Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Vel heppnuð safnhaugamold er besta mold sem hægt er að hugsa sér.
Vel heppnuð safnhaugamold er besta mold sem hægt er að hugsa sér.
Mynd / Markus Spiske
Líf og starf 28. apríl 2023

Góður tími til að hefja jarðgerð

Höfundur: Vilmundur Hansen

Aukinn áhugi á sjálfbærni og garðrækt, ekki síst matjurtarækt, hefur leitt til aukins áhuga á nýtingu þess sem fellur til í eldhúsinu og garðinum til heima- jarðgerðar. Vorið er góður tími fyrir þá sem vilja taka fyrstu skrefin og koma sér upp safnhaugi í garðinum.

Ýmsar leiðir eru færar þegar kemur að jarðgerð og ekki víst að sama aðferðin henti alls staðar. Algengast er að garðeigendur komi sér upp einum eða fleiri kössum fyrir lífrænan úrgang og hann sé látinn jarðgerast í þeim. Hægt er að velja á milli þess að kassinn sé einfaldur, eða lokaður og einangraður. Jarðgerð í einföldum kassa kallast köld jarðgerð en heit í lokuðum og einangruðum kassa og gengur sú mun hraðar fyrir sig.

Miklu máli skiptir að koma safnhaugakassanum eða tunnunni fyrir á hlýjum og skjólgóðum stað þar sem auðvelt er að komast að honum. Kassinn þarf að standa á möl eða moldarjarðvegi og gott er að setja greinar í botninn þannig að jarðvegsdýr eigi auðveldan aðgang upp í hann.

Hvað má og má ekki fara í kassann?

Til jarðgerðar má nota flest sem fellur til úr garðinum, fyrir utan rótarillgresi, eins og til dæmis húsapunt, skriðsóley eða túnfífil, hvað þá, illgresi eins og krossfífil eða dúnurt sem hæglega geta þroskað fræ í safnhaugnum.

Nýslegið gras má ekki vera meira en 20% en lauf, smáar greinar, barr, visnuð blóm og þurrt hey má allt fara í jarðgerðina.

Úr eldhúsinu má setja salat og kál, rótargrænmeti, hýði af ávöxtum og kartöflum, eggjaskurn, brauð, te- og kaffikorg og eldhúspappír en varast skyldi að setja fisk- og kjötafganga í opinn safnhaug þar sem slíkt getur laðað að sér óæskileg nagdýr.

Saxa í smátt og blanda öllu saman

Best er að hafa úrganginn sem fer í kassann eða tunnuna sem smágerðastan og hræra öllu vel saman. Í botninn er upplagt að setja um fimmtán sentímetra lag af misgrófum greinum og mikið af þurru efni eins og þurru heyi í neðsta lagið.

Ef ekki er hægt að hræra í kassanum þarf að fylla á hann í þunnum lögum og gott er að setja mold eða þurran garðaúrgang á milli laga. Auka má öndun í massanum með því að stinga í hann með stungugaffli af og til. Til að flýta fyrir jarðgerðinni er gott að sáldra gamalli, fíngerðri moltu eða þurru hænsnadriti á milli laga.

Þumalfingursreglan segir að ef sett sé í kassann ein fata af grænmeti skuli setja með 1/3 af þurru efni, til dæmis heyi. Komi sterk rotnunarlykt úr kassanum er efnið í honum líklega of blautt. Yfirleitt er nóg að blanda þurru heyi eða sagi í innihald hans til að laga þetta.

Vatn, súrefni og hiti

Til þess að jarðgerð eigi sér stað er þrennt sem þarf að koma til. Vatn, súrefni og hiti. Örverurnar sem umbreyta efninu í kassanum í jarðveg þurfa vatn svo að lífsstarfsemi þeirra sé eðlileg. Of mikið vatn hægir á starfseminni þar sem það dregur úr súrefni, sem er einnig nauðsynlegt svo að gott niðurbrot eigi sér stað.

Við jarðgerð myndast hiti sem örvar niðurbrotið enn frekar. Hæfilegt rakastig í kassanum er þegar efnið er eins og blautur svampur viðkomu eða með 50 til 60% raka. Fari rakastigið niður fyrir 30% stöðvast starfsemi örveranna og jarðgerðin stöðvast.

Ef vel tekst til við jarðgerðina safnast í kassann ógrynni af jarðvegslífverum, ánamaðkar, járnsmiðir, þúsundfætlur og grápöddur – sem aðstoða við og flýta fyrir niðurbrotinu.

Besta mold í heimi

Vel heppnuð safnhaugamold er besta mold sem hægt er að hugsa sér. Hún er iðandi af lífi, full af næringarefnum og lífrænum efnum á mismunandi þroskastigi.

Nota má safnhaugamold til að auka frjósemi garðsins með því að dreifa henni yfir beð eða grasflötina í þunnu lagi. Hún er einnig tilvalin með þegar settar eru niður hvers konar plöntur. Í öllum tilvikum verður að blanda moltu eða safnhaugamold saman við moldina sem fyrir er.

Skylt efni: Garðyrkja | safnhaugamold

Burt með gerviefnin
Líf og starf 21. janúar 2025

Burt með gerviefnin

Stöðugt rakastig jarðvegs tómataræktar á Ítalíu kom skemmtilega á óvart nú á lið...

Gallabuxnafár, grátið við skákborðið og brúðkaup MC
Líf og starf 20. janúar 2025

Gallabuxnafár, grátið við skákborðið og brúðkaup MC

Það ríkti engin lognmolla í skákheiminum á milli jóla og nýárs. Heimsmeistaramót...

Janúar er mánuður briddsins
Líf og starf 17. janúar 2025

Janúar er mánuður briddsins

Fjölmörg briddsmót fóru fram um jólin hér og þar um landið. Sums staðar þóttu br...

Kría – barnapeysa
Líf og starf 17. janúar 2025

Kría – barnapeysa

Peysan er prjónuð úr einföldum Þingborgarlopa og einum þræði af LoveStory saman....

Bústörf yfir hávetur
Líf og starf 15. janúar 2025

Bústörf yfir hávetur

Verkefni bænda halda áfram þrátt fyrir hátíðarhöld og lögbundna frídaga. Hér eru...

Heimabakað brauð
Líf og starf 15. janúar 2025

Heimabakað brauð

Brauðbakstur er merkilega einföld iðja en um leið afskaplega flókin. Hveiti, vat...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 13. janúar 2025

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn stígur gætilega til jarðar þessi fyrstu skref ársins, uppfullur forv...

Stiklað á stóru
Líf og starf 9. janúar 2025

Stiklað á stóru

Bændablaðið kom tuttugu og þrisvar sinnum út árið 2024. Hér eru endurbirtar sjö ...