Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Claas Arion 470 eru notendavænar dráttarvélar í millistærð. Smekklegt útlit og vel útfært vinnuumhverfi gera vélina að valmöguleika sem er vel þess virði að skoða.
Claas Arion 470 eru notendavænar dráttarvélar í millistærð. Smekklegt útlit og vel útfært vinnuumhverfi gera vélina að valmöguleika sem er vel þess virði að skoða.
Mynd / ÁL
Á faglegum nótum 26. september 2022

Ein mest selda dráttarvél landsins

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Claas Arion 470 sem Vélfang selur er millistór traktor á íslenskan mælikvarða. Sambærilegar vélar hvað varðar stærð eru Massey Ferguson 5700S, Valtra N og New Holland T6 þó erfitt sé að gera beinan samanburð.

155 hestöfl ásamt aflúrtaki að framan og aftan ætti að duga þessari vél í flest verk. Ámoksturstæki auka notagildi og fjaðrandi framhásing gerir akstur þægilegan.

Þegar horft er á vélina utan frá sést strax að metnaður hefur verið settur í að láta vélina líta smekklega út. Eitt helsta einkenni vélarinnar er ljósgræni liturinn og rauðu felgurnar sem hafa verið einkennislitir Claas landbúnaðartækja í áratugi. Annað sterkt einkenni eru sex hringlaga ljós fremst á húddinu. Þrátt fyrir að ljósin minni helst á augun á könguló þá er útfærslan á þeim vel heppnuð.

Að öðru leyti er Claas Arion eins og hver önnur dráttarvél: Með stór dekk að aftan, aðeins minni dekk að framan og ökumannshúsi aftast. Uppskrift sem er praktísk, enda er þetta vinnuvél.

Einn helsti kostur ökumannshússins er óhindrað útsýni um þakgluggann.
Ökumannshús

Þegar klifrað er upp í ökumannshúsið heldur jákvæð upplifunin áfram. Sætið er stillanlegt á fjölmarga vegu og fjaðrar bæði upp og niður; og fram og til baka.

Flest sem ökumaðurinn snertir með höndunum er vel formað og úr góðum efnum. Stýrið er leðurklætt eins og í betri bifreiðum.

Fjölnota stýripinni og sjálfvirkur gírkassi

Næstum allri vinnu vélarinnar er stjórnað með stýripinna sem er þægilega staðsettur fremst á armpúðanum hægra megin. Ámoksturstækin eru það helsta sem er stjórnað með pinnanum, en með fjórum forritanlegum hnöppum er hægt að láta pinnann stjórna hverjum þeim aukahlut sem stýrt er með vökvaþrýstingi.

Auðvelt er að forrita hnappana eftir þörfum hverju sinni og getur sami takkinn stýrt þriðja sviðinu á ámoksturstækjunum eða verið til að hífa og slaka sláttuvél. Þessi pinni auðveldar verk sem krefjast mikillar endurtekningar og þarf notandinn ekki að teygja sig endurtekið í stjórnborðið við hliðina á sætinu.

Akstursupplifun vélarinnar minnir um margt á akstur sjálfskipts bíls, þökk sé Quadrishift 16/16 gírkassa. Í gólfinu er kúpling en hún er ekkert notuð við almenna vinnu þar sem nóg er að ýta á bremsuna til að stöðva vélina. Akstursstefnan er valin með vendigír sem er ýmist stjórnað með lítilli sveif vinstra megin við stýrið eða einfaldri skipun í stýripinnanum.

Annaðhvort er hægt að láta vélina skipta sjálf á milli gíra eða ökumaðurinn velur sjálfur milli þrepa með hnappi á pinnanum góða.

Stýripinnann er hægt að forrita á þá vegu að notandinn þarf ekki að teygja sig í stjórnborðið við vinnu sem krefst mikillar endurtekningar.

Hljóðlát og fjaðrar vel

Eitt af því sem ekki er til staðar í ökumannshúsinu er hávaði. Greinilegt er að hljóðeinangrunin er vönduð, því hávaðinn sem berst inn er engu meiri en í venjulegum fólksbíl. Peltor heyrnartólin er því hægt að skilja eftir heima.

Vélin í þessum reynsluakstri var útbúin fjaðrandi framhásingu. Þökk sé fjöðrun í hásingu; sæti sem fjaðrar á fjóra vegu (upp/niður og fram/ aftur); og öflugrar hljóðeinangrunar er akstursupplifunin afslappandi.

Ökumaðurinn er einangraður frá verstu höggunum sem verða við akstur á grófu yfirborði og áreynsla minnkar.

Sætið fjaðrar á fjóra vegu (upp/niður & fram/aftur). Fjöðrunin fram/aftur breytir miklu hvað varðar þægindi.

Óhindrað útsýni

Hægt er að fá þessar vélar útbúnar með ámoksturstækjum sem auka notkunarsvið þeirra til muna. Við notkun tækjanna kemur sér vel að á vélinni er topplúga sem tengist framrúðunni nær samskeytalaust.

Notandinn getur því staflað rúllum leikandi í fjórar hæðir án þess að þurfa endalaust að rugga sér fram og aftur í sætinu til að skyggnast fram fyrir þakið. Ef sól er lágt á lofti er hægt að draga fyrir topplúguna.

Skýr skjár við hliðina á framrúðunni gefur allar helstu upplýsingar.
Sjálfvirk kúpling

Við nákvæmnisvinnu getur verið erfitt að ná tökum á sjálfvirku kúplingunni; sérstaklega ef gírkassinn er stilltur á sjálfskiptingu. Bremsan virkar mikið til eins og „af eða á“ hnappur fyrir kúplinguna og nýtist hún því illa til að stilla hraðann af mjúklega. Þetta skánar örlítið þegar gírkassinn er tekinn úr sjálfskiptingu og valinn er lágur gír. Þessi eiginleiki er örugglega eitthvað sem er hægt að ná tökum á, en upplifunin er ólík fínvinnu á skotbómulyfturum eða bílum með hefðbundna sjálfskiptingu.

Tölur

Helstu mál eru 2.715 mm á hæð, 2.500 mm á breidd og 4.444 mm á lengd. Þyngd vélarinnar er 5.300 kg án aukabúnaðar og burðargetan er 3.700 kg. Leyfð heildarþyngd 9.000 kg. Claas Arion 470 með ámoksturstækjum og framfjöðrun kostar frá frá 14.600.000 krónum án vsk. Vélin í þessum prufuakstri var með aukabúnað eins og aflúrtaki og lyftu að framan og kostar með þeim útbúnaði 15.400.000 krónur án. vsk.

Sérstakar þakkir fá bændurnir á Signýjarstöðum sem lögðu til dráttarvélina í þennan reynsluakstur.

Skylt efni: prufukeyrsla

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...