SS segir of flókið að upprunamerkja
Mynd / ghp
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngrís í Laxárdal þrátt fyrir að framleiðandinn sé eini fasti svínainnleggjandi hjá fyrirtækinu.

Petrína Þórunn Jónsdóttir, svínabóndi í Laxárdal, segir forsvarsmenn SS setja fyrir sig flækjustig í vinnslunni. „Ég hef boðið þeim að taka upp merkið okkar, Korngrís frá Laxárdal, en þeir sýna því lítinn áhuga, því miður. Þar sem við erum einu föstu innleggjendur svína í SS ætti að vera hægt að aðgreina þetta kjöt.“

Hingað til hafi hins vegar fengist þau svör frá SS að ekki væri markaður fyrir sérmerktar vörur frá Korngrís. Þessu er Petrína afar ósammála. „Neytendur eru orðnir miklu meðvitaðri en áður um uppruna matvæla og hafa kallað eftir betri merkingum. Neytendur vilja vita hvaðan maturinn þeirra kemur, hvort sem það er íslensk vara eða erlend. Það vantar bara viljann,“ segir Petrína.

Í Laxárdal í Skeiða- og Gnúpverjahreppi eru tvö hundruð gyltur og er meirihluti grísa alinn þar upp í sláturstærð. Aðstaðan þar uppfyllir allar nýjustu aðbúnaðarreglugerðir og eru svínin alin á innlendu korni sem bændurnir rækta sjálfir.

„Ég tek undir að það er rekið mikið fyrirmyndarbú í Laxárdal. Varðandi umbúðamerkingar okkar þá vorum við til skamms tíma einnig með innlegg frá Haga og svo er töluvert og vaxandi innlegg frá Stjörnugrís. Það flækir hlutina verulega ef halda á unnu svínakjöti frá tveimur svínabúum aðskildu í framleiðsluferlunum og vera með tvær útgáfur af umbúðamerkingum eftir því hvaða kjöt er í hverri lotu,“ segir Steinþór Skúlason, forstjóri SS, inntur eftir ástæðu þess að fyrirtækið kjósi ekki að sérmerkja vörur frá Laxárdal.

Petrína gefur ekki mikið fyrir þessar ástæður. „Það er skylda að lotumerkja slátrunina, sem er alltaf aðskilin frá öðrum framleiðendum. Fyrirtækið gæti alveg merkt ákveðnar vörur, svo sem steikur og hryggi.“

Nýjar gotdeildir voru teknar í notkun í Laxárdal árið 2021 en vegna húsnæðisskorts hafa bændurnir selt frá sér fráfærugrísi til uppeldis á öðru búi.

„Ef við hefðum tök á að byggja uppeldishús þá gætum við alið alla okkar grísi. Ekki nóg með það heldur gæti SS eingöngu tekið grísi frá okkur því þá værum við að svara mest allri eftirspurn eftir svínakjöti hjá afurðastöðinni. SS gæti keypt það litla sem upp á vantaði hjá Stjörnugrís og þyrfti þá ekki að flytja inn svínakjöt og yrði þá eina afurðastöðin sem eingöngu væri með íslenskt svínakjöt,“ segir Petrína.

Hún var nýverið kosin í stjórn Bændasamtaka Íslands og ætlar meðal annars að beita sér fyrir betri merkingum matvæla.

Hún telur að matvælafyrirtæki nýti sér gloppur í merkingarreglugerðum til að blekkja neytendur og vill að stóru afurðastöðvarnar svari kalli neytenda og taki frumkvæði í innleiðingu á upprunamerkingunni Íslenskt staðfest, bændum til hagsbóta. 

Sjá nánar viðtal við Petrínu á síðu 32 í nýútkomnu 8. tölublaði Bændablaðsins.

Sama sláturhús sektað þrisvar
Fréttir 17. maí 2024

Sama sláturhús sektað þrisvar

Matvælastofnun (MAST) hefur þrisvar sinnum á þessu ári lagt stjórnvaldssekt á sv...

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna
Fréttir 17. maí 2024

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna

Hagnaður Kaupfélags Skagfirðinga af rekstri félagsins á árinu 2023 reyndist rúml...

Vorverkum bænda seinkar
Fréttir 16. maí 2024

Vorverkum bænda seinkar

Veturinn sem leið var sá kaldasti frá vetrinum 1998 til 1999, samkvæmt tíðindum ...

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára
Fréttir 16. maí 2024

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára

Landsáætlun um riðuveikilaust Ísland hefur verið sett í samráðsgátt stjórnvalda.

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði
Fréttir 16. maí 2024

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði

Grunnur undir kornþurrkstöð í Eyjafirði er nú að taka á sig mynd í landi Laugala...

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu
Fréttir 16. maí 2024

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu

Kúabændur á starfssvæði Auðhumlu mega gera ráð fyrir arðgreiðslu frá samstæðunni...

Vetnisknúin skip í smíðum
Fréttir 15. maí 2024

Vetnisknúin skip í smíðum

Smíði er hafin á tveimur vetnis­ skipum á vegum Samskipa. Áætlað er að þeim verð...

Drómasýki í hrossum
Fréttir 13. maí 2024

Drómasýki í hrossum

Drómasýki er vaxandi vandamál í íslenskri hrossarækt. Til stendur að stofna star...