Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Guðjón Bjarnason ólst upp í Hænuvík. Hann er gagnrýninn á þróun félagskerfis bænda og sérstaklega hversu litla rödd Vestfirðingar fá.
Guðjón Bjarnason ólst upp í Hænuvík. Hann er gagnrýninn á þróun félagskerfis bænda og sérstaklega hversu litla rödd Vestfirðingar fá.
Líf og starf 8. nóvember 2022

Hænuvík

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Guðjón Bjarnason og María Ólafsdóttir eru sauðfjárbændur í Hænuvík, ysta bænum í sunnanverðum Patreksfirði. Þar búa þau með 250 kindur og reka ferðaþjónustu og handverksverslun með dóttur sinni, Guðnýju Ólafíu.

Hjónin eru bæði úr sveitinni, en Guðjón ólst upp í Hænuvík og María kemur frá Sellátranesi, sem er næsti bær fyrir innan.

Þegar Guðjón og María tóku við búinu í Hænuvík fyrir fjörutíu árum þurftu þau að byrja frá grunni. Foreldrar Guðjóns drápu allan sinn fjárstofn haustið áður en þau keyptu af þeim jörðina eftir að hafa lent í ýmsum skakkaföllum.

„Ég var búinn að vera viðloðandi búskapinn frá 1962 eða 1963 og vissi alveg hvað var hér til staðar. Þegar við tókum við árið 1982 fengum við lömb frá bændum í grenndinni og vorum fyrsta veturinn með 52 kindur. Við skulduðum aldrei krónu þar sem við býttuðum á jörðinni og húsinu sem við áttum á Patró,“ segir Guðjón.

Sjálfum sér nóg

Fyrstu árin voru erfið að sögn Guðjóns, en með því að þurfa ekki að kaupa orku og vera sjálfum sér nóg um mat náðu þau að láta hlutina ganga upp. „Við fiskum allan okkar fisk, framleiðum allt okkar kjöt, allar okkar kartöflur, við framleiðum orkuna alla sjálf,“ segir Guðjón, en á bænum hefur verið heimarafstöð frá því um miðja síðustu öld. Lengi vel voru þau með 400 kindur, en núna séu þau farin að minnka við sig. Síðasta vetur voru 250 kindur á bænum og reiknar Guðjón með að fækka meira núna í haust.

Sauðfjárræktin gjaldþrota

Aðspurður um það hvort hægt sé að lifa af sauðfjárbúskapnum segir Guðjón: „Ef þú ætlar að kaupa áburð og fóðurbæti og vera með svolítið af lánum þá þarftu að hafa tvö þúsund fjár. Það er ekkert að marka þetta hjá okkur – við getum heyjað allan hreppinn. Sauðfjárræktin er gjaldþrota. Einfaldlega vegna þess að við erum ekki bara að keppa við þessa útþenslustefnu sem Bændasamtökin hafa verið að hvetja til, heldur er verið að flytja inn í landið fleiri þúsund tonn af alls konar kjöti. Það tekur frá okkur og er á niðurgreiddu verði – eitthvert hormónadrasl,“ segir Guðjón.

Rödd Vestfjarða heyrist ekki

Guðjón er mjög gagnrýninn á þá þróun sem hefur átt sér stað í félagskerfi bænda á undanförnum árum. Raddir bænda á Vestfjörðum fái ekki að heyrast. „Kannski tekur því ekki vegna þess að búskapur er almennt að deyja á Vestfjörðum,“ segir Guðjón.

„Sjáðu fundarherferðina hringinn í kringum landið sem þeir gortuðu sig af um daginn. Hvar er fundurinn fyrir okkur? Á Ísafirði. Það er enginn áhugi fyrir því að halda fund hér á sunnanverðum Vestfjörðum.“ Hann segir bændur hafa verið hvatta til að hagræða og stækka búin, en það sé ekki hlaupið að því á Vestfjörðum þar sem undirlendi er lítið.

„Vestfirðir eru að deyja sem búskaparland, meðal annars fyrir tilstilli Bændasamtakanna. Öll félagastarfsemi er búin. Búnaðarsambandið helst á lífi enn þá, en það er löngu farið að ræða að sameina það undir Vesturland. Hvar eru þá raddirnar sem eiga að berjast fyrir Vestfirði? Þær voru sex til sjö á fundum áður fyrr – ég held að það sé einn núna.“

Sauðféð ratar heim

Guðjón segist vera heppinn með sitt fé, en það hefur vanist því að koma sjálft til byggða á haustin. Hann segist ná þessu með því að láta sauðféð sitt vera úti mest allt árið sem verður til þess að þær þekki sitt umhverfi og viti hvert þær eigi að fara þegar haustar.

„Það er búið að taka úr íslensku fé þessa náttúru að koma til byggða þegar haustið kemur.“ Þó svo að hann sé síðasti bóndinn á svæðinu hafa smalamennskur verið viðráðanlegar.

Innviði þarf að bæta

Aðspurður um hvernig hann sjái byggðina þróast á næstu árum og áratugum, segir Guðjón að nauðsynlegt sé að bæta fjarskiptasamband á svæðinu. Fólk geti því flutt á svæðið sem geti unnið í fjarvinnu. Lagning ljósleiðara og þriggja fasa rafmagnsstrengs var komin á dagskrá fyrir skemmstu. Allt efnið var komið, en Guðjón segir að tveir landeigendur á svæðinu hafi ekki gefið heimild fyrir að plægja strenginn í gegnum sitt land. Guðjón er hins vegar með heimarafstöð og framleiðir þriggja fasa rafmagn fyrir heimilið.

Þrýstivatnspípa úr fiskeldiskvíum

Undanfarin ár hefur Guðjón unnið að því að stækka virkjunina hjá sér til að bæta raforkuöryggi í Hænuvík og húsunum þar í kring. Ein af ástæðunum fyrir því að hann lagði í þessa vinnu var sú að honum áskotnuðust þrjár aflagðar fiskeldiskvíar sem hann gat tekið í sundur og fengið kílómetra langt rör. Líklegt er að hann muni eiga umframorku en hann mun ekki geta selt þann straum ef lagning kapals fyrir þriggja fasa rafmagn út í Hænuvík klárast ekki.

Búið var lífrænt

Búið í Hænuvík var komið með lífræna vottun fyrir nokkrum árum. Búreksturinn hefur lengi vel verið svo gott sem lífrænn, þar sem áburðargjöf hefur lengi verið í lágmarki og var alfarið hætt áður en lífræna vottunin gekk í gegn. Fyrir utan þrjár til fjórar vikur eftir rúning að vetri gengur sauðféð við opið haf sem skilar af sér heilbrigðum skepnum og lágmarks lyfjagjöf. Eftir að bann var sett við að hafa sauðfé á grindum í lífrænni ræktun, hafa þau í Hænuvík tapað sinni vottun þrátt fyrir að uppfylla öll önnur skilyrði.

„Það eina sem við fengum fyrir þessa viðleitni var úttektarkostnaður upp á 80-180 þúsund krónur á ári í hátt í tíu ár, en aldrei kom króna ofan á innlegg þrátt fyrir vottun,“ segir Guðjón.

Í Hænuvík búa Guðjón og María Ólafsdóttir með sauðfé og ferðaþjónustu.

Fólksfækkun viðvarandi

Guðjón hefur fylgst með byggðinni hverfa frá því hann var krakki. Þróunin hefur verið niður á við allan þann tíma, en fólksfækkunin hefur komið í nokkrum kippum á þessum áratugum.

Eitt stærsta áfallið var þegar skólinn í Örlygshöfn var lagður niður. „Allir úr okkar sveit fóru sem voru meðal vel gefnir og yfir. Þeir sem voru undir meðallaginu eru hér enn þá,“ segir Guðjón.

Hefur ekki áhyggjur af framtíðinni

Hjónin hafa ekki ákveðið hvað verður um búskapinn eftir þeirra dag. Guðjón segist ætla að sinna áfram þeim verkefnum sem hann hefur verið að vinna að, eins og viðhaldi og uppbyggingu á húsakosti og rafstöðinni. Þau eiga tvær dætur sem eru mikið með þeim og sér Guðný nær alfarið um ferðaþjónustuna. „Ef maður gerir hlutina þannig að fólkið sem er í kringum okkur hafi áhuga á að vera með manni þá hlýtur að koma að því að einhver leikur sér að því sem við höfum verið að gera – ekki endilega að elta rollur. Svo bara drepst ég einhverja nóttina og ég hef ekki áhyggjur af því,“ segir Guðjón.

Anna ekki eftirspurn

Guðný Ólafía Guðjónsdóttir segir að í handverksbúðinni á bænum selji þau bara handverk sem heimilisfólkið í Hænuvík framleiðir. Salan hefur aukist á hverju sumri og eiga þau erfitt með að anna eftirspurn.

Aðspurð hvað seljist mest, segir Guðný að það sé misjafnt milli sumra. Eitt sumarið selst mest af vettlingum á meðan annað sumarið eru sokkarnir vinsælastir. Að auki við prjónverk er mikið af munum úr renndu timbri eftir Guðjón. Hráefnið í það er mikið til rekaviður og annað timbur sem fellur til á bænum.

Skylt efni: Rauðasandshreppur

Bænder
Líf og starf 12. júlí 2024

Bænder

Sumir fara á Tinder. Aðrir hafa ekki tíma í slíkt vegna anna í búskapnum. Hér, k...

Vættafundur á Eyjabökkum
Líf og starf 10. júlí 2024

Vættafundur á Eyjabökkum

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Oddbjörgu Sigfúsdóttur.

Sumarkveðja
Líf og starf 10. júlí 2024

Sumarkveðja

Nú þegar lífið kviknar með sumrinu og golan leikur við kinn, skulum við gleðjast...

Himbrimi
Líf og starf 9. júlí 2024

Himbrimi

Himbrimi er nokkuð stór vatnafugl og er einn af einkennisfuglum íslenskra heiðav...

Sumarsveiflan 2024
Líf og starf 8. júlí 2024

Sumarsveiflan 2024

Áherslur tískunnar fara nokkuð vítt og breitt þetta árið en nú þegar er farið að...

Dugur og elja ofar öllu
Líf og starf 8. júlí 2024

Dugur og elja ofar öllu

Eitt þeirra mætu kvenfélaga sem hér á landi sitja er Kvenfélag Hringsins sem hef...

Útlitið er ekki allt
Líf og starf 8. júlí 2024

Útlitið er ekki allt

„Sko, þetta hús byggði Síldarverksmiðja ríkisins árið 1943 og hér voru skrifstof...

Drottingarfórn fyrir mát ... aftur
Líf og starf 8. júlí 2024

Drottingarfórn fyrir mát ... aftur

Jón Aðalsteinn Hermannsson frá Lyngbrekku í Reykjadal tefldi skák fyrir 10 árum ...