Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Alls voru 10 smitsýni tekin í PMCA próf. Sýnin komu frá sjö mismunandi bæjum á Norðurlandi.
Alls voru 10 smitsýni tekin í PMCA próf. Sýnin komu frá sjö mismunandi bæjum á Norðurlandi.
Á faglegum nótum 7. júlí 2023

Brautryðjandi niðurstöður: Talsvert fleiri arfgerðir veita mótstöðu gegn riðu

Höfundur: Karólína Elísabetardóttir.

Þegar vísindamennirnir fjórtán, meirihlutinn leiðandi riðusérfræðingar á heimsvísu, komu saman á lokafundi á föstudaginn eftir vikulanga vettvangsferð á Norðurlandi, stóð eitt upp úr: Þeir voru allir heillaðir af brennandi áhuga bænda á efninu, af umfangsmikilli þekkingu þeirra um málin, af vilja þeirra að leysa málin á vísindalegan hátt – og ekki síst af sterkum félagsanda bænda, nánum tengslum þeirra við hjörðina sína, ástríðuna og – í orðsins fyllstu merkingu – ódrepandi bjartsýni og seiglu til að halda áfram þrátt fyrir mjög erfiða tíma.

„Salurinn er fullur – þetta er ótrúlegt! Hvernig var hægt að ná öllum þessum bændum hingað?“ spurði Romolo Nonno á miðvikudagskvöld í Varmahlíð, rétt áður en upplýsingarfundurinn byrjaði í stóra salnum í menningarhúsinu Miðgarði. Romolo er frá Ítalíu og var sá sem fann T137 sem verndandi arfgerð á sínum tíma. „Á Ítalíu hefði svoleiðis fundur verið óhugsandi.“ Starfssystur og -bræður hans voru sammála – hvorki í Englandi, Frakklandi, Þýskalandi né Spáni sé eins samvinna hægt og sú sem byrjaði 2021 á milli íslenskra bænda og alþjóðlegra vísindamanna.

Síðan hefur margt gerst og vettvangsferðin var bæði hápunktur príonarfgerða- og næmisrannsókna og upphafspunktur frekari rannsókna, meðal annars um riðustofnagrein- ingar og umhverfissmit. Verkefnið sem heild, heitir „Classical Scrapie in Iceland – ScIce: a model for prion diseases worldwide“ og er styrkt af Evrópusambandinu með upphæð sem samsvarar 190 milljónum króna. Ísland fær ekki beinan styrk, en nýtur að sjálfsögðu góðs af niðurstöðum rannsóknanna.

Langflestir úr vísindateyminu hafa unnið á sviði príonsjúkdóma í tuttugu eða jafnvel þrjátíu ár og búa því yfir þekkingu sem spannar allt tímabilið sem skiptir máli til að skilja eðli sjúkdómsins og til að finna lausnir. Það gerir hópnum kleift að vinna náið saman þrátt fyrir mismunandi sérsvið. Skilaboð þeirra voru skýr: Að verndandi arfgerðir eru lykilatriði í því að sigrast á riðunni á Íslandi og að það er ómetanlegur kostur ef um fleiri en eina arfgerð er að ræða. Á áhættusvæðum er hröð dreifing verndandi arfgerða mikilvægari en smitvörn sem hindrar flutning gripa með þessar arfgerðir.

Nú þegar er augljóst að fleiri möguleikar eru í boði hér á landi en þeir sem hafa verið notaðir í öðrum löndum til þessa. Eftir að búið er að rannsaka þessa valkosti betur, verður hægt að yfirfæra þá á önnur sauðfjárkyn annars staðar í heiminum – til dæmis kyn í útrýmingarhættu sem eru ekki með verndandi arfgerðina ARR í stofninum.

Björk frá Reykjum með T137-ARQ og dóttir undan Teit frá Sveinsstöðum með arfhreint T137.

Upplýsingarfundirnir í Varmahlíð – brautryðjandi niðurstöður

Boðið var upp á tvo fundi fyrir bændur til að fræðast um ýmis atriði í kringum riðuveiki, til að heyra eitthvað um stöðu niðurstaðna rannsóknanna og ekki síst til að spyrja spurningar og taka umræðu. Þrátt fyrir að fyrri fundurinn væri ætlaður „sérstaklega áhugasömum“, var litli salurinn troðfullur með um 50 gestum og umræður líflegar. Fyrir utan vísindamennina voru mætt Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir, Sigurbjörg Bergsdóttir, sérgreinadýralæknir í sauðfjársjúkdómum, Daníel Haraldsson og Ólafur Jónsson, norðlensku héraðsdýralæknarnir, og Þórður Pálsson, dýraeftirlitsmaður frá MAST. Þau funduðu með erlendu sérfræðingunum rétt áður en hinir fundir byrjuðu.

Stefanía Þorgeirsdóttir veitti á fyrri fundinum umfangsmikla innsýn í riðugreiningar og -rannsóknir á Keldum fyrr og nú. Romolo Nonno miðlaði grunnatriðum um eðli og greiningaraðferðir riðustofna og sagði frá rannsóknunum þeirra upp úr 2007 sem óvænt leiddu til þess að T137 uppgötvaðist sem verndandi í sauðfé á Ítalíu.

Hópurinn á Hólum með Gísla Gunnarssyni biskupi. Mynd / Guðbergur Davíðsson
Sótthreinsun getur ekki hindrað endursmit

Þá byrjaði „stóri“ fundurinn, um 150 manns mættu í salinn og margir að auki á Zoom. Eftir inngangsorð frá Sigfúsi Inga Sigfússyni sveitarstjóra og Sigurborgu Daðadóttur kom Ben Maddison með sláandi niðurstöður um áhrif sótthreinsunar og takmarkanir hennar eftir riðuniðurskurð. Á Englandi hefur tilraunabú fyrir príonsjúkdóma starfað í meira en 20 ár sem var á sínum tíma sett á fót á búi með sérstaklega alvarlegt riðuvandamál. Þar er hægt að rannsaka sjúkdóminn undir eðlilegum aðstæðum – með úthaga, tún, ýmsar innréttingar, mismunandi uppsett fjárhús o.fl.

Sérstaklega næmar VRQ/ VRQ-kindur eru notaðar til að skoða smitvirkni (svokallað „bio assay“). RAMALT-próf – sem nota sýni úr eitlakerfi í endaþarmi – leyfa riðugreiningu mjög snemma í sjúkdómsferlinu. Auk þess eru tekin yfirborðssýni með hjálp sýnatökupinna sem líkjast eyrnapinnum. Smit úr þessum sýnum er hægt að magna upp með PMCA- prófi (eins og í næmisprófunum hans Vincents, sjá næsta kafla) sem gerir vísindamönnunum kleift að mæla smit þrátt fyrir mjög lítið smitmagn.

Rannsakaðar voru fjórar mismunandi hreinsunaraðferðir, meðal annars staðalaðferðin í Bretlandi þar sem háþrýstihreinsun, klórhreinsun, endurgalvanisering og málning eiga að fjarlægja allt riðusmitefni á svæðum sem kindur ná í (í allt að 1,50 m hæð). Samt smituðust eftir fáa mánuði allar tilraunakindur. Ástæðan er ryk sem finnst á svæðinu, það er alls staðar innan fjárhússins – einnig þar sem kindur ná ekki til, til dæmis á þaksperrum, hátt uppi á veggnum o.s.frv. Þetta ryk er að dreifast um húsið og viku eftir sótthreinsun er hægt að mæla smit á nýsótthreinsuðum yfirborðum.

Ben undirstrikaði að hér sé um sérstakar aðstæður að ræða – mjög næm arfgerð, nýfædd lömb sem „bio assay“, mikið smit fyrir sótthreinsun – sem útskýrir af hverju ekki allar kindur á fyrrverandi riðubúum smitast strax undir venjulegum kringumstæðum. En að hans mati er augljóst að áhættan sé alltaf til staðar, að niðurskurður og sótthreinsun getur ekki komið í veg fyrir því að riða kemur upp aftur og að eingöngu ónæmar arfgerðir tryggja að ekkert endursmit á sér stað í framtíðinni.

Vincent Béringue vakti mikla lukku þegar hann kynnti nýjar arfgerðir með mótstöðu hér á Urðum í Svarfaðardal.

Stjarna kvöldsins – Vincent og næmisprófin

Stjarna kvöldsins var því Vincent Béringue sem kynnti glænýjar niðurstöður úr næmisprófunum mismunandi arfgerða sem hann og Angélique Ige, starfssystir hans, hafa unnið við síðan í vetur:

  • 17 mismunandi samsetningar allra breytileika sem koma fyrir á Íslandi
  • er verið að prófa með samtals 10 ólíkum smitsýnum
  • frá 7 mismunandi bæjum á Norðurlandi, sem er upphafssvæði riðuveiki (sjá kortið).

Til að fá áreiðanlegar niðurstöður, er nauðsynlegt að keyra hverja og eina arfgerð/samsetningu í gegn með hvert og eitt smitsýni í að minnsta kosti þrjú skipti. Ekki nema 12 arfgerðir hafa pláss í sömu rannsóknarplötu og til samanburðar verður alltaf að hafa með:

  • VRQ/VRQ og ARQ/ARQ sem þekktar næmar arfgerðir og
  • ARR/ARQ og ARR/ARR sem þekktar ónæmar arfgerðir.

Ein „keyrsla“ inniheldur alltaf fjórar umferðir, sem líkja eftir smitferli arfgerðanna í tilraunaglasi. Eftir það eru niðurstöðurnar metnar með svo kallaðri Western Blot aðferðinni (WB). Hún gengur út á það að „melta í burtu“ heilbrigða príonpróteinið þannig að eingöngu umbreytta (sýkta) smitefnið verður eftir; hann sést þá í formi mynsturs með þremur misdökkum böndum. Því dekkri sem böndin eru, því meira er vefurinn smitaður – því næmari er viðkomandi arfgerð. Í besta falli hins vegar er WB myndin bara hvít eða mjög ljósgrá, enga umbreytingu að finna, þ.e. arfgerðin er ónæm fyrir riðusmiti.

Til þessa hafa allar arfgerðir verið prófaðar a.m.k. þrisvar með eftirfylgjandi þrjú smitsýni:

  • sýni 1: Vatnshóll 1999 (sýnið sjálft er með arfgerðina ARQ/VRQ)
  • sýni 3: Urðir 2017 (ARQ/ARQ)
  • sýni 4: Stóru-Akrar 2020 (ARQ/ARQ)

Niðurstöður úr þessum prófum eru allar í sömu átt, þess vegna telur Vincent mjög ólíklegt að hin smitsýnin láti eitthvað allt annað í ljós. Það helsta:

  • Sum smitsýni eru greinilega með sækni í ARQ og önnur í VRQ.
  • ARQ/ARQ virðist yfir höfuð eins næmt og VRQ/VRQ.
  • Mjög áhugavert: Allar hinar prófuðu arfgerðir/samsetningar – sjá kassann – bjóða upp á talsverða vernd (miðað við næmu arfgerðirnar ARQ/ARQ og VRQ/ VRQ) sem virðist sambærileg við ARR.
  • Sérstaklega vel út komu: N138/ AHQ og AHQ/ARR.

Þessar niðurstöður eru til þessa í samræmi við gögn um arfgerðir riðujákvæðra kinda hér á landi: Eingöngu 2 tilfelli hafa fundist með AHQ/ARQ og 6 tilfelli með N138/ARQ og ekkert af hinum samsetningum. Á Vatnshóli og Stóru-Ökrum, þar sem allar kindur voru raðgreindar eftir niðurskurð, voru allar jákvæðar kindur með ARQ/ARQ þrátt fyrir talsverðan fjölda N138, C151 og AHQ í báðum hjörðum, sérstaklega á Vatnshóli.

Eftirfarandi rannsóknir eru í gangi til að fá staðfestingu:

  • arfgerðagreining 15 riðuhjarða í viðbót (1998 til 2023) og samanburður arfgerða jákvæðra og neikvæðra gripi úr sömu hjörð
  • prófa hin 7 smitsýni í PMCA þrisvar

Lykilatriði við „áhættumat“ arfgerða er hvort eitlakerfið tekur þátt í sjúkdómnum eða hvort hann er takmarkaður á heilann. Ef eitlakerfið tekur ekki þátt, smitar gripurinn ekki aðrar kindur þrátt fyrir að hann sé veikur sjálfur og er því ekki hættulegur. Engar smittilraunir hafa verið gerðar á samsetningum með N138 og C151 og engar með AHQ með íslensk smitefni og enginn eitlavefur er varðveittur úr þeim fáu jákvæðu kindunum sem báru N138 eða AHQ. Til að fá vissu um það væru smittilraunir með kindur æskilegar sem endurspegla íslenska veruleikann. Þær leyfa helstu niðurstöður eftir 2 til 3 ár og lokaniðurstöður eftir 5 til 8 ár.

Fjórir gripir, fjórar verndandi arfgerðir: Drottning Radixdóttir AHQ/N138, sonur með T137/N138 og dóttir með T137/AHQ, t.v. Fjólusonur með T137/ARQ. Mynd/Karolína E.

Vettvangsferðir – íslenskur sauðfjárbúskapur er öðruvísi

Vísindamennirnir dvöldu í heila viku og kynntu sér sérstöðu íslensks landbúnaðar og sérstaklega sauðfjárbúskapar. Allir voru sammála um að hann sé öðruvísi en í heimalöndunum þeirra – nema kannski að hluta til í Skotlandi.

Eftir hlýjar og nærandi móttökur hjá BSE, þar sem Sigurgeir framkvæmdastjóri fræddi hópinn um veðursæld og landbúnað í Eyjafirði, var ýmislegt góðgæti í boði hjá Snorra og Brynju á Stóru-Hámundarstöðum – ásamt litríkum kindum af öllum aldri með alls konar arfgerðir, en aðallega T137. Ármann, fyrrverandi héraðsdýralæknir, tók svo rúntinn með hópnum um Svarfaðardal þar sem allt fé var skorið niður 1988. Á Urðum var stoppað, þar sem uppruni tveggja smitsýna er, og Einar Hafliðason upplýsti um bakgrunn og núverandi stöðu. Við næsta stopp í félagsheimilinu Höfða beið ekki bara kaffi, heldur líka nokkrir áhugasamir bændur úr dalnum, meðal annars Sölvi Hjaltason, Hreiðarsstöðum, sem hafði undirbúið minningarstund um atburði tengda riðuveiki á áttunda áratug. Líflegar umræður tóku við.

Eftir það var haldið vestur í Brúnastaði í Fljótum þar sem Stefanía Hjördís og Jóhannes buðu upp á girnilegar geita- og sauðfjárafurðir úr eigin framleiðslu, meðal annars sauða- og geitaosta, og kynntu íslensku geitina fyrir gestunum. Aldrei hefur riða verið greind í geit hér á landi – til þessa hefur samt ekki fundist nein hefðbundin verndandi geitaarfgerð á Íslandi. Vincent á eftir að prófa geitasýni með þremur mismunandi arfgerðum til að sjá hvort ástæðan fyrir þessu fyrirbæri er kannski að finna þar.

Gestirnir heimsóttu einnig tvo riðubæi í Skagafirði: Stóru-Akra (upphafsbær haustið 2020) þar sem Gunnar bóndi sýndi þeim litríkar og hamingjusamar mjólkurkýr og fjárhús sem hann hafði breytt í gróðurhús, og Álftagerði (riða 1988, 2008, 2019) þar sem Gísli og Ingibjörg buðu upp á vígalegt kaffihlaðborð sem var umræðuefni lengi á eftir. Á leiðinni „heim að Hólum“, þar sem hópurinn gisti, var Glaumbær skoðaður og vakti mikla athygli. Talandi um Glaumbæ – Gísli Gunnarsson, núverandi Hólabiskup og fyrrverandi prestur og sauðfjárbóndi í Glaumbæ, tók á móti hópnum og borðaði með honum fyrsta kvöldið ásamt Þuríði konu sinni. Síðasta kvöldið hins vegar var grillveisla – Gísli í Álftagerði, Ólafur Atli í Grófargili, Ingimar á Ytra- Skörðugili og Aron í Víðidal mættu og tóku ásamt Eyþóri nokkur lög sem vakti mikla lukku og aðdáun.

Jón á Hnjúki í Skíðadal, Kristín og Árni á Hofi í Svarfaðardal, Sölvi á Hreiðarsstöðum, Stefanía á Keldum, Ármann á Böggvisstöðum og Snorri á Krossum/Stóru-Hámundarstöðum. Mynd / Karolína E.

Alltaf var lögð rík áhersla á íslenskan mat, meðal annars lambakjöt, ærkjöt, folaldakjöt, ýmiss konar grænmeti, osta og aðrar mjólkurvörur, helst úr héraði. Þrátt fyrir að vísindamennirnir kæmu úr gjörólíkum löndum – Romolo til dæmis fæddist á lítilli eyju í Miðjarðarhafi en Fiona í Skotlandi – voru þeir undantekningarlaust hrifnir af öllu sem var borið fram. Á matartímanum var líka mikið spjallað um sjálfbæra framleiðslu og dýravelferð; að þeirra mati er sér í lagi íslenskur sauðfjárbúskapur ein sjálfbærasta leið til kjötfram- leiðslu í heimi.

Almennt kom gestunum mjög á óvart hversu fjölbreyttir, vel upplýstir, vel menntaðir og gestrisnir íslensku bændurnir voru sem þeir kynntust í heimsóknum og á fundum – sérstaklega í samanburði við bændur í heimalöndunum þeirra. Hvergi annars staðar töldu þeir líklegt að sauðfjárbóndi gæti orðið biskup. Ekki síst þetta nákvæma og umfangsmikla skýrsluhaldskerfi sem sauðfjárbændur nota hér á landi og áhuginn á markvissri ræktun hjá flestum bændum vakti mikla athygli. Í ljósi þessara lykilatriða eru þeir afar bjartsýnir að Ísland muni fljótlega losna við riðuvandamálið.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...