Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Nýkjörin stjórn FsA, fv. Karl Jóhannsson, Þorsteinn Pétursson, Loftur Þór Jónsson, Lilja Sigurðardóttir og Sigfús Jörgen Oddsson. Helga Bragason og Sigbjörn Óla Sævarsson vantar á mynd.
Nýkjörin stjórn FsA, fv. Karl Jóhannsson, Þorsteinn Pétursson, Loftur Þór Jónsson, Lilja Sigurðardóttir og Sigfús Jörgen Oddsson. Helga Bragason og Sigbjörn Óla Sævarsson vantar á mynd.
Mynd / Aðsendar
Á faglegum nótum 27. maí 2025

Aðalskipulagsmál í brennidepli

Aðalfundir skóigarbænda á Austurlandi, Vesturlandi og Suðurlandi fóru fram nýlega. Aðalskipulagsmál voru í brennidepli.

Austurland

Þorsteinn formaður setti fundinn og fór yfir það sem hafði verið í brennidepli á starfsárinu. Þar á meðal sagði hann frá vel heppnaðri heimsókn í Vallanes þar sem Eymundur og Eygló voru sótt heim. Ábúendur tóku á móti gestum í Asparhúsinu og sögðu gestunum frá ræktun, rekstri og ferðaþjónustunni sem þróast hefur í Vallanesi ásamt því að fara í skógargöngu um Orminn, sem er orðin vel þekkt gönguleið fyrir gesti og gangandi. Þar voru einnig skógarhöggsvélar við vinnu og gátu félagsmenn skoðað vinnubrögð þeirra.

Á fundinum var kosið til stjórnar FsA og er hún skipuð sem hér segir: Formaður er Lilja Sigurðardóttir, frá Ormsstöðum, gjaldkeri er Sigfús Jörgen Oddsson, Staffelli, ritari er Loftur Jónsson, Stóra Sandfelli 1 og meðstjórnendur eru Þorsteinn Pétursson, Víðivallagerði og Helgi Bragason, Setbergi. Varamenn í stjórn eru Karl Jóhannsson, Þrepi og Sigbjörn Óli Sævarsson, Rauðholti. Úr stjórninni gengu þau Vigdís Sveinbjörnsdóttir, Egilsstöðum og Kjartan Glúmur Kjartansson, Hóli.

Jóhann Gísli Jóhannsson sagði frá hugmyndum eflingar Búnaðarsambands Austurlands og talaði um að með samheldnum samtökum allra búgreina á Austurlandi væri hægt að ná meiri árangri heldur en eins og nú er þegar hver búgrein stendur fámenn að sínum málum. Umræðuhópur vinnur að málinu.

Hrefna Jóhannesdóttir, sviðsstjóri LOGS, fór yfir starfsmannamál LOGS á Austurlandi og gerði einnig grein fyrir úthlutunum ársins og fór yfir framboð skógarplantna en töluverð afföll urðu vegna krefjandi veðurfars á liðnu ári.

Hjörtur Bergmann Jónsson, formaður SKÓGBÍ, hélt þrumuræðu þegar hann sagði frá starfi deildarinnar. Hann hvatti skógarbændur á Austurlandi til að fjölmenna í samtökin því saman ættum við sterkari rödd á meðal jafningja í Bændasamtökunum.

Aðalskipulagsbreytingar hjá Múlaþingi voru mikið ræddar. Það þykir undarlegt að þrengja eigi að nýrækt skóga með stærðarmörkum upp á 50 hektara á meðan við blasir að Fljótsdalshérað er ein búsældarlegasta sveit landsins og er þar ekki síst fyrir að þakka góðu skógræktarstarfi síðustu áratuga. Fundurinn ályktaði um að skila yrði inn kjarngóðri umsögn um málið í von um að stjórnvöld sveitarfélagsins áttuðu sig á mikilvægi skógræktar, einkum í því skyni að styðja og efla búsetu og matvælaframleiðslu í sveitarfélaginu.

Á fundinum bauð kvenfélagið Bláklukkan upp á kótelettur og dýrindis hnallþórur og var langt liðið fram á kvöldið þegar ákveðið var að haldinn yrði auka aðalfundur síðar þar sem ljóst var að meiri tíma þyrfti til að ræða um bæði fjármál og kurlara.

/Stjórn FSA.

Vesturland

Aðalfundur FsV var haldinn á Hótel Hamri þriðjudaginn 8. apríl síðastliðinn. Sigurkarl formaður setti fundinn. Mættir voru 26 manns. Rifjaði hann upp nokkra punkta í sögu félagsins sem stofnað var á 16 manna fundi 1997. Skemmtilegt var að tveir þessara stofnfélaga voru einmitt staddir á fundi dagsins, þeir Guðbrandur Brynjúlfsson og Guðmundur Sigurðsson. Sést vel á þeim hve skógarlífið er hollt og gott. Tvö snemmgrisjunarnámskeið voru haldin undir leiðsögn Valdimars Reynissonar, það fyrra á Hálsi á Skógarströnd í apríl í fyrra og annað nú í apríl á Oddsstöðum, Lundarreykjadal. Bæði námskeiðin voru fróðleg og heppnuðust mjög vel. Í júní, á afmæli félagsins, var farið í heimsókn að Brekkuskógi við Búðardal og svo að Hrútsstöðum. Bergþóra og Böðvar tóku á móti okkur þar, gengið var um skógræktina og síðan var öllum boðið upp á veitingar í vélarskemmunni hjá þeim. Málþing var haldið á Laugum í Sælingsdal sem gerð hafa verið skil í Bændablaðinu á fyrra ári. Málþing skógarbænda verður næst haldið á Hótel Kjarnalundi 11. október nk.

Af kosningum er helst að segja að Sigurkarl Stefánsson situr áfram sem formaður og Jakob Kristjánsson situr áfram sem gjaldkeri. Helga Ragnarsdóttir kemur ný í stjórn og tekur við af Kristínu Magnúsdóttur sem ritari. Varamenn í stjórn eru Sóley Sigurgeirsdóttir og Þröstur Theodórsson

Þrjú ávörp voru á fundinum. Gústaf Jarl Viðarsson og Naomi Bos, skógræktarráðgjafar Lands og skóga á Vesturlandi, sögðu frá úthlutun plantna og framkvæmdum vegna skógræktar. Það voru gróðursettar um 800.000 plöntur í fyrra á Vesturlandi. Eftirspurn er mun meiri en framboðið vegna takmarkaðra fjárveitinga. Fyrirspurnir komu um áhrif lúpínu á skógrækt og eldvarnir ræddar og sitthvað fleira.

Næst fór Hjörtur Bergmann Jónsson, formaður búgreinadeildar skógarbænda hjá BÍ, yfir samstarfið við Bændasamtökin sem er í uppgangi og afa jákvætt. Hjörtur hvatti alla skógarbændur til að ganga í BÍ. Hann sagði frá væntanlegu samstarfi við samtök skógarbænda Evrópu og Norðurlöndum. Einnig sagði hann frá því að CE vottun á burðarvið er frágengin.

Loks sagði Reynir Kristinsson hjá Kolviði frá því að sala kolefniseininga hafi dregist saman á síðastliðnum árum. Fyrir því liggja ýmsar ástæður.

Að lokum var greint frá því að Guðrún og Jóhannes í Efri-Hreppi bjóða heim í kringum 23. júni í árlega afmælisferð félagsins. Ferðin verður auglýst síðan.

Góður fundur í góðum hópi. Alltaf gaman þegar skógarbændur koma saman.

Sigurkarl Stefánsson.

Suðurland

Formaður flutti skýrslu í upphafi fundar, en fundargerðin, ásamt skýrslu stjórnar, er birt eins og áður undir www.skogarbondi.is/sudurland.

Björn Bjarndal Jónsson kynnti verkefnið „Úr skógi“ sem snýst um að kanna og þróa úrvinnsluleiðir fyrir nytjaafurðir úr skógum með það markmið að finna leiðir til að skapa verðmæti úr þeim hráefnum sem fást við grisjun og nýtingu á trjám í íslenskum skógum. Myndaður var samráðshópur sem saman stóð af sérfræðingum af ýmsum sviðum, þar á meðal skógrækt, hönnun, iðnaði og fræðasamfélaginu. Vinnuna leiddi verkfræðistofan EFLA. Í skýrslu koma fram ítarlegar upplýsingar um m.a. skógardreifingu á Íslandi, tiltækt viðarmagn, timburgæði, innfluttar viðarafurðir, verð, o.fl. Forval á hugmyndum var kynnt m.a. til nýtingar viðarafurða bæði sem óunnar og unnar timburvörur, til orkunýtingar, sértækar vörur, upplifun, o.fl. Margar skapandi, spennandi og áhugaverðar hugmyndir komu fram í þessum fyrsta fasa þessa verkefnis Úr skógi.

Sérstakur fyrirlesari fundarins var Böðvar Guðmundsson, fyrrverandi skógarvörður á Suðurlandi. Flutti hann erindi um upphafsár sín hjá Skógrækt ríkisins. Böðvar sýndi fjölda mynda, bæði frá upphafsárum sínum 1966 sem sumarstrákur hjá Skógræktinni að Skriðufelli í Þjórsárdal og fram á daginn í dag. Í lokin áréttaði Böðvar „mikilvægi þess að gæta vel að því að bæta inn í gróðursetningar, 2500 tré á hektara er lágmark til að fá upp almennilegan timburskóg“.

Hjörtur Bergmann, formaður SkógBÍ, ávarpaði fundinn og kynnti starf skógarbændadeildar Bændasamtakanna. Ræddi hann m.a. um skipulagsmál og hversu misjafnar kröfur eru á milli sveitarfélaga sem eru verulega íþyngjandi fyrir skógarbændur. Að lokum hvatti Hjörtur alla skógarbændur til að skrifa greinar í Bændablaðið og mæta á málþing skógarbænda sem verður haldið 11. október í Kjarnalundi á Akureyri.

Í lok fundar fór Björgvin Eggertsson frá Garðyrkjuskólanum Reykjum-FSU yfir starf Garðyrkjuskólans og endurmenntun í græna geiranum. Í framhaldi af því kynnti hann samstarf milli atvinnulífs og endurmenntunar Garðyrkjuskólans á Reykjum ásamt samstarfsyfirlýsingu milli skólans og Bændasamtaka Íslands.

Sagði hann frá nokkrum áhugaverðum námskeiðum við skólann, eins og húsgagnagerð, áhættumat trjáa, trjáfellingar, trjáog runnaklippingar, jólatrjárækt, o.fl. Stjórn FsS er óbreytt. Björn Bjarndal Jónsson er formaður, Ragnheiður Aradóttir er ritari, Hrönn Guðmundsdóttir er gjaldkeri og Sólveg Pálsdóttir og Októ Einarsson eru meðstjórnendur. Varamenn eru Rafn A. Sigurðsson, Sigríður Jónína Sigurfinnsdóttir og Hólmfríður Frostadóttir. Hólmfríður kom inn í stað Agnesar Geirdal sem hættir nú eftir áralanga setu í stjórn.

Októ Einarsson og Björn Bjarndal.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...