Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Segull 67 er staðsett á Siglufirði en talan 67 er samofin sögu fjölskyldu stofnandans.
Segull 67 er staðsett á Siglufirði en talan 67 er samofin sögu fjölskyldu stofnandans.
Mynd / Aðsend
Líf og starf 20. október 2023

Nyrst en ekki síðast

Höfundur: Höskuldur og Stefán

Í undanförnum tölublöðum Bændablaðsins hafa birst pistlar um íslensk brugghús. Rétt er að benda á að athugasemdum má gjarnan koma á framfæri við greinarhöfunda ef einhverjar eru. Einhver bið varð á á pistlum vegna sumarleyfa en hér heldur röðin áfram og nú er komið að Segli 67.

Nyrsti kaupstaðurinn á Íslandi heitir Siglufjörður sem stendur við samnefndan fjörð. Siglufjörður er þekktur fyrir margt gott, þar er skíðavika, Trilludagar, Þjóðlagahátíð og auðvitað Síldarævintýri svo eitthvað sé nefnt. Á Sigló er einnig nyrsta brugghús landsins, a.m.k. þangað til einhver í þorpinu Raufarhöfn byrjar að brugga. Segull 67 nefnist það og heitir merkilegt nokk ekki eftir langlífasta Pizza 67 staðnum á meginlandi Íslands, sem var einmitt á Siglufirði. (Hér er Pizza 67-staðurinn í Vestmannaeyjum augljóslega undanskilinn enda lúta hlutir öðrum lögmálum á Suður- Atlantshafshryggnum.)

Stofnandi og prímusmótorinn í brugghúsi Seguls heitir Marteinn Brynjólfur Haraldsson og kemur, eins og langsamlega flestir sem komið hafa við sögu í þessum greinarflokki, úr heimabruggsenunni. Hann tók sig til árið 2015 og setti brugghúsið á laggirnar eftir að hafa sannfært föður sinnogafaumþaðaðkomameðsérí þetta ævintýri. Gömlu frystihúsi í eigu fjölskyldunnar var breytt í brugghús, bar og móttaka útbúin í rými þar sem fiskur hafði verið hraðfrystur í pönnur og hafist var handa við að brugga fyrsta bjórinn, sem fékk það frumlega nafn Orginal.

Marteinn Brynjólfur Haraldsson tekur við Bláskelinni, viðurkenningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu fyrir framúrskarandi plastlausa lausn.
Mynd / Umhverfisráðuneytið

Happatalan

En hvers vegna 67? Ef ekki vegna nostalgískra tengsla við pitsustaðakeðju frá tíunda áratugnum – hvað þá? Jú, fjölskyldutengingarnar við töluna 67 voru margvíslegar. Stefán Guðmundsson, langafi Marteins, keyrði vörubíl á Siglufirði með bílnúmerinu F67. Síðan þá hefur þessi tala verið happatala í fjölskyldunni. Alnafni Marteins og afi átti þó nokkrar trillur sem voru með skráningarnúmerinu SI 67. Þegar langafinn dó átti hann 67 börn og barnabörn. Það lá því lóðbeint við að halda nafninu í atvinnustarfseminni. Segull vísaði síðan í áttavitann, segulnálina, enda snerist lífið á Siglufirði að mörgu leyti um sjómennsku og nafnið, Segull 67, varð til.

Segja má að Segull falli mitt á milli fyrstu og annarrar kynslóðar sjálfstæðra brugghúsa á Íslandi, þar sem fyrsta kynslóðin lagði höfuðáherslu á magnframleiðslu sem einkum miðaðist að sölu í ÁTVR, á meðan að önnur kynslóðin var um margt afurð ferðamannabólunnar og stefndi einkum að því að framleiða í smærri einingum en selja ferðalöngum á vettvangi. Segull hefur frá upphafi staðið milli þessara tveggja heima, þar sem fyrirtækið hefur brugðist við sívaxandi túrisma í heimasveit en um leið reglulega boðið upp á bjóra í Vínbúðinni.

Eitt einkenni Seguls á þeim markaði eru bjórar sem vekja ekki endilega athygli fyrir frumleika og framúrstefnu en leita á kunnugleg mið og eru keyptir af vinum Siglufjarðar. Athygli vekur þó aðeins hvaða stílar urðu fyrir valinu fyrst.

Bruni í húsi brugghússins 2017. Eldurinn gerði sitt besta til að leggja brugghúsið í rúst en það bjargaðist á síðustu stundu. Í kjölfarið hins vegar sköpuðust ýmis tækifæri til að stækka brugghúsið lengra inn í gamla frystihúsið og rými til að taka á móti hópum.

Umhverfisvitund

Orginal, fyrsti bjórinn, var millidökkur lager sem vakti athygli enda óvanalegt að lagerbjórar séu með fyrstu framleiðsluvörum úr litlum brugghúsum. Sjarmör, ljósgylltur lager, var næstur á dekk og undirstrikaði það enn frekar að brugghúsið ætlaði ekki endilega að feta hefðbundnar slóðir handverksbrugghúsanna, þó stílarnir hafi kannski verið kunnuglegir. Fljótlega kom þó sumarbjór, sem var í ætt við belgíska Wit bjóra, þar sem appelsínubörkur og kóríander var notað til að bragðbæta. Þá má nefna Hérastubb, páskabjórinn þeirra, á nafn, sem og Sigló IPA bjórinn. Þá vakti sagan á Svörtu Maríu Stout bjórnum sérstaka kátínu greinarhöfunda og mælum við með að fólk skoði hana næst þegar það rekst á dós.

Annað einkenni Seguls hefur verið ákveðin umhverfisvitund.

Árið 2019 fékk brugghúsið Bláskelina, viðurkenningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu fyrir framúrskarandi plastlausa lausn, en Segull brugghúsið hafði tileinkað sér fyrst íslenskra brugghúsa lífræna bjórkippuhringi í stað plasts. Kom fram í mati dómnefndar að nýnæmið hefði verið mikið hér á landi og skaut fyrirtækið m.a. Bíóborgurum og Kaja Organics ref fyrir rass, svo aðrir tilnefndir séu taldir til.

Þá er brugghúsið búið að byggja sér eimingaraðstöðu á efri hæðinni þar sem sterkvín verður framleitt undir merkjum Íshafs 67 og er markmiðið að framleiða gin og jafnvel romm. Verður það þá væntanlega nyrsta einingarhús landsins þó að enn eigi það eitthvað eftir norður eftir til að ná nyrsta eimingarhúsi í heimi, sem staðsett er skammt norðan Tromsö í Noregi.

Áfall skapaði tækifæri

Happatalan heldur sér þannig enn þá og það er kannski eins gott því brugghúsið lifir enn þrátt fyrir ýmis ytri áföll. Þannig t.d. kviknaði í hinum enda hússins, fjær brugghúsinu, vorið 2017 og þrátt fyrir að eldurinn hafi gert sitt besta til að leggja brugghúsið í rúst bjargaðist það á síðustu stundu þó að lagerinn hafi eyðilagst. Í kjölfarið hins vegar sköpuðust ýmis tækifæri til að stækka og bæta við og í kjölfarið stækkaði brugghúsið lengra inn í gamla frystihúsið og rými til að taka á móti hópum var stækkað umtalsvert.

Það má því með sanni segja að happatalan 67 hafi vakað yfir brugghúsinu, ólíkt pitsustaðnum með sömu töluna, sem löngu er horfið af sjónarsviðinu. Framtíðin er að minnsta kosti opin.

Hvort sem verkefnin verða bjórbað 67, hótel 67, eða bara pizza 67 skal ósagt látið en ljóst er að 67 verður í nafninu.

Safnað fyrir Einstök börn
Líf og starf 26. apríl 2024

Safnað fyrir Einstök börn

Stóðhestaveisla Eiðfaxa var haldin 13. apríl í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli ...

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...