Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Veðurguðirnir léku gesti Landsmót grátt, en þó var mæting góð og notalegt að líta inn í tjöldin og kynna sér allt það sem í boði var á básunum.
Veðurguðirnir léku gesti Landsmót grátt, en þó var mæting góð og notalegt að líta inn í tjöldin og kynna sér allt það sem í boði var á básunum.
Mynd / ghp
Líf og starf 5. október 2022

Forsvarsmenn kynningarbása teknir tali

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Á Landsmóti hestamanna á dögunum voru þónokkrir er kynntu vörur sínar og verkefni og leit blaðamaður við í nokkrum básum.

Áhugavert er að spjalla við frumkvöðla jafnt sem þá er lengra eru komnir og eitt er víst – þarna er fólk með ástríðu fyrir sínu og gæti glatt okkur mörg eða gert okkur hægara fyrir. Blaðamaður lærði m.a. að hægfóðrun búfénaðar getur komið í veg fyrir magasár, hægt er að fá mjólk á sjálfsala í Krónunni Kópavogi og þá sem dreymt hefur um að skreyta hesta sína semelíusteinum geta óhikað haft samband við hana Siggu Pje er staðsett er á Eyrarbakka.

Mikið úrval af varningi úr neti, til dæmis þessi glæsilegi guli kjóll!
HeyNet

Af vefsíðu fyrirtækisins HeyNet kemur fram að í grunninn er hrossum eðlilegt að hafa frjálst aðgengi að fóðri í náttúrunni, borða í 16-18 klst. daglega. Elva Dís Adolfsdóttir, eigandi fyrirtækisins HeyNet, hannar og selur lausnir með vellíðan búfénaðar að markmiði og vinnur náið með ræktunarbúinu Stekkholtshestum í Biskupstungum. Hægfóðrun dýra er Elvu mikið hjartans mál, en henni fannst fátt um fína drætti í þeim efnum og fór svo að hún sjálf hóf að hanna vörur fyrir sig og aðra.

Elva Dís Adolfsdóttir eigandi Heynets – hér má sjá plastkúlur sem ætlaðar eru til að hægja á áthraða hesta. Að auki er úrval varnings úr neti.

„Ég nota nálar og prjóna við saumana og nýti meðal annars afskurð frá hinum og þessum sem annars hefði verið hent enda horfum við mikið í að endurnýta og nýta,“ segir hún aðspurð. „Við hjá fyrirtækinu þróum ýmsar hugmyndir, en svo er einnig hægt að koma til okkar og finna það sem hentar hverjum og einum. Þetta eru svokölluð hægfóðursnet, sem kindur, geitur og nautgripir jafnt sem hestarnir njóta góðs af en við rannsókn kom í ljós að hægfóðrun bæði bætir heilsu dýranna (í þessu tilviki hrossa), minnkar úrgang frá þeim og lækkar árlega neyslu fyrir utan það hversu auðvelt er að fóðra dýrin.“

„Auk dýranna hafa bæjarfélögin sýnt áhuga á þéttriðnum pokum,“ heldur Elva áfram, „þá helst í sambandi við garðavinnu unglinganna í stað plastpoka. Plastkúlurnar læt ég gera fyrir okkur en þær eru einnig ætlaðar til að hægja á áthraða fyrir hross eða dýr.

Hestar framleiða stanslaust magasýrur og því hættari við magasári ef hesturinn fær ekki nógu oft fóður yfir daginn. Kúlurnar eru semsé ætlaðar aðallega fyrir þá, ásamt þéttari netunum frá okkur.

Hægfóðrun mataræðis er því bæði upplögð og nauðsynleg aðferð til gjafa fyrir meltingarheilbrigði þeirra. Ýtir undir þá munnvatnsframleiðslu sem þarf til þess að mynda hlutlausa sýru í maga dýrsins – þá á móti þeim sem geta ollið magasári,“ segir Elva að lokum, en greinilegt að þetta mættu margir taka til umhugsunar í sínum búskap.

Þær stöllur Ólöf María Stefánsdóttir og Ingibjörg Bára Pálsdóttir stóðu vaktina og kynntu fyrirtækið Hreppamjólk.
Hreppamjólk

Hreppamjólk var kynnt á Landsmóti hestamanna á dögunum og þær Ólöf María Stefánsdóttir og Ingibjörg Bára Pálsdóttir stóðu vaktina. Þær glöddu gesti og gangandi með afurðum fjölskyldubúsins Gunnbjarnarholti, undir merkjum hreppamjólkur.

„Þetta er fjölskyldufyrirtæki,“ segja stelpurnar, „sem er að selja ófitusprengda mjólk, gerilsneydda á flöskum. Flöskuna má svo nýta aftur, meðal annars við áfyllingu Hreppamjólkur, en hana er hægt að fá í sjálfsala í Krónunni

Lindum. Þar getur fólk mætt með hreina flösku og fyllt á að vild,“ segja þær brosandi og bæta því við að þrífa þurfi flöskuna vel og sótthreinsa. Upplýsingar um þrif á flöskum má finna á vefsíðunni, en stefnan er auðvitað sú að sjálfsala verði að finna víða um land í framtíðinni. Greiðslukerfi má svo finna framan á sjálfsalanum þannig að ýtt er á start og stopp og greitt eftir því.

Fyrirtækið Hreppamjólk býður upp á, auk mjólkurinnar, Hreppó, afar vinsælan bragðbættan mjólkurdrykk. Er hann fáanlegur í þremur bragðtegundum: súkkulaði, jarðarberja og biskotti.

Einnig má fá Hrepparjóma, bakaða Hreppajógúrt, ís og undanrennu. Á Landsmótinu buðu þær stöllur gestum og gangandi að kaupa sér heitt kakó sem má segja að hafi runnið ljúflega ofan í viðstadda enda, eins og allar vörur Hreppamjólkur, var það hreint fyrirtak.

Listakonurnar Brigitte og Sigga Pje handgera semelíuskreytta fylgihluti ætlaða hestum sem eru afar vinsælir.
Litla hestabúðin

Sigga Pje var viðmælandi minn er kom að bás Litlu hestabúðarinnar á Sólvangi við Eyrarbakka. Í þeirri verslun má meðal annars finna talsvert úrval af gjafavöru og listmunum tengdum íslenska hestinum og hestavörum frá dönsku fyrirtækjunum Birgittes BlingBling svo eitthvað sé nefnt. „Jú, segir Sigga hressilega, „ég kynntist henni Birgitte þegar við vorum að dæma hesta á hestamannamóti í Danmörku og náðum svo vel saman að við hófum samstarf. Birgitte handgerir semelíuskreyttar ennisólar og annað, þannig ég fór að kaupa af henni og selja fyrir hana.“

Sérpantanir í boði

„Markaðurinn fyrir slíkt skraut hefur þó vaxið á ógnarhraða enda leið ekki á löngu þar til ég var farin að gera allar ennisólarnar sem seldar eru á Íslandi. Ég dúlla mér í þessu á kvöldin og geri eina tvær ... svipað og fólk róar sig við CandyCrush eða prjónar, þá sit ég og skreyti ennisólar með hágæða kristalsteinum,“ segir hún glottandi. „Í rauninni eyði ég mestum tíma í að hugsa samsetningarnar á steinunum, enda er engin hönnun eins. Svo er ég að halda námskeið, gerði það fyrir jólin í fyrra t.d., þar sem fólk mætir og getur gert sína eigin ennisól. Að auki geri ég alls kyns sérpantanir – enda ekki bara ennisólar sem fólk óskar eftir heldur eru beisli skreytt, taumar og annað.“

Bás Siggu er listilega uppsettur og vel hannaðir og skrautlegir fylgihlutir hesta blasa við í hvívetna. Tvímælalaust eitthvað sem þarf að líta tvisvar á. 

Skylt efni: Landsmót hestamanna

Safnað fyrir Einstök börn
Líf og starf 26. apríl 2024

Safnað fyrir Einstök börn

Stóðhestaveisla Eiðfaxa var haldin 13. apríl í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli ...

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...