Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Þótt ótrúlegt megi virðast, eiga sveppaldin líka sín fræðiheiti.
Þótt ótrúlegt megi virðast, eiga sveppaldin líka sín fræðiheiti.
Mynd / Kristján Friðbertsson
Á faglegum nótum 29. september 2020

Að gera kleinu úr líparíti; mikilvægi fræðiheita

Höfundur: Kristján Friðbertsson

Mörgum er illa við fræðiheiti plantna og kjósa heldur að halda sig við íslensk heiti. Gott og vel, enda mörg íslensku heitin afar falleg og vel heppnuð. Hins vegar eru ekki til íslensk heiti á allar plöntur og auk þess oft heppilegra að vita fræðiheitin, vilji maður leita sér nánari upplýsinga.

Fræðiheitin segja okkur líka oft meira um plöntuna, á meðan almennu heitin geta jafnvel verið villandi. Randagin er t.d. ekki nýtt íslenskt gin, heldur blómplanta sem nefnist Linaria repens á fræðimálinu.

Lin naría?

En hvað segir fræðiheitið okkur um plöntuna? Linaria vísar til þess að hún tilheyrir þeirri ættkvísl og á eflaust margt sameiginlegt með ættingjum sínum. Repens í nafninu vísar til þess að plantan liggur flöt, skríður um og festir svo rætur hér og þar. Nefna má skriðsóley, hvítsmára og húsapunt sem dæmi um þessa skriðulu hegðun í íslensku flórunni. Blóðberg hegðar sér svosem ekki ósvipað, án þess þó að bera þess merki í nafninu.

Skríður barn, skríður bleia

En aftur að latínunni. Þegar maður lærir orð sem vísar til skriðullar hegðunar, veltir maður auðvitað fyrir sér hvar annars staðar þetta gæti átt við. Lýsingin gæti átt við um unglinga, eða jafnvel ungbörn. Þau skríða jú um og festa stundum rætur í dágóða stund. Alþjóðlegur þýðandi sem ég fann á netinu lagði til „Liberi repens“ sem þýðingu á „skriðul börn“.

Kristján Friðbertsson.

Þar datt maður auðvitað lengra ofan í holuna og týndi sér í latínunni. Endingar skipta máli. Libero þýðir t.d. ókeypis, sem rímar afar illa við verðlagningu á samnefndum bleium. Libera þýðir afhenda og liber er bók. Næsta spurning til þýðandans var augljós: „Liberi libera libero liber“ hlýtur þá að þýða „Börn afhenda ókeypis bók“? Nei, ekki hélt hann það. Þetta þýddi hann sem „Frítt frítt frítt“. Ekki er öll vitleysan eins. Líklega skiptir samhengi og röðun einnig máli. Nema þýðandinn sé bara ekki eins klár og hann heldur.

Gekk Bólu-Hjálmar um með dvergaslæðu?

Nóg um það. Ekki tími til að læra latínu núna. Virðist allt of mikið ves­en. Skoðum frekar fleiri skriðular plöntur. Hvar finnur maður víðar „repens“? Flottasta plöntunafnið í hópnum er líklega klakadrottning. Drottningu hæfir þó varla að skríða, en líklega hefur heitið klakaungbarn þótt óþjált. Heldur eðlilegra kannski að maður búist við að sjá dvergaslæðu (Gypsophila repens) og lágdeplu (Veronica repens) liggjandi við jörðu. Einnig slæddist þarna með Dermatitis repens. Ekki er þar á ferð planta, heldur kvilli sem hrjáir okkar stærsta líffæri: húðina. Skilgreint sem „Langvinnt og þrálátt form bólukvilla í húð yst á fingrum og tám“. Hafandi nýlega lært um orðið „repens“ gefum við okkur að kvillinn hljóti að vera skriðull. Ætli Bólu-Hjálmar hafi kynnst þessu?

Skríða úlfaldar í eyðimörkinni?

Svar er ekki á reiðum höndum, því augað rataði fljótt á hið skriðula úlfaldablóm (Kleinia repens). Næsta verkefni var því að finna stað á Íslandi þar sem úlfaldablóm vex upp úr mýflugnagrasi (Liparis loeselii), eða jafnvel í jarðvegi úr samansöfnuðum leifum mýflugnagrass. Hið raunverulega dæmi um úlfalda úr mýflugu. Athugun á lýsingum þessara plantna gerði manni þó fljótt ljóst að þær væru ólíklegar til að vaxa saman og hvorug þeirra lifir villt á landinu okkar fína, þó íslensk heiti þær hafi. Myndin verður því ekki að veruleika að sinni. Að gera Kleinia repens úr Liparis loeselii, er þó auðveldlega hægt að snara yfir í vitleysuna: – „Að gera kleinu úr líparíti“.


Stefnumót við plöntur

Fræðiheitin segja auðvitað bara rétt formálann. Plöntulýsingar gefa okkur þær upplýsingar sem vantar. Með fræðiheitin í farteskinu getum við flett upp plöntulýsingum svo að segja hvar sem okkur lystir. Í ljósi þess að flestar plöntur sem hér finnast, eiga sér heimili mun víðar um heiminn, er augljós hagur í slíku. Ég verð þó að játa að næstu vangaveltur snerust um nýtingu plantnanna á sínum eigin plöntulýsingum. Ætli plöntur myndu lýsa sér á sama hátt og við lýsum þeim? Hvernig myndi plöntu „Tinder“ líta út? Ættum við kannski sjálf að taka upp sambærilegan orðaforða til eigin lýsinga?

Ég sagði nú reyndar randagin (Linaria repens), ekki randagras (Phalaris arundinacea). Þarna hefði fræðiheitið átt að hjálpa.

Fremur harðger og frjó. Vöxtur breiður, en að mestu uppréttur. Axlablöð oft með purpurarauða slikju og dálítið af brúnum blettum. Egglaga, randhærð króna með löngum hárum, þó öllu hárlausari eftir því sem ofar dregur. Oft, en ekki alltaf, tennt.

Leggir langir, hárlausir og oft rytjulegir. Fær gjarnan sveppasýkingar.

Miðhlutinn á stuttum stilk. Pípan mjó, áberandi vörtótt. Oft upprétt eða uppsveigð, en styttri og hangandi eftir að fræjum hefur verið slöngvað burt. Þrífst best í hálfskugga eða sól.



Fræðiheitin opna nýjan heim

Þó fræðiheitin kunni að virðast flókin, eru þau afar nytsamleg. Svo sem ástæðulaust að skella sér í háskólanám í latínu til þess eins að læra meira um plöntur. En með því að venja sig á að nota fræðiheitin fer maður smám saman að muna alengustu hluti. Félagsskapurinn frómi, Garðyrkjufélag Íslands, myndi væntanlega nefnast Hortorum Cultus Societas Islandiae á latínu, svo dæmi sé tekið. Garður+menning er garðyrkja og seinni helmingurinn einfaldlega Félag Íslands. Annars er ég reyndar að hugsa um að bæta plöntu í garðinn. Skyldi ég velja fjalldrapa (Betula nana – ættkvísl: birki. Smávaxin), svartylli (Sambucus nigra – ættkvísl: yllir. Svört), rauðrifs (Ribes rubrum – ættkvísl: rifs. Rautt) eða sólber (Ribes nigrum – ættkvísl: rifs. Svört)? Kannski maður skelli sér bara á ætihvönn/englahvönn (Angelica archangelica) enda margrómuð heilsuplanta og bragðbætir. En þar flækist málið aðeins. Angelica vísar okkur á ættkvíslina hvönn. Archangelica er hins vegar aðlagað úr gríska heitinu fyrir erkiengil, enda átti einn slíkur að hafa sagt til um notkun hennar til lækninga. Fræðiheitin geta auðvitað verið misjafnlega lýsandi, en það er engin ástæða til að óttast þau. Svo fremi sem maður fer ekki um víðan völl frekar en að halda fókus, þá er þetta ekkert svo flókið. Þaðan af síður ástæða til að gera úlfalda úr mýflugu. Já eða kleinu úr líparíti. (Ritað með fyrirvara um lauslegar þýðingar og arfaslakan útúrsnúning).

Samkvæmisleikurinn „sólber eða snigill“ slær alltaf í gegn á hverju stefnumóti.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...