Álfaklettur frá Syðri-Gegnishólum ásamt nokkrum afkvæmum sínum við afhendingu Sleipnisbikarsins á Landsmóti hestamanna í Reykjavík í sumar.
Álfaklettur frá Syðri-Gegnishólum ásamt nokkrum afkvæmum sínum við afhendingu Sleipnisbikarsins á Landsmóti hestamanna í Reykjavík í sumar.
Mynd / Heidi Benson
Á faglegum nótum 17. september 2024

Afkvæmahestar á Landsmóti 2024

Höfundur: Þorvaldur Kristjánsson, ráðunautur í hrossarækt.

Á Landsmóti 2024 í Víðidal hlutu sjö stóðhestar fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og aðrir fjórir hlutu heiðursverðlaun fyrir afkvæmi.

Afkvæmasýningarnar voru afar vel heppnaðar og ljóst að aðstandendur hestanna lögðu metnað sinn í framkvæmdir og að skipulag þeirra væri sem best úr garði gert. Í þessum pistli eru birt dómsorðin sem dómnefnd kynbótahrossa samdi um hvern og einn afkvæmahest á mótinu og stutt umfjöllun um hvað liggur að baki því að stóðhestar nái þessum tiltekna árangri.

Sýning afkvæmahesta á Landsmóti er eitt áhugaverðasta atriði mótsins fyrir ræktendur og aðstandendur kynbótahrossa, og yfirleitt afar magnað sýningaratriði hvort sem fólk hefur áhuga á ræktun eða ekki. Þó mörg afkvæmi hestanna komi fram í öðrum sýningaratriðum mótsins er afar verðmætt og lærdómsríkt að fá afkvæmin saman til sjá heildar yfirbragð hópanna og helstu einkenni sem stóðhestarnir gefa frá sér. Þá kemur oft í ljós hversu sterkt hestarnir erfa frá sér bæði kosti sína og galla. Þessi einkenni eru til dæmis í byggingu hestsins og hreyfingamynstri, hvort sem það liggur í fjaðurmagni, skreflengd, skrokkmýkt eða léttleika hreyfinga. Einkum er þetta áberandi þegar hestarnir sjálfir koma fram með afkvæmum sínum og afar skemmtilegt þegar það er hægt. Þessi sameiginlegu einkenni hestsins og afkvæma hans endurspegla það tiltölulega háa arfgengi sem er meðal annars á eiginleikum hæfileikanna, sem gefur til kynna að frammistaða hestsins sjálfs í dómi gefur okkur strax töluvert miklar upplýsingar um kynbótagildi hans.

Hér fyrir neðan má sjá dómsorð sem dómnefnd Landsmóts 2024 samdi um afkvæmahesta ársins en tilgangur þeirra er að lýsa þeim meginþáttum sem einkenna afkvæmi hvers stóðhests fyrir sig. Þessar afkvæmalýsingar má finna í gagnagrunni WorldFengs en þar eru einnig nánari upplýsingar um kynbótamat og meðaleinkunnir hestsins fyrir hvern og einn eiginleika. Til að ná heiðursverðlaunum fyrir afkvæmi verða hestar að eiga að lágmarki 50 dæmd afkvæmi og vera með að lágmarki 118 stig í aðaleinkunn kynbótamats, eða í aðaleinkunn án skeiðs. Til að ná fyrstu verðlaunum fyrir afkvæmi verða hestar að eiga að lágmarki 15 dæmd afkvæmi og vera með að lágmarki 118 stig í aðaleinkunn kynbótamats, eða í aðaleinkunn án skeiðs. Í þeim tilvikum sem stóðhestar ná afkvæmaverðlaunum byggt á aðaleinkunn án skeiðs í kynbótamati er sú aðaleinkunn birt, en röðun hestanna í sæti byggir á hversu háa aðaleinkunn þeir hafa í kynbótamatinu. Afkvæmahestar ársins verða hér taldir upp í sætisröð og fyrir aftan nöfn þeirra er kynbótamat aðaleinkunnar; í þeim tilfellum sem hestarnir eru jafnir að stigum var þeim raðað á aukastöfum.

Heiðursverðlaun fyrir afkvæmi:

Álfaklettur frá Syðri-Gegnishólum – 132 stig.

Álfaklettur frá Syðri-Gegnishólum gefur hross í rúmu meðallagi að stærð með frítt og skarpt höfuð og vel opin augu. Hálsinn er hátt settur, vel aðgreindur frá bógum og reistur, kverkin einkar klipin. Bakið er vöðvafyllt og lendin jöfn. Afkvæmin eru fótahá, afar létt á bolinn og þurrbyggð, sum nokkuð grannbyggð. Fætur eru þurrir, sinaskil góð en sinin í meðallagi öflug. Hófar hafa hvelfdan botn og prúðleiki er í tæpu meðallagi. Álfaklettur gefur fjölhæf ganghross með fallegar hreyfingar, afar auðsveipa lund og frábæran vilja. Þau eru takthrein, mjúk og framgripsmikil á tölti, brokkið er svifgott og takthreint, rými misjafnt. Skeiðgetan er hreint úrval og skeiðið öruggt, takthreint og svifmikið. Greiða stökkið er rúmt og skrefadrjúgt og þau eru takthrein og jafnvægisgóð á hægu stökki, fetið er takthreint og skrefmikið. Álfaklettur gefur fínleg, léttbyggð og lundþýð hross með úrvals ganghæfni, hann er gæðingafaðir og kynbótahestur í fremstu röð, hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og fyrsta sætið.

Skaginn frá Skipaskaga – 125 stig.

Skaginn frá Skipaskaga gefur stór hross með frítt og fínlegt höfuð. Frambyggingin er úrval, hálsinn er langur og fínlegur, með klipna kverk og háar herðar. Bakið er breitt, stundum svagt með langan spjaldhrygg en lendin er afar öflug. Afkvæmin eru myndarleg; afar fótahá og léttbyggð með sívalan bol. Fætur eru sterkir; þurrir með öflugar sinar, hófar eru efnisgóðir með þykka hæla og prúðleiki er góður. Afkvæmin eru yfirleitt alhliðageng, takthrein og skrefmikil á tölti, brokkið er skrefmikið, stundum ferðlítið. Skeiðgeta er mikil og skeiðið er takthreint, rúmt og skrefmikið. Stökkið er teygjugott og hreyfingamikið en mætti vera svifmeira, fetið er takthreint, skortir stundum framtak. Afkvæmin eru viljug, þjál og yfirveguð, þau eru reist og hágeng og fara vel í reið. Skaginn gefur stórglæsileg hross á velli, fríð og framfalleg, alhliða garpa á gangi, hann hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og annað sætið.

Hringur frá Gunnarsstöðum – 121 stig.

Hringur frá Gunnarsstöðum gefur góða stærð. Höfuð er skarpt og langt, stundum með merarskál, eyrun eru fínleg. Hálsinn er reistur og vel settur við skásetta bóga, baklínan er afar sterk og lendin löng en stundum gróf. Afkvæmin eru fótahá, framhá og myndarleg. Fætur eru þurrir, réttleiki þeirra er um meðallag og hófar þokkalega gerðir. Prúðleiki á fax og tagl er rýr. Hringur gefur klárhross með tölti, þau hafa mikla útgeislun og eru viljug og vakandi. Á tölti og brokki eru þau hágeng, léttstíg og framhá, brokkið mætti stundum vera rýmra. Stökkið er ferðmikið, teygjugott og hátt og hæga stökkið er takthreint og lyftingargott. Fetið er takthreint en vantar stundum framtak. Hringur gefur reist og næm léttleikahross sem fanga augað með skörpum og háum hreyfingum, hann hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og þriðja sætið.

Kjerúlf frá Kollaleiru – 113 stig (aðaleinkunn án skeiðs: 119 stig).

Kjerúlf frá Kollaleiru gefur hross í tæpu meðallagi að stærð. Höfuð er svipgott með vel opin augu en stundum krummanef. Afkvæmin hafa sterka yfirlínu í hálsi og baki. Hálsinn er reistur við háar herðar og skásetta bóga en getur verið djúpur. Bakið er breitt og lendin öflug, stundum afturdregin. Afkvæmin eru sívöl og hlutfallarétt, fótahæð er í meðallagi. Fætur eru þurrir með öflugar sinar en ekki mikil sinaskil og geta verið nágengir að aftan. Hófar eru efnismiklir með hvelfdan botn, prúðleiki er í meðallagi. Kjerúlf gefur afar aðgengileg, vel töltgeng og þjál hross. Afkvæmin hafa úrvals gott tölt, takthreint, rúmt og jafnvægisgott með góðri fótlyftu. Brokkið er skrefmikið og rúmt, stökkið ferðmikið en fetið fremur skrefstutt. Ef skeið er fyrir hendi er það öruggt. Afkvæmi Kjerúlfs eru ásækin í vilja, vakandi og þjál og fara vel í reið með háum fótaburði. Kjerúlf hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og fjórða sætið.

Þráinn frá Flagbjarnarholti ásamt aðstandendum við afhendingu Orrabikarsins. Mynd / Henk & Patty Photographers

1. verðlaun fyrir afkvæmi:

Þráinn frá Flagbjarnarholti – 134 stig.

Þráinn frá Flagbjarnarholti gefur stór hross. Höfuð er skarpt með beina neflínu og vel borin eyru. Hálsinn er reistur og grannur við háar herðar. Bakið er burðugt, vöðvafyllt og lendin löng. Afkvæmin eru fótahá og jafnvægisgóð með sívalan bol. Fætur eru réttir, þurrir með ágæt sinaskil og öflugar sinar. Hófar eru efnisgóðir með hvelfdan botn, prúðleiki er í tæpu meðallagi. Afkvæmin eru bráðger, viljug og kjarkmikil. Töltið er mjúkt og skrefmikið með góðum fótaburði. Brokkið er skrefmikið, mætti sundum vera svifmeira, greiða stökkið teygjugott og rúmt, skeiðið afar jafnvægisgott og öruggt. Fetið er takthreint. Þráinn gefur stórmyndarleg, jafnvægisgóð og sterkbyggð hross, þau hafa virkjamikið skref og aðsópsmikla framgöngu, hann hlýtur fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og fyrsta sætið.

Adrían frá Garðshorni á Þelamörk – 132 stig.

Adrían frá Garðshorni á Þelamörk gefur svipgóð hross með vel borin eyru. Hálsinn er reistur og hvelfdur við skásetta bóga og háar herðar en mætti stundum vera fínlegri. Bakið er burðugt og lendin er öflug. Afkvæmin eru stór, fótahá og jafnvægisgóð, þróttleg á bolinn. Fætur eru þurrir og sterklegir en sinaskil mættu vera meiri. Hófar eru efnistraustir, prúðleiki á fax og tagl er í meðallagi. Adrían gefur hreyfingamikil hross sem eru fljót að ná jafnvægi á gangi. Þau eru rúm, mjúk og takthrein á tölti, hafa góðar hreyfingar á brokki en sum eru sviflítil. Þau hafa frábært skeiðupplag og skeiðið skrefmikið og rúmt. Stökkið er skrefmikið og hæga stökkið takthreint. Adrían gefur reist hross með sterka yfirlínu og mikla hæfileika; þau eru teygjugóð á gangi og tápmikil í lund, hann hlýtur fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og annað sætið.

Ísak frá Þjórsárbakka – 124 stig.

Ísak frá Þjórsárbakka gefur stór og myndarleg hross á velli, þau eru fríð á höfuð með beina neflínu. Hálsinn er afar reistur og langur, herðar eru háar. Yfirlína í baki er sterk og lendin öflug. Afkvæmin eru fótahá, sívalvaxin og hlutfallarétt. Fætur eru sterklegir, þurrir og fremur réttir. Prúðleiki er yfir meðallagi. Afkvæmin eru flest klárhross með tölti þó vökur hross finnist í hópnum. Þau eru hágeng og skrefmikil á tölti og brokki en ekki alltaf rúm á brokkinu. Þau eru teygjugóð á greiðu stökki, takthrein og jafnvægisgóð á hægu. Ísak gefur stórglæsileg hross, þau eru reist og fara afar vel í reið, hann hlýtur fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og þriðja sætið.

Snillingur frá Íbishóli – 121 stig.

Snillingur frá Íbishóli gefur svipgóð hross í tæpu meðallagi að stærð. Hálsinn er hátt settur og prýðilega gerður, bakið er burðugt og lendin jöfn. Afkvæmin eru hlutfallarétt og jafnvaxin, í meðallagi fótahá. Fótagerð er fremur sterkleg, hófar eru efnisþykkir en geta verið þröngir, prúðleika á fax og tagl er í meðallagi. Afkvæmin eru traust í lund, búa yfir góðri bóghreyfingu og léttum hreyfingum. Þau eru hágeng og skrefmikil á tölti, mættu sum vera mýkri, á brokki eru þau takthrein og skrefadrjúg en gætu verið svifmeiri. Skeiðgeta er frábær og skeiðið takthreint, rúmt og sniðgott. Þau er léttstíg á greiðu stökki, takthrein og í meðallagi svifmikil á hægu. Fetið er takthreint. Snillingur gefur þurrbyggð hross með þjálan vilja og afar góða alhliða reiðhestskosti, hann hlýtur fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og fjórða sætið.

Dagfari frá Álfhólum – 121 stig.

Dagfari frá Álfhólum gefur fremur stór hross með þróttlegt höfuð. Hálsinn er reistur og herðar háar en bógalega í meðallagi. Bakið hefur sterka yfirlínu, mætti vera breiðara en lendin er öflug. Afkvæmin eru fótahá, jafnvægisgóð og gerðarleg, bolurinn í meðallagi sívalur. Fætur eru þurrir, hafa fremur grannar sinar og afturfótastaða er stundum hörð. Hófar eru vel lagaðir og efnisþykkir, prúðleiki er undir meðallagi. Afkvæmin eru rífandi reiðhross, léttviljug og vakandi. Þau eru takthrein á tölti með góðan fótaburð, þau eru örugg á brokki en mættu vera svifmeiri, sum þeirra eru vel vökur. Stökkið er rúmt og teygjugott en fetið stundum skrefstutt. Dagfari gefur reist og jafnvægisgóð hross, þau eru þjál og viljug og fara vel í reið, hann hlýtur fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og fimmta sætið.

Lexus frá Vatnsleysu – 116 stig (aðaleinkunn án skeiðs: 121 stig).

Lexus frá Vatnsleysu gefur góða stærð og afkvæmin hafa fínlegt höfuð með vel opin augu, stundum merarskál. Hálsinn er reistur og grannur og vel aðgreindur frá bógum, bakið er vöðvafyllt með sterka yfirlínu og lendin öflug. Afkvæmin eru afar jafnvægisgóð og fótahá, fætur eru þurrir en grannir og nágengir að aftan. Hófar eru efnisþykkir, stundum þröngir, prúðleiki er í tæpu meðallagi. Lexus gefur léttstíg og hágeng útgeislunarhross. Þau eru framhá á tölti og brokki, hreyfingamikil og rúm, mættu stundum vera svifmeiri á brokkinu. Þau eru teygjugóð á stökki, takthrein og skrefmikil á hægu stökki. Fetið er rösklegt, mætti vera skrefmeira. Lexus gefur léttviljug, reist og hágeng hross sem fanga augað, hann hlýtur fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og sjötta sætið.

Ljósvaki frá Valstrýtu – 114 stig (aðaleinkunn án skeiðs: 118 stig).

Ljósvaki frá Valstrýtu gefur stór og myndarleg hross. Höfuð er skarpt með vel opin augu, hálsinn er langur og grannur við háar herðar. Bak og lend er vöðvafyllt en lendin stundum gróf. Afkvæmin eru myndarleg; fótahá, léttbyggð og sívalvaxin. Fætur eru sterklegir, sinaskil þokkaleg en afturfætur nágengir. Hófar hafa hvelfdan botn en hælar geta verið slútandi, prúðleiki er í rúmu meðallagi. Afkvæmin eru oftast klárhross með tölti. Töltið er takthreint, rúmt og skrefmikið með góðum fótaburði. Brokkið er skrefadrjúgt og lyftingargott en stundum sviflítið. Stökkið er úrval, teygjugott og rúmt og hæga stökkið takthreint. Fetið er takthreint en skortir stundum framtak. Ljósvaki frá Valstrýtu gefur stór og fótahá hross, þau eru ásækin í vilja og fara vel í reið með góðum fótaburði. Hann hlýtur fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi og sjöunda sætið.

Skylt efni: afkvæmahestar

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...