Skrauthúfa
Stærð: S-M-L
Efni: 50 g Þingborgarlopi eða annar lopi í aðallit u.þ.b. 8-10 metrar af fjórum litum í mynstur
Prjónar: Hringprjónar nr. 3.5 og 5 40 eða 50 sm langir Sokkarprjónar nr. 5 Saumnál
Aðferð: Húfan er prjónuð í hring, stroff er prjónað 2 sléttar og 2 brugðnar, að öðru leyti er húfan prjónuð slétt.
Húfan: Fitjið upp með aðallit 80-84-88 lykkjur á hringprjóna nr 3.5 og prjónið stroff 5 sm. Skiptið yfir á hringprjóna nr 5. Prjónið mynstur og raðið litum að vild. Mynstur byrjar á tveimur umferðum í aðallit og síðan kemur fyrsti litur. Prjónið 3 lykkjur með lit og takið fjórðu lykkjuna óprjónaða (aðallitur), endurtekið út umferð. Í næstu tveimur umferðum af lit heldur þessi lykkja áfram að vera óprjónuð. Þegar prjónaður er aðallitur þar á eftir prjónast hún eins og venjulega. Endurtakið þetta í hinum litunum, fjórða hver lykkja er alltaf tekin óprjónuð þegar litur er prjónaður en prjónuð með í aðallitnum. Með þessu móti er mynstrið eins og tvílita mynstur án þess að þurfa að prjóna tvo liti í einu. Eftir að mynstri lýkur prjónið 5-6-7 umferðir með aðallit áður en úrtaka byrjar.
Úrtaka: Tekið er úr með hringúrtöku þar sem tekið er úr 6 X í hringnum með jöfnu millibili. Í hverri einingu af úrtöku í stærð S eru 4 X 13 lykkjur og 2 X 14 lykkjur. Í stærð M eru 14 lykkjur í hverri einingu af úrtöku. Í stærð L eru 4 X 15 lykkjur og 2 x 14 lykkjur í hverri einingu af úrtöku. Tekið er úr í byrjun hverrar einingar með því að prj saman 2 lykkjur og prjóna síðan þær sem eftir eru. Við hverja úrtöku fækkar lykkjunum um 1 lykkju í hverri einingu. Í fyrstu 6 umferðum af úrtöku er prjónuð 1 umferð á milli án úrtöku, síðan er tekið úr í hverri umferð þar til 12 lykkjur eru eftir á prjónunum. Þegar hringprjónninn er orðinn of stuttur er skipt yfir á sokkaprjónana. Að síðustu er þrætt í gegnum lykkjurnar 12 með nálinni og gengið vel frá endanum og öðrum endum.
Þvoið að síðustu húfuna í volgu vatni og með góðri ullarsápu eða sjampói, skolið vel, kreistið vatnið úr og leggið til þerris.
