Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Axel Sæland, formaður garðyrkjudeildar Bændasamtaka Íslands og blómabóndi á Espiflöt.
Axel Sæland, formaður garðyrkjudeildar Bændasamtaka Íslands og blómabóndi á Espiflöt.
Mynd / smh
Líf og starf 21. desember 2021

Lykilákvörðun hjá ríkisstjórninni fyrir ylræktina

Höfundur: smh

Í landbúnaðarkafla stjórnar­sáttmála nýrrar ríkisstjórnar er afdráttarlaust kveðið á um að áhersla verði lögð á að tryggja fæðuöryggi á Íslandi.

Tiltekið er að við endurskoðun á búvörusamningnum verði áhersla á að efla innlenda landbúnaðarframleiðslu, með aukinni grænmetisframleiðslu í ylrækt og útiræktun. Axel Sæland, formaður deildar garðyrkjubænda hjá Bændasamtökum Íslands, segir stjórnvöld loksins farin að sjá það sem garðyrkjan hefur lengi barist fyrir.

Sérstaklega er kveðið á um að aukinni framleiðslu í ylrækt verði náð með föstu niðurgreiðsluhlutfalli á raforkuverði. Ekki er útlistað í hverju stuðningurinn við útirækt muni felast. Endurskoðun á búvörusamningi er næst fyrirhuguð á árinu 2023.

Lykilákvörðun hjá ríkisstjórninni fyrir ylræktina

Axel gleðst fyrir hönd garðyrkjubænda yfir þessum ákvæðum stjórnarsáttmálans. „Stjórnvöld eru greinilega farin að sjá það sem garðyrkjan hefur barist fyrir í áraraðir. Baráttan fyrir sanngjörnu verði á dreifikostnaði raforku hefur verið okkur í ylræktinni hjartans mál í áratugi. Garðyrkjan er á sama dreifingartaxta og hvert annað íbúðarhús í landinu þrátt fyrir að vera stórnotendur á raforku. Núverandi búvörusamningur er á þann veg, að ríkið setur 375 milljónir í stuðning til greinarinnar, eða allt að 95 prósenta niðurgreiðslu. Þessum pening er svo deilt niður á garðyrkjubýli eftir því hvað þau nota mikla lýsingu. Hingað til hafa greiðslurnar dugað til 60–80 prósenta af kostnaði garðyrkjubýlanna við dreifingarkostnað. Staðan er því þannig að því fleiri gróðurhús sem þú byggir – og meira er lýst – því minna fá garðyrkjubændur á móti. Kerfið er því letjandi í grunninn.

Að ríkisstjórnin ætli að festa niðurgreiðsluhlutfallið gefur greininni fyrirsjáanleika. Það verður mikill munur fyrir bændur að fara inn í veturinn og vita hver dreifingarkostnaðurinn verður. Slíkt fyrirkomulag gefur okkur kost á að setja fram skýrari framtíðarsýn og auðveldar nýjum aðilum að koma inn í greinina – sem og þeim sem fyrir eru að stækka og gera betur. Nýliðun er greininni afar nauðsynleg og þeir sem eru áhugasamir verða að sjá tækifæri í því að að stunda ræktun á Íslandi,“ segir Axel.

Margfalt lægra sótspor á Íslandi

Axel bendir á, að vegna þess að íslenskt ylræktað grænmeti sé með margfalt smærra kolefnisspor en innflutt þá sé eðlileg þróun á tímum loftslagsbreytinga að stuðningurinn við greinina aukist. „Hér höfum við allt til alls til að vera með hágæða vöru með mjög lágt kolefnisfótspor, græna raforku, gróðurhúsin hituð upp með hveravatni, plönturnar vökvaðar með hreinu vatni og starfsfólk fær sómasamlega borgað fyrir sitt vinnuframlag. Hér á landi er notkun varnarefna nánast engin, það getum við þakkað íslenskri náttúru þar sem lítill hluti skordýra sem herja á ræktun þrífst hér á landi. Þar af leiðandi er mjög auðvelt að notast við náttúrulegar varnir í gróðurhúsunum.

Íslenskt grænmeti er svo sannarlega orðið partur af umræðunni um fæðu- og matvælaöryggi landsins. Neytendur eru orðnir vanir því að fá íslenskt gæða grænmeti allt árið og ákvörðun ríkisstjórnarinnar mun hjálpa mjög til með að verðlag sé sanngjarnt og varan ávallt til.“

Útiræktin þarf líflínu

Axel segir að staða íslenskra garðyrkjubænda í útiræktun grænmetis sé að ýmsu leyti skrýtin. „Útiræktendur hafa átt undir högg að sækja í mörg ár. Þeim hefur fækkað og nýliðun verið lítil. Íslenskt útiræktað grænmeti er þó orðið afar vinsælt hjá landsmönnum en alltaf spurning hvað er hægt að verðleggja vöruna hátt og því er mikilvægt að ríkisstjórnin stígi inn í þessa stöðu. Með veglegum stuðningi til að halda verðlaginu sanngjörnu og um leið að bændur sjái framtíð í starfi sínu og þannig væri komin hvatning til nýliðunar í greininni.

Mikil tækifæri felast í því að rækta meira og fleiri tegundir, við höfum frjósaman jarðveg og nóg af landi til ræktunar. Þó svo að ræktunartímabilið sé stutt þá hjálpar mjög hvað dagarnir eru langir á sumrin og plönturnar nýta sér það svo sannarlega til vaxtar. Sökum lágs meðalhita á Íslandi er vöxtur hægur og þéttur, sem verður til þess að næringarinnihald er mikið í grænmetinu. Svo er ástæða til að nefna það enn og aftur að skordýrin þrífast illa hér á landi og notkun varnarefna því mjög lítil miðað við meginland Evrópu.“

Lífrænt ræktað grænmeti þarf meira pláss í umræðunni

Axel hefur einnig sérstakar áhyggjur af stöðu lífrænnar ræktunar á íslensku grænmeti og segir bændur ekki hafa náð að fylgja eftir neyslumynstri þjóðarinnar þegar kemur að lífrænt ræktuðum matvælum. „Í þeim geira erum við talsvert á eftir nágrannaþjóðum okkar. Það kom berlega í ljós í skýrslu sem unnin var af Erlu Hjördísi Gunnarsdóttur, samskiptastjóra Bændasamtakanna, fyrir Samband garðyrkjubænda um samanburð á milli Íslands og hinna Norðurlandanna,“ segir hann.

Axel nefnir þrjú atriði sem ástæður fyrir því hversu langt á eftir við erum þegar kemur að lífrænni ræktun. „Fyrst er það viljaleysi stjórnvalda, í öðru lagi áhugaleysi núverandi ræktenda og í þriðja lagi er það svo aðgangur að lífrænum áburði. Nú ætlar ríkisstjórnin að setja sér heildstæða, tímasetta aðgerðaráætlun til að auka lífrænan búskap í landinu. Það verður vonandi til þess að bændur sjái meiri tækifæri í lífrænum búskap. Hvort sem það verða núverandi bændur sem færi sig yfir í lífræna hlutann, lífrænir bændur stækki við eða það sem væri frábært; að nýliðun yrði í þessum hópi.

Síðustu ár hefur verið góð aðsókn á lífrænu brautina í Garðyrkjuskólann að Reykjum í Ölfusi. Það bendir til að áhuginn sé að vakna og fólk farið að sjá tækifæri í að rækta lífrænt. Því er það afar jákvætt að stjórnvöld ætli sér að bæta stöðu bænda í lífrænum búskap.“

Spennandi kjörtímabil fram undan

Axel telur það spennandi stöðu að fara inn í kjörtímabil nýrrar ríkisstjórnar núna þegar það liggur fyrir að styrkja eigi stöðu grænmetisframleiðslu í landinu. „Við í nýrri garðyrkjudeild Bændasamtaka Íslands munum vinna heilshugar að bættum hag garðyrkjubænda í landinu, með Svandísi Svavarsdóttur, nýjum landbúnaðarráðherra við stjórnvölinn.

Ég sé ekki betur en að garðyrkjan sé að tikka í öll box nýs ráðherra; hún er loftslagsvæn, með lágt kolefnisfótspor, hefur mikla möguleika á að stækka og bæta við sig mannafla, er partur af fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar – og hér höfum við mikla möguleika á því að verða mun sjálfbærari í okkar grænmetisneyslu.“ 

Friðrik, Bjarki og Helga Ragna hlutu garðyrkjuverðlaun
Líf og starf 21. maí 2024

Friðrik, Bjarki og Helga Ragna hlutu garðyrkjuverðlaun

Garðyrkjuverðlaun voru veitt á hinni árlegu hátíðarathöfn Garðyrkjuskólans á sum...

Skáldið, framsóknarmaðurinn og fimm granda meldingin
Líf og starf 20. maí 2024

Skáldið, framsóknarmaðurinn og fimm granda meldingin

Þeir voru ekki margir sem komust í slemmu með spil austur-vestur á Kjördæmamótin...

Stjörnuspá 16. maí - 30. maí
Líf og starf 16. maí 2024

Stjörnuspá 16. maí - 30. maí

Vatnsberinn hefur í mörgu að snúast þessa dagana en er þó frekar skýr í kollinum...

Safnað fyrir Einstök börn
Líf og starf 26. apríl 2024

Safnað fyrir Einstök börn

Stóðhestaveisla Eiðfaxa var haldin 13. apríl í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli ...

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...