Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Drykkur með slæma samvisku
Á faglegum nótum 1. apríl 2022

Drykkur með slæma samvisku

Höfundur: Vilmundur Hansen

Romm er brennt vín unnið úr gerjuðum melassa og sykurreyrs­safa. Drykkurinn er upprunninn á eyju austast í Karíbahafi og nátengdur þrælaverslun og þrælahaldi. Flestar tegundir af rommi eru framleiddar á eyjum í Karíbahafi og í Mið-Ameríku. Romm var um tíma viðurkennt sem gjaldmiðill á pari við gull.

Heimildir um áfengan drykk sem unninn er úr safa sykurreyr þekkjast allt frá sjöundu öld fyrir Krist. Náttúruleg heimkynni sykurreyrs eru í hitabelti Suður- og Suðaustur-Asíu. Ættkvíslarheiti plöntunnar á latnesku er Saccharum og þrjár tegundir eru algengastar, S. barberi, sem er upprunnin á Indlandi eða Kína og S. edule og S. officinarum, sem báðar koma frá Nýju-Gíneu.

Sykurreyr og sykurreyrssafi

Samkvæmt indverskum Ayurveda-lækningum frá sjöundu öld fyrir upphaf vestræns tímatals var hollt að drekka gerjaðan sykurreyrssafa í félagsskap vina. Sami drykkur undir heitinu shidhu er síðar nefndur í fornu riti á sanskrít.

Á sjöttu öld fyrir Krist hófst verslun, í smáum stíl, með sykurreyr og sykur úr reyr frá Indlandi um Persíu til Grikklands. Í fyrstu var sykurreyr hjúpaður talsverðri leynd og talið að stönglar plöntunnar framleiddu hunang án býflugna, enda var hunang eina þekkta sætuefnið í Evrópu á þeim tíma. Sykur var kallað hvítt salt og salt frá Indlandi. Verð á sykri var gríðarhátt í fyrstu og reyndar allt fram á 18. öld og ekki á færi nema aðalsmanna og ríkra að neyta þess.

Sagt er að Pétur I af Kýpur hafi fært fulltrúum þjóðhöfðingja Evrópu á Kraká-þinginu árið 1364 flöskur af rommi sem gjöf, en tilgangur þingsins mun hafa verið að ræða trúarleg áhrif múslima í Evrópu. Samkvæmt þessu má ætla að sykurreyr hafi verið ræktaður á Kýpur á fjórtándu öld, að verslað hafi verið með drykki gerjaða úr sykurreyr á Kýpur eða að um allt öðruvísi drykk hafi verið að ræða sem var kallaður romm.

Malay-fólk á eyjunum Súmötru, Borneó og á Malasíuskaga hefur í tugi alda gerjað áfengan drykk sem það kallar brum úr safa sykurreyrs. Landkönnuðurinn Markó Póló segir í ferðabók sinni frá 14. öld að hann hafi smakkað áfengi sem gert var úr sykurreyr þar sem í dag er Íran.

Í Tékklandi og Slóveníu er búið til rommlíkt áfengi úr sykurrófum sem kallast tuzemak. Sykurreyr var ein af fyrstu plöntunum sem Evrópumenn fluttu með sér til eyja Karíbahafs eftir landafundina í vestri. Eftir að ræktun á sykurreyr barst til Nýja heimsins óx framleiðsla sykurs hratt og verð á honum lækkaði.

Þrátt fyrir það urðu plantekru- eigendur á eyjum eins og Barbados, svokallaðir sykurbarónar, fljótlega með ríkustu mönnum í heimi, enda margir hverjir með illræmdustu þrælahöldurum sem sögur fara af.
Rytmi þræla

Sagan segir að rytminn í söng þrælanna á sykurökrunum hafi verið mun ákafari og hraðari en þeirra sem strituðu við bómull og tóbaksrækt. Auk þess sem líftími sykurþrælanna var mun styttri en við annars konar plantekruþrældóm.

Gerjaður safi úr sykurreyr

Melassi er hliðar- og afgangsafurð sem fæst við vinnslu á sykri úr sykurreyr og safa plöntunnar.
Þrælar frá Afríku á eyjum Karíbahafsins, nánar tiltekið á eyjunni Nevis, uppgötvuðu á 17. öld að hægt var að gerja sterkt áfengi úr melassa. Um drykkinn var sagt í bréfi frá 1620 að hann væri rótsterkur og hryllilegur á bragðið.


Nafnaspeki

Ekki er vitað fyrir víst hver er uppruni heitisins rum eða romm eins og drykkurinn kallast á íslensku og nokkrar getgátur á lofti.

Ein kenningin og sú sem talin er líklegust tengir heitið við „rumlullion“ eða „rumbustion“, fyrra orðið var heiti á drykk sem gerður var úr soðnum sykurreyrsstönglum en hitt táknar óróa eða læti.

Heitið rum var almennt komið í notkun um 1650 sem heiti á áfengum drykkjum frá eyjum í Karíbahafi og ekki síst Barbados.

Auk þess sem drykkurinn gekk undir gælunöfnum eins og blóð Nelsons lávarðar, djöflabani, djöflavatn, sjóræningjavatn og Barbadosvatn.

Blóð Nelsons lávarðar

Nelson lávarður, flotaforingi og þjóðhetja Breta, lést skömmu eftir að hann sigraði Spánverja og Frakka í sjóorrustu 1805, sem kennd er við Trafalgar. Eftir dauða hans var skrokknum komið fyrir í tunnu og tunnan fyllt af rommi til að marinera og varðveita líkið sem skyldi jarðað á Englandi. Við heimkomuna kom í ljós að rommpækillinn var horfinn úr tunnunni og við nánari eftirgrennslan kom í ljós að áhöfnin á skipinu sem flutti hetjuna heim hafði borað gat á tunnuna og drukkið rommið.

Gjaldmiðill á pari við gull

Eiming á rommi úr sykurreyr hófst í Boston í Massachusetts-ríki í Norður-Ameríku árið 1664. Framleiðsla á rommi hófst skömmu síðar í New-England og fljótlega varð romm helsta og ábatasamasta útflutningsvara ríkisins. Áætlað er að hver einasti landnemi, menn, konur og börn, hafi drukkið að meðaltali 14 lítra af rommi á ári til ársins 1775, eða þar til stríðið um sjálfstæði Bandaríkjanna hófst.

Sagt er að fyrsta forseta Banda­ríkjanna, Georg Washington, hafi þótt romm gott og að hann hafi látið flytja tunnu af drykknum frá Barbados til að fagna innsetningu sinni í embættið árið 1789.

Romm átti eftir að leika talsvert hlutverk í pólitík Bandaríkjanna og ekki var óalgengt að frambjóðendur öfluðu sér fylgis kjósenda með því að bjóða þeim romm á kjörstað. Upplit frambjóðenda var oft lágt þegar leið á kosningarnar þar sem ætlast var til að þeir skáluðu við og drykkju staup með hverjum kjósanda til að sýna að frambjóðandinn væri maður fólksins.

Vinsældir romms frá Nýja Englandi voru svo miklar í Evrópu um tíma að það var viðurkennt sem gjaldmiðill á pari við gull, þrátt fyrir að í Gamla heiminum væri litið svo á að besta rommið kæmi frá Barbados.

Romm, skreið og þrælar

Romm varð snemma ein þeirra vara sem voru hluti af verslunarþríhyrningi, Trafalgar-þríhyrningnum, sem lá frá Evrópu til Afríku og þaðan til Nýja heimsins og svo aftur til Evrópu. Sykur og romm var flutt frá Mið-Ameríku til Evrópu og selt þar. Gróðinn af romm- og sykursölunni var notaður til að kaupa byssur, salt, vefnaðarvöru í Evrópu og skreið frá Íslandi, sem voru eftirsóttar vörur í Vestur-Afríku og seldar þar. Í Vestur-Afríku voru keyptir þrælar sem fluttir voru vestur um haf og seldir sykur- og bómullarplantekrueigendum þar.

Og romm og sykur aftur keypt og flutt til Evrópu.

Sjóræningjaromm

Romm tengdist snemma sjómennsku og ekki síst sjóræningjum eða skipstjórum og áhöfnum þeirra sem höfðu einkaframtakið að leiðarljósi, eins og lýst er í Gulleyjunni eftir Robert Louis Stevenson.

Bretar hernámu Jamaíka árið 1655 og komust yfir rommframleiðslu eyjarinnar og í framhaldi af því breyttu þeir daglegum áfengisskammti sjómanna í sjóhernum úr frönsku brennivíni í romm.

Litið var svo á að daglegur skammtur, sirka einfaldur, af sterku áfengi væri góður fyrir heilsuna og bætti móralinn og viðhélst siðurinn, sem kallaðist totty, hjá breska sjóhernum til 1970. Reyndar er það svo að í dag getur breska drottningin og ákveðnir meðlimir konungsfjölskyldunnar gefið leyfi til að veita áhöfn herskipa áfengi við sérstök tækifæri.

Romm og fanganýlendan Ástralía

Áfengi og ekki síst romm gegndi ríku hlutverki í fanganýlendum Breta í Ástralíu og var það veitt í miklu magni, þrátt fyrir að áfengi væri bannað, til að sljóvga fanga og fá þá til að sætta sig við skítleg örlög sín og ömurlegar aðstæður. Nýlendurnar fengu snemma á sig orð fyrir mikla drykkju og alkóhólisminn slíkur að fangar unnu þrælaverk eingöngu romm þar til þeir drápust.

Opinberlega var bannað að flytja romm til Ástralíu en lítið var fyrir því haft að stoppa innflutning þess og á sama tíma var því smyglað í ómældu magni. Mest af rommi var flutt frá Indlandi til fanganýlendnanna og árið 1817 er sagt að tvö af hverjum þremur skipum sem sigldu frá Indlandi til Ástralíu hafi flutt Bengalromm. Iðulega var tunnum með rommi fleytt í land áður en skipin sigldu til hafnar.

Þegar William Bligh tók við sem landstjóri í Ástralíu árið 1808 var eitt hans fyrsta verk að koma höndum yfir og stöðva innflutning og smygl á rommi og öðru áfengi til nýlendunnar. Viðleitni hans tókst ekki betur en svo að herinn gerði uppreisn og stjórnaði nýlendunum í tvö ár þar til nýr landstjóri var settur. Uppreisnin er sú eina í sögu Ástralíu og kallast rommuppreisnin.

Romm í Vasaskipinu

Tinflaska með rommi fannst við fornleifarannsókn um borð í Vasa, sænska herskipinu, sem sökk um 1,3 kílómetra frá landi í jómfrúarsiglingu sinni árið 1628.

Framleiðsla

Gæði romms eru breytileg eftir yrkjum, jarðvegi og veðurfari á ræktunarstaðnum.
Við uppskeru er reynt að skera sykurreyrinn eins nálægt rótinni og mögulegt er þar sem sykurinnihald stöngulsins er mest við rótarhálsinn. Að innihaldi er stöngullinn um 70% vatn, 15% sykur og 15% trefjar.

Við vinnslu eru stönglarnir skornir í ræmur og plöntusafinn pressaður eða valsaður úr þeim. Því næst er safinn eimaður og eftir verður sykur og melassi.

Fyrir gerjun er geri bætt við melassann til að örva niðurbrot hans og hvernig niðurbrotið fer fram ræður bragði rommsins. Niðurbrot í ljósu rommi er hraðara en í dökku og bragðsterkara rommi. Æskilegt er að romm sé látið eldast, helst í eikartunnum eða stáltönkum, í að minnsta kosti eitt ár fyrir neyslu. Romm sem geymt er í stáli helst glært en sé það geymt í eikartunnu dekkist það. Romm er yfirleitt bragðbætt með karamellu, negul eða öðru kryddi áður en það er sett á markað.

Um eimingu og framleiðslu á rommi gilda nánast engar reglur nema að það er unnið úr sykurreyr og drykkurinn því mjög ólíkur milli framleiðenda, framleiðsluhefða og framleiðslusvæða. Í grófum dráttum er romm með 45% styrkleika og flokkað sem ljóst, silfrað eða hvítt og dökkt, svart, brúnt, rautt eða gullið. Kryddað romm, romm sem er allt að 80% af styrkleika og sérframleitt romm.

Neysla

Auk þess að vera drukkið af stút eða blandað með kóladrykkjum er ljóst romm mikið notað sem íblöndun í hanastélsdrykki en dökkt drukkið óblandað með klaka. Dæmi um vinsæla kokteildrykki með rommi eru mai tai, pina kolada, Kúba libra og mohító.

Romm er einnig notað við bakstur, matar- og sælgætisgerð, eins og til dæmis
í súkkulaðirommkúlur, rommrúsínur og rommbúðing.

„Working for the yankee dollar“

Eitt af vinsælli lögum Andrews-systra var „Rum and Coca Cola“. Þrátt fyrir sakleysislegt yfirbragð þótti texti lagsins varhugaverður og lagið víða bannað í útvarpsspilun í Bandaríkjunum.

Ástæða bannsins var að textinn var sagður gefa í skyn að konur, dökkar á hörund, mæður og dætur, á Trínidad seldu bandarískum hermönnum blíðu sína, eða eins og segir í textanum, „working for the yankee dollar“. Opinberlega var bannið sagt vera vegna þess að með því að nefna Coca Cola í textanum væri um óbeina auglýsingu að ræða.

Í íslenskum texta við lagið, eftir Jónas Friðrik Guðnason í flutningi Ríó tríósins, segir aftur á móti:

Íslendinga æðsta þrá
er að hlaupast kulda frá
út í suðræn sólarlönd
og setjast að á hlýrri strönd.
Súpa romm og Kóka kóla,
kætast og spangóla,
hörund sitt hraðsteikja.
Heilsufarið stöðugt veikja.

Romm á Íslandi

Í Skírni frá 1836 segir að í Suðurhafsálfu hafi trúboðar miklar áhyggjur af því að innfæddir verði miklir rommsvelgir fari þeir að rækta „sykurvið“ og búa til romm úr honum.

Samkvæmt Skýrslu um landshagi á Íslandi árið 1858 voru fluttir til landsins 297002 pottar af vínföngum árið 1857 og er þar átt við vín, brennivín, romm og punsextrakt.

Sanntrúaðir rommdrykkjumenn eru fastheldnir á sína tegund en þeir eru ekki endilega á sama máli um hvaðan besta rommið kemur og margir drekka bara eina gerð og lifa eftir mottóinu romm er sú taug. Aðrir eru nýjungagjarnir og vilja smakka sem flestar tegundir.

Á heimasíðu Vínbúðar Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins er fjöldi rommtegunda í boði, bæði sem fastavara í versluninni eða þá með sérpöntun.

Skylt efni: Matur Drykkur Romm

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...