Að ná utan um heildina
Fram undan er samtal bænda við stjórnvöld og raunar þjóðina alla um fyrirkomulag stuðningskerfis landbúnaðarins. Fyrir liggur að gildandi búvörusamningar renna sitt skeið í lok næsta árs og því ekki seinna vænna að huga að því sem taka á við.
Starfandi bændur hafa nú þegar lagt í fjárfestingar og skuldbindingar vegna framleiðslu afurða sem verða á diski neytenda næstu árin. Enn fremur kunna aðrir að velta því fyrir sér hvað felst í þeirri framtíð að gera landbúnað að starfsvettvangi sínum. Það er því nauðsynlegt að tryggja sem allra mestan fyrirsjánleika í þessum efnum.
Eðlilega verður horft til þeirra búvörusamninga sem eru í gildi, um ágæti eða bresti þeirra samninga sem gerðir voru 2016 eða síðari breytinga ætlar undirritaður ekki að meta eða rekja hér. Þróunin hefur þó verið umhugsunarverð. Afkomu bænda er í of mörgum tilvikum verulega ábótavant og áfallaþolið er lítið, sérstaklega hjá þeim sem hafa nýverið fjárfest til framtíðar. Þrátt fyrir þörfina og vitneskju um að hér á landi hafi framleiðsla langt frá því haldist í hendur við stækkandi markað hefur ekki komið til þess að við því sé brugðist með teljanlegum hætti. Aðeins hafa komið til afturvirkar „plástraaðgerðir“ sem hafa um og of verið háðar pólitík. Þannig rennur landbúnaðurinn hægt og sígandi eftir þeim vatnshalla sem honum hefur verið sniðinn og á köflum fórnað fyrir aðra hagsmuni.
Við endurskoðun samninganna í ársbyrjun 2024 var bókað að samningsaðilar væru sammála um að koma þyrfti á auknu jafnvægi í tollasamningi Íslands við Evrópusambandið og að forsendurnar sem þar hefðu legið að baki væru breyttar, sérstaklega hvað útflutningstækifæri varðaði. Sömuleiðis var gerð sérstök bókun um næstu skref þar sem eftirfarandi stóð: „Aðilar samninganna eru sammála um að hefja nú þegar samtal um starfsumhverfi landbúnaðar í heild sinni til framtíðar.“
Það er því ekki aðeins samtalið um hina eiginlegu búvörusamninga sem fram undan er heldur má gefa sér að reynt verði eins og kostur er að ná utan um stóru myndina, heildina. Það er jú í öllum verkum talinn kostur að hægri höndin viti og skynji hvað sú vinstri sé að gera og það sé í takt við hugsun og markmið þess sem hendurnar ber, annað er marklaust. Það á við í þessu enda af mörgu að taka í heildarstarfsumhverfi landbúnaðarins sem getur hæglega bætt brautargengi hans. Þannig má nefna auk beins stuðnings tollvernd, fjármögnunarmöguleika, skattaívilnanir og fleira.
Það er til mikils að vinna að samtalið við þjóðina og samningagerðin við stjórnvöld muni ganga vel og veita okkur bændum farsæla niðurstöðu með skýrum skilaboðum. Landbúnaður er rótgróin atvinnugrein sem á sinn sess og erindi í íslensku samfélagi enda einn af innviðum okkar sem hefur áhrif á hvert heimili í landinu. Næg eru tækifærin til sóknar.