Buðu hestamönnum í saltkjötsveislu
Um hundrað manns mættu til veisluhalda á Króksstöðum í Eyjafjarðarsveit á dögunum. Króksstaðabændur, hjónin Helga Árnadóttir og Guðmundur Karl Tryggvason, eigendur jarðarinnar ásamt Stefáni Erlingssyni sem á þar hús, buðu hestamönnum að koma við og gera sér glaðan dag yfir saltkjöti og gúllassúpu. „Það var greinilegt að fólk þyrstir í skemmtilegar samverustundir, eftir langan vetur án mikils samkomuhalds,“ segir Guðmundur. Hann og Helga hafa hross sín í haga á Króksstöðum, halda þar hænur og eru með matjurtagarð, en búa á Akureyri.
Guðmundur og Stefán hafa lengi verið samtíða í hestamennsku og brallað eitt og annað saman í áranna rás. Þeir til að mynda salta hrossakjöt í tunnur á haustin og sáu þegar á leið vorið að annaðhvort hafi verið ríflega sett í tunnurnar eða matarlystin með lakara móti, því mikið var til. Þeim datt því í hug að blása til veislu og bjóða Léttisfélögum að koma yfir, en hægur vandi er úr hesthúsahverfum Akureyrar yfir á Króksstaði einhesta.
„Það var nóg til fyrir alla, við vorum undir það búnir að taka á móti svo stórum hóp,“ segir Guðmundur sem er matreiðslumaður og starfaði og rak Bautann um árabil. Um 60 manns höfðu boðað þátttöku og þá mátti alltaf eiga von á slatta af fólki sem ekki hefði hirt um að skrá sig. Auk saltkjötsins var elduð gúllassúpa og fengu allir vel að borða, það var slegið á létta strengi, mikið hlegið og vitanlega tóku hestamenn lagið og sungu við raust.