Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Hvort sem menn trúa því eða ekki þá er örnefni þessa staðar, sem Hörður Davíðsson, framkvæmda­stjóri Hótels Laka, stendur hér við, Stórifoss. Hann er rétt fyrir ofan Landbrotsveg ofan við Seglbúðir í Landbroti. Vatn úr fossinum sem þarna var hefur m.a. fæ
Hvort sem menn trúa því eða ekki þá er örnefni þessa staðar, sem Hörður Davíðsson, framkvæmda­stjóri Hótels Laka, stendur hér við, Stórifoss. Hann er rétt fyrir ofan Landbrotsveg ofan við Seglbúðir í Landbroti. Vatn úr fossinum sem þarna var hefur m.a. fæ
Mynd / Böðvar Pétursson
Fréttir 28. júní 2016

Óttast afleiðingar vatnsþurrðar fyrir lífríkið og byggð á svæðinu

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Mjög alvarlegt  vatnsleysi er orðið á vatnasvæði Grenlækja í Landbroti sem og í og Meðallandi í Skaftárhreppi í Vestur- Skaftafells­sýslu. Opinberar stofnanir virðast algjörlega á öndverðum meiði við heimamenn varðandi nauðsynlegar aðgerðir. 
 
Grenlækur er á náttúruminjaskrá og því á ábyrgð ríkisstofnana að vernda hann. Samt horfa heimamenn upp á að lækurinn og vatnasvæðið þar í kring, ásamt göngu- og hrygningarsvæði urriða og bleikju, er að eyðileggjast. Ráðstafanir Orkustofnunar við að loka fyrir vatnsflæði niður á þetta vatnasvæði gerir illt verra að mati heimamanna. 
 
Hörður Davíðsson, framkvæmda­stjóri Hótels Laka, segir að grunnvatnsstaða á svæðinu hafi lækkað um allt að sex metra. Grenlækur, Tungulækur, Sýrlækur og Jónskvísl eru meðal þeirra áa og lækja í Landbroti sem vatn er að mestu hætt að renna um.
 
„Þetta er tifandi tímasprengja fyrir svæðið í heild. Það eru allir lindarlækir horfnir niður að Landbrotsvegi. Grunnvatnsstaða í borholum er líka orðin það lág að það er farið að skapa hættu fyrir búskap og annan rekstur á svæðinu. Þetta er því komið á mun alvarlegra stig en það stórtjón sem þegar er orðið í Grenlæk,“ segir Hörður. Þess má geta að Grenlækur er á náttúruminjaskrá og ber því að vernda hann sem slíkan. Auk þess er hann talinn mjög mikilvægur fyrir sjóbirting, (sjógenginn urriða) og bleikju.  
 
– En er hægt að bæta úr þessari stöðu?
„Já, það er hægt að laga þetta og það hefur verið nokkur sátt um leiðir til þess í fjölmörg ár. Rennslið inn á svæðið breyttist hins vegar mikið í stóra Skaftárhlaupinu síðastliðið haust. Þá virðast sumir hafa skipt um skoðun og ekki má lengur færa rennslið til fyrra horfs, heldur er allt háð leyfum frá Orkustofnun sem er komið með alræðisvald í málinu. 
 
Ég sótti um leyfi til Orkustofnunar. Mín umsókn hljóðaði upp á að hafa nokkuð kröftugt rennsli niður í Eldhraun við svokallaðan Stóra- Brest. Svo er Litli-Brestur, sem rennur undir brú eða ræsi á veginum, um 3–4 km fyrir austan Stóra-Brest. Síðan er Skálastapi, þar sem vatn hefur runnið niður á Eldhraun í gegnum aldirnar. Þá er það Skálaráll við bæinn Skál sem virkað hefur á grunnvatnið við Tungulæk og Grenlæk.
 
Vatn úr Skaftá hefur margþætt áhrif á vatnasvæðinu sem eru í raun tvö. Það er svæðið í kringum Botna og vesturhluta Meðallands og Eldvatns. Síðan er það austursvæðið sem nær yfir allt Landbrotið."
 
Fékk neitun hjá Orkustofnun
 
„Ég fékk neitun þar sem Orkustofnun taldi að slíkt þyrfti að fara í umhverfismat. Ég kærði þann úrskurð til Skipulagsstofnunar ríkisins. Ég tel að heimild til að láta vatn áfram renna um farveg sem það hefur runnið frá því um Skaftárelda þurfi ekki að fara í umhverfismat. Þetta vatn hefur fætt alla læki á svæðinu en Orkustofnun leyfir sér að segja að það hafi engin áhrif á rennsli Grenlækjar og þar með á grunnvatnsstöðuna. Við vitum samt nákvæmlega að vatn sem rennur til suðurs úr Skaftá niður í Eldhraun skilar sér í hærri grunnvatnsstöðu og skilar sér síðan sem lindarlækir undan Eldhrauninu.“ 
 
Staðan er grafalvarleg. Grunn­vatnið hefur fallið það mikið að það þarf mikið til að fylla þá vatnsgeyma sem eru í Landbrotshrauninu og Eldhrauninu. Þeir þurfa að fyllast áður en vatn getur byrjað að renna að nýju í lindarlækina.“  
 
Fer í aðgerðir fljótlega
 
„Það er ljóst að við bíðum ekki mjög lengi eftir niðurstöðu hjá Skipulagsstofnun. Það verður farið í aðgerðir fljótlega ef ekkert gerist. Allavega fer ég í það og þá verða menn bara að reyna að stöðva mig. Okkur ber að verja okkar fyrirtæki og hlunnindi jarðanna. Við látum ekki einhverja misvitra fræðimenn í Reykjavík stýra því algjörlega hvort við lifum eða deyjum,“ segir Hörður Davíðsson. 
 
Það sem gerir málið enn erfiðara er að bændur þurfa nú að berjast við ríkisstofnanir sem reyna að koma í veg fyrir að vatni verði á ný veitt úr Skaftá um vatnsrásir niður í Eldhraun. Eftir sitja bændur og rekstraraðilar í ferðaþjónustu með vatnsleysi fyrir bæði fólk og fénað auk þess sem tvær virkjanir bænda á svæðinu eru meira og minna vatnslausar. Þá er mikilvægt göngu- og hrygningarsvæði urriða og bleikju í Grenlæk að eyðileggjast vegna vatnsleysis.
 
Því til viðbótar þá fá rafstöðvar bænda á svæðinu ekki vatn lengur sem skapar eigendum verulegu tjóni. Ný rafstöð í Botnum sem fær vatn um Stóra-Brest hefur t.d. aðeins verið keyrð nokkra klukkutíma á sólarhring að undanförnu. 
 
Segir OS fremja skemmdarverk
 
Bændur hafa viljað láta opna fyrir rennsli úr Skaftá niður í Eldhraun, en bæði Landgræðslan og Orkustofnun hafa verið föst fyrir. Að sögn Harðar lét Orkustofnun gröfu loka fyrir rennsli um einn af þrem rörhólkum sem veitir vatni úr Skaftá við Stóra-Brest í Árlandi. Annar hólkur var þegar lokaður. Nú rennur aðeins í gegnum eitt rör og segist hann líta á það sem hreint skemmdarverk því um leið og rörið fyllist af grjóti verði það ónothæft. 
 
Þá er einnig búið að loka fyrir vatn sem um aldir hefur runnið niður svokallaðan Skálaál og hefur fætt eystri hluta Grenlækjarsvæðisins og stutt við grunnvatnið á svæðinu. 
 
„Nú vantar sex metra upp á að grunnvatnstaðan sé eðlileg við Botna. Grunnvatnið var hætt að lækka og örlítið farið að hækka á meðan vatn rann um rörin tvö og í nokkra daga um  þriðja rörið. Grunnvatnshækkunin við það rennsli nam þó ekki nema 5 millimetrum á dag.“
 
Hörður segir að búið sé að tala við umhverfisráðherra og atvinnumálaráðuneytið sem sé nú með málið á sínu borði. Hann segir mjög aðkallandi að hefja aðgerðir sem allra fyrst á svæðinu. Það taki langan tíma að hækka grunnvatnsstöðuna. 
 
Vel hægt að leysa úr sandfoksvanda
 
Segir Hörður að áhyggjur af framburði sands og leirs sem borist geti niður í hraunið með vatninu úr Skaftá megi auðveldlega leysa ef áhugi sé fyrir því. Það megi t.d. gera með settjörnum og með því að sá í sand sem þangað berist til að hefta sandfok. Skaftárhlaup eru hins vegar óviðráðanleg og skilja alltaf eftir sig sandfláka þegar rennslisfarvegurinn fer í eðlilegt horf. 
 
Í umsókn sinni til Orkustofnunar tekur Hörður reyndar fram að ein ástæða beiðni um að veita vatni niður á Eldhraun sé til að hefta sandfok. 
 
„Það er engin þörf á að láta vatnið úr Skaftá flæmast um alla þessa sandfláka. Þá má búa til setlón á ákveðnum stöðum og hleypa tærara vatni úr þeim út í hraunið og græða upp sandinn. Það er hins vegar ekki gert. Í staðinn vilja baráttumenn innan ákveðinna stofnana loka fyrir allt rennsli út á hraunið,“ segir Hörður.   
 
Veiðifélagið í mál
 
Veiðifélag Grenlækjar er með dómsmál í gangi sem miðar að því að tryggja vatn í Grenlæk til frambúðar. Þar er líka barist fyrir því að skaðabótaréttur veiðifélagsins verði virtur. Það mál verður þó ekki dómtekið fyrr en í haust og leysir ekki bráðavandann sem steðjar nú að svæðinu. 
– Sjá meira um málið á síðu 12 í nýjast tölublaði Bændablaðsins
 

Tíminn tikkar og málið í skoðun

Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri segir að verið sé að skoða umræddan vanda í Landbroti og Meðallandi víða í stjórnkerfinu. Engar ákvarðanir hafi þó verið teknar  um hugsanlegar aðgerðir. Hann segir rangt að Orkustofnun fari með eitthvert alræðisvald í málinu. 
 
„Orkustofnun er leyfisveitandi ef menn vilja fara í framkvæmdir á einhverjum vatnsvegum. Við erum í raun og veru ekki gerandi í málinu, heldur eftirlitsaðilar. Ef menn vilja gera einhverjar breytingar á vatnsvegum, þá eiga menn að tilkynna það til Orkustofnunar sem tekur þá afstöðu til þess hvort þær þurfi að fara í einhverskonar leyfisferli. Það er þó ekki þannig að við sitjum hjá þegjandi ef eitthvað er framkvæmt án þess sótt sé um tilskilin leyfi og að ábyrgir aðilar standi fyrir því.“
 
Hann segir að vatn hafi streymt um langan tíma í eitt af þrem rörum sem veitir vatni í Brest. Því hafi heimamenn talið að þar hafi myndast hefð í skilningi laga. Hin tvö rörin hafi verið sett sem tilraunaverkefni á forræði Skaftárhrepps til fjögurra ára og því verkefni sé lokið. 
 
Guðni staðfesti að Orkustofnun hafi sent Skaftárhreppi bréf þar sem tilgreindur var frestur til að loka rörunum tveim fyrir 1. júní. Við þeirri kröfu hafi ekki verið brugðist og því hafi Orkustofnun látið moka fyrir rörin. 
 
„Það sem Orkustofnun reynir að gera þegar svona verkefni eru án leyfis er að hvetja framkvæmdaraðila til að koma með umsókn svo hægt sé að fjalla um hana í stjórnkerfinu. Síðan að setja einhver tímamörk þar sem reynt er að gæta meðalhófs.“
 
− Nú tala íbúar á svæðinu  um þetta sem bráðavanda og enginn tími sé til að bíða eftir tímafreku umsóknarferli. Hvað er þá hægt að gera?
„Vandinn er tvíþættur og um tvær veitur að ræða. Fyrst er um að ræða vatn við  svokallaðan  Brest þar sem rörin þrjú eru og þjóna að mestu í Eldvatnsbotnunum. Síðan eru lækir niður af þar sem heitir Skál nokkru austar og er annað grunnvatnssvæði. Þar hafa menn rofið skarð í garða og ýtt þeim til svo koma mætti vatninu út á hraunið. Segja má að þær framkvæmdir hafi verið einstaklingsframtak og ekki í krafti neinna leyfa eða stjórnsýslu. Ekki heldur hluti af neinu skipulögðu ferli.“
 
− Nú veitir eystra svæðið m.a. vatni í Grenlæk sem er á náttúruminjaskrá. Ber opinberum stofnunum ekki skylda til að vernda þær náttúruminjar?
Guðni sagðist ekki draga í efa að Grenlækur væri á náttúruminjaskrá. Þarna væri þó líka spurning um hvað væri náttúrulegt og hvað ekki og hvað inngrip gæti haft í för með sér. 
 
Segir skorta tillögur og ábyrgðaraðila fyrir verkinu
 
„Auðvitað eru menn þó kannski sammála um það að reyna að bjarga hrygningunni í Grenlæk, en þá þurfa menn að koma með tillögur um hvernig eigi að standa að því. Um það þarf síðan að fjalla og fyrir því þarf að standa einhver ábyrgur framkvæmdaraðili. Hann vantar í dag,“ segir Guðni. 
 
− Á meðan tikkar tíminn á þurran Grenlæk, hvað er þá til ráða?
„Það eru ýmis mál óleyst og ekkert liggur fyrir hvernig þetta yrði framkvæmt við Skál og engar tillögur um hvernig yrði farið að því.“
 
− Hafa ekki komið tillögur frá heimamönnum?
„Jú, þær tillögur eru bara það viðamiklar að þær hefðu að okkar mati þurft að fara í mat á umhverfisáhrifum. Það yrði allt of langur tími til að þjóna þessu.
Í sjálfu sér er þetta spurning um að fá einhvern til að finna hæfilega lausn á þessu.“
 
− Er verið að vinna að því í kerfinu?
„Já, það má segja að menn í stjórnkerfinu séu að reyna að skoða málið. Við erum í sjálfu sér ekki frumkvöðlar í því en fjöllum um tillögur ef þær koma fram.
 
Þetta er ekki bara spurning um veiðina í þessum ám, heldur hefur Landgræðslan líka áhyggjur af sandfoki þar sem aur breiðist yfir hraun sem líka er talið mjög verðmætt. Það er því ekki til nein einföld lausn á þessu og þetta verður ekki gert nema að fórna einhverju öðru.“  
 
Hátt flækjustig í fjölda stofnana
 
Guðni segir að auk Landgræðslu, Vegagerðar og Orkustofnunar, þá komi Fiskistofa að þessu máli líka sem og umhverfisráðuneyti, atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, innanríkisráðuneytið og hugsanlega fleiri ráðuneyti. Flækjustigið er því greinilega mikið. 
 
Guðni segist ekkert geta sagt um hvort hægt verði að grípa til skjótra aðgerða á svæðinu, en áhugi sé til að vinna tiltölulega hratt að lausn málsins. 
 
Gæti kallað á lagasetningu
 
„Það er mjög skiljanlegt að mikil óþolinmæði sé á svæðinu og ekkert gaman að horfa á svona vatnsvegi þorna upp og sjá fiskinn drepast. Menn gera sér kannski ekki grein fyrir hvaða ákvæði gilda í stjórnsýslunni varðandi svona vatnsvegi. Regluverkið getur þó líka verið til að hjálpa til,“  sagði Guðni. Hann sagði að reynt yrði að haga framkvæmdum innan gildandi laga og reglugerða. Hann útilokaði þó ekki að setja þyrfti sérstök lög til að grípa þarna inn í.
Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018
Fréttir 13. september 2024

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu í sumar sem er þá fyrsta myglulausa suma...

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum
Fréttir 13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum

Kartöflubændur í Nesjum í Hornafirði urðu fyrir verulegu tjóni á dögunum þegar h...

Bændur selja Búsæld
Fréttir 13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Um 90 prósent bænda í Búsæld hafa ákveðið að taka kauptilboði Kaupfélags Skagfir...

Frekari fækkun sláturgripa
Fréttir 12. september 2024

Frekari fækkun sláturgripa

Um 28 þúsund færri lömb komu til slátrunar síðasta haust en árið á undan. Áfram ...

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
Fréttir 12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Fjár- og stóðréttir eru fram undan og venju samkvæmt birtir Bændablaðið lista yf...

Lækkað verð á greiðslumarki
Fréttir 12. september 2024

Lækkað verð á greiðslumarki

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun september sýna l...

Smalað vegna óveðurs
Fréttir 12. september 2024

Smalað vegna óveðurs

Fyrsta haustlægðin kom á dögunum, með gulum og appelsínugulum viðvörunum, norðan...

Garðyrkjubændur rafmagnslausir
Fréttir 12. september 2024

Garðyrkjubændur rafmagnslausir

Raforkusamningum meirihluta garðyrkjubænda landsins hefur verið sagt upp. Í suma...