Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Bjarni Kristófer Kristjánsson og Broddi Reyr Hansen við bruggkatlana.
Bjarni Kristófer Kristjánsson og Broddi Reyr Hansen við bruggkatlana.
Líf og starf 27. febrúar 2023

Riðið heim til Hóla

Höfundur: Höskuldur og Stefán

Í nokkrum undanförnum tölublöðum Bændablaðsins höfum við verið að rekja bjórsöguna í gegnum handverksbrugghús á Íslandi.

Í næstu blöðum munum við halda áfram en hér er smá útúrdúr, þar sem við ætlum að fjalla um mikilvægasta brugghúsið sem þú hefur líklega aldrei heyrt um, né smakkað bjór frá. Ef þú þekkir til þess ertu annaðhvort afar langt leiddur bjórunnandi eða Skagfirðingur – en mörkin eru kannski ekki svo skýr þar á milli.

Hólar í Hjaltadal eru ekki bara eitt höfuðvígi kristinnar menningar og heimili Hólaskóla heldur einnig bjórseturs nokkurs sem er ein af þessum örlagaþúfum í bjórsögu Íslendinga. Bjóráhugi nokkurra starfsmanna skólans gat af sér öflugt heimabruggssamfélag og innkaupafélag hóps samstarfsmanna þar sem bjórar sem þá voru nýir í Ríkinu voru í brennidepli. Félagarnir Bjarni Kristófer Kristjánsson, Broddi Reyr Hansen og Guðmundur Björn Eyþórsson áttu veg og vanda að stofnun þessa kaupfélags á því drottins ári 2007.

Þessi félagsskapur skilaði sér að lokum í því að þeir tóku yfir gamalt mjólkurhús á hlaðinu þar sem mjólkurhúsinu á neðri hæðinni var breytt í lítið brugghús og fjósamannaíbúðin á efri hæðinni var tekin undir bar sem gekk strax undir nafninu Bjórsetrið.

Gamlir kælar voru dregnir upp á dekk og afgangs efni úr vinnu við Staðarskála var nýtt til að smíða barinn.

Þannig varð Bjórsetur Íslands til í nokkurn veginn þeirri mynd sem við þekkjum það í dag en formlega tók til það starfa á verkalýðsdaginn, 1. maí 2010.

Raunar hefði slíkur metnaður ekki átt að koma á óvart, að lítið samkaupsfélag myndi vaxa í það sem það varð, enda Skagfirðingar Evrópumeistarar í kaupfélagsrekstri án atrennu. Hólamenn hafa aldrei selt bjór í Ríkið, þannig að það má deila um það hvort þeir teljist alvöru brugghús í þeim skilningi.

Í brugguðum lítrum eru þeir nanó-stærð í íslenska bjórheiminum og bjórinn þeirra varla yfirgefið Hjaltadal.

Út frá þessu mætti ætla að Bjórsetrið væri bara agnarsmá neðanmálsgrein í íslensku bjórsögunni – en því er öðru nær!

Goðsagnakennt úrval

Fljótlega varð bjórúrvalið goðsagnakennt í íslensku bjórsenunni. 60, 70, 80, jafnvel 90 tegundir voru til í kælum setursins og gengu ýmsar tröllasögur af því hvernig Bjórsetrið væri og að þar fengjust bjórar sem hörðustu bjórnirðir gátu vart látið sig dreyma um að smakka. Gekk svo langt að bjórperrar hvaðan af landinu og jafnvel víðar gerðu sér pílagrímsferðir norður í land til að upplifa Bjórsetrið, slíkt var orðsporið.

Hólagengið nýtti þessar hugmyndir og blés til Bjórhátíðar, sú fyrsta var haldin í ágústlok 2011. Þessi hátíð var ekki bara fyrsta bjórhátíð Bjórsetursins heldur reyndist þetta fyrsta handverksbjórhátíðin á Íslandi eftir því sem greinarhöfundar komast næst. Vissulega höfðu bjórhátíðir verið auglýstar fyrir þann tíma, en þær áttu meira skylt við Októberfest en þær handverkshátíðir sem við þekkjum í dag.

Verðlaunahafar í bjórkeppni á Hólahátíðinni 2015. Elvar, Valgeir, Árni og Bjarni.

Brautryðjandi í bjórhátíðum

Hólahátíðin í bjórnum er um margt sérstök hátíð. Fyrir það fyrsta er hún víðs fjarri því sem teldist til alfaraleiðar, þó hún sé nálægt mörgum reiðleiðum.

En það virtist ekki stöðva harðkjarnann í að leggja leið sína norður og hefur hátíðin verið nánast uppseld allt frá fyrsta degi. Fjarlægðin hefur raunar einungis aukið á dulúðina enda færri komist en hafa viljað.

Í öðru lagi hefur þessi hátíð orðið eins konar nýliðakynning handverksbrugghúsa inn í bransann, en þarna sáust fyrst ansi mörg brugghús sem fram að því höfðu lítt spurst út fyrir sinn eigin vinahóp. Nægir að vísa í söguna um Brothers Brewery sem rakin var í Bændablaðinu fyrir skömmu.

En í þriðja lagi hefur þróunin síðan orðið þannig að þetta er orðin eins konar árshátíð bruggara, en keppikefli margra hefur verið að mæta þarna, sýna sig og koma með eitthvað alveg nýtt og spennandi. Þannig hefur þessi hátíð haft yfir sér annan blæ en flestar aðrar bjórhátíðir, einkum þær sem haldnar hafa verið í Reykjavík. Þar hafa mögulega verið haldnar „hefðbundnari“ bjórhátíðir sem eru kannski frekar á markaðslegum forsendum en ekki pálínuboðs- andinn sem einkennir Hólahátíðina. Kex kemur upp í hugann en andanum þar mætti frekar líkja við ös eins og í Kringlunni á Þorláksmessu, með haugana af erlendum gestum og æstum pöpul, staðráðnum í að drekka upp í aðgangseyrinn.

Hvað sem öðru líður má fullyrða að Bjórsetrið á Hólum er brautryðjandi í bjórhátíðum á Íslandi og Bjórsetrið var og er einn merkilegasti bjórbarinn á Íslandi. Háskólinn á Hólum hefur meira að segja boðið upp á námskeiðið „BOB0006121 – Bjór og bjórgerð“ sem var 6 eininga námskeið á háskólastigi, það allra fyrsta hér á landi og enn sem komið er það eina.

Allt þetta gerir þetta að merkilegasta brugghúsinu sem þú hefur líklega aldrei heyrt um. Og enn frekar er það áhugavert þar sem þetta hefur meira og minna verið unnið í sjálfboðavinnu í kringum þennan félagsskap þar sem allt að 100 manns hafa greitt félgasgjöld í gegnum tíðina. „Félagsskapur áhugamanna falinn á bak við fyrirtæki“ sagði Bjarni eitt sinn í sjónvarpi allra landsmanna. Það er það sem gerir Bjórsetrið á Hólum að besta kaupfélagi landsins og þótt víðar væri leitað.

Skylt efni: handverksbrugghús | bjór

Safnað fyrir Einstök börn
Líf og starf 26. apríl 2024

Safnað fyrir Einstök börn

Stóðhestaveisla Eiðfaxa var haldin 13. apríl í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli ...

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...