Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Líf og starf 3. október 2016
Gömul kornræktartæki sem þjónuðu bændum í Mosfellssveit um miðja síðustu öld
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Hjónin Magnús Sigsteinsson á Blikastöðum, fyrrverandi búfræðiráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands, og Marta Guðrún Sigurðardóttir komu á dögunum færandi hendi á Landbúnaðarsafn Íslands á Hvanneyri.
Afhentu þau þá Bjarna Guðmundssyni verkefnisstjóra kornsláttuvél, gamla þreskivél og kornhreinsivél sem notaðar voru á Blikastöðum og fleiri bæjum í Mosfellssveit fyrir um sextíu til áttatíu árum.
„Þetta eru kornræktartæki sem voru hér í geymslu á Blikastöðum. Þarna er um að ræða gamalt þreskiverk og kornhreinsara sem er frá 1936, eða frá búskapartíð Magnúsar Þorlákssonar, afa míns á Blikastöðum. Kornsláttuvélin sem við fórum líka með upp á Hvanneyri, eða „selvbinder“ eins og það heitir á dönsku, sló kornið og batt það í knippi og skilaði því þannig frá sér. Þetta er seinni tíma vél, líklega frá miðjum fimmta áratugnum,“ segir Magnús Sigsteinsson.
Hann segir að þau hafi farið tvær ferðir með búnaðinn á Landbúnaðarsafnið á Hvanneyri, en seinni ferðin var með sláttuvélina sem er mun meiri um sig en þreskiverkið.
Notuð í Mosfellssveit á fimmta og sjötta áratugnum
„Sláttuvélin var notuð á nokkrum bæjum hér í neðanverðri Mosfellssveitinni á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar. Það var á meðan kornrækt var þar almennt stunduð. Vélin var dregin af traktor og Árni G. Eylands nefnir m.a. þessi tæki í kafla um kornrækt í bókinni Búvélar og ræktun. Þá segir hann að þessi kornsláttuvél hafi verið til í Mosfellsbæ og notuð í Láguhlíð, sem var þá eitt af nýbýlunum úr Lágafellslandinu. Ég held ég fari örugglega rétt með að þessi kornsláttuvél hafi verið sameign nokkurra bænda og var faðir minn, Sigsteinn Pálsson, þar á meðal. Hann var alltaf með kornrækt á Blikastöðum á einum til tveim hekturum. Dálítil kornrækt var líka á sumum nýbýlunum á Lágafellslandinu. Það var svo sem ekki mikið land sem fylgdi þessum nýbýlum, því allt í allt hafa þetta verið um 20 hektarar.“
Mjög ólíkt verklag frá því sem nú þekkist
„Ég man sjálfur eftir þessum kornskurði sem krakki. Þetta var gert á danska vísu. Kornknippin sem vélin skilaði frá sér voru tekin og reist upp tvö og tvö saman. Þannig var þetta látið standa úti í dálítinn tíma til að þurrka kornið ef veður var hagstætt. Síðan var það tekið í hús og þreskt og keyrt í gegnum þetta þreskiverk. Allt verklag við þetta var mjög ólíkt því sem þekkist í dag.
Kornsláttuvélin var notuð á þessu svæði fram eftir sjötta áratugnum, eða þar til kornrækt lagðist þar alveg af vegna versnandi veðurskilyrða. Ég held að það hafi verið á árunum 1955 til 1957 sem síðast var ræktað korn hér heima á Blikastöðum. Eftir það fór vélin í geymslu á Blikastöðum. Þar hefur hún staðið, þar til við fórum að taka til og tæma allar þessar geymslur nú í sumar,“ segir Magnús Sigsteinsson.
Þreskivélarnar í gamla daga voru dálítið öðruvísi en sá búnaður sem nú er notaður.