Peysan Björk
Hannyrðahornið 20. nóvember 2024

Peysan Björk

Höfundur: Hönnun: Margrét Jónsdóttir

Stærðir: XS S M L XL XXL.
Yfirvídd: 88 94 100 111 120 128.

Íslenska Björkin er innblástur að þessari peysu. Laufblöð og greinar prýða peysuna og gaman að setja saman liti í hana og það geta verið hvort sem er sumar- eða haustlitir. Jurtalitað band er einhvern veginn sjálfsagt í þessa peysu og njóta þeir litir sín mjög vel með náttúrulegum sauðalitum Þingborgar-lopans. Það er auðvitað hægt að nota annan lopa í þessa peysu, plötulopa, léttlopa eða annað garn sem er svipað að grófleika. Þá þarf að gæta að prjónfestu.

Efni og áhöld: 450-450-450-500- 550-550 g Þingborgarlopi í aðallit. Jurtalitað tvíband frá Þingborg í laufblöð og greinar: 3 X 20 gr grænir eða aðrir litir í laufblöð 15 gr grænn eða annar litur í efstu laufblöðin 20 gr lopi eða litað band í greinar.

Sokkaprjónar nr 3.5 og 5, hringprjónar nr 3.5 40 og 80 cm langir, hringprjónar nr 5, 40, 60 og 80 cm langir. Uppskriftin er gefin upp fyrir bæði heila og opna peysu.

Prjónfesta: 14 l og 23 umferðir í sléttu prjóni = 10 x 10 cm Önnur prjónastærð getur hentað, allt eftir því hvort prjónað er fast eða laust, finnið það út með því að prjóna prufu. Til að fá sem réttasta niðurstöðu er gott að prjóna prufu í hring, að prjóna prufu fram og til baka getur skekkt niðurstöðu.

Prjónað er úr plötulopanum tvöföldum. Peysan er prjónuð í hring, að undanskildu stroffi á bol og hálsmáli á opinni peysu. Lesið uppskriftina yfir áður en hafist er handa.

Bolur á heilli peysu: Fitjið upp 126-133-140-154-168-182 l með fyrsta mynsturlit á 80 sm hringprjón nr 3.5, tengið í hring og prjónið síðan stroffið í aðallit í hring 10 sm. (Mynstur 1) Skiptið yfir á prjón nr 5 og prjónið slétt uns bolur mælist 38-46 sm. Mælið þann sem á að fá peysuna og metið bolsídd.

Bolur á opinni peysu: Fitjið upp 130-137-144-158-172-186 l með fyrsta mynsturlit á 80 sm hringprjón nr 3.5, prjónið síðan stroffið í aðallit 10 sm og prjónið stroffið fram og til baka. (Mynstur 1) Tengið í hring og skiptið yfir á prjóna nr 5 og fitjið upp 2 lykkjur aukalega í burjun umferðar, sem verða svo prjónaðar brugðnar að hálsmáli. Þessar lykkjur eru til að geta opnað peysuna. Prjónið bol uns hann mælist 38-46 sm. Mælið þann sem á að fá peysuna og metið bolsídd.

Á dömupeysu er fallegt að gera ,,mitti“ á peysuna með því að taka úr á bol. Setjið merki í báðar hliðar, takið úr 2 l hvoru megin, *prj 2 l saman, prj 1 l, prj 2 l saman*. Fyrst er tekið úr er bolur mælist 8-12 sm og síðan 2x aftur með 5 sm á milli. Alls eru teknar úr 12 l. Prj 5 sm, þá er aukið út aftur samsvarandi og með sama millibili og tekið var úr og endað með sama lykkjufjölda. Mælið ykkur og metið hvað þið viljið hafa bolinn síðan og hvar þið viljið að úrtaka byrji.

Ermar: Fitjið upp 28-35-35-42- 42-42 l með fyrsta mynsturlit á sokkaprjóna nr. 3.5, prjónið síðan stroff í aðallit í hring 10 sm. Skiptið yfir á sokkaprjóna nr. 5 þegar stroffi er lokið og aukið um 2 ykkjur í annarri umferð undir miðri ermi, (1 lykkju eftir fyrstu lykkju og 1 lykkju fyrir síðustu lykkju í umferð). Endurtakið aukningu 7-8-8-8-8-8-9 x upp ermi, með u.þ.b. 8 umferðir á milli, þar til 44- 53-53-60-60-62 lykkjur eru á prjóninum. Skiptið yfir á stutta hringprjóninn nr. 5 á u.þ.b. miðri ermi. Gott er að nota prjónamerki til að merkja þar sem aukið er út. Prjónið uns ermi mælist 44-52 sm. (Mælið handlegg og metið hve ermin á að vera löng).

Axlastykki á heilli peysu: Sameinið bol og ermar á langa hringprjóninn nr 5. Setjið 4-5-5-5-5-6 síðustu lykkjur og 5- 5-5-6-6-6 fyrstu lykkjur á báðum ermum á prjónanælu. Setjið 9-10-10-11-11-12 fyrstu lykkjur af bol á prjónanælu þar sem umferð byrjar vinstra megin á bol. Prjónið fyrri ermina við bolinn 35-43-43-49- 49-50 lykkjur, prjónið næstu 54-56- 60-66-73-79 lykkjur af bol og setjið næstu 9-10-10-11-11-12 lykkjur á prjónanælu. Prjónið seinni ermina við og gerið eins og með hana. Prjónið síðan 53-57-60-66-73-79 lykkjur af bol, þá eru 178-199-206-230-244- 258 lykkjur á prjóninum. Áður en byrjað er að prjóna mynstur þarf að stemma lykkjufjölda við mynstur, þessi fjöldi þarf að vera á prjóninum: 176-200-208-232-240- 256 lykkjur, aukið út eða takið úr jafnt yfir prjóninn eftir því hvað við á. Prj mynstur eftir teikningu. Notið styttri hringprjóna eftir því sem lykkjum fækkar. Þegar mynstri lýkur er tekið úr aukalega þar til 68-76 l eru eftir á prjóninum. Þá er skipt á 40 cm hringprjón nr 3.5 og prj 2 garðar. Eins er hægt að hafa hálsmál alls konar eins og hver vill. Fellið laust af. Gangið vel frá öllum endum og lykkjið saman undir höndum.

Axlastykki á opinni peysu: Umferðin byrjar næst við brugðnu lykkjurnar, en þær eru þó ekki taldar með í prjóninu. Prj 29-29-31-34- 37-41 lykkjur af bol að framan, setjið 10-10-10-11-11-11 næstu lykkjur á prjónanælu og prjónið fyrri ermina við 36-43-43-49-49-51 lykkjur og svo 57-59-62-68-76-83 lykkjur á bol, setjið næstu 10-10-10- 11-11-12 lykkjur af bol á prjónanælu og gerið eins með hina ermina og að síðustu 29-29-31-34-37-41 lykkjur af bol. Þá eiga að vera á prjóninum 187-203-210-234-248-267 lykkjur. Áður en mynstur hefst, er bætt við einni lykkju í stærðum M og L og aukið um þrjár lykkjur jafnt yfir í stærð XL. = 187-203-211-235-251- 267. Prj mynstur eftir teikningu. Notið styttri hringprjóna eftir því sem lykkjum fækkar. Þegar mynstri lýkur er tekið úr aukalega þar til u.þ.b. 64-72 l eru eftir á prjóninum. Fellið af aukalykkjurnar tvær sem prjónaðar voru brugðnar upp. Þá er skipt á 40 cm hringprjón nr 3.5 og prjónað fram og til baka 2 garðar.

Eins er hægt að hafa hálsmál alls konar eins og hver vill. Fellið af. Gangið vel frá öllum endum og lykkjið saman undir höndum.

Listar á opna peysu: Saumið í vél með beinu þéttu spori og samlitum tvinna í brugðningu að framan sitt hvoru megin, sem næst slétta prjóninu. Gott er að sauma tvisvar hvoru megin. Klippið upp á milli saumanna. Snúið réttunni á peysunni að ykkur og notið heklunálina til að taka upp lykkjur í hneppulista þvert á prjónið. Krækið í bandið með heklunálinni í gegnum lykkjurnar, en sleppið alltaf fjórðu hverri umferð, það er ágætis þumalputtaregla, þá er listinn passlega langur.

Færið lykkjurnar jafnóðum yfir á hringprjón nr 3.5 80 sm langan. Listinn á að ná að slétta prjóninu á kraga. Prjónið stroff 2-3 umf ef það á að setja rennilás en 5-6 umf ef setja á tölur og gerið þá hnappagöt með jöfnu millibili á annan boðunginn. Passið að affellingin sé mátulega strekkt. Til að fela sárið innan á eftir saumaskapinn, er gott að hekla eina umf. af fastahekli yfir það og varpa því svo niður með einföldu spori. Eins er hægt að hekla framan á boðunginn, eina umf af fastahekli ef setja á rennilás en 2-3 umf fyrir tölur og þá eru sett hnappagöt á annan boðunginn með jöfnu millibili. Ef heklað er á boðunginn notið þá heklunál nr. 4.5 og heklið í aðra hverja umf.

Ef settur er rennilás er mælt fyrir honum eftir þvott og hann hafður u.þ.b. 3-5 sm styttri en boðungurinn mælist. Þræðið hann á og passið að mynstur standist á. Ef hann er saumaður á í saumavél er gott að sauma hann í sömu átt beggja megin og byrja þar sem mynstur byrjar og sauma að hálsmáli og eins þegar saumað er niður. Með þessari aðferð gengur betur að láta mynstur stemma en ef saumað væri sitt í hvora áttina.

Höfundur hefur gefið út tvö myndbönd um frágang á boðung, til að opna peysu og prjóna lista. Setjið inn í leitarvél á netinu „frágangur á lopapeysu“ og þau koma upp, annars vegar „Listi framan á lopapeysu{ og hins vegar „Rennilás á lopapeysu“.

Þvottur: Þvoið flíkina í volgu vatni með góðri ullarsápu eða sjampói. Skolið vel og vindið svo í hálfa mínútu í þvottavél. Mikilvægt er að vélin fari strax að vinda, (þær eru misjafnar að þessu leyti) en sé ekki að veltast með flíkina fyrst, þá getur hún þófnað. Leggið peysuna á handklæði til þerris.

Jólapottaleppar
Hannyrðahornið 3. desember 2024

Jólapottaleppar

Jólin nálgast óðfluga og alltaf gaman að taka upp jólahlutina og gefa heimilinu ...

Peysan Björk
Hannyrðahornið 20. nóvember 2024

Peysan Björk

Stærðir: XS S M L XL XXL. Yfirvídd: 88 94 100 111 120 128.

Lily Leaper Socks
Hannyrðahornið 6. nóvember 2024

Lily Leaper Socks

Prjónaðir stuttir sokkar í stroffprjóni úr DROPS Fiesta. Fiesta er nýtt nylonsty...

Peysan Fis
Hannyrðahornið 22. október 2024

Peysan Fis

Létta, lipra peysan sem göngugarpar elska að skella í bakpokann.

Bubba
Hannyrðahornið 24. september 2024

Bubba

Stærðir: XS S M L XL XXL.

Manstu vorið?
Hannyrðahornið 10. september 2024

Manstu vorið?

Þessi fallega peysa með gatamynstri á ermum er prjónuð úr DROPS Alpaca og DROPS ...

Búðarháls
Hannyrðahornið 27. ágúst 2024

Búðarháls

Uppskrift að vesti fyrir Ullarviku á Suðurlandi 2024

Dömupeysa
Hannyrðahornið 13. ágúst 2024

Dömupeysa

Prjónuð peysa úr DROPS Cotton Merino. Stykkið er prjónað ofan frá og niður með t...