Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Giant G2700E er rafknúinn liðléttingur. Við létta vinnu er fjósavélin þögul sem gröfin og því hægt að hlusta á kýrnar jórtra.
Giant G2700E er rafknúinn liðléttingur. Við létta vinnu er fjósavélin þögul sem gröfin og því hægt að hlusta á kýrnar jórtra.
Mynd / ÁL
Líf og starf 1. júní 2023

Þessi þögla týpa

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændablaðið fékk til prufu rafmagns-liðlétting frá Giant. Þessi græja er á margan hátt eins og aðrar fjósavélar frá Giant og öðrum framleiðendum – miðlungsstór og fær í flest almenn verk. Helsti munurinn er að þessi fjósavél er hljóðlát og án útblásturs.

Þegar horft er á Giant G2700E að utan er fátt sem bendir til að þessi liðléttingur sé eitthvað öðruvísi en allir aðrir. Þessi er jú gulur, ekki rauður eins og algengt er, en það segir meira til um hver framleiðandinn er. Þegar skoðað er nánar sést að vélarhlífin er ekki með grilli, heldur mynstruðum límmiða. Jafnframt finnst hvergi púströr og áfyllingarstútur fyrir eldsneyti.

Vélin í þessum prufuakstri var útbúin veltigrind, en hægt er að fá hús sem aukahlut. Grindin fer ágætlega með þeim einfaldleika sem einkennir þessa vél. Vörn gegn náttúruöflunum er hins vegar í algjöru lágmarki og hlýr fatnaður nauðsyn. Ef koma þarf liðléttingnum í lágt rými er hægt að leggja veltigrindina aftur og höfuð ökumannsins verður hæsti punkturinn. Beggja vegna eru slár í stað hurða. Til að stíga um borð þarf að opna slárnar og hífa sig upp og ekki alveg augljóst hvar best er að grípa.

Innréttingin er eins einföld og kostur er. Þú færð sæti, stýri, tvö fótstig, handbremsu, stjórnpinna, lítinn upplýsingaskjá og nokkra takka. Sætið er klætt sterku plastefni sem líklega þolir vel ágang veðurs og vinds. Beggja vegna eru stillanlegar armhvílur.

Til að kveikja á liðléttingnum þarf að snúa lykli. Eina leiðin til að átta sig á hvort vélin sé í gangi er að horfa á upplýsingaskjáinn bak við stýrið. Rafmótorarnir eru alveg hljóðlausir þegar vélin er kyrrstæð.

Hentugt til moksturs

Þegar ekið er af stað finnst að þetta er tæki með einfaldleikann í fyrirrúmi í stað þæginda. Í sætinu er gormafjöðrun sem eflaust mun aldrei klikka. Hreyfingarnar verða hins vegar mjög kvikar, sem magnast enn frekar vegna þess hversu hátt er setið á tiltölulega mjórri vinnuvél.

Hámarkshraði liðléttingsins í efsta hraðaþrepinu er 20 kílómetrar á klukkustund niður brekku. Vilji menn aka á þeim hraða er gott að geta smellt sér í öryggisbelti, því ökumaðurinn kastast nokkuð til þegar fjöðrunin er engin. Á þessum hraða heyrist niður frá rafmagnsmótornum, sem er þó lægri en í flestum ryksugum.

Þegar brunað er á 20 kílómetra hraða sveiflast ökumaðurinn nokkuð til ef vegurinn er ósléttur, vegna þess hversu mjótt tækið er.

Þegar eitt dekkið fer ofan í holu finnst slagsíðan vel í ökumannssætinu. Þetta er hins vegar atriði sem ekki er hægt að gagnrýna, því þetta er líklega alveg eins á öllum öðrum liðléttingum. Vilji menn ögn meiri þægindi, þá er loftpúðasæti fáanlegt sem aukahlutur.

Liðurinn er með veltingi til að halda öllum dekkjunum á jörðinni. Hjólbarðarnir á þessari vél eru flotmiklir með alhliða grófu mynstri.

Þegar kemur að mokstri og vinnu með ámoksturstækjunum er liðléttingurinn í essinu sínu. Helsti lúxusinn í þessari vél er stjórnpinninn fyrir ámoksturstækin. Í stað þess að vera beintengd glussastöng er þetta rafmagnspinni sem er léttur í hreyfingum. Útsýnið er nær óhindrað til allra átta, fyrir utan að stundum sést ekki í það sem er beint fyrir framan ámoksturstækin. Stórir hliðarspeglar sýna vel það sem er aftan við tækið.

Aksturshraðanum er stjórnað með fótstigi hægra megin. Akstursstefnunni er stjórnað með veltirofa í stjórnpinna ámoksturstækjanna. Við vinstri fót er fótstig fyrir bremsu, en það er yfirleitt óþarft, nema rétt í neyð. Þegar „bensíngjöfinni“ er sleppt tekur við öflug vélarbremsa og stoppar liðléttingurinn af sjálfu sér.

Þröngt fyrir stóra skó

Nokkuð ankannalegt er að stökkva úr vélinni. Rýmið milli stýrisássins og sætisbotnsins er það mjótt að nauðsynlegt er að skáskjóta stórum skóm í gegn. Ef sætið hefur verið dregið fram eða stýrið fært aftur er erfitt að komast hjá því að reka hnén í mælaborðið. Þetta gæti reynst vandamál hjá notendum sem sjá fram á að vera stöðugt að fara í og úr tækinu.

Við hliðina á sætinu er handbremsa. Þótt hún virðist einföld, þá er hún nokkuð snjöll. Um leið og henni er kippt upp fer vélin í hlutlausan og neitar að fara aftur í gír fyrr en slakað hefur verið á stöðuhemlinum.

Liðléttingurinn er engin lúxusgræja, en á móti kemur að færri hlutir eru til að bila. Útsýni er nær óskert.

Batterí í stað vélar

Þegar húddið að aftan er opnað sést hvað skilur þennan liðlétting frá flestum öðrum. Í stað dísilvélar eru tvö stór liþíumbatterí. Samkvæmt framleiðandanum eiga þau að geyma orku sem dugar í sex til átta tíma vinnu.

Liðléttingurinn er með innbyggt hraðhleðslutæki, þannig að einungis þarf að stinga í samband einfaldri kló eins og á húsbílum. Framleiðandinn segir að hægt sé að ná 50 prósent hleðslu á hálftíma, þannig að ef liðléttingnum er stungið í samband í kaffipásum þarf aldrei að hafa áhyggjur af hleðslu.

Þar sem vélin er engin losnar maður við alla þá ókosti sem dísilmótorum fylgja. Það er nær enginn hávaði og útblástur ekki til staðar. Þetta má líklegast telja mikinn kost þegar unnið er í þröngu rými. Viðhald er jafnframt í algjöru lágmarki og færri hlutir sem geta bilað. Helst þarf að smyrja koppa og skipta um síur í glussakerfinu.

Á heimasíðu framleiðandans er hægt að velja úr fjölda aukahluta sem hægt er að tengja við ámoksturstækin. Það er allt frá skóflu, plógi, rúllugreip, yfir í götusóp, hekksláttuvél, saltdreifara, haughræru og steypihrærivél.

Liþíum-rafhlöðurnar halda hleðslu fyrir sex til átta tíma vinnu. Í hálftíma kaffipásu er hægt að bæta 50% hleðslu.

Tölur

Lyftigeta Giant G2700E er 2.100 kg. Helstu mál eru: Lengd án skúffu 3.377 mm; breidd 1.080; hæð með veltigrind 2.339 mm; lyftihæð 2.964 mm; snúningsradíus með skúffu 2.972 mm; þyngd 2.595 kílógrömm. Afl akstursmótors eru sjö kílóvött og mótorinn fyrir vökvakerfið er tólf kílóvött. Hjá Landstólpa kostar þessi vél 9.890.000 krónur án virðisaukaskatts.

Niðurstaða

Giant G2700E er á margan hátt eins og flestir liðléttingar, nema útbúinn vel útfærðu rafkerfi. Rafknúinn liðléttingur meikar fullkomlega sens fyrir vél sem er alla tíð notuð í eða við fjós eða annan vinnustað. Stór rafhlaðan er enga stund að hlaðast og ætti nytsemin því ekki að vera skert samanborið við díselvél. Helsti ókosturinn er mikill verðmunur.

Skylt efni: prufuakstur

Stjörnuspá 16. maí - 30. maí
Líf og starf 16. maí 2024

Stjörnuspá 16. maí - 30. maí

Vatnsberinn hefur í mörgu að snúast þessa dagana en er þó frekar skýr í kollinum...

Safnað fyrir Einstök börn
Líf og starf 26. apríl 2024

Safnað fyrir Einstök börn

Stóðhestaveisla Eiðfaxa var haldin 13. apríl í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli ...

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...