Stofugreni – jólatré úr Suðurhöfum
Líf og starf 19. nóvember 2025

Stofugreni – jólatré úr Suðurhöfum

Höfundur: Ingólfur Guðnason, kennari við Garðyrkjuskóla FSu á Reykjum, Ölfusi.

Jólatrén okkar eru af ýmsu tagi. Vinsælar tegundir úr íslenskri ræktun eru stafafura, rauðgreni, blágreni, sitkagreni og jafnvel fjallaþinur. Íslenskir skógarbændur leggja mesta áherslu á stafafuruna enda heldur hún barrinu vel og er ljómandi falleg. Nordmannsþinurinn er innfluttur, aðallega frá Danmörku. Innflutt gervijólatré úr plasti eru líka orðin mjög algeng.

Sígrænt barrtré með mjúk lauf

Ein er sú gerð barrtrjáa sem ekki hefur náð verulegri útbreiðslu á heimilum landsmanna sem jólatré en það er hið svokallaða stofugreni. Það telst grasafræðilega ekki til greniættarinnar, þótt það sé vissulega barrtré. Stofugreni ber fræðiheitið Araucaria heterophylla og er fjarskyldur ættingi þeirra barrtrjáa sem við þekkjum hér í görðum og skógum. Um er að ræða suðræna tegund sem þrífst alls ekki utanhúss hér á landi og er því meðhöndluð eins og aðrar pottaplöntur. Ættingi hennar sem hefur verið reyndur hér í görðum er apahrellir, forvitnilegt og forneskjulegt tré sem hefur náð sæmilegum þrifum hjá fáeinum ræktendum á allra bestu stöðum.

Stofugreni óx í fyrstu aðeins villt á lítilli eyju í Kyrrahafinu, Norfolkeyju, miðja vegu milli Ástralíu og Nýja-Sjálands. Það hefur síðan náð meiri útbreiðslu og er nú ræktað víða í hitabeltinu og jöðrum þess til viðarnytja, bæði sem byggingarefni og í húsgagnagerð, rennismíði og til útskurðar. Tegundin er hitakær og því fáséð utanhúss í Evrópulöndum.

Stofugreni er sérkennilegt tré. Það er hægvaxta í náttúrunni og getur náð 60 metra hæð en verður miklu minna í pottaræktun. Láréttir greinakransar eru oftast með fimm greinar og form trésins verður fallega keilulaga. Stofninn er þráðbeinn á heilbrigðum trjám og laufið, eða barrið, er ljósgrænt og mjúkt viðkomu, ólíkt flestum barrtrjám.

Fjölgun gengur best með sáningu

Stofugreni hefur verið notað sem pottaplanta hér á landi allt frá fyrri hluta síðustu aldar. Algengast er að fluttar séu inn sáðplöntur sem eru framræktaðar í gróðrarstöðvum við háan hita. Engin teljandi vandamál eru við sáningu. Einnig er hægt að fjölga því með græðlingum en sú aðferð er alls ekki vandalaus. Ef teknir eru græðlingar af greinaendum er hægt að láta þá mynda rætur, en gallinn er sá að slíkir græðlingar munu ekki mynda plöntu með eðlilegan keilulaga vöxt heldur óreglulega vaxnar plöntur sem bera ekki einkenni tegundarinnar. Eina leiðin til að fá eðlilegar plöntur með græðlingafjölgun er að rækta aðeins toppsprotann, en þá fær móðurplantan ólögulegt vaxtarlag í kjölfarið og er því kannski til lítils að vinna. Plönturnar mynda talsvert af fræi í grænbrúnum, göddóttum könglum þegar þær fullorðnast. Stundum eru hafðar nokkrar plöntur saman í potti til að fá þéttari greinavöxt, því þær eiga til að missa nokkuð af barri neðstu greina í pottaræktun, jafnvel á unga aldri.

Umhirða

Venjulega eru stofugreni seld sem fremur lágvaxnar plöntur í 15–22 sentimetra pottum. Til að halda aftur af vextinum og halda plöntunum þéttum er rétt að umpotta aðeins á nokkurra ára fresti og nota blómaáburð í hófi. Notaður er áburður með lágu sýrustigi og vökvað er hóflega. Eins og margar aðrar pottaplöntur þrífst stofugreni best við fremur háan loftraka, talsvert hærri en algengt er í íslenskum híbýlum. Á veturna er plantan höfð á bjartasta stað en að sumri er betra að hafa hana ekki í beinni sól.

Greinakransarnir geta orðið nokkuð langir og slútandi. Hægt er að stöðva lengdarvöxt þeirra með því að klippa ofurlítið af lengstu greinunum til að viðhalda fallegri lögun plöntunnar. Aldrei skyldi fjarlægja toppsprotann því þá missir plantan eðlilega lögun sína. Brúnar, gular eða sviðnar nálar og smásprotar á neðstu greinum eru fjarlægðar eftir þörfum. Ef lauffall er óeðlilega mikið má ætla að of mikið hafi verið vökvað.

Óvenjulegt jólatré í stofu stendur

Stofugreni verður snoturt jólatré, skreytt með frjálsri aðferð. Það fer vel bæði á gólfi eða sem borðtré. Einn af kostum þess er að barrið er mjúkt og þægilegt viðkomu og hægt er að nota sömu plöntu árum saman ef vel tekst til við umhirðu þess. Svo má auðvitað njóta þessarar fallegu grænu pottaplöntu þótt ekki séu alltaf jólin.

Skylt efni: Jólatré | barrtré | stafafura

Þýskar heimsbókmenntir
Líf og starf 3. desember 2025

Þýskar heimsbókmenntir

Hætt er við að ýmsar fréttnæmar útgáfur verði undir í jólabókaflóðinu nú sem fyr...

Fjórtán ára að syngja með Karlakórnum Heimi
Líf og starf 3. desember 2025

Fjórtán ára að syngja með Karlakórnum Heimi

Yngsti meðlimur karlakórsins Heimis í Skagafirði er Fjölnir Þeyr Marinósson sem ...

Nýsköpunarhæfni gagnast öllum
Líf og starf 3. desember 2025

Nýsköpunarhæfni gagnast öllum

Hugmyndasmiðir er verkefni sem miðar að því að kenna börnum að verða frumkvöðlar...

Jólakötturinn í Freyvangi
Líf og starf 3. desember 2025

Jólakötturinn í Freyvangi

Það ættu allir að eiga sinn stað í tilverunni, sama hversu skrítnar skrúfur þeir...

Dagur, Björn og Lenka best á Skákþingi Garðabæjar
Líf og starf 3. desember 2025

Dagur, Björn og Lenka best á Skákþingi Garðabæjar

Skákþingi Garðabæjar lauk á dögunum en mótshaldarinn, Taflfélag Garðabæjar, á um...

Mögnuð vörn í beinni
Líf og starf 1. desember 2025

Mögnuð vörn í beinni

Gaman hefur verið að fylgjast með viðtökum íslenskra briddsunnenda gagnvart nýju...

Sefar sorgir annarra en glímir við eigin skugga
Líf og starf 28. nóvember 2025

Sefar sorgir annarra en glímir við eigin skugga

Út er komin skáldsagan Sálnasafnarinn eftir Þór Tulinius.

Blóðþyrst kona vill barnakjöt
Líf og starf 27. nóvember 2025

Blóðþyrst kona vill barnakjöt

Grýlu er fyrst getið á miðöldum en sú Grýla sem við þekkjum stingur upp sínum lú...