróun svokallaðs CRB stuðuls, en það er stuðull sem mælir verðþróun á algengum hrávörum á heimsmarkaði, þá hefur verðlag þróast í eins konar 30 ára sveiflum frá þarsíðustu aldamótum og hann telur að svo verði einnig nú. Heimurinn sé því á siglingu inn í verðuppsveiflu og verði þar næstu árin.

Í þessu ljósi mælti hann með því að bændur reyndu að gera kaupsamninga á hrávöru langt fram í tímann og á sama tíma binda sölu á sínum vörum í samninga sem gilda í stuttan tíma, svo unnt sé að bregðast hratt við hækkunarþörf.

Verðþróun CRB stuðulsins sýnir að verð sveiflast nokkuð taktfast þar sem hver sveifla mælist í um 30 árum.

Danir að auka mjólkurframleiðsluna

Af öðrum erindum má nefna erindi Thomas Carstensen hjá afurðafélaginu Arla. Hann fjallaði um markaðsmál og mjólkurframleiðsluna og nefndi m.a. að mjólkurframleiðslan í Danmörku væri nú að aukast á ný eftir nokkuð stöðuga framleiðslu á liðnum árum. Nú væri t.d. áætlað að framleiðslan myndi aukast um meira en 50 milljónir lítra á árinu. Þegar hann horfði til markaðs- aðstæðna sagði hann ljóst að gríðarlega hátt afurðastöðvarverð nú um stundir í Evrópu myndi án vafa lækka á þessu ári og nálgast heimsmarkaðsverðið á ný. Skýringin fælist einfaldlega í minni kaupgetu í Evrópu nú en áður, en mikil verðbólga í flestum löndum hefur snarminnkað kaupgetu fólks og það fært neyslu sína í ódýrari vöruflokka.

Þetta hafi komið beint niður á sölu á t.d. gulum osti og mjólkurdufti. Þá væri Kína að draga úr innflutningi mjólkurvara í kjölfar mikillar uppbyggingar þar á stórbúum auk þess sem margar þjóðir í Afríku, sem hingað til hafa tekið við miklu magni af t.d. mjólkurdufti, ættu í efnahagslegum erfiðleikum sem sæist best á gengisþróun landanna. Þessi staða hefur snarhækkað verð á innfluttum vörum sem hefur skilað sér beint í minnkandi eftirspurn eftir mjólkurvörum. Á móti kemur að fólki í heiminum er að fjölga.

Það væru því vaxtarmöguleikar til staðar en ljóst að fram undan væri ákveðinn óstöðugleiki, m.a. vegna stríðsins í Úkraínu, sem gerir það að verkum að erfitt sé að spá langt fram í tímann.

2. Samfélagsleg áhrif

Þetta var einkar áhugaverð málstofa en áhersla fyrirlesaranna var á samspil nautgriparæktar og samfélagsins, bæði þess danska og heimsins. Erindin voru nokkuð fjölbreytt og sneri eitt þeirra, flutt af Nina Preus frá SEGES, að því hvernig neysluvenjur væru að breytast. Fram kom í máli hennar að neytendur dagsins í dag, í kjölfar Covid og vegna stríðsins í Úkraínu, væru mun aðhaldssamari en áður og horfðu í auknum mæli á stórinnkaup, afsláttartilboð og hefðbundna matargerð. Þá hafa margir neytendur áhyggjur af umhverfinu, mengun og matarsóun. Nýleg könnun á neysluhegðun danskra neytenda sýnir að þrátt fyrir framangreindar áhyggjur þá hafi orðið hverfandi litlar breytingar á neysluhegðuninni en skammtastærðirnar væru þó minni. Þannig hefur t.d. engin hlutfallsleg breyting orðið á kjöt- eða mjólkurvöruneyslu danskra neytenda á 12 mánaða tímabili, þ.e. jafnmargir njóta þessara vara nú og fyrir ári síðan en magnið væri þó minna. Annars konar fæði, þ.e. plöntufæði, væri ekki að aukast svo nokkru næmi og þegar Nina horfði til þróunarinnar í heiminum almennt þá væri ljóst að neysla á mjólkurvörum og kjöti væri stöðugt að aukast. Þetta skýrist fyrst og fremst af fólksfjölgun og vaxandi hópi millistéttar í Asíu sem hefur nú efni á að kaupa sér heldur dýrari matvörur en áður.

Það væri því þörf fyrir hefðbundnar landbúnaðarvörur á komandi áratugum og í meira mæli en hingað til. Þannig mætti vænta 15% aukningar á kjötsölu heimsins fram til ársins 2031 og 21% aukningar á sölu mjólkurvara í heiminum. Bændur yrðu þó að vera með vörur sínar á heimsmarkaðinum til þess að njóta þessa vaxtar, en það eru danskir bændur einmitt.

Verksmiðjuframleiðsla

Annað áhugavert erindi í málstofunni, sem flutt var af starfsfólki Háskólans í Árósum, sneri að verksmiðjuframleiðslu á bæði kjöti og mjólk. Undanfarin ár hefur heyrst af því að verið sé að vinna að því að finna verkferla svo unnt sé að framleiða kjöt og mjólk í hefðbundnum verksmiðjum, þar sem notaðar séu stofnfrumur sem svo eru áframræktaðar þannig að úr verði kjöt og mögulega mjólk án þess að framleiðslan tengist notkun á nautgripum. Þetta er m.a. verið að rannsaka í Danmörku og eru þessar aðferðir komnar nokkuð langt á veg en þó er töluvert í land með að gera þetta með nógu hagkvæmum hætti þannig að vörurnar geti keppt við hefðbundnar landbúnaðarvörur

Þar kemur m.a. til hár framleiðslu­kostnaður, vandamál tengd bragð­ og áferðargæðum og fleira mætti nefna. Þó er ljóst að að þessu er unnið víða um heim og hefur vísindafólki miðað vel áfram. Staðreyndin væri sú að svona matvörur munu verða aðgengilegar í töluverðum mæli í framtíðinni. Hvenær það gerist nákvæmlega er þó erfitt að segja fyrir um hér og nú.

Kynbætur fyrir minni metanlosun

Þriðja erindið sem hér verður greint frá sneri að því hvort unnt væri að kynbæta fyrir minni metanlosun nautgripa en á vegum Háskólans í Árósum hefur verið unnið að því að rannsaka þennan möguleika. Í stuttu máli sagt þá er niðurstaða vísindafólksins sú að það er vel hægt að draga úr metanframleiðslu nautgripa í gegnum kynbótastarf, rétt eins og að kynbæta fyrir aukinni mjólkurframleiðslu, en til þess að hægt væri að gera það þyrfti að safna miklu betri gögnum á hverju kúabúi en nú er gert.

Skýringin felst í því að safna þyrfti einstaklingsupplýsingum um styrk metans frá hverjum grip og er það best gert annaðhvort í mjaltaþjóni eða kjarnfóðurbás.
Hvert kúabú þyrfti þá að setja upp tiltölulega einfaldan og ódýran búnað sem mælir styrk metans á hverjum tíma og tengir niðurstöðuna við mismunandi kýr. Jafnframt þyrftu bændur að skrá betur niður heildarát gripa en allt er þetta framkvæmanlegt ef vilji er fyrir hendi.

3. Bústjórn

Þessi málstofa hefur verið fyrir­ferðarmikil undanfarin ár en í ár voru einungis þrjú erindi í málstofunni. Raunar tengist efnið beint inn í svo til allar aðrar mál­stofur enda bústjórn tengd allri starfsemi á kúabúum.

Reynslan úr svínabúskapnum

Eitt erindið í málstofunni var sérlega áhugavert en það sneri að reynslu danskra svínabænda af góðri bústjórn og hvernig nota má reynslu þeirra til þess að bæta bústjórnina á kúabúum. Þarna var m.a. komið inn á hve miklu máli skiptir að vera með góða gagnasöfnun svo unnt sé að bera saman niðurstöður við bæði meðaltal landsins en ekki síður við hóp búa sem eru að ná áþekkum árangri. Tilfellið er að þegar bændur eru að ná mjög góðum árangri þá verður bilið í meðalbúið oft ansi stórt og þá vantar raunhæfari viðmið svo hægt sé að ná enn lengra.

Í erindinu voru sýndar tölur úr svínarækt þar sem kom t.d. fram að meðalgyltan í Danmörku er að skila af sér 34 grísum til lífs á ári en 25% bestu búin eru með að jafnaði 36,8 grísi. Bestu búin eru aftur á móti með í kringum 40 grísi sem vandir eru undan gyltum að jafnaði á ári og til þess að þessi bú geti bætt sig enn frekar þurfa þau að bera sig saman við hvert annað, þ.e. bestu búin við bestu búin.

En hvernig er best að ná slíkum árangri og halda honum? Inn á það kom annar af tveimur ábúendum svínabúsins Thorupgaard, Peter Greibe, en það er einkar vel rekið svínabú með 1.200 gyltum með aðeins 8 starfsmönnum og nemur framleiðslan 46.000 grísum á ári en þeir eru seldir til áframeldis eftir frávenjur og sumir við 30 kílóa þunga. Þetta bú var áður rekið með mikilli eigin vinnu Peter og félaga hans, Esben, sem að eigin sögn skiptu sér af nánast öllu í rekstrinum, voru með mikla viðveru, komust lítið frá og auk þess var starfsmannaveltan mikil hjá þeim félögum. Ástandið var að buga þá og eitthvað varð að breytast og ákváðu þeir að fá hjálp sérfræðinga í bústjórn.

Svínabændurnir Esben og Peter tóku upp LEAN á svínabúi sínu og sjá ekki eftir því.

Tóku upp LEAN

Farið var í gegnum alla verkferla á búinu með LEAN skipulagi og vinnubrögð flestra þátta stöðluð með skriflegum hætti þannig að hver starfsmaður bjó til lýsingu á eigin verksviði og hvernig hann/hún tókst á við mismunandi verkefni. Þá voru settir upp vikulegir upplýsingafundir á búinu, þar sem farið var yfir árangurinn og hvar mætti gera betur og/eða breyta. Þeir gengu meira að segja svo langt að útbúa starfsmannahandbók fyrir búið, jafnvel þó ekki störfuðu fleiri þar en hér að framan greinir.

Enn fremur settu þeir upp fasta fundi með hverjum starfsmanni, þar sem viðkomandi gat skrifað niður ábendingar um eigin verksvið og hvernig mætti bæta frekar vinnuumhverfið o.fl.

Þetta leiddi til gjörbreytingar á rekstrinum, lykiltölurnar urðu betri og þeir Peter og Esben náðu að slaka á og njóta. Dæmið sýnir skýrt, sem reyndar hefur verið margoft skrifað um hér í Bændablaðinu og víðar, að með því að staðla sem flesta verkferla á búum má stórbæta árangurinn.

Í næsta Bændablaði verður haldið áfram með umfjöllun um danska fagþingið.

Fyrir áhugasama má benda á að flest erindi ráðstefnunnar eru aðgengileg á vefslóðinni: https:// www.tilmeld.dk/kvaegkongres 2023/praesentationer

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...