Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Síðar buxur
Hannyrðahornið 29. október 2023

Síðar buxur

Höfundur: Sigríður Jónsdóttir

Síðar buxur úr einbandi og plötulopa

Efni: Þingborgarlopi 180-230 g, Þingborgareinband 170-200 g, Spuni 50 g

Meginefnið í buxurnar er einn þráður einband og einn þráður plötulopi sem eru prjónuð saman. Annað band sem stingur ekki eins mikið er notað í teygjugang og neðst á skálmar, til dæmis Spuni frá Ístex.

Aðferð: Prjónar nr. 5, hringprjónar og sokkaprjónar. Fínni prjónar í stroffum og innan í teygjugangi, t.d. nr. 3,5.

Prjónfesta á sléttu prjóni: 10 cm = 16 lykkjur.
Prjónað er ofan frá og niður úr. Efst á buxunum er lítið stroff. Næst er gangur fyrir teygju í mittið, prjónaður úr Spuna. Þá er prjónaður bolur og klofbót. Lykkjur teknar upp af bótinni fyrir skálmar og þær prjónaðar niður. Neðst á skálmum er kantur úr Spuna.

Stærð (S-M-L-XL): Mitti 80-85- 90-95 cm. Rass 94-99-104-110 cm. Þykkalæri 48-51-54-57 cm. Lengd á skálmum 68-72-78-80 cm.

Stroff efst á bol: Fitjið laust upp 92-100-108-116 lykkjur með lopa og einbandi og prjónið stroff, 7 umf. á prjóna nr. 3,5.

Teygjugangur: Skiptið um band og prjónið 6-6-7-7 umf. slétt á hringprjóna nr. 5. Þá er ytra borð teygjugangsins tilbúið. Til að gera innra borð teygjugangsins, eru teknar upp lykkjur á röngunni úr fyrstu umferðinni sem prjónuð var með Spuna, alls 108 lykkjur eins og á ytra borðinu. Notið prjóna nr. 3,5 og prjónið 5-5-6-6 umferðir slétt til viðbótar við umferðina sem tekin var upp. (Prjónið gat í upphafi þriðju umferðar til að geta komið teygjunni fyrir. Takið úr til hægri, sláið tvisvar upp á prjóninn og takið úr til vinstri. Í næstu umferð er uppslátturinn prjónaður sem tvær lykkjur.) Prjónið saman lykkjurnar af báðum borðum, upp á hringprjónana nr. 5 og lokið þannig teygjuganginum.

Bolur: Skiptið aftur yfir í lopa og einband. Prjónið slétt á prjóna nr. 5 og aukið út eftir u.þ.b. hverjar 7 lykkjur allan hringinn þannig að 108-116-124-132 lykkjur verði á. Bolurinn er 27+27 (29+29) 31+31 (33+33) lykkjur að framan og 27+27 (29+29) 31+31 (33+33) lykkjur að aftan. Skiptið honum þannig með prjónamerkjum til að staðsetja hliðar sitt hvorum megin og miðju að framan og aftan.

Stroffrönd í hliðum: Prjónuð er stroffrönd í hliðunum báðum megin og niður skálmarnar utanfótar. Stroffröndin er 6 lykkjur að breidd, 2 brugðnar, 2 sléttar og 2 brugðnar. Sléttu lykkjurnar tvær eru sitthvorum megin við prjónamerkið í hliðinni.

Bolurinn er prjónaður svona: (Teljið umferðirnar frá teygjugangi á framhlið bolsins. Rassmegin verða umferðirnar fleiri.)

Eftir 2 umferðir (S-M-L-XL): Prjónið tvær auka umferðir yfir rassinn og stroffrendurnar.

Eftir 10 umferðir (S-M-L-XL): Prjónið tvær auka umferðir yfir rassinn og stroffrendurnar.

Eftir 11 umferðir (S-M-L-XL): Aukið út um eina lykkju sitt hvorum megin við stroffröndina í báðum hliðum, alls fjórar lykkjur.

Eftir 18 umferðir (S-M-L-XL): Prjónið tvær auka umferðir yfir rassinn og stroffrendurnar.

Eftir 20-21-23-23 umferðir: Aukið út um eina lykkju á hvorri rasskinn, jafn langt frá miðjum rassi hvorum megin.

Eftir 25 umferðir (XL): Aukið út um eina lykkju sitt hvorum megin við stroffröndina í báðum hliðum, alls fjórar lykkjur.

Eftir 26 umferðir (S-M-L-XL): Prjónið tvær auka umferðir yfir rassinn og stroffrendurnar.

Eftir 30-31-33-33 umferðir: Aukið út um eina lykkju á hvorri rasskinn, jafn langt frá miðjum rassi hvorum megin.

Eftir 34 umferðir (M-L-XL): Prjónið tvær auka umferðir yfir rassinn og stroffrendurnar. (Bolurinn í stærð S þarf ekki að vera mikið lengri.)

Eftir 42 umferðir (XL): Prjónið tvær auka umferðir yfir rassinn og stroffrendurnar.

Haldið áfram að prjóna bolinn þar til hann er orðinn 19-21-23- 26 cm langur, mælt að framan frá teygjuganginum. Bolurinn er lengri að aftan. Á þessu stigi er upplagt að máta herlegheitin á væntanlegan eiganda og aðlaga stærð að viðkomandi.

Klofbót: 18-20-22-24 lykkjur af miðjum rassi eru teknar á sér prjón og prjónað fram og aftur. Kantlykkjur eru prjónaðar sléttar í öllum umferðum, ekki teknar óprjónaðar. Takið úr um eina lykkju í byrjun og enda umferðar í þriðju hverri umferð alls 4-5-5-5 sinnum. Þá eru 10-10- 12-14 lykkjur á. Prjónið áfram 14- 12-14-16 umferðir. Aukið út um eina lykkju í byrjun og enda umferðar og aftur eftir 4 umferðir. Þá eru 14- 14-16-18 lykkjur á. Prjónið fjórar umf. í viðbót. Bótin ætti nú að vera 34-36-38-40 umf. að lengd eða 17- 18-19-20 cm. Lykkjið klofbótina við miðjuna á bolnum að framan. Þá eru komnar brækur sem vantar á skálmarnar. Mátið.

Lykkjur teknar upp af klofbót: Nú eigum við að hafa um það bil 42-45- 47-53 lykkjur af bolnum hvorum megin til að nota í skálmarnar en einnig þarf að taka lykkjur upp af jöðrum klofbótarinnar. Takið upp 28-29-31-33 lykkjur af klofbótinni fyrir hvora skálm. Mikilvægt er að taka vel af lykkjum í vikinu þar sem klofbót og bolur mætast að aftan og framan. Annars kemur þar fljótt gat. Af kantlykkjunum á klofbótinni er mátulegt að taka upp u.þ.b. tvær lykkjur af hverjum þrem. Lykkjur á skálm eiga að vera um það bil 70- 74-78-84.

Skálm: Prjónið tvær umferðir. Takið svo úr eina lykkju í annarri hverri umferð þar sem klofbót og bolur mætast, alls tvisvar. Þá eru 66-70-74- 80 lykkjur á skálminni. Prjónið þar til skálmin nær yfir þykkasta lærið á eigandanum eða þar til hún mælist 18-20-22-22 cm löng. Þá er tekið úr á utanverðri skálm, ein lykkja hvorum megin við stroffröndina og síðan alltaf í 5. hverri umferð, niður alla skálmina, alls 15-17-19-20 sinnum. Þá eiga að vera 36-36-36-40 l á og skálmin orðin u.þ.b. 58-64-70- 72 cm löng, mælt frá kanti klofbótar. Mátið á eigandann.

Neðsti hluti skálmar (um 10 cm) er prjónaður úr Spuna á prjóna nr. 5. Þarna ættu að vera 36-36-36-40 lykkjur á og óþarfi að taka meira úr nema fyrir mjög grannan fót. Prjónið slétt (sleppið stroffröndinni) 18 umf. (færri fyrir stærstu stærð svo að bandið dugi í báðar skálmar). Skiptið á prjóna nr. 3,5 og prjónið 6 umf. stroff. Fellið laust af.

Gangið frá endum. Dragið góða teygju í teygjuganginn og saumið hana saman.

Handþvoið flíkina og þurrkið á handklæði eða grind. Klæðist!

Skylt efni: buxur

Kaðlahúfa
Hannyrðahornið 10. apríl 2024

Kaðlahúfa

Ein stærð, fullorðins

Létt pils fyrir sumarið
Hannyrðahornið 19. mars 2024

Létt pils fyrir sumarið

Létt og skemmtilegt pils prjónað úr Drops Safran. Nýttu þér 30% bómullarafslátti...

Baldur
Hannyrðahornið 5. mars 2024

Baldur

Stærðir: S M L XL

Þykk og góð hipsterhúfa
Hannyrðahornið 20. febrúar 2024

Þykk og góð hipsterhúfa

Fljótprjónuð húfa úr DROPS Snow á prjóna númer 7. Snow er ullargarn sem fæst í 5...

Yrja vettlingar
Hannyrðahornið 6. febrúar 2024

Yrja vettlingar

EFNI: 75g Hörpugull og sauðalitaður þingborgarlopi – undið tvöfalt

Kaðlasmekkur fyrir litlu krílin
Hannyrðahornið 23. janúar 2024

Kaðlasmekkur fyrir litlu krílin

Prjónaður smekkur fyrir börn úr DROPS Safran. Stykkið er prjónað fram og til bak...

Jólahúfa
Hannyrðahornið 19. desember 2023

Jólahúfa

Ein stærð

Jólakósí
Hannyrðahornið 11. desember 2023

Jólakósí

Prjónuð flöskuhulstur úr DROPS Nepal