Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Lífræni geirinn vill fá alhliða, opinbera viðurkenningu á kolefnisbindingu lífrænnar ræktunar.
Lífræni geirinn vill fá alhliða, opinbera viðurkenningu á kolefnisbindingu lífrænnar ræktunar.
Mynd / Markus Winkler
Á faglegum nótum 24. október 2023

Evrópuhópur IFOAM – Íslandsdeild

Höfundur: Ólafur R. Dýrmundsson, fulltrúi Íslandsdeildar IFOAM oldyrm@gmail.com

Skýrsla Ólafs R. Dýrmundssonar vegna starfa í Evrópuhópi lífrænna landbúnaðarhreyfinga (IFOAM Organics Europe) fyrir árið 2022.

1) Skrifstofan í Brussel, 20 ára afmæli Evrópuhópsins

Sem fyrr hefur starfsemi skrifstofunnar í Brussel verið margþætt á árinu en hún byggist mjög á yfirgripsmikilli sérfræðiþekkingu á hinu mikla regluverki sem ESB er búið að koma upp í þágu lífræns landbúnaðar. Auk allra aðildarríkja ESB eru í Evrópuhópnum fulltrúar frá Bretlandi, Íslandi, Noregi og Sviss vegna sértækra samninga við sambandið. Við eigum öll greiðan aðgang að upplýsingum, og byggjum samskiptin mest á tölvupósti og fjarfundum, undanfarið ár mikið í tengslum við innleiðingu reglugerðar ESB um lífræna framleiðslu nr. 848/2018 sem tók gildi 1. janúar 2022. Þótt reglugerðinni hafi verið ætlað að einfalda framkvæmd við vottun og draga úr undanþágum sýnir reynslan fyrsta árið að all mörg álitamálum hafa verið að koma upp og nokkuð ber á mismunandi túlkunum. Sum þessi mál fara til EGTOP-sérfræðinganefndarinnar hjá ESB (Expert Group for Technical Advice on Organic Production).

Þann 11. maí 2022 hélt Evrópuhópurinn upp á 20 ára afmælið í höfuðstöðvunum á Brussel undir stjórn framkvæmdastjórans Eduardo Cuoco og stjórnarformannsins Jan Plagge. Guðfinnur Jakobsson í Skaftholti sat stofnfundinn sem haldinn var í Sviss 2002. Ég tók sæti í hópnum í lok mars 2003 en 2. ársfundur hans var haldinn þá í Yiannitsá fyrir norðan Þessalóníku í Grikklandi. Á árinu 2023 hef ég því verið í hópnum í 20 ár. Annar merkisatburður hjá hópnum var á liðnu ári, Lífræni dagurinn 23. september í Brussel, þá haldinn í annað skiptið.

Hér á landi er mest treyst á hvítsmára og rauðsmára, sem hér sést, í sáðskiptum. Mynd/Jack Blueberry

2) Skilgreining á verksmiðjubúskap

Eins og ég hef getið um í nokkrum fyrri ársskýrslum hefur ekki verið til nein opinber og viðurkennd skilgreining á hugtakinu verksmiðjubúskapur (e. intensive factory farming), hvorki hjá IFOAM né ESB. Miðað hefur verið við leiðbeinandi reglur frá 1995 og skilgreiningar í hinum ýmsu löndum og vottunarstofum.

Þar sem vísað er í þessa þéttbæru búskaparhætti, t.d. í sambandi við notkun á búfjáráburði af hefðbundnum búum við vottaða lífræna ræktun, er mismunandi túlkun óviðunandi og skekkir samkeppnisstöðuna. EGTOP- sérfræðinganefndin hefur unnið mikið um árabil við þessa skilgreiningu en í ársbyrjun 2022 tók nýskipuð nefndin efnið fyrir til frekari vinnslu. Nú eru í nefndinni 13 sérfræðingar, þar með tveir frá Norðurlöndunum.

Skemmst er frá að segja að verið er að greina hinu fjölmörgu þætti sem taka þarf tillit til við þessa skilgreiningu. Á meðal þeirra eru rými og þéttleiki, gólfgerðir, birta, loftræsting, bústærð og notkun sýklalyfja og erfðabreytts efnis í fóðri. Öðru hvoru eru að koma þarna upp álitamál sem sýna hve brýnt er að fá samræmda skilgreiningu, t.d. nýlega í Frakklandi, bæði með tilvísun í ESB reglugerð nr. 848/2018 og ESB reglugerð nr. 1165/2021. Svo langt er málið gengið hjá Frökkum, samkvæmt upplýsingum frá ECOCERT-vottunarstofunni, að ágreiningi á milli samtaka framleiðenda lífræns áburðar og opinberrar eftirlitsstofnunar í Frakklandi, hefur dómstóll þar vísað til Evrópudómstólsins.

3) Eiturefnanotkun og umhverfismengun

Mikil eiturefnanotkun í evrópskum landbúnaði veldur gífurlegri umhverfismengun. Þar við bætist mengun frá tilbúnum áburði, lyfjum og plasti sem ESB vill vinna gegn með markvissari aðgerðum. EGTOP-sérfræðinganefndin hefur verið að benda á hve umfangsmikil mengun er frá eiturefnum (plöntuvarnarefnum) og mælir með því að hringrásarhagkerfið verði eflt, þar með lífrænn landbúnaður, sem ekki leyfir notkun slíkra efna. Sum þessi eiturefni geta borist yfir á lífrænt ræktað akurlendi og innihald slíkra efna í grænmeti og ávöxtum á Evrópumarkaði hefur aukist verulega á seinni árum gagnstætt því sem stundum er haldið fram. Þetta sýnir m.a. skýrsla frá PAN Europa frá 2022.

Illu heilli var notkun á Roundup (glyphosat) framlengd frá 2017- 2022. Lífræni geirinn er einnig stöðugt að vekja athygli stjórnvalda og neytenda á þessari miklu mengun sem vitað er að skaðar lýðheilsu. Evrópuhópurinn er að fjalla mikið um efnamengun í landbúnaði, og er m.a að reyna að hafa áhrif á endurskoðun ESB-reglugerða þar að lútandi. Er sú viðleitni í góðu samræmi við það markmið ESB að draga úr eiturefnanotkun í landbúnaði um 50% fyrir 2030. Þá hafa rannsóknir sýnt að líffræðileg fjölbreytni er 30% meiri á lífrænt vottuðum býlum en á jörðum þar sem eiturefni eru notuð. Þetta kemur sérstaklega fram í skordýrafánunni. Einnig er Evrópuhópurinn að dreifa margvíslegu fræðsluefni til þess að fræða bændur og neytendur um skaðsemi eiturefna í landbúnaði, t.d. með stuttum myndböndum,

4) Kolefnisbinding í lífrænum jarðvegi

Í ljósi þeirrar miklu umræðu sem nú er í gangi um þátt landbúnaðar í kolefnisbindingu er Evrópuhópurinn að leggja vaxandi áherslu á framlag lífrænnar ræktunar til kolefnisbúskapar (e. carbon farming). Lífræni geirinn vill fá alhliða, opinbera viðurkenningu á kolefnisbindingu lífrænnar ræktunar í jarðvegi og jákvæðum áhrifum hennar á líffræðilega fjölbreytni (sjá 3. lið ). Þar að auki dregur lífræni landbúnaðurinn stórlega úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda, m.a. vegna þess að þar er ekki notaður tilbúinn áburður. Efasemdir eru uppi um markaðsvæðingu losunarheimilda (carbon markets) og varað við grænþvotti.

5) Belgjurtarækt í sáðskiptum (skiptiræktun)

Með nýju reglugerðinni eru gerðar auknar kröfur til ræktunar belgjurta í akuryrkju sem veigamiklum lið í sáðskiptaáætlunum (Plant production rules, Part I, 1.9.1).

Þetta á við akra sem einærum nytjajurtum er sáð í ár hvert en ekki tún, engjar og beitilönd þar sem fjölærar plöntur eru ríkjandi. Alkunna er að ræktun belgjurta á borð við smára (Leguminosae) er mun erfiðari á norðurslóðum en í suðrænni löndum þar sem hitastig er hærra. Sérstaklega á þetta við um norræn lönd svo sem Ísland og norðurhéruð Noregs, Svíþjóðar og Finnlands. Skilyrðin eru mun betri á Bretlandseyjum og í Danmörku og batna enn meira eftir því sem sunnar dregur. Ekki er tekið tillit til þessa aðstöðumunar í ESB-reglum um lífræna ræktun. Því ákvað ég að hafa samband við félaga í Evrópuhópnum til þess að fá að vita hvernig krafan um belgjurtaræktun í sáðskiptum er túlkuð og hvernig henni er ramfylgt, sérstaklega í norðanverðum Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Þeir gáfu skýr og samhljóma svör. Líkt og hér á landi er mest treyst á hvítsmára (Trifolium repens) og rauðsmára (Trifolium pratense) en eins og hér er uppskeran mjög breytileg og ótrygg, að jafnaði mun minni en sunnar í Evrópu.

Þar sem engar kröfur eru gerðar til uppskeru á flatareiningu (tonn/ ha), nær belgjurtakrafan eingöngu til sáningar belgjurtafræs sem liðar í sáðskiptaáætlunum í akuryrkju. Þar með er með óbeinum hætti tekið tillit til mismunandi ræktunarskilyrða í Evrópu, reiknað með að nægilega mikið spretti af þeim belgjurtum sem þrífast í svölu/köldu loftslagi til þess að þær verði til jarðvegsbóta. Engar reglur eru um fræmagn/ha, treyst er á þekkingu og reynslu bænda með lífræna akuryrkju á norðurslóðum sem og annars staðar í álfunni.

Mjólkurkýr frá lífrænu búi á beit í Kjós. Mynd/Kristján Oddsson

6) Hópvottun (Group Certification)

Á liðnu ári tók til starfa vinnuhópur að frumkvæði IFOAM, bæði IFOAM Organics International og IFOAM Organics Europe, ásamt rannsóknastofnuninni FiBL í Sviss og Þýskalandi og EOCC, samtökum vottunarstofa í Evrópu (The European Organic Certifiers Council). Frumskýrslur komu út í júlí 2022 og miðast hópvottunin við heimildarákvæði í nýju reglugerðinni. Svona vottunarkerfi hefur verið að mótast í ýmsum þróunarlöndum um árabil og miðast það við hópa smáframleiðenda með 5 ha eða minna af ræktunarlandi á hvern, að hópurinn sé á tilteknu svæði eða í tilteknu héraði og afurðirnar séu svipaðar. Megin tilgangurinn er að draga úr vottunarkostnað hvers framleiðanda og auðvelda aðgengi að mörkuðum. Vinna við mótun reglna um hópvottun heldur áfram því að bæði ræktendur lífrænna afurða og vottunarstofur þarfnast þeirra.

7) Ýmis önnur málefni

Hér hefur aðeins verið fjallað um nokkur veigamikil mál sem hafa verið til meðferðar í Evrópuhópnum á liðnu ári. Ýmsir félagar, þar á meðal ég, eru öðru hvoru að senda fyrirspurnir til skrifstofunnar í Brussel. Einnig eru að koma frá þeim ábendingar og upplýsingar. Dæmi um slíkt er sveppaframleiðsla í Póllandi, skortur á lífrænu próteinfóðri í sumum Evrópulöndum svo sem Póllandi og Svíþjóð, og umfjöllun frá Sviss um framlag lífræns landbúnaðar til fæðuöryggis, líffræðilegs fjölbreytileika og umhverfisverndar. Þá er stöðugt verið að leggja áherslu á eftirlit með seinni tíma tækni til erfðabreytinga á nytjajurtum og neytendamerkingar á vörum. Virða beri niðurstöður Evrópudómstólsins frá 2018 í þeim efnum.

Sem fyrr höfum við tekið þátt í nokkrum atkvæðagreiðslum um texta stöðuskýrslna (position papers) frá skrifstofunni í Brussel um tiltekin mál sem eru í meðferð hjá ESB, t.d. um mengun frá utanaðkomandi eiturefnum sem geta borist við úðun í hefðbundinni ræktun yfir á lífrænt vottaða akra og afurðir.

8) Ritstörf o.fl. í þágu lífræns landbúnaðar

Samskipti mín við VOR og Tún hafa verði með ágætum sem fyrr og einnig hafa verið gagnleg samskipti við MAST o.fl. stofnanir. Þá hef ég öðru hvoru veitt áhugasömum einstaklingum upplýsingar um lífrænan landbúnað, m.a. nokkrum háskólanemum, flutti stutt erindi um Evrópuhópinn á aðalfundi VORs og heimsóknin á bás félagsins, Túns o.fl. á Landbúnaðarsýningunni í Laugardalshöllinni í október 2022 var minnisstæð. Skömmu síðar gaf ég Stefáni Gíslasyni, Environice, ýmsar upplýsingar og ábendingar þegar hann var að semja Aðgerðaáætlun til eflingar lífrænnar framleiðslu á Íslandi en að mínum dómi er hún tímamótaskýrsla sem stjórnvöld vinna vonandi eftir við stefnumótun. Öðru hvoru hef ég lesið yfir texta um lífrænan búskap eftir aðra sem birst hafa í fjölmiðlum en eigin ritstörf voru með minna móti á árinu. Bendi helst á þetta þrennt:

  1. Bændur í lífrænum búskap ekki háðir tilbúnum áburði. Bændablaðið, fimmtudagur 10. febrúar 2022, blað nr. 604, 28. árg., 3.tbl., bls. 32-33.
  2. Markmið ESB að fyrir 2030 verði 25% landbúnaðarlands lífrænt vottað – Skýrsla Íslandsdeildar Evrópuhóps IFOAM. Bændablaðið, fimmtudagur 7. apríl 2022, blað nr. 608, 28. árg., 7. tbl., bls. 42.
  3. Lífrænn búskapur stuðlar að bæði fæðu- og matvælaöryggi með sjálfbærum hætti. Birt á vefsíðunni www.lifraentisland.is

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...