Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Kartöflugarður í fullum vexti í Þykkvabæ. Kartöflubúið Skarð í bakgrunni. Flest kartöflubúin í þorpinu eru 25 til 30 hektarar, sem er sú stærð sem hentar tveimur einstaklingum best.
Kartöflugarður í fullum vexti í Þykkvabæ. Kartöflubúið Skarð í bakgrunni. Flest kartöflubúin í þorpinu eru 25 til 30 hektarar, sem er sú stærð sem hentar tveimur einstaklingum best.
Líf og starf 30. ágúst 2023

Kartöflubú yfirleitt fjölskyldubú

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Hjónin Sigurbjartur Pálsson og Jóhanna Lilja Þrúðmarsdóttir eru kartöflubændur á Skarði í Þykkvabæ. Þau hafa stundað kartöflubúskap frá árinu 1982.

Flest búin í Þykkvabænum eru með 25–30 hektara af kartöflugörðum, en það er stærð sem hentar vel tveimur einstaklingum eða hjónum. „Það hefur þróast þannig hérna að það eru hjón utan um þennan rekstur mjög víða,“ segir Sigurbjartur. Búin nýta þá ekki utanaðkomandi vinnuafl, nema á álagspunktum á vorin og haustin. Þá eru það oftast fjölskyldumeðlimir sem hlaupa undir bagga. Í Þykkvabænum er eitt bú sem er umtalsvert stærra en öll hin, en það er rekið af tveimur bræðrum og föður þeirra.

Sigurbjartur Pálsson og Jóhanna Lilja Þrúðmarsdóttir voru nýbúin að taka upp kartöflur þegar Bændablaðið bar að garði, en þessar fara beint í sölu eftir pökkun.

Geta geymt í heilt ár

„Við geymum kartöflurnar sjálf og gerum þær tilbúnar til sölu, hvort sem það er að setja þær í kílóapoka eða stærri einingar úti í verksmiðju. Það er stöðug vinna allt árið,“ segir Sigurbjartur um hvað bændurnir geri utan álagspunkta. Kartöflubúskap fylgir jafnframt nokkur vélakostur og eru veturnir nýttir í viðhaldsvinnu.

Heima á bæ eru þau með aðstöðu til að þvo og pakka kartöflum sem eru seldar undir merkjum Þykkvabæjar ehf. Enn fremur senda þau hluta sinnar uppskeru í kartöfluverksmiðju Þykkvabæjar, sem fer þá í frekari vinnslu. Hjónin eru með stórar kæligeymslur á Skarði, þar sem kartöflurnar eru geymdar yfir veturinn. Með réttu raka- og hitastigi ná þau að geyma kartöflurnar í heilt ár.

Búum hefur fækkað

Kartöflubændum í Þykkvabæ hefur fækkað á undanförnum áratugum. Sigurbjartur segir lítið um að ungt fólk taki við þegar eldri bændur láta af störfum. Enn fremur var afkoman slæm á tímabili og fóru nokkrir bændur á hausinn. Þegar Sigurbjartur var að alast upp voru búin nálægt 40, en þá voru þau jafnframt minni. Nú séu einungis tíu kartöflubú eftir í þorpinu.

„Þetta er búgrein sem getur sveiflast alveg rosalega,“ segir Sigurbjartur. Hann segir hjónin hafa upplifað að verða fyrir næturfrosti í júlí, sem verður til þess að uppskeran er lítil sem engin. Sigurbjartur segir að í venjulegu árferði sé kartöflurækt ekkert verri en annar búskapur. „Við komumst alveg bærilega af.“

Ný afbrigði mikilvæg

Sigurbjartur segir að úti í Evrópu sé stanslaust verið að búa til ný kartöfluafbrigði. Samkvæmt honum koma kartöflubændur í Hollandi tíu þúsund afbrigðum í umferð á hverju ári, og þeir telja sig góða ef tvö eru enn í notkun að tveimur árum liðnum. Íslenskir kartöflubændur njóta góðs af þessu og flytja inn útsæði af nýjum afbrigðum.

Íslenskir neytendur eru hrifnastir af Gullauga og rauðum íslenskum, en Sigurbjartur segir að það séu orðin á margan hátt úrelt afbrigði. Þau eru til að mynda afar viðkvæm fyrir kartöflumyglu, á meðan erlendu afbrigðin eru sérstaklega þróuð til að vera með mikla mótstöðu gegn myglu, sem er landlæg í Evrópu.

Hann hefur séð tvo kartöflugarða hlið við hlið, þar sem annar var með íslensku afbrigði og öll uppskeran ónýt af myglu, á meðan hinn var með erlendu afbrigði og ekkert kartöflugrasanna var sýkt.

Nýuppteknar kartöflur þekkjast vel á því að hýðið er næfurþunnt og flagnar.

Nákvæm mygluspá

Bændurnir í Þykkvabæ eru búnir að koma upp tölvubúnaði sem spáir nákvæmlega fyrir um mygluálagið á hverjum tíma, út frá hitastigi og loftraka. Þeir geta því brugðist við með því að verja kartöflugrösin með plöntulyfjum þegar þess þarf. Nokkrar tegundir eru af plöntulyfjunum, og fer það eftir ráðleggingum ráðunauta hvað er notað hverju sinni.

Mjög mikilvægt er að bregðast hratt við, en Sigurbjartur segir mygluna smitast mjög hratt við réttar aðstæður. Sigurbjartur segir að með hlýnandi tíðarfari á síðustu árum hafi kartöflumyglan náð sér betur á strik.

„Hún þarf að hafa hita sem er yfir tíu stig – helst allan sólarhringinn,“ segir Sigurbjartur. Hún þrífst verr þegar næturnar eru kaldar.

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...

Verndarar láðs & lagar
Líf&Starf 14. mars 2022

Verndarar láðs & lagar

Þegar verndarar láðs og lagar ber á góma er gaman að rekast á þá þar sem maður á...