Síldarminjasafn Íslands
Árið hefur verið gjöfult og gestkvæmt á Síldarminjasafninu en gestafjöldi ársins nálgast 30.000 gesti. Stærstur hluti þeirra sem heimsækja safnið eru erlendir gestir, eða tæplega 80%.
Þessum miklu gestakomum hefur fylgt mikil þjónusta við safngesti en alls hafa farið fram um 500 skipulagðar leiðsagnir um safnið og 62 síldarsaltanir á planinu við Róaldsbrakka þetta sumarið. Það er því ekki eingöngu svo að tekist hafi að ná upp fyrri gestafjölda, aðeins tveimur árum eftir að heimsfaraldur reið yfir, heldur er um að ræða mesta fjölda safngesta frá upphafi.
Þessi misserin snýr daglegt starf meira að faglegu safnastarfi en gestakomum – enda er dýrmætur tími vetrarmánaðanna nýttur til slíkra verkefna. Meðal þess sem starfsfólk safnsins hefur verið að fást við undanfarið er skráning safnkosts, en skipulega er unnið að því að fullskrá safnkostinn.
Unnið er að rannsókn um stöðu síldarstofnsins frá því hann hrundi á sjöunda áratugnum og til dagsins í dag, og verður niðurstöðum rannsóknarinnar miðlað í nýrri sýningu.
Stöðugt fer fram greining á ljósmyndum úr safninu, sem varðveitir um 200.000 frummyndir. Með dýrmætri aðstoð eldri borgara staðarins tekst að greina og skrásetja um 3.200 áður óþekktar ljósmyndir árlega. Salthúsið, nýtt varðveisluhús safnsins, er í uppbyggingarfasa – en húsið er upprunalega reist við Hvítahafsströnd Rússlands á 18. öld og var flutt til Íslands seinni hluta 19. aldar. Mikil vinna hefur farið fram í húsinu á haustdögum og eru nú varðveislurými að taka á sig endanlega mynd. Í kjölfarið verður safnkostur fluttur með skipulögðum hætti til varanlegrar varðveislu í nýjum húsakynnum.
Snemma í nóvember rigndi reiðinnar býsn á Siglufirði um tveggja daga skeið með þeim afleiðingum að flæddi inn í eitt af húsum safnsins; Njarðarskemmu. Húsið er byggt árið 1930 og áfast Gránu. Þar er sýning á margvíslegum tækniminjum; varahlutalager og efnarannsóknarstofa síldarverksmiðjunnar – sem og sýning á raforkuframleiðslu í þágu síldariðnaðarins. Gríðarlegt magn vatns safnaðist fyrir innanhúss, en vatnsdýptin varð um 80 cm.
Slökkvilið staðarins stóð í ströngu og dældi vatni út út húsinu og af safnsvæðinu í tæplega 30 klst. samfleytt. Í kjölfarið tók við mikil vinna við að yfirfara sýninguna, pakka henni niður og koma í geymslu – enda ljóst að mikilla endurbóta er þörf.
Og nú í aðdraganda jóla hafa árlegar aðventuheimsóknir grunn- og leikskólabarna sveitarfélagsins litað starfið töluvert. En allt frá árinu 2015 hefur öllum börnum á aldrinum 3–13 ára verið boðið til slíkra heimsókna þar sem fjallað er um ákveðin jólatengd þemu, sungið, föndrað og notið þess að gæða sér á heitu súkkulaði og smákökum.
Í anda jólanna stóð Síldar- minjasafnið fyrir jólatónleikum í Bátahúsinu sunnudagskvöldið 11. desember – en tónleikarnir voru styrktartónleikar. Allur aðgangseyrir rann óskiptur til jólasöfnunar mæðrastyrksnefndar.
Starfsfólk safnsins fullyrðir að á Síldarminjasafninu sé aldrei dauð stund og engir tveir dagar eins, sem sé akkúrat það sem geri safnastarfið svo frábært.