Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Can-Am Traxter HD10 6x6 vinnubíllinn er gerður til að þjóna mjög skýrum tilgangi: Burðast með farm um torfærar slóðir og er öllum óþarfa búnaði sleppt. Hönnuðir Can-Am hafa þó ekki veitt afslátt á útlitshönnun.
Can-Am Traxter HD10 6x6 vinnubíllinn er gerður til að þjóna mjög skýrum tilgangi: Burðast með farm um torfærar slóðir og er öllum óþarfa búnaði sleppt. Hönnuðir Can-Am hafa þó ekki veitt afslátt á útlitshönnun.
Mynd / ÁL
Líf og starf 5. september 2023

Gerður fyrir illa meðferð

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændablaðið tók að þessu sinni til prufu nýjan sexhjóla vinnubíl frá kanadíska framleiðandanum Can- Am. Þetta er einfalt vinnutæki með mikla burðar- og drifgetu. Traxter er á margan hátt sér á báti, en starfsmenn Ellingsen lýsa tækinu sem stærri, öflugri og öruggari útgáfu af sexhjólunum sem eru algeng í sveitum landsins.

Þegar tækið er skoðað að utan virðist það vera stækkuð útgáfa af sexhjóli, nema með sætum og veltigrind í stað hnakks. Þó uppsetningin sé á margan hátt svipuð, þá deilir Traxter sárafáum íhlutum með sexhjólunum frá Can-Am. Grindin, fjöðrunarbúnaðurinn og drifrásin eru sérstaklega endurhönnuð og styrkt til að þola þann aukna þunga og álag sem þessu tæki fylgir.

Búnaður í lágmarki

Þegar sest er um borð er fátt sem tekur á móti manni, enda er þetta algjörlega strípuð útgáfa af Traxter og greinilegt að peningurinn hefur farið í drifbúnað í stað lúxus. Engar dyr eru á veltigrindinni, heldur er taunet við hvorn inngang, sem haldið er uppi með plastsmellu.

Bíllinn er með þrjú sæti, með merkilega þægilegum og mjúkum svampi. Þau eru klædd með vatnsheldu áklæði. Hvert sæti er með sitt þriggja punkta öryggisbelti. Í mælaborðinu er ein stöng fyrir gírana og eru tveir gírar áfram og einn aftur. Stiglaus reimskiptingin sér svo um að halda vélarsnúningnum réttum. Engin kúpling kemur við sögu.

Traxter er ekki með neinn millikassa og eru öftustu fjögur hjólin alltaf læst í drifi. Hægt er að setja í sexhjóladrif með einum takka. Ökutækið er mun liprara en mætti ætla og verður ekkert stífara þegar framhjóladrifið er virkjað.

Ökumannshúsið er með nákvæmlega það sem þarf og ekkert meira. Þó sætin líti ekki út fyrir að vera merkileg, þá eru þau sérlega þægileg.

Drifgeta umfram væntingar

Þegar Traxter er tekinn til kostanna á grófum slóða, tekur nokkurn tíma að átta sig á hversu öflugt tækið í rauninni er. Undirritaður er vanur venjulegum jeppum og byrjaði á að keyra varlega yfir grjót og djúpar holur. Þegar leið á prufuaksturinn jókst sjálfstraustið þó til muna og hraðinn samkvæmt því. Ófærur, sem undirritaður hefði ekið yfir á 15-20 kílómetra hraða á óbreyttum jeppa, þoldu vel 50-60 kílómetra hraða á þessu tæki.

Hvert einasta hjól er með sjálfstæða fjöðrun og miklum hreyfanleika. Traxter nær því að halda sér ótrúlega stöðugum og mjúkum þegar brunað er yfir hörmulegt yfirborð. Mýktin verður jafnvel meiri þegar hraðinn eykst.

Samanborið við jeppa, þá ræður Traxter við margfalt brattari brekkur, enda með þrjá öxla og mun léttari. Í þessum prufuakstri var tekist á við brekku með meira en 45 gráðu halla á köflum og lausu yfirborði og komst bíllinn upp án mikilla láta.

Næst var reynt við lengri og brattari brekku, en þar fundust takmörk drifgetunnar. Þar sem Traxter er rásfastur og stöðugur, þá var lítið mál að bakka niður án þess að koma sér í sjálfheldu eða óttast að velta tækinu.

Aðgengið að vélinni er með allra besta móti.

Ekki gerður fyrir þjóðvegi

Tekinn var stuttur rúntur á góðum malarvegi. Þar reynist Traxter prýðilegur upp að 70 kílómetra hraða. Þó bíllinn komist hraðar, þá fer upplifunin að vera óþægileg þar sem ökumaðurinn er nær alfarið óvarinn fyrir vind. Hávaðinn verður jafnframt það mikill að ómögulegt er að eiga samskipti við sessunautinn.

Ekki var reynt á akstur á malbiki, enda bíllinn ekki ætlaður í slíka notkun.

Öflugur pallur

Ekki er hægt að segja frá mörgu þegar kemur að ytra byrði tækisins, enda hefur öllum óþarfa verið haldið í lágmarki. Örstutt grænt húddið og ljósin mega þó eiga það að vera smekklega hönnuð.Það sem mestu máli skiptir á Traxter er pallurinn. Þó hann virðist ekki stór, þá er hann með sambærilegt innra mál og amerískir pallbílar og komast tvö Euro-bretti leikandi á þverveginn. Skjólborðin eru með sterkri stálgrind og eru föst, nema dregnir séu fram skiptilyklar.

Burðargeta farartækisins er 771 kílógramm, sem þýðir að bíllinn getur auðveldlega burðast með heyrúllu á pallinum. Dráttargetan er jafnframt 1.360 kílógrömm. Bændur og aðrir sem vinna við erfiðar aðstæður úti í náttúrunni, geta leyst af hólmi fjölmörg tæki með Traxter. Pallurinn er með hlerapumpu, en samkvæmt upplýsingum frá Ellingsen á hann að létta undir við að sturta, jafnvel þó pallurinn sé með fullfermi. Vélin og skiptingin eru staðsett rétt aftan við ökumannshúsið, undir pallinum. Þegar pallinum er lyft upp, þá er sérlega gott aðgengi til að sinna viðhaldi.

Pallurinn á Traxter 6x6 er með svipuð mál og amerískir pallbílar og má bera 771 kílógramm.

Tölur

Helstu mál í millímetrum eru: Lengd, 3.915; breidd, 1.625; og hæð, 1.981. Þyngd ólestaðs ökutækis er 886 kílógrömm. Verð með vsk. er 5.990.000 krónur.

Að lokum

Traxter sexhjóla vinnubíllinn er flott tæki þar sem burðar- og drifgeta er í algjörum forgangi.

Einfaldleikinn er mikill og lítur út fyrir að ekki hafi verið lögð króna í óþarfa búnað.

Ökutækið er torfæruskráð og kemur því ekki til greina sem vinnutæki í þéttbýli.

Skylt efni: prufuakstur

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 15. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn er eitthvað órór þessa dagana enda einhver stífla á verkefnum í krin...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 12. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Bænder
Líf og starf 12. júlí 2024

Bænder

Sumir fara á Tinder. Aðrir hafa ekki tíma í slíkt vegna anna í búskapnum. Hér, k...

Vættafundur á Eyjabökkum
Líf og starf 10. júlí 2024

Vættafundur á Eyjabökkum

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Oddbjörgu Sigfúsdóttur.

Sumarkveðja
Líf og starf 10. júlí 2024

Sumarkveðja

Nú þegar lífið kviknar með sumrinu og golan leikur við kinn, skulum við gleðjast...

Himbrimi
Líf og starf 9. júlí 2024

Himbrimi

Himbrimi er nokkuð stór vatnafugl og er einn af einkennisfuglum íslenskra heiðav...

Sumarsveiflan 2024
Líf og starf 8. júlí 2024

Sumarsveiflan 2024

Áherslur tískunnar fara nokkuð vítt og breitt þetta árið en nú þegar er farið að...

Dugur og elja ofar öllu
Líf og starf 8. júlí 2024

Dugur og elja ofar öllu

Eitt þeirra mætu kvenfélaga sem hér á landi sitja er Kvenfélag Hringsins sem hef...