Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Vasyl Ivanchuk
Vasyl Ivanchuk
Líf og starf 26. maí 2025

Goðsögnin Ivanchuk

Höfundur: Gauti Páll Jónsson.

Í síðasta pistli fjallaði ég um Reykjavíkurskákmótið, í boði Kviku eignastýringar og Brim, sem fram fór í aprílmánuði.

Sterkur íslenskur skákmaður sótti úkraínsku skákgoðsögnina Vasyl Ivanchuk á Keflavíkurflugvöll fyrir mótið. Ivanchuk kom snemma til landsins og spurði hvort allt væri ekki gott að frétta af Friðiki Ólafssyni, fyrsta stórmeistara Íslands, en Skáksambandið hafði skipulagt mótið sem 90 ára afmælismót Friðriks. Jú, það var allt gott að frétta af Friðriki og hann spáði enn mikið í skákina. Svo kom á daginn að morgun þessa sama dags hafði Friðrik Ólafsson fallið frá. Reykjavíkurskákmótið var því haldið til heiðurs Friðriki. Einhvern tímann seinna mun ég segja frá Friðriki Ólafssyni í þessu skákhorni hér, af nógu er að taka. Mæli ég sérstaklega með bók þeirra Helga Ólafssonar og Friðriks, skákævisögu nokkurs konar, sem heitir einfaldlega Friðrik Ólafsson.

Vasyl Ivanchuk teflir mikið þessa dagana, mót eftir mót. Ástandið í heimalandi hans er þannig að jafnvel getur verið gripið til þess að kveða menn allt að sextugu í herinn. Ivanchuk er fullorðinn maður, 56 ára, en heldur skákstyrk sínum ótrúlega vel. Hann hefur orðið heimsmeistari í hraðskák og atskák, og teflt upp á Fide-heimsmeistaratitilinn. Eins og aðrir erlendir menn sem heimsótt hafa Ísland oftar en einu sinni þá er hann Íslandsvinur. Hann hefur einnig náð góðum árangri hér á landi í skákinni, varð t.a.m. efstur á Heimsbikarmóti Flugleiða haustið 1991 ásamt Anatoly Karpov. Margir af hans kynslóð eru annaðhvort hættir, eða hafa minnkað taflmennsku verulega og þar með er getan minni og stigin færri. En ekki Ivanchuk.

Það vill nefnilega svo til að Ivanchuk fór í gegnum þrjú sterk skákmót á dögunum án þess að tapa skák! Sjö vinningar af níu á Reykjavíkurskákmótinu eins og áður sagði, sjö og hálfur vinningur af níu á móti á Alicante, og loks átta vinningar af níu á sterkasta mótinu af þessum þremur, Menorca Open. Þar var okkar maður númer átta í stigaröð og endaði fyrir ofan miklu yngri keppinauta.

Þessi orð eru skrifuð í þakkarskuld til þeirra sem lifa fyrir skákina og einfaldlega dýrka leikinn. Ofurstórmeistara sem gefa af sér til okkar minni spámanna og búast ekki við neinu í staðinn. Það var magnað að lesa nýlega grein um spjall Ivanchuk við bandarískan alþjóðlegan skákmeistara (þeir þekktust ekkert, höfðu aðeins teflt eina skák) sem endaði á 11 klukkustunda stúderingum á kaffihúsum Reykjavíkur. Að sjálfsögðu mundi Ivanchuk alla skákina og rifjaði meira að segja upp undirbúning sinn. Ivanchuk er skákgoðsögn í lifanda lífi og skákheimurinn fagnar með, þegar honum gengur vel.

Skylt efni: Skák

80 þúsund gestir á síðasta ári
Líf og starf 8. júlí 2025

80 þúsund gestir á síðasta ári

Geosea, eða Sjóböðin á Húsavík, voru opnuð í lok sumars 2018. Í dag eru 12 ársve...

Lesið í fannir
Líf og starf 8. júlí 2025

Lesið í fannir

Kannski er ekkert sumarlegt að fjalla um fannir í júní. Og þó – þegar betur er a...

Greinandi og afhjúpandi rödd Ernaux
Líf og starf 7. júlí 2025

Greinandi og afhjúpandi rödd Ernaux

Enn af þýðingum og aftur kemur Þórhildur Ólafsdóttir við sögu hér í Hriflunni. F...

Kynning á íslenskum mat í Japan
Líf og starf 7. júlí 2025

Kynning á íslenskum mat í Japan

Íslandsstofa ásamt utanríkisþjónustunni og sendiráði Íslands í Japan skipulagði ...

17 impa slys
Líf og starf 7. júlí 2025

17 impa slys

Mikil umræða hefur orðið meðal íslenskra keppnisspilara síðustu vikur hvort drag...

Toga beint upp og mest fjórðung plöntunnar
Líf og starf 4. júlí 2025

Toga beint upp og mest fjórðung plöntunnar

Mikilvægt er að uppskera rabarbara á réttan hátt svo að rótin rotni ekki.

Feitur maður fótbrotnar
Líf og starf 3. júlí 2025

Feitur maður fótbrotnar

Eitt af svipmeiri stórbýlum landsins er Vallanes á Héraði, eða Vallanes á Völlum...

Góður bíll – punktur!
Líf og starf 3. júlí 2025

Góður bíll – punktur!

Að þessu sinni er tekinn fyrir hinn nýi Kia EV3 rafmagnsbíll. Þetta er fólksbíll...