Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Mynd 1. Kýr sem hefur fengið smá viðbótarathygli bóndans. Ef vel er að gáð sést að kýrin er með svitabletti þrátt fyrir að hún sé tiltölulega stutthærð og samkvæmt heimildum í fjósi þar sem loftgæði voru góð.
Mynd 1. Kýr sem hefur fengið smá viðbótarathygli bóndans. Ef vel er að gáð sést að kýrin er með svitabletti þrátt fyrir að hún sé tiltölulega stutthærð og samkvæmt heimildum í fjósi þar sem loftgæði voru góð.
Mynd / Ola Stene
Á faglegum nótum 4. september 2024

Alltaf að klippa útiganginn

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Nú þegar haustið er að koma eru líklega flestir kúabændur farnir að undirbúa það að hýsa þá nautgripi sem hafa verið úti í sumar. Sjálfsagður hluti af því að taka inn er að klippa gripina enda ekki þörf fyrir þá að vera loðnir, þegar þeir eru komnir inn í fjós.

Klipping hefur jákvæð áhrif á líðan þeirra, vöxt og framleiðslu og skýrist það fyrst og fremst af því að klipptir nautgripir svitna minna og líður því betur en hinum. Það að klippa gripina í fjósinu á því að vera sjálfsagður hluti vinnubragðanna og það sem meira er, vinnan við þetta borgar sig!

Sveittir gripir

Kýr eða kvígur sem hafa verið úti í tiltölulega langan tíma fram á haustið aðlagast veðurfarinu, þ.e. svalari dögum og nóttum, með því að feldurinn þykknar. Þegar þær koma svo inn í fjós, og fara á stöðugt og gott fóður, verður varmaframleiðsla þeirra vegna jórtrunar töluverð og þennan hita þurfa þær að losna við. Ef þær væru utandyra myndi umhverfishitinn, sem þá væntanlega er nokkuð lágur, taka til sín þessa orku frá gripunum en svo er ekki farið inni í fjósum. Þar einangrar þykkur feldurinn skinnið og þeir fara að svitna með tilheyrandi vanlíðan. Þar sem þétt er á gripum eða loftræsting ekki mjög góð eykst þessi svitaframleiðsla enn frekar. Þetta ferli hefur þess utan áhrif á framleiðsluna enda nota nautgripir töluverða orku til þess eins að losa sig við umframhitann. Fóðurnýting verður sem sagt betri ef gripirnir eru ekki loðnir!

Mynd 2. Hefðbundnar rafhlöðudrifnar kúaklippur eru væntanlega algengasti hárklippibúnaður í fjósum hér á landi.
Klippingar borga sig

Fyrir nokkrum árum kom fram, í danskri rannsókn, að bændur gætu grætt í kringum 12.000 ÍKR á hverja kú eða kvígu að jafnaði við það eitt að klippa þær, þegar þær eru hýstar. Meginskýringin á þessari arðsemi klippingar fólst í því sem hér var sagt að framan, þ.e. hagkvæmari framleiðslu, en rannsóknin sýndi einnig að mest var að sækja við það að klippa kvígurnar. Þetta skýrist væntanlega af því að þær eru oftast hafðar lengur úti og því með enn þykkari feld og svitna því mun meira en t.d. kýr svo dæmi sé tekið. Gripir sem svitna mikið hafa einnig meiri vatnsþörf og séu óklipptar fyrsta kálfs kýrnar saman við hinar eldri getur það bitnað á framleiðslu þeirra þar sem þær eru lægra settar í fjósinu og fá „úthlutað“ verri drykkjartímum en kúm sem eru hærra settar. Það kom einnig í ljós að mjólkurframleiðsla kvíganna jókst við klippinguna sem styður við framansagðar fullyrðingar um áhrifin.

Mynd 3. Dæmi um júgurhárabrennara. Brennarinn byggir á svokölluðum köldum loga og tekur einungis örfáar sekúndur að brenna hárin af og án þess að valda skepnunni skaða.
Tæki og tól

Það eru til margs konar útfærslur af tækjum og tólum til að fjarlægja hár af nautgripum. Hefðbundnar rafhlöðudrifnar kúaklippur, sjá mynd 2, eru þó væntanlega algengastar og þægilegastar í notkun fyrir flest af þeim hárklippiverkum sem þarf að framkvæma. Oft geta þó júgur á kvígum og kúm verið hárug og það getur verið önugt að klippa vel þessi hár, sem oft eru einkar fíngerð. Þá kemur hárbrennari sér vel, sjá mynd 3, en með honum eru hárin fjarlægð með einföldum og vel að merkja sársaukalausum hætti. Þá eru til mjög sérhæfðar klippur, fyrir afmörkuð verkefni eins og t.d. halahár, en líklega eiga fæstir kúabændur svona klippur, sjá mynd 4, sem þó geta verið einkar handhægar.

Þó mynd 1 sé meira hugsuð sem skemmtileg skreyting við textann, sýnir hún einnig að þó svo að þessi kýr sé í raun frekar snöggklippt á öllum líkamanum þá sjást á henni svitablettir þrátt fyrir að hún hafi verið í vel loftræstu fjósi. Hún væri því augljóslega mun sveittari ef hún væri loðnari.

Óbein áhrif

Að klippa kýr, og sérstaklega kvígur, er einnig góð fjárfesting vegna þess að það gerir þær auðveldari í meðförum. Flestum gripum finnst gott að láta klippa sig og það gefur þeim því jákvæða upplifun af náinni snertingu sem getur hæglega skilað sér þegar kemur að því að mjólka þarf viðkomandi eftir fyrsta burð.

Mynd 4. Halaháraklippur eru dæmi um sérhæfðan búnað til þess að klippahalahár nautgripa.

Rétt vinnubrögð mikilvæg

Þegar byrjað er að klippa er ráðlagt að setja klippurnar í gang í góðri fjarlægð frá þeim grip sem á að klippa. Þetta gerir hann öruggari og aðrir gripir í nágrenninu venjast líka hljóðinu. Einnig er gott að nálgast gripinn framan frá, sé það hægt, til þess að gera ferlið sýnilegt fyrir viðkomandi grip.

Þegar byrjað er, ráðleggja Norðmenn að byrja að klippa við halarót og færa sig svo fram eftir hryggnum. Klippa síðan halann og lærin. Það er mjög mikilvægt að klippa halann vel en það hefur bein jákvæð áhrif á hreinleika gripanna. Séu sérhæfðar halaháraklippur notaðar má enda á því verki fyrir marga gripi í einu. Allt bakið er líka sérstaklega mikilvægt vegna þess að það er þar sem gripirnir svitna mest og hárlagið er líka þykkast þar. Síðan er um að gera að klippa undir maganum, þar sem skítur festist auðveldlega. Júgrið er einnig mikilvægt að klippa, sérstaklega þar sem eru mjaltaþjónar. Þetta skýrist af því að júgrin verða hreinni og ásetning spenahylkja betri, þ.e. ef hárin hafa verið fjarlægð.

Órólegir gripir

Standi til að klippa gripi sem erfitt er að hemja, og/eða bjóði aðstaðan ekki beint upp á það að heilklippa, er ráðlagt að forgangsraða bakklippingunni, eins og sjá má dæmi um á mynd 5.

Að hluta til byggt á, og með leyfi höfundar, grein Ola Stene úr Buskap Nr 1/2023.

Mynd 5. Stundum láta bændur sér nægja að raka efri hluta gripanna en það eitt og sér stórbætir líðan gripa og hjálpar þeim að losna hraðar við hita og raka. Mynd / Fas.scot

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...