Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Breytingar á skipulagi
Á faglegum nótum 2. september 2022

Breytingar á skipulagi

Höfundur: Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda

Frá upphafi strandveiða 2009 til ársins 2018 var ákveðnu magni deilt niður á hvert hinna fjögurra veiðisvæða strandveiða og því síðan skipt niður á hvern mánuð; maí, júní, júlí og ágúst.

Þegar afla mánaðarins var náð á einstökum svæðum voru veiðar stöðvaðar að öðrum kosti bættist óveitt við aflaviðmiðun næsta mánaðar.

Helstu ókostir þessarar stjórnunar voru:
  • Þegar ljóst var að veiðistöðvun var yfirvofandi myndaðist óæskileg áhættusækni til að ná sem flestum dögum.
  • Veiðidagar á hverju svæði voru mismargir. Taflan sýnir skiptinguna árið 2017.

Á svæði A voru veiðar stöðvaðar frá og með 24. maí, 21. júní, 14. júlí og 16. ágúst. Á svæðum B og C lauk veiðum 17. ágúst. Eins og fram kemur í töflunni voru veiðidagar á svæði A því aðeins 39 á móti 60 sem fæst var á öðrum svæðum.

Ákveðið að breyta kerfinu

Atvinnuveganefnd beitti sér fyrir breytingu á fyrirkomulagi strandveiða þar sem markmiðið var að auka öryggi við veiðarnar og veiðileyfi tæki til 48 veiðidaga án tillits til veiðisvæðis, skipt jafnt á hvern mánuð. Svæðin fengju því öll jafnmarga daga. Þverpólitísk sátt var um breytingarnar á Alþingi vorið 2018 og ári seinna.

Stjórn LS samþykkti að fara í þessar breytingar þar sem gengið var út frá því að fjöldi daga yrði 48. Að sjálfsögðu töldu menn að dagar væru of fáir, en þar sem þetta var upplag nefndarinnar og 12 dagar væru í hverjum mánuði samþykkti stjórn LS það sem lá fyrir.

Á lokametrum frumvarpsins í atvinnuveganefnd kom fram að sjávarútvegsráðherra taldi sig ekki geta samþykkt breytinguna nema hann hefði heimild til að stöðva veiðar færi afli umfram útgefnar heimildir til strandveiða. Þetta mætti andstöðu hjá LS þar sem fiskgengd á svæðum B og C og þá sérstaklega á svæði C var best á síðari hluta tímabilsins og því gæti ójöfnuður myndast.

Ákveðið var að koma til móts við sjónarmið LS með því að rýmka reglur um veiðar á ufsa og tryggja enn betur nægjanlegar heimildir í þorski. Bæði atriðin afar mikilvæg.

Á árunum 2018 og 2019 kom ekki til stöðvunar strandveiða. Það gerðist hins vegar næstu þrjú árin þegar veiðar voru stöðvaðar, 19. ágúst 2020 og 18. ágúst 2021 og nú í ár 21. júlí.

Óæskilegt inngrip

Á árinu 2020 var gerð sú breyting á reglugerð að viðmiðunarafli þorsks var minnkaður um 1.000 tonn. Í stað leyfilegs heildarafla af óslægðum botnfiski 11.000 tonn að ufsa undanskildum var talan sundurgreind í 10.000 tonn af þorski, 1.000 tonn af ufsa og 100 tonn af karfa. LS mótmælti ákvörðun ráðherra harðlega, enda var hér um eitt þúsund tonna skerðingu á þorski.

Þegar ljóst var að aflaviðmiðun dygði ekki til að veiðar stæðu yfir til ágústloka var gerð krafa um að ráðherra bætti afla í viðmiðunarpottinn. Tæki tillit til þess að heimildir voru ekki að fullu nýttar á árinu 2019. Ekki var orðið við þeirri sjálfsögðu beiðni, þrátt fyrir að bent væri á að í aflamarkskerfinu væri heimilt að færa 15% milli ára. Það fundust hins vegar 720 tonn í kerfinu sem bætt var við tíu þúsund tonnin.

Svipaða sögu er hægt að segja um árið 2021, en þá var 1.171 tonnum bætt við.

Hefði getað gefið 1,4 milljarða

Nú þegar liðin er mánuður frá stöðvun strandveiða og samkvæmt veiðileyfi ættu að vera sjö dagar eftir koma í ljós hin gríðarmiklu áhrif sem veiðarnar hafa.

Frá því óheimilt var að stunda strandveiðar 25. júlí sl. til og með 19. ágúst hefur framboð á handfæraveiddum óslægðum þorski á fiskmörkuðum farið úr 3.593 tonnum í 492 tonn. Er því aðeins um 14% af því sem það var í fyrra. Magnið sem hér um ræðir eru 3.101 tonn sem líklegt er að hefði skilað 1,4 milljörðum í aflaverðmæti.

Fiskvinnslur sem byggja rekstur sinn á innkaupum frá fiskmörkuðum hafa því orðið miklum skakkaföllum. Afli sem reiknað var með til vinnslu hefur ekki verið fáanlegur. Það hefur leitt til mikils samdráttar og í sumum tilvikum rekstrarstöðvunar. Útflutningsverðmæti tapast og sett strik í markaðssetningu fyrir þorsk veiddan á handfæri.

Jafnframt hafa margir aðilar orðið fyrir miklum tekjumissi. Útgerðir 712 strandveiðibáta, flutningsaðilar, hafnir og aðrir þjónustuaðilar vítt og breytt um.

Strandveiðar árið 2022

Alls voru 712 bátar á strandveiðum á sl. sumri. Þeim var róið frá nánast hverri höfn landsins 53 talsins. Óvenju góðar gæftir voru á því veiðisvæði sem flestir bátarnir voru gerðir út á, svæði A, við Breiðafjörð og Vestfirði. Á landsvísu náðu 93 bátar að róa alla þá daga sem í boði voru í maí og júní, 12 í hvorum mánuði. Til samanburðar voru aðeins 25 bátar á árinu 2021 sem náðu þeim róðrafjölda.

Auk þess að betra tíðarfar leiddi til meiri afla í hverjum róðri, jókst samanlagður fjöldi veiðiferða í maí og júní um 29%, fór úr 8.879 í 11.420. Af veiðisvæðunum fjórum var mest fjölgunin á svæði A, losaði 42%, úr 4.269 í 6.064 í ár.

Þegar hér var komið sögu á strandveiðum síðast liðins sumars var ljóst að með sama framhaldi yrði veiðum lokið um mánaðamótin júlí – ágúst. Allt var reynt til að fá aflaviðmiðun hækkaða til að tryggja strandveiðar í fjóra mánuði. Það tókst að skrapa saman 1.074 tonn í viðbót við þau tíu þúsund tonn sem áður höfðu verið ákveðin. Það varð til þess að veiðar yrðu ekki stöðvaðar fyrr en heildarþorskafli hefði náð 11.074 tonnum.

Aukning á handfærin – niðursveifla hjá Hafró

Margt fleira kom til en að betur áraði til sjósóknar fyrir handfærabáta. Þvert á niðurstöður Hafrannsóknastofnunar jókst þorskafli í róðri um 6,2%, úr 617 kg í 655 kg. Lifandi vísindi sem strandveiðimenn unnu við sýndi svo ekki lék vafi á að meira var af þorski á þeirra veiðislóð heldur en í fyrra, eða var það bara veðrið sem varð til þess að meira veiddist af þorski.

Sú óvissa olli hins vegar ekki áhyggjum við samanburð þar sem veður í ralli vigtar ekki inn í útreikninga hjá Hafrannsókna- stofnun við mælingar á stærð veiðistofnsins. Miðað við mælingar Hafrannsóknastofnunar á stærð hans (þorskur 4 ára og eldri), hefði mátt gera ráð fyrir samdrætti í veiðum þar sem hann hafði minnkað um 4,6% frá mælingu á sama tíma árið 2021.

Þegar svo mikið ber á milli mælinga á þorski við handfæraveiðar á grunnslóð og niðurstaðna úr togararalli Hafrannsóknastofnunar hefði ákvörðun um þrjú þúsund tonn umfram aflareglu ekki haft neinar neikvæðar afleiðingar.

Hvorki fyrir þorskstofninn né aðrar útgerðir í landinu. Ósveigjanlegt regluverk hefur hins vegar sett ráðherra inn í öngstræti sem gefur honum ekki svigrúm til ákvörðunar sem byggð væri á nýjustu upplýsingum af miðunum.

Rétt er að það komi hér fram að samkvæmt aflareglu stjórnvalda er leyfilegur heildarafli á þorski á yfirstandandi fiskveiðiári er 222.373 tonn. Að ekki sé hægt að bregðast við aðsteðjandi vanda með aukningu sem nemur 1,35% stenst auðvitað enga skoðun.

Strandveiðar njóta velvilja

Strandveiðar eru ekki síður mikilvægar fyrir sjávarútveginn og þjóðina alla. Þjóðin er jákvæð í garð strandveiða.

Veiðarnar stundaðar á smábátum frá nánast hverri höfn landsins. Engin önnur veiðarfæri um borð en handfæri og afli takmarkaður við 774 kg af óslægðum þorski.

Hver veiðiferð má ekki vara lengur en 14 klukkustundir þar sem fjöldi er takmarkaður við 12 daga í mánuði.

Óheimilt er að stunda veiðarnar nema fjóra fyrstu virka daga í hverri viku. Starfsumhverfi sem hér er lýst er nú kannski ekki mjög aðlaðandi, en Íslendingar eru svo lánsamir að á áttunda hundrað manna (konur og karlar) treysta sér til þátttöku.

Kaupa sér bát og hefja strandveiðar þar sem veiðileyfið er ekki skilyrt við kvótaleigu sem opnar möguleika á að hefja útgerð.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...