Fallegur og hlýlegur kragi
Þennan fallega kraga má nota við ýmis tækifæri; til þess að halda á sér hita, upp á punt eða jafnvel bæði.
Stærðir: S M-L
Efni og áhöld:
Þingborgarlopi og litað Þingborgarband 70 gr tvöfaldur lopi í aðallit
15 gr tvíband litur 1
12 gr tvíband litur 2
8 gr tvíband litur 3
20 gr tvöfaldur lopi litur 4
2 tölur
Ef notaður er lopi frá Ístex verður að gæta að prjónafestu,ekki er sami grófleiki á honum og á Þingborgarlopanum og bandinu.
Hringprjónar nr 5, 60 og 80 cm langir
Prjónfesta:
15l og 25umf í sléttu prjóni = 10x10cm
Önnur prjónastærð getur hentað, allt eftir því hvort prjónað er fast eða laust, finnið það út með því að prjóna prufu. Lesið alla uppskriftina áður en byrjað er.
Kraginn:
Fitjið upp á langa prjóninn 176-184 l í lit 1. Prjónið 4 umf brugðnar, eða prjónið þær slétt og snúið svo við svo hin hliðin snúi út. Prjónið mynstur 1 eftir teikningu og takið úr eins og sýnt er. Endið á einni umf í aðallit og takið úr til viðbótar jafnt yfir umferðina svo eftir verði 74-82 l. Prjónið í aðallit mynstur 2 fram og til baka og setjið 2 hnappagöt á annan boðunginn með því að slá upp á prjóninn og prjóna síðan 2 lykkjur saman strax á eftir. Fyrstu 4 og 4 síðustu lykkjurnar eru garðaprjón. Prjónið 8-9 sm og endið á 4 umf sl með lit 1, fellið af frekar laust. Gangið frá öllum endum og setjið tölurnar á hinn boðunginn til móts við hnappagötin.
Þvottur:
Þvoið kragann í volgu vatni með góðri ullarsápu eða sjampói. Skolið vel, kreistið vatnið vel úr og leggið á handklæði til þerris.