Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Það fer ekki á milli mála að hér er um Renault að ræða, enda ber Megane E-Tech sterkan ættarsvip. Þessi bíll er vandaður og með mikinn karakter, en hátt verð miðað við staðalbúnað spillir helst fyrir.
Það fer ekki á milli mála að hér er um Renault að ræða, enda ber Megane E-Tech sterkan ættarsvip. Þessi bíll er vandaður og með mikinn karakter, en hátt verð miðað við staðalbúnað spillir helst fyrir.
Mynd / ÁL
Líf og starf 17. október 2023

Frakki uppfullur af karakter

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

BL hóf nýlega sölu á rafbílnum Renault Megane E-Tech. Þetta er meðalstór fjölskyldubíll sem keppir helst á móti Hyundai Kona og Volkswagen ID.3.

Bifreiðin er með vandaða innréttingu og góða aksturseiginleika en verðið er í hærri kantinum.

Þessi Megane er hannaður frá grunni sem rafmagnsbíll og er forsmekkurinn af því sem koma skal í framleiðslu Renault á umhverfisvænum bílum. Hér er tekin til kostanna bíll í Techno útgáfu, sem er næstdýrasta týpan, og með 60 kílóvattsstunda rafhlöðu. Fyrri kynslóð bílsins er framleidd samhliða þessum og því hægt að kaupa Megane með brunahreyfli.

Þegar bíllinn er skoðaður að utan sést að þetta er einn sá fallegasti á markaðinum. Enginn vafi leikur á að um Renault er að ræða, enda ber hann sterkan ættarsvip og er merki framleiðandans stórt og áberandi. Hönnunin er líklega ein af þeim sem mun eldast vel.

Innrétting ódýr en væn yfirlitum

Fríðleikinn heldur áfram þegar inn er komið. Hagsýni hefur ráðið vali í efnisvali innréttingar þó allt sé vel skrúfað saman og úr sterku plasti sem getur staðist tímans tönn. Mælaborðið er klætt voðum að ofan, sem er ódýr og skemmtileg leið til að gefa innréttingunni fágað yfirborð og hylja hart plastið fyrir neðan.

Framsætin eru prýðilega þægileg, með flestum helstu stillimöguleikum, eins og mjóbaksstuðningi og hæð sessu. Hæstu ökumennirnir munu sakna þess að geta ekki fært sætið nokkrum sentímetrum aftar og er rýmið í kringum fótstigin það þröngt að stórir skór geta flækst. Nokkuð þröngt er um aftursætisfarþega og er líklegt að þrýst sé að öllum útlimum þeirra sem ekki eru börn. Skottið er prýðilega rúmgott, en býr þó yfir þeim galla að gólfið er mun neðar en karmur skotthlerans, sem gerir meðhöndlun þungs farangurs erfiðari en ella.

Innréttingin er öll mjög þétt. Hagsýni hefur ráðið efnisvali, en tauklæðning yfir mælaborði gefur fágað yfirbragð.

Stór og notendavænn skjár

Fullkomið lyklalaust aðgengi er að bílnum. Fer hann því sjálfkrafa úr lás þegar hann skynjar að lykillinn nálgast og læsir sér svo aftur þegar gengið er í burtu. Nauðsynlegt er þó að ýta á „start“ hnappa til að ræsa bílinn, sem bílaframleiðendur eins og Volkswagen og Smart hafa sýnt að er óþarfa þrep í rafmagnsbílum.

Þegar bíllinn er kominn í gang er margmiðlunarskjárinn fljótur að ræsa sig og næst bluetooth tenging við símann á augnabliki. Þökk sé þráðlausum Android Auto búnaðnum byrja að spilast lög af Spotify, á sama stað og frá var skilið, eftir andartak. Skjárinn er skýr og auðveldur í notkun.

Í mælaborðinu eru takkar fyrir helstu skipanir á miðstöð. Ökumaðurinn er jafnframt með takka á stöng aftan við stýrið til að stjórna hljómtækjunum, á meðan farþeginn þarf að hækka og lækka með snertitakka við hlið margmiðlunarskjásins.

En komum aftur að stöngunum við stýrið, því þær eru fjölmargar. Ein vinstra megin fyrir stefnuljós og ökuljós, á meðan hægra megin eru þær þrjár – ein fyrir gíra, önnur fyrir rúðuþurrkur og þriðja fyrir hljóðkerfið. Eftir skamma notkun rata hendurnar í gegnum þennan stangaskóg og tilvik þar sem kveikt er á rúðuþurrkum í staðinn fyrir að setja í gír verða í lágmarki.

Prýðilegt pláss er í skottinu. Gólfið er neðarlega sem getur gert erfitt að meðhöndla þungan farm.

Ríflegt afl mótors

Þegar kemur að akstri er Megane léttur og lipur, eins og gengur og gerist með flesta nýja rafmagnsbíla. Mótorinn skilar 220 hestöflum í framhjólin, sem dugar ekki til að bráka hálsliðina þegar fóturinn fer í botn, en kemur bílnum áreynslulaust á umferðarhraða. Nokkur vætutíð var þegar bíllinn var prufaður og bar á því að framhjólin spóluðu þegar tekið var af stað á rauðum ljósum, ef ekki var stigið varlega á fótstigið. Akstursupplifunin spillist nokkuð vegna þykkra gluggaboga allan hringinn, sem leiða til stórra blindra punkta. Sérstaklega er rétt að nefna B-bogann (þann sem er milli hliðarrúðanna), en þegar ökumannssætið er í öftustu stöðu skyggir hann meira og minna á hliðarútsýnið. C-bogarnir eru jafnframt hnausþykkir og afturrúðan örþunn sem leiðir til afar skerts útsýnis aftur fyrir bílinn.

Lítil akstursaðstoð

Blessunarlega eru fjarlægðarskynjarar að aftan, þó þá vanti að framan. Tónninn sem gefur upp fjarlægðina að fyrirstöðu er skemmtilega djúpur og hljómar eins og einhver sé að slá á nótu á gömlu Yamaha orgeli. Bakkmyndavélar eru staðalbúnaður í öllum Megane E-Tech, en hún sýnir nokkuð litla mynd. Enn fremur er hún óvarin fyrir óhreinindum og þarf litla drullu eða vatnsdropa til að þekja myndina.

Sá búnaður sem undirritaður saknar helst er skynvæddur hraðastillir. Þeir sem vilja fullkomna akstursaðstoð, eins og er staðalbúnaður í mörgum bílum í þessum verðflokki, þurfa að leggja út fyrir 250 þúsund króna aukahlutapakka. Þó kemur bíllinn með cruise control af gömlu gerðinni, en séu einhverjir aðrir keyrandi á götunni er notkun þess afar skert. Það er alltaf einhver fyrir framan mann sem heldur ekki jöfnum hraða. Sú akstursaðstoð sem er staðalbúnaður grípur ekki í nema þegar í harðbakkann slær og virðist vera frekar til að gæta öryggis í stað þess að létta álagið á ökumanninn.

Uppgefin drægni er 450 kílómetrar. Ekki gafst færi til að sannreyna það, en eins og alltaf má reikna með nokkuð lægri tölu, sérstaklega þegar kalt er í veðri. Hráslagalegir haustdagar voru þegar þessi prufuakstur stóð yfir og tæmdist býsna hratt af rafhlöðunni.

Megane er fríður frá öllum hliðum og má ætla að hönnunin eldist vel.

Lokaorð

Helstu mál Renault Megane E-Tech í millímetrum eru: Lengd, 4.200; breidd, 2.055; hæð, 1.505. Samkvæmt verðlista er ódýrasta týpan af Megane á 5.490.000 krónur, en sá er með minni rafhlöðunni. Á meðan kostar sá sem var prufaður hér, Techno útgáfan með 60 kílóvattsstunda rafhlöðu, 6.990.000 krónur. Öll verð eru með vsk.

Heilt á litið er Renault Megane E-Teck Techno hinn ágætasti bíll. Hann er fríður sýnum og vel skrúfaður saman. Það sem skemmir helst er verðið, sem er of hátt í samanburði við samkeppnina og er hægt að fá betur útbúna rafmagnsbíla á lægra verði. Skemmst er að nefna grunnútgáfu Tesla Model 3 eða Smart #1.

Skylt efni: prufuakstur

Safnað fyrir Einstök börn
Líf og starf 26. apríl 2024

Safnað fyrir Einstök börn

Stóðhestaveisla Eiðfaxa var haldin 13. apríl í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli ...

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...