Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
„... ég heyrði fnasað og krafsað í hálfrökkrinu ...“
Líf og starf 5. mars 2024

„... ég heyrði fnasað og krafsað í hálfrökkrinu ...“

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Svövu Jakobsdóttur.

Svava Jakobsdóttir.

Svava fæddist í Neskaupstað árið 1930. Hún flutti með fjölskyldu sinni til Kanada 1935 en þau settust svo að í Reykjavík 1940. Svava varð stúdent frá MR 1949. Í kjölfarið nam hún enskar og amerískar bókmenntir, þ.á m. fornensku og miðaldabókmenntir, í Massachusetts, BNA, þaðan sem hún lauk BA-prófi og stundaði í framhaldi rannsóknarnám í íslenskum fornbókmenntum við Somerville College í Oxford á Englandi. Síðar lagði hún stund á sænskar nútímabókmenntir við Uppsala-háskóla. Auk þess að búa erlendis þessi ár bjó hún á Eskifirði í þrjú ár, en eftir það í Reykjavík.

Ritstörf Svövu spönnuðu m.a. skáldsögur, smásögur, leikhúsverk og sjónvarpsleikrit, þýðingar, ritgerðir, greinar, ritdóma og útvarpsþætti. Hún starfaði jafnframt, auk ritstarfa, í utanríkisráðuneytinu, við kennslu, blaðamennsku og dagskrárgerð fyrir Ríkisútvarpið. Hún var kjörin alþingismaður 1971 og sat á Alþingi til ársloka 1979. Hún starfaði í ýmsum nefndum og ráðum á sviði félags- og menningarmála og einnig á vettvangi Rithöfunda- sambandsins og Leikskálda- félags Íslands, auk þess að vera fyrirlesari hér heima og erlendis. Árið 2001 var hún sæmd riddarakrossi Fálkaorðunnar fyrir störf í þágu lista og menningar.

Svava hlaut margvíslega viðurkenningu fyrir ritstörf sín og verk hennar hafa verið þýdd á fjölda tungumála. Þrjú verka hennar voru lögð fram af Íslands hálfu til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs: skáldsögurnar Leigjandinn og Gunnlaðar saga og smásagnasafnið Gefið hvort öðru sem hér er birt textabrot úr.

Í formála Soffíu Auðar Birgisdóttur, vísindamanns og bókmenntafræðings við Háskóla Íslands, í ritsafninu Svava Jakobsdóttir, sem Forlagið gaf út árið 1994, segir að „Verk Svövu Jakobsdóttur hafa verið kennd við furður og fantasíur, kvenfrelsi og félagshyggju, módernisma og sálfræðilegt raunsæi, tákn og stórmerki. Hún hefur verið skilgreind sem ádeiluhöfundur, sósíalískur höfundur, höfundur sem haldi á lofti kvenfrelsishugmyndum og höfundur sem innleiði nýjan frásagnarhátt í íslenskar bókmenntir.

...Flestir eru sammála um að Svava Jakobsdóttir sé höfundur sem hafi brotið blað í íslenskri sagnagerð. ...“

Svava lést árið 2004.

„... Það var í þessari ferð sem ég sá nautið. Síðasta kvöldið fórum við út að ganga bara tvö. Við vorum komin út úr plássinu og inn á einstigi þar sem á aðra hönd var vatn og á hina grýtt brekka þar sem klettar slúttu fram efst þegar ég heyrði undarleg hljóð og hann greip í mig dreif mig upp í brekkuna og sagði að það væri nautið. Ég hafði ekki gefið því neinn sérstakan gaum fyrr um daginn þegar ég heyrði talað um að einhver í plássinu þyrfti að sækja nautið og nú var það að koma eftir þessu einstigi. Ég heyrði fnasað og krafsað í hálfrökkrinu og svo sá ég það koma. Maðurinn var ýmist spölkorn á undan því eða rann við hliðina á því haldandi fast í tauminn. Fyrst varð ég undrandi á því hvað nautið var lítið. Það var samanrekið, vöðvahnýtt með grimman haus á sverum svíra og fjórir stuttir digrir fætur sem rótuðu upp jarðveginum en þegar það rann hjá skynjaði ég þennan ógurlega kraft sem rak dýrið áfram og leitaði útrásar í drunum og fnæsi uns nautið var ekkert annað en þetta blinda afl og hafði ekki annan tilgang en bera það áfram og sem snöggvast fannst mér að vöðvarnir, lappirnar, svírinn, blóðhlaupin augun og rymjandi barkinn hlytu að vera til trafala á þessari þarfagöngu og það hefði verið nóg að koma með þetta eina líffæri hlaupa með það sem logandi blys boðleið frá bæ til bæjar veröldina á enda, þennan blinda drambláta kraft sem jafnvel má sjá votta fyrir í sléttrökuðum holdmiklum karlmönnum með fölar kinnar og hringi á hvítum höndum á daglegum göngum milli skrifstofunnar og bankans og þaðan í þrjúkaffi á plussklæddum veitingahúsum ...“

Svava Jakobsdóttir, ritsafn, Gefið hvort öðru ..., smásagnasafn, Tiltekt, bls. 321, Forlagið, 1994.

Safnað fyrir Einstök börn
Líf og starf 26. apríl 2024

Safnað fyrir Einstök börn

Stóðhestaveisla Eiðfaxa var haldin 13. apríl í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli ...

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...